Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2021

Einhver farsælasta söngsveit 7. áratugarins

Það er ekki ofsögum sagt að The Supremes með Diönu Ross hafi verið einhver farsælasta og vinsælasta söngsveit 7.áratugarins.

Ég segi söngsveit, því þær hvorki sömdu lögin sín, eða spiluðu á hljóðfæri.  En það er hægt að hugsa sér verra hlutskipti en að flytja lög Holland - Dosier - Holland, eða njóta upptökustjórnunar þeirra.

En The Supremes mörkuðu að ýmsu leyti spor sín í tónlistarsöguna og voru á meðal fyrstu sveita svartra sem nutu slíkrar hylli hvítra Bandaríkjamanna að ná á topp vinsældarlista Billboard.

Ef ég man rétt var sveitin fyrst til þess að ná 5. smáskífum í röð á topp Billboard listans.5.

The Supremes kom 12. lögum á toppinn í Bandaríkunum, sem enn þann dag í dag kemur þeim á topp 10, í því tilliti.

En það tók The Supremes ekki nema ár að ná því, sem ekki margir hefa leikið eftir.

En hér á myndbandi er líklega það lag The Supremes (eftir Holland - Dosier - Holland), sem líklega er þekktast á Íslandi, en náði aldrei á toppinn í Bandaríkjunum, og varð ekki sérstaklega vinsælt í Evrópu.

My World Is Empty Without You.  Þá skein sól The Supremes skært, sem og Detroit og Motown.

 

 

 

 


mbl.is Fimm vinsælustu lög The Supremes
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um margt athyglisverð frétt

Þessi frétt sem þessi færsla er hengd við er að mörgu leyti athyglisverð.  Þar er fjallað um Dúbaí, þar sem ákaflega littlar takmarkanir hafa verið viðhafðar vegna Kórónuveirufaraldursins.

Jafnfram segir að ferðamenn hafi flykkst þangað, sérstaklega í lok síðasta árs.

Síðan kemur fram að smitfjöldi þar sé farin að aukast hratt.

En það er ýmislegt sem kemur ekki fram í fréttinni.

Ef miða er við WorldOMeters, er t.d. fjöldi látinna/milljón ibúa, í United Arab Emirates, þar sem Dúbaí er ju stærsta borgin, nokkuð áþekk og á Íslandi, þó að reyndar sé hún örlítið hærri í UAE.

Sé lítið til þess að í mörgum tilfellum virðast dauðsföll aukast eftir stærð (fólksfjölda) borga er þetta býsna merkilegt, enda Dúbai, með umtalsvert meiri fólksfjölda en Reykjavík eða Ísland.

Ég held að Dúbaí sé  u.þ.b 10 sinnum fjölmennari en Ísland og á mun minna svæði og Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, ca. 30 sinnum.

En reyndar hafa næstum tvöfallt fleiri/milljón íbúa í UAE sýkst af kórónuveirunni en á Íslandi.

Þrátt fyrir það eru dauðsföll/milljón íbúa svipuð, þó UAE í óhag. Ef ég hef skilið rétt eru dauðsföll/milljón íbúa u.þ.b. 8% fleiri í UEA en á Íslandi.  Það myndi þýða að á Íslandi hefðu ca. 32, látist, en ekki 29 eins og raunin er.

En það er rétt að hafa í huga að faraldrinum er ekki lokið og engin veit hverjar lokatölurnar verða á Íslandi né Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum.

En það er engin leið að segja hvers vegna þessi mismunur er.  Ef til vill eru fjöldi sólarstunda og umtalsvert lægri meðalaldur í UAE það sem skiptir máli, en það er engin leið að fullyrða um slíkt.

En ef skoðað er hvernig löndin hafa staðið sig við bólusetningu, er svo enn önnur mynd sem kemur upp.

Sameinuðu Arabísku Furstadæmin hafa gefið ríflega "40 sprautur" á hverja 100 íbúa (ekki er tekið fram hvað margir hafa fengið fyrstu og hvað margir aðra sprautu).

Ísland hefur hins vegar gefið tæplega 5 á hverja 100 íbúa (samanlagt 1. og 2. sprautu, 3.5, fyrri og 1.4 aðra).

En ef Sameinuðu Arabísku Furstadæmin ná að halda dampi í bólusetningum er líklega að þau fari býsna vel út úr faraldrinum, án þess að grípa til verulega harðra aðgerða.

En það er of snemmt að fara í tölfræðilegan samanburð á milli einstakra landa.

Það eru ótal breytur sem þarf að taka tillit til og það er ekki víst að við sjáum þær allar nú.

Síðan koma til sögunnar dauðsföll af afleiðingum aðgerða, og líklega verður heildarmyndin ekki ljós fyrr en að all nokkrum árum liðnum, ef nokkurn tíma.

Enda líklegt að um misnunandi skoðanir/útreikninga verði að ræða.


mbl.is Greiða fyrir opnun landsins með smitum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með "skömmtunarmiða" frá Framsókn í bjórkaupum?

Þó að ég fagni því að meira að segja í Framsóknarflokknum skuli vera komin hreyfing í frelsisátt á sölu á áfengi, þá get ég ekki finnst mér skrýtið að vilja setja svona gríðarleg takmörk á þann fjölda sem megi kaupa af bjór hjá framleiðendum.

Það er svona eins og að vera með skömmtunarmiða um hvað megi kaupa mikið áfengi.

Er eitthvað hættulegra að kaupa bjór hjá framleiðenda en hjá ÁTVR, eða er fyrst og fremst verið að hugsa um að tryggja hagsmuni ríkisfyrirtækisins ÁTVR?

Þó er t.d. alveg hugsanlegt að ölgerð sé í bæ þar sem engin verslun ÁTVR, er.

Er rétt að takmarka kaup til dæmis Akureyrings sem staddur er a Höfn í Hornafirði, við 6. bjóra?  Hvers vegna ætti hann ekki að geta tekið með sér nokkra kassa ef honum líkar ölið?

Hið opinbera tapar engu, enda verða eftir sem áður allir skattar og álögur hins opinbera innheimtar.

Þó að vissulega sé þörf á stærri skrefum í frjálsræðisátt, er ástæða til að fagna þessu littla skrefi sem dómsmálaráðherra leggur fram, og engin ástæða til þess að setja þau magn takmörk sem Framsóknarfólk vill.

Hitt er svo að það er ástæða til þess að taka upp tillögu Framsóknarfólks um að smásöluheimild nái einnig til þeirra sem framleiða léttvín sem og sterk.

Þannig mætti gera betra frumvarp með því að taka það besta úr báðum.

En ég held að það sé varasamt að taka upp tillögu Framsóknarfólksins um að mismunandi áfengisskattur sé eftir þvi hvað mikið magn framleiðandi framleiðir.

Þó að ég skilji hugsunina að baki, þá er varasamt að skattur sem áfengisskattur sé mismunandi eftir framleiðslu, það eiginlega stríðir gegn tilgangi hans.

Það er að mínu mati skrýtin skattastefna að verðlauna óhagkvæmari framleiðslu.

Það má hins vegar velta því fyrir sér hvenær í söluferlinu áfengisskattur eigi að greiðast.

Það er eftirsjá af tillögu um innlenda netverslun með áfengi úr frumvarpi dónsmálaráðherra.

En ef engin stemmning er fyrir slíku á Alþngi, verður svo að vera.

Það væri þó gaman að sjá slíka breytingartillögu lagða fram, og í framhaldi af því atkvæðagreiðslu til að sjá hug þingheims.

En það er vert að hafa í huga að það verða 32. ár, þann 1. mars næstkomandi frá því að löglegt var að selja bjór á Íslandi.

Það er ekki lengra síðan að afturhaldið og forsjárhyggjan varð að láta undan hvað það varðar.

En það er gott að áfram er málum otað í frjálsræðisátt, jafnvel þó að hægt fari.


mbl.is Ölsala handverksbruggara leyfð en ekki vefverslun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sundabrú eða göng

Ekki ætla ég að þykjast vera sérfræðingur til að dæma um hvort brú eða göng séu rétta lausnin til að beina umferð yfir sundin og vestur um land og norður.

Í raun lýst mér vel á umbætur á umferðinni, og þarft að hefjast handa sem fyrst. 

En það er talað um 14 milljarða mun á brú og göngum og vissulega munar um minna.

En hver er munurinn til lengri tíma, t.d. hvað varðar viðhald, snjómokstur og opnunartíma?

Ég hef heyrt talað um að Hvalfjarðargöng þurfi mun minna viðhald en sambærilega langir vegarspottar. 

Hverju munar það á ári hverju?

Hver er áætlaður kostnaður við snjómokstur á hverju ári?

Hvað kostar hver dagur í töpuðum tekjum, ef t.d. þarf að loka hábrú vegna vinds?

Ekki það að ég sé endilega að mæla fyrir því að göng verði gerð, en það væri vissulega fróðlegt að sjá samanburðinn og fá vissu fyrir því að allra handa kostnaður hafi verið tekinn inn í útreikninga.

 

 

 

 


mbl.is Sundabrú hagkvæmari en jarðgöng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarlega jákvæðar fréttir

Ég fagna því að stefnt sé að skráningu Síldarvinnslunnar á markað, og ánægjan er enn meiri yfir því að núverandi hluthafar hyggist selja sína hluti, frekar en að "þynna" hlutaféið út.

Enn hefur ekki verið gefið út hvernig staðið verður sölu hlutafjár, þegar skráningin tekur gildi, en ég vona að þar verði að eihverju marki tekið tillit til smærri fjárfesta, líkt og var t.d. gert í hlutafjárútboði Icelandair.

Ég er þeirra skoðunar að fjölgun eigenda í Íslenskum sjávarútvegi geti orðið til mun víðtækari sátt um Íslenskan sjávarútveg.

Lagasetning um lækkun hámarks aflahlutdeildar óskráðra (á markaði) fyrirtækja, með hæfilegum aðlögunartíma, er eitthvað sem ég held að megi einnig huga að. 

Jafnframt má hugsa sér lagasetningu um hámarkseignarhlutdeild í sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þannig er hægt að hugsa sér að megi byggja upp framtíðar sátt um sjávarútveg á Íslandi.

En slíkt gerist ekki í einni svipan, eða á fáum mánuðum, en umræða væri af hinu góða.

 

 


mbl.is Hluthafar selja við skráningu Síldarvinnslunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi fyrirsögn hjá mbl.is og guardian.co.uk

Fyrirsögnin á þessari frétt mbl.is er í raun frekar villandi.  Þó er í raun ekki við mbl.is að sakast, nema að því leyti að miðillinn treystir fyrirsögn Guardian um of.

VAC distrust FranceEins og segir í frétt guardian.co.uk, þá er vantraustið í garð bólusetningu mikið hærra Frakklandi, en t.d. Bandaríkjunum og Þýskalandi, þar sem þar er u.þ.b. 25%.

Vantraustið í Frakklandi er næstum 40%

"Nearly four in ten people in France, more than 25% of those in the US and 23% in Germany say they definitely or probably will not get vaccinated against Covid-19, according to a survey that underlines the challenge facing governments."

Hvers vegna Guardian kýs að gera svo lítið úr vantrausti í garð bólusetninga í Frakklandi veit ég ekki, en það er býsna mikill munur á því að vantraustið sé í kringum 25%, eins og það er í Þýskalandi og Bandaríkjunum, og svo aftur næstum 40% vantrausti í Frakklandi.

Önnur spurning er svo af hverju mbl.is kýs að "éta það hrátt" upp eftir vefsíðu Guardian og gengur jafnvel lengra og segir það ekki bara í fyrirsögn, heldur einnig í meginmáli fréttar.

Upplýsingaóreiðina má líklega finna víða.

Hvers vegna tortryggni í garð yfirvalda og bóluefna er svo mikið sterkari í Frakklandi en í öðrum löndum, er síðan verðugt rannsóknarefni.

En sagan er þar líklega vísbending, eins og oft áður.

 

 


mbl.is 25% munu líklega ekki þiggja bólusetningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri ræktar "garð sinn" og bílastæði

Það er rétt að taka það fram í upphafi að þessi færsla er tengd við ríflega 3ja ára gamla frétt af mbl.is.  Ég minnist þess ekki að hafa tengt færslu við jafn gamla frétt.

En í fréttinni kemur fram að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hafi samþykkt á funti sínum stækkun á lóð í eigu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Það kemur jafnframt fram að lóð nágranna minnki samsvarandi.

Ekkert við það að athuga og um eðlileg viðskipti virðist að ræða.  Dagur segir í svari til mbl.is, að bætt hafi verið við lóð hans "órækt og rósarunnum".

Þar kemur einnig fram að lóðin sem minnkar, er skilgreind sem íbúðahúsalóð.  Þar sé þó ekki bygging, heldur sé hún nýtt að mestu leyti sem bílastæði.

Ég held því að öllum sem hefðu lagt á sig lágmarks heimildavinnu hafi mátt vera ljóst að ekkert óeðlilegt sé við að húseign Dags (og konu hans) hafi 2. til 3. einkabílastæði (ég veit ekki hver heildarfjöldinn er, þó að keypt hafi verið 2. af nágranna).

Sjálfur hefði ég líklega ekki hikað við að taka sömu ákvörðun, hefði verðið verið ásáttanlegt, enda líklegt að verðgildi húseignarinnar hækki með aðgangi að bílastæðum.

En það sem vekur ef til vill upp pólítískar spurningar, er hvers vegna oddviti þess meirihluta í borgarstjórn sem hefur tekið "bíllausan lífstíl" upp á sína arma, og talið byggingar fjölda íbúða án bílastæða til framfara, telur sig þurfa þessi bílastæði?

Ef til vill er þetta gott dæmi um stjórnmálamenn sem segja, ekki gera eins og ég geri, gerið eins og ég segi?

Slíkt væri vissulega ekkert einsdæmi, en það væri fróðlegt ef fjölmiðlar myndu beina slíkum spurningum að borgarstjóra.

 


mbl.is Borgarstjóri stækkar garðinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband