Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2019
31.1.2019 | 07:38
Klaustursflaustur og flumbrugangur
Ég hafði eiginlega tekið þá ákvörðun að ég ætlaði ekki að skrifa eitt eða neitt um "Klaustursmálið", það er eitthvað svo dapurlegt og "þunglyndislegt" að það vakti enga löngun hjá mér til skrifa.
En síðan finnst mér málið orðið svo vandræðalegt fyrir Alþingi og alþingimenn að ég mér finnst það orðið áhugavert.
Enginn velkist í vafa (að ég tel) um að hluti þeirra (en ekki allir) þingmanna sem sátu við borðið á "Klaustri" fóru langt yfir strikið. Þó að þeir hafi ráðist þar gegn ýnsum nafngreindum persónum, niðurlægðu þeir engan eins mikið og sjálfa sig.
Því að mínu mati niðurlægir tal eins og þeir viðhöfðu enga eins mikið og þá sem nota það.
En persónulega finnst mér viðbrögð margra manna umdeilanleg, og litast fyrst og fremst af þrennu.
Í fyrsta lagi, engin veit í raun hvernig á að taka á málinu,enda engin viðurlög, eða lög sem taka á slíku háttalagi, í öðru lagi kemur fram sterkur vilji til að "gera eitthvað" sem gæti friðþægt háværan hluta almennings og í þriðja lagi að nota málið til að ná sér niðri á pólítískum andstæðingum.
Ekkert af þessu þarf í sjálfu sér að koma á óvart, enda málið snúið, atkvæði koma frá almenningi og það er í eðli stjórnmála að ota sínum tota á kostnað mótherja.
En að láta eins og þeir eigi einhvern óskilgreindan rétt á því að sjá ekki þingmenn sem niðurlægðu sjálfan sig aftur, hvaðan kemur hann?
Lýðræðið snýst einmitt að hluta til um að við verðum að umbera einstaklinga sem eru með skoðanir sem okkur þykir jafnvel verulega ógeðfelldar, ef þeir eru val kjósenda.
Jafnvel einstaklingur sem lýsti því yfir að hann vildi afnema kosningarétt t.d. kvenna, á rétt á því að sitja á þingi ef hann nýtur stuðnings nægs hluta kjósenda.
Ef einhverjir vill berjast fyrir dauðarefsingum á Íslandi eiga þeir jafnan rétt á því að bjóða fram og allir aðrir. Og njóti þeir nægs stuðnings eiga þeir rétt á því að sitja á Alþingi, sitja í nefndum og jafnvel veita þeim forystu, að því gefnu að þeir njóti nægs stuðnings.
Þannig er það ekki nóg að finnast einhver "ógeðfelldur", að hann hagi sér "ósiðlega" eða sé "dóni", til þess að geta krafist að hann víki af Alþingi.
Og þó að mér þyki kynferðisleg áreitni sýnu alvarlegri en dónaskapur, er það heldur ekki nóg til þess að einhver þurfi að segja af sér þingmennsku. Við gætum sagt að það væri æskilegt, en það er ekkert sem gerir það að verkum að viðkomandi þurfi þess.
Og svona af því að ég minnist á það, vil ég segja að hér og þar hefur mátt sjá gagnrýni á Samfylkinguna fyrir að láta eigin siðanefnd fjalla um málið.
Slík gagnrýni er einfaldlega út í hött, og skref Samfylkingarinnar til fyrirmyndar.
Sík umfjöllun siðanefndar tekur engan rétt af hugsanlegum brotaþola til þess að leita réttar síns eftir hefðbundnum lagalegum leiðum.
En svo að það sé líka ljóst, þá getur engin "flokksleg" siðanefnd svipt einstakling þingsæti sínu. Það er hægt að reka einstakling úr flokki, en ekki af Alþingi.
Rétt eins og Flokkur fólksins gat rekið þingmenn sína úr flokknum fyrir að illmælgi um formanninn, en þingsætin eru þeirra.
Og þó að finna megi flokksaga ýmislegt til síns ágætis, er ég eindregið þeirrar skoðunar að gefa flokkum lögsögu yfir þingsætum yrði hræðileg afturför.
En það er vel til fundið að flokksstofnanir fundi um mál "sinna" manna, en þó alls ekki nauðsynlegt.
Það er líka svo að þó að allir réttkjörnir eigi rétt á því að sitja á Alþingi, getur hver og einn valið sér samstarfsfólk og ákveðið hvernig þeir greiða atkvæði.
Þannig geta t.d. þingflokkar, eða einstaka þingmenn, ákveðið að hafna öllu samstarfi við ákveðna þingmenn eða þingflokka um kjör í nefndir o.s.frv.
Það er ekkert sem mælir á móti slíku, ekki frekar en þingmenn ákveða hvort að þeir styðji ríkisstjórn eður ei, alveg burtséð frá því hvort þeir deili flokkum með ráðherrum eður ei.
Það er heldur ekkert sem mætir á móti því að málinu sé haldið vakandi, stjórnmálamenn og flokkar geta staðið fyrir málþingum, ráðstefnum, panelumræðum, leiksýningum og hvers kyns uppákomum til að vekja athygli á málinu.
En það fer betur á því að mínu mati að slíkt gerist "út í bæ".
Mér þykir að einnig blasa við að málið verði fyrirferðarmikið í næstu kosningum. Slíkt er eðlilegt, og þá kemur það til hins "æðsta dómstóls", kjósenda.
En lýðræðið og þingræðið þarf að hafa sinn gang.
Á meðan einstaklingar hafa kjörgengi, eru löglega kosnir og vilja sinna þingmennsku eiga þeir fullan rétt til þess. Alveg burtséð frá hvað öðrum þingmönnum kann að finnast um skoðanir þeirra eða framkomu.
Þingmenn eru kosnir til að sinna ákveðnum störfum og ættu að einbeita sér að þeim, í þinghúsinu. Um frítímann gilda önnur lög og aðrar reglur.
Funda um Klaustursmál á föstudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
30.1.2019 | 04:52
Verðbólgan er of há, en hvað veldur henni?
Verðbólgan er eitthvað sem allir hafa skoðun á. Yfirleitt í þá veru að hún sé of mikil, en þó kemur fyrir hér og þar (ekki á Íslandi svo ég muni) að áhyggjur kvikna yfir því að hún sé of lág, eða hreinlega að verðhjöðnum eigi sér stað.
Margoft hefur því verið haldið fram að til að ná tökum á verðbólgunni þurfi að skipta út gjaldmiðli og helst ganga í "Sambandið" og taka upp euro.
Þá verði verðbólga á Íslandi eins og hún er á eurosvæðinu.
En hver er verðbólgan á eurosvæðinu?
Þá er yfirleitt svarað eitthvað í þá átt að hún sé 1.9%, eins og hún var að mig minnir þar í desember.
En verðbólgan á eurosvæðinu var frá því að vera 0.5% að mig minnir í Grikklandi upp í það að vera 3.4% í Eistlandi. Það er jú þessi gamla tugga með meðaltalið.
Aðeins norður af Eistlandi, í Finnlandi var hún 1.18%. 80 kílómetrar geta framkallað umtalsverðan mun.
En ef verðbólga á Íslandi er aðeins 0.3% hærri á Íslandi en í ríki sem hefur euro, er þá eittvhað sem segir að verðbólga myndi minnka á Íslandi ef það væri gjaldmiðilinn?
Sé svo húsnæðisliðurinn tekinn út á Íslandi, er verðbólga mun lægri á Íslandi en í eurolandinu Eistlandi. En sjálfsagt á eftir að rökræða um hvort að húsnæðisliðurinn eigi að vera í vísitölunni all nokkur ár i viðbót.
Og hverjar eru nefndar sem helstu ástæður fyrir hárri verðbólgu í Eistlandi? Orkukostnaður og þennsla á vinnumarkaði.
Og spár gera ráð fyrir því að verðbólga í Eistlandi verði áfram verulega hærri en meðaltal eurolandanna á komandi árum.
Og svona af því að ég er byrjaður að ræða euroið, skyldu Íslendingar eiga sér sér þann draum að Seðlabankinn stæði í því að "prenta" peninga, kaupandi upp ríkisskuldabréf og skuldabréf stórfyrirtækja (varla þó Samherja :-)) reynandi eftir fremsta megni að keyra upp eftirspurn og verðbólgu?
Ja, reyndar væri hann í þann veginn að hætta því, eftir að hafa stundað það nokkur undanfarin ár.
Því það er það sem seðlabankar Eurosvæðisins hafa verið að gera, og enginn gat skorast undan, líka sá Eistneski.
Þó að flestir kunni að meta lága vexti (nema innlánaeigendur) þarf einnig að spyrja sig að því hvers vegna þeir eru svo lágir, ekki síst ef þeir eru það sem margir myndu kalla óeðlilega lágir.
Dregur úr verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2019 | 04:29
Er þá orðið ljóst hvar "Kúba norðursins" mun rísa?
Eitthvað sem segir mér að þetta nýja hverfi eigi eftir að verða vinsælt hjá sósíaslistum og háskólaprófessorum.
"Kúbuumhverfi" líklega ekki eitthvað sem þeir fúlsa við. Spurning hvort að borgaryfirvöld reddi ekki sykurreir í hverfið, ef ég hef skilið rétt er hann af einhverskonar grasaætt. Líklega hægt að fá "höfundarvarin" eintök.
Pálmatré í Vogabyggð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
29.1.2019 | 12:59
Er þörf fyrir "Sannleiksstofu"?
Það hefur mikið verið rætt um sannleikann, ja líklega eins lengi og nokkur getur munað, en ekki síst nýlega og þá oft í tengslum við "falskar fréttir".
En "falskar fréttir" eiga líklega jafn langa sögu og sannleikurinn, og "falskar" bækur hafa líka verið skrifaðar og hafa hlotið bæði lof og last, "gersk ævintýri" gerast enn í dag.
En líklega hafa "falskar fréttir" meiri möguleika í dag en oft áður, en þó ekki. Rétt eins og "Nígeríusvindlarar" hafa dreifendur "falskra frétta" meiri möguleika en nokkru sinni fyrr, en það hafa fréttaneytendur einnig.
Aldrei hefur verið auðveldara að leita á netinu og sjá "mismunandi" fréttir af sama atburðinum og jafnframt því að sjá á hvers kyns miðlum frétt hefur birst.
En um "falskar fréttir" gildir að miklu leyti það sama og um "Nígeríusvindlið" að það eru alltaf einhverjir sem trúa.
Þeim verður enda varla útrýmt frekar en svindlinu.
Og "fölsku fréttirnar" eru mismunandi, hið virta tímarít Der Spiegel varð fyrir stuttu að reka margverðlaunaðan blaðamann sinn, New York Times hefur oftar en einu sinni "lent" í því að birta "vitleysu".
Fréttastofa Stöðvar2/Bylgjunnar birti nýlega frétt sem virðist hafa verið hreinn uppspuni (hvers hef ég ekki vitneskju um) og hefur beðist afsökunar á því.
Sjónvarpsstöð á Íslandi varð uppvís að því að spyrja leiðtoga stjórnmálaflokks um hvern mætti finna sem væri "heppilegur" í umræður.
Því það er ekki eingöngu "falskar fréttir" sem eru varasamar lýðræðinu, heldur einnig sú viðleitni fjölmiðla að leiða "réttu" skoðanirnar og fréttirnar fram.
Slíkt er jafnvel enn "hættulegra", vegna þess að lymskulegar er staðið að verki.
En er eitthvað hægt að gera?
Vissulega er hægt að hvetja alla til þess að hafa varann á sér, leita sér frétta sem víðast og svo fram eftir götunum, en það er best að hafa allan vara á þegar opinberir aðilar ætla að fara að skilgreina "sannleikann", eða skilja kjarnann frá hisminu í fréttaflutningi.
Slíkt er í besta falli varasamt, í versta falli "stórslys" og mikil hætta á misnotkun og stundum er fín lína á milli "falskra frétta" og skoðana.
Það er hægt að setja fram alls kyns skoðanir og fullyrðingar, s.s. að miklar líkur séu á því að Rússar muni reyna að hafa áhrif á kosningar á Íslandi og svo til dæmis að kvótakerfið hafi rústað sjávarþorpum á landsbyggðinni.
Fyrra tel ég að hluta til rétt, þó að ekki sé ástæða til þess að hafa af því miklar áhyggjur. Það er þekkt að ríki reyna gjarna, yfirleitt með óbeinum hætti, að hafa áhrif á kosningar í öðrum ríkjum. Stundum þó hreinlega beinum. Ég man ekki betur en að Angela Merkel hafi t.d. lýst yfir stuðningi við Macron í síðustu forsetakosningum í Frakklandi.
Seinni fullyrðinguna tel ég ranga, en hana hefur oft mátt sjá í pólítískri umræðu á Íslandi undanfarna áratugi. Ef til vill má segja að hún sé í eðli sínu "popúlísk", en það skiptir ekki meginmáli.
Ýmsir hafa reynt að leiðrétta hana, en hún í sjálfu sér hverfur ekki, en það er heldur ekki ástæða til þess að hafa af slíku stórar áhyggjur.
Persónulega hef ég miklu meiri áhyggjur af því þegar stjórnvöld hafa uppi stór áform í verndun "sannleikans", mér sýnist þó að slíkt sé ekki í farvatninu á Íslandi.
"Sannleiksstofur" og aðrar slíkar stofnanir eru ekki lausnin, geta í besta falli veitt "falskt öryggi", en er allt eins líklegar til að verða "sannleikanum" og tjáningarfrelsi hættulegar.
Skólakerfið sporni við falsfréttum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
29.1.2019 | 06:38
Hvað er lögleg ríkisstjórn?
Það hafa margir margar mismunandi skoðanir á ástandinu í Venezuela. Þó verður varla um það deilt að almenningur í landinu hefur það skítt.
Sósíalisminn hefur keyrt landið á bjargbrún glötunar, eða þar fram af, svona eftir því hverjum við kjósum að trúa.
Engin heldur því fram að ástandið sé gott. Ekki einu sinni þeir vinstrisinnuðu einstaklingar á Íslandi og víðar, sem lofsungu sósíalismann í Venezula fyrir til þess að gera fáum árum.
Flestir þeirra hafa ekkert að segja í dag.
Þeir þegja mest.
En eftir stendur spurningin, hvenær er réttlætanlegt að "alþjóðasamfélagið" grípi í taumana? Er til eitthvað sem heitir "alþjóðasamfélag"?
Skiptir einhverju máli hvort að milljónir þegna hafi flúið þjóðfélag? Skiptir einhverju máli hvort að fjöldi þegnanna deyji á hverjum degi, ýmist vegna morða eða skorts?
Hefur "alþjóðasamfélagið" einvherja vikt? Má það álykta, má það hóta? Má það vera með hernaðarlega íhlutun?
Eða eiga allir að þegja, ef einhverntíma hafa verið haldnar, jafnvel þó að þær séu að vissu marki umdeilanlegar, eitthvað sem mætti kalla lýðræðislegar kosningar?
Hvað eiga Íslendingar að gera?
Vegur þyngst að einhver er að einhverju marki "leiðtogi þjóðarinnar"?
Með það að leiðarljósi hefðu Íslendingar aldrei samþykkt endurheimt Eystrasaltsríkjanna á sjálfstæði sínu.
Var það rétt eða rangt?
Höfðu Eystrasaltsríkin rétt á því að afneita sósíalismanum, á því að afneita einræðinu? Var rökrétt að veita þeim hjálp? Að viðurkenna þau?
Eiga íbúar Venezuela rétt á því að afneita sósíalismanum og einræðinu? Ættum við að reyna að styðja þá í þeirri viðleitni?
Eða ættum við einfaldlega að láta Venezuelska hernum eftir að ákveða hvernig hlutirnir þróast?
Þessi mál eru ekki að fullu sambærileg, enda Venezuela ekki hernumið, ekki í hefðbundnm skilningi þess orðs, þó að herinn sé það verkfæri sem viðdheldur völdum Maduro. En það voru "þingin" í Eystrasaltsríkjunum sem leiddu baráttuna, rétt eins og þingið í Venezuela gerir nú.
Það eru ekki til nein einföld svör við flestum þessum spurningum, ekki ætla ég að þykjast hafa þau.
Maduro er hvorki fyrsti né síðasti einræðisherrann sem situr sem fastast, þær sögur eru enn að skrifast og má finna víða.
Svo þegar bætt er við þeirri staðreynd að meðal helstu "stuðningsmanna" Maduro eru Rússland og Kína, blasir við mynd sem er ekki ný af nálinni.
P.S. Hér má svo bæta við umfjöllun um um Nicaragua sem ég sá á Vísi fyrir nokkrum mínútum. Enn ein "sósíalistaparadísin", sem byggir á her og lögreglu.
Enginn setur okkur afarkosti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 30.1.2019 kl. 05:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það virðast "allir" vera með vaxandi áhyggjur af "Evrópu", hvernig sem á því stendur.
"Opið bréf", hóps "menningarvita" hefur vakið nokkra athygli.
Þar tala þeir um að þörf sé að bjarga "Evrópu", en hvaða "Evrópu" og frá hverju þarf að bjarga henni.
Og svo er stóra spurningin, sem fá ef nokkur svör eru við, hvað þýðir "Evrópa", reyndar má líklega segja að einhver svör hafi fengist, en þau benda gjarna í mismunandi áttir.
"Europe" og "we need more Europe", enda eitt af þessum "loft og froðukenndu" slagorðum sem ýmsum stjórnmálamönnum er svo tamt að nota.
En að mínu mati er það einmitt slíkt "froðusnakk", sem hefur ekki hvað síst valdið því að stjórnmálaflokkar sem beita sér gegn "elítunni" og margir kalla "popúlista" fagna vaxandi velgengni.
Ef kjósendur skilja ekki hvað er verið að segja, er liklegt að þeir leiti annað.
Evrópa er heiti á næst minnstu heimsálfunni. Í álfunni eru á bilinu 45 til 50 ríki, svona eftir því hvernig við kjósum að telja.
Er Rússland Evrópuríki? Er Tyrkland Evrópuríki? En það er óumdeilt að ríkjum Evrópu hefur verið að fjölga. "Samlyndið" á sér ýmsar myndir.
Evrópusambandið, sem flestir skilja að er eitthvað allt annað en "Evrópa" er samband 28 ríkja, sem gæti fallið niður í 27 fljótlega.
Þurfa þessi ríki meira "Evrópusamband"?
Um það eru skiptar skoðanir, enda skiptast "Sambandssinnar" í margar fylkingar, rétt eins og þeir sem kæra sig ekki um vöxt "Sambandsins", eða vilja það hreinlega feigt.
Enda forðast þjóðarleiðtogar "Sambandsríkja" að ræða það hvert þeir vilji að "Sambandið" stefni, eins og heitan eldinn. Það er einfaldlega ekki heppilegt til árangurs í kosningum.
Á að samhæfa skatta í öllum aðildarríkjum? Á utanríkisstefnan að verða ein, án þess að öll ríkin þurfi að samþykkja hana?
Er stefnt það því að "Sambandið" hætti að vera samband og verði eitt ríki?
Hver er framtíðarstefnan hvað varðar landbúnað, sjávarútveg, her,skatta, innflytjendur, yrði "Sambandið" sem ríki aðili að NATO?
Er skynsamlegt að verða um of háðir Rússlandi um orku?
Engin kærir sig um að svara þessu. Engin stjórnmálamaður hefur gert það, svo ég best veit.
Og þegnarnir? Meirhluti þeirra hefur ekki fyrir því að mæta á kjörstað til þess að velja fulltrúa sína á Evrópusambandsþingið, sem "Sambandið" hefur í hroka sínum nefnt Evrópuþingið eins og þar sitji fulltrúar allrar Evrópu. Slík er firringin
En allir vita að þó að þing "Sambandsins" hafi vissulega áhrif, hefur það engin völd.
Svo frá hverju þarf að "bjarga Evrópu"?
Evrópa er auðvitað ekki að "fara" neitt, eða er í hættu. Heimsálfan mun ábyggilega standa um ókomna tíð, nema auðvitað að ákveðið verði að þessi "nabbi" á Asíu verði einfaldlega talinn með henni.
En þarf að bjarga "Evrópusambandinu", og þá frá hverju?
Hvers vegna eiga hinir "meintu popúlistar" svona greiðan aðgang hugum íbúa "Sambandsríkjanna"?
Er það vegna þess að hinir "hefðbundnu" stjórnmálamenn hafa brugðist umbjóðendum sínum? Er það vegna þess að kjósendum finnst stefna "Sambandsins" vera önnur en þeim hefur verið "lofað" heimafyrir?
Er það vegna þess að þaim finnst "valdið" vera fjarlægara þeim en áður?
Eða er eitthvað allt annað á ferðinni?
Persónulega held ég að líklega sé um að ræða sambland af öllu þessu og vitanlega mun fleiri atriðum.
En eitt af stærstu atriðunum sem veldur því sem við gætum kallað "firringu", er einmitt notkun "froðukenndra", innihaldslausra hugtaka og orða eins "Evrópa" og við þurfum "meiri Evrópu", eitthvað sem engin veit hvað þýðir og/eða hafa endalausar mismunandi merkingar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.1.2019 | 13:36
Veganúar
Veganúar er nú á seinni sprettinum, allir á fullu að drífa sig á Þorrablót og mikil umræða um hvoru tveggja, þó að ef til vill eigi þetta ekki mikla samleið.
Fékk þetta "slogan" sent frá kunningja, hitti mig beint í hjartastað, eða bara í magann.
Veganuar Is A Big
Missed Steak.
Grín og glens | Breytt s.d. kl. 10:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2019 | 16:21
Hvaða hlutir hleypa upp húsnæðisverði?
Það hefur mikið verið rætt um húsnæðisverð á Íslandi undanfarin misseri. Skipaðar hafa verið nefndir, og kastað hefur verið fram ótal hugmyndum og skoðunum.
Auðvitað eru þær mismundandi, en flestir eru þó sammála um að málið sé brýnt og húsnæðiskostnaður sé stór þáttur í framfærslu og þá að sjálfsögðu lífsgæðum einstaklinga og fjölskyldna.
Jafnframt hefur verið talað um að aðgerðir í húsnæðismálum séu mikilvægur þáttur í kjarasamningum.
Því vakti það athygli mína þegar ég sá fjallað um húsnæðisverð í Þorlákshöfn. Þorlákshöfn er ef ég hef skilið rétt, ca. 35 mínútu akstur frá Reykjavík (nema þegar umferðarteppur eru) og hefur fengið sívaxandi athygli þeirra sem vilja eignast húsnæði.
Þar má fá rétt ríflega 50 fermetra íbúðir á tæpar 15 milljónir króna. Sambærilegar íbúðir í Reykjavík kosta víst vel yfir 40 milljónir.
Í hverju liggur munurinn?
Einfalda svarið við því, er eins og fasteignasalarnir segja: Staðsetning, staðsetning og staðsetning.
Það verður aldrei fram hjá því litið að staðsetning skiptir miklu máli. En er engin "ódýr staðsetning" á höfuðborgarsvæðinu, eða þarf að leita alla leið til Þorlákshafnar eða lengra til þess að finna slíka?
Þó að ekki sé hægt að fullyrða um slíkt, er freistandi að álykta að stærstur hluti mismunarins sé lóðaverð og tengdar greiðslur, enda getur kostnaðurinn við bygginguna sjálfa varla verið mikið eða nokkuð ódýrari í Þorlákshöfn.
En auðvitað er eðlilegt að lóðir séu dýrari miðsvæðis í Reykjavík samanborið við Þorlákshöfn, ég held að því mótmæli engin.
En hveru dýrari, og svo eru það lóðirnar sem eru í Reykjavík, en ekki "miðsvæðis"? Hvað er eðlilegur munur þar?
Ekki getur það kostað meira að gera lóðir byggingarhæfar í Reykjavík? Ætti Reykjavík ekki, ef eitthvað er, að njóta samlegðaráhrifa stærðarinnar?
Ég held að þetta sé nokkuð sem vert sé að skoða og velta fyrir sér.
Það er líka áhugavert að hugsa um hvort að þéttingarstefna Borgarinnar, hafi orðið til þess að þeir sem sækja vinnu til höfuðuborgarinnar hafi dreifst yfir stærra svæði en nokkru sinni fyrr, og þannig stóraukið umferð og vegalengdir sem eru keyrðar?
Er það ekki þvert á markmið stefnunnar?
Eða er stefnan einfaldlega að hámarka hagnaðinn af lóðasölu og til þess að svo megi verða halda uppi ákveðnum skorti?
23.1.2019 | 12:21
Er ástæða til að hafa áhyggjur af vaxandi eignamun, eða á hann sér eðlilegar ástæður?
Það hefur mikið verið rætt um vaxandi mun á eignum einstaklinga og mismunandi "þjóðfélagshópa" á undanförnum misserum, líklega ekki hvað síst á Íslandi.
Það er eðlilegt að margir hafi af þessu miklar áhyggur, en er víst að eitthvað sé óeðlilegt við þennan aukna eignamun?
Þegar vel árar í þjóðfélaginu, jafnvel svo vel að talað er um eignabólu, segir það sig eiginlega sjálft að eignamunur eykst. Ef fasteignir rjúka upp í verði, ef hlutabréfamarkaðir eru hækkandi, þá vænkast hagur þeirra sem eiga eignir langt umfram þeirra sem eru eignalausir.
Fyrir til þess að gera fáum árum töluðu margir pólítíkusar á Íslandi fjálglega um að stór hópur Íslendinga vildi ekki eiga húsnæði, heldur kysi frekar "örugga leigu".
Örugga leigan hefur að ég tel ekki gengið eftir, en það ætti ekki að koma neinum á óvart að þeir sem ákváðu að kaupa sér fasteign fyrir t.d. 6 eða 8 árum, standi sem hópur nær örugglega betur eignalega séð, en þeir sem gerðu það ekki.
Það dregur hins vegar oft saman með hópunum þegar kreppir að eða samdráttur ríkir.
Ég held einnig að fasteignakaup hafi í gegnum tíðina verið afar góð fjárfesting þegar á heildina er litið. Það væri til dæmis fróðlegt að sjá samanburð á fjárfestingu í fasteign og greiðslu í lífeyrissjóð.
Það er enda þekkt að víða um lönd er fasteign álitin hluti af lífeyrissparnaði. Hægt að selja og minnka við sig á eldri árum og hefur einnig þann kost að ganga til erfingja.
En það sem hefur líklega ekki síður valdið því að eignamunur hefur aukist á Íslandi, er mikill fjöldi innflytjenda.
Mikill fjöldi innflytjenda, að mestu leyti eignalausir, fara líklega beint í neðsta eignahópinn.
En það fjölgar í öllum tekjuhópum, þannig að tekjuhæsti hópurinn eykur eðlilega hlut sinn.
En það er fleira sem gerir það að verkum að eignaminnsti hópurinn verður verr úti en aðrir.
Þannig er vitað að sumir í þeim hópi stoppa aðeins í nokkur ár. Þeir safna eins miklu og þeir geta og vilja fara með "auðsöfnun" sína til annarra landa og setja í eignir þar. Í stað þess koma svo aðrir "eignalausir", og svo koll af kolli, þannig að eignamyndun í lægst hópnum verður því hægari.
Sumir kunna þegar að eiga eignir í "heimalandinu" og koma til Íslands til að auðvelda sér eignamyndunina.
Fleira má nefna sem veldur því að eignamyndun innflytjenda er oft hægari en þeirra sem fyrir eru.
Þar má nefna til að þeir eiga erfitt með að komast úr láglaunastörfum vegna tungumálaerfiðleika, sumir þeirra senda reglulega hluta launa sinna úr landi, til foreldra eða annarra fjölskyldumeðlima og svo að þeir fá lítinn eða engan arf eftir foreldrana, öfugt við aðra íbúa þróaðri og auðugri ríkja, s.s. Íslands.
Ekkert af þessu er óeðlilegt og lítið við því að gera nema tungumálaörðugleikunum.
Það er rétt að taka það fram að ég er ekki að setja þetta fram hér og segja að ekki þurfi að ræða eignamismun.
Það er jafn sjálfsagt að ræða það eins og allt annað.
En það þarf að reyna að finna allar breyturnar og taka tillit til þeirra.
Það er ekkert óeðllilegt að mikill fjöldi innflytenda hafi áhrif á eignaskiptingu, en hversu mikil þau áhrif eru veit ég ekki, og man ekki eftir því að hafa séð tölur um slíkt, en það væri vissulega þarft rannsóknarefni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.1.2019 kl. 06:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.1.2019 | 10:33
Reykjavíkurvælið
Eitt af því sem mér hefur þótt einkenna pólítíska umræðu á Íslandi undanfarin misseri, er það sem ég kalla "Reykjavíkurvælið".
Það er þegar meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur vælir um erfitt hlutskipti sitt og kvartar undan því að allir séu vondir við sig og það sem aflaga fari í Reykjavík sé flest annað hvort ríkinu að kenna, nú eða þá að nágrannasveitarfélögin varpi byrðinni á Reykjavík.
Stundum finnst mér eins og þetta sé helsti starfsvettvangur borgarstjóra á milli borðaklippinga og glærusýninga.
En það er litið fram hjá þeim kostum sem fylgir því að vera stærsta (eða eina) borg Íslands og jafnframt höfuðborg.
Það er næstum því óhjákvæmilegt að nálægt stórum borgum byggist upp "svefnbæir". Þeir lúta yfirleitt öðrum lögmálum en stórborgirnar (þetta hugtak á auðvitað ekki við Reykjavík, nema í Íslenskum skilningi).
Þannig leita yfirleitt fleiri tekjulágir inn í stórborgirnar, enda eru þar öllu jöfnu mun fleiri atvinnutækifæri.
Það sama gildir um heimilislausa, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þeir leita inn í stórborgirnar (yfirleitt "kjarnana"), enda er þar meiri fjöldi af fólki á ferli, fleiri vínveitingastaðir og svo framvegis.
Á móti kemur að "stórborgin" og/eða höfuðborgin hefur auknar tekjur af hótelum, veitingastöðum, fyrirtækjum og síðast en ekki síst ríkisstofnunum, en aðrir þéttbýliskjarnar.
Hvað skyldi hátt hlutfall af fasteignagjöldum ríkisstofnana renna til Reykjavíkurborgar? (bæði beint frá ríkinu og svo frá þeim sem leigja ríkisstofnunum?).
Er hærra hlutfall af störfum per íbúa í Reykjavík, en í öðrum sveitarfélögum?
Svo kemur að "væli" Reykjavíkurborgar um að "Gistináttaskattur" skuli ekki renna til borgarinnar.
Þar eru nefndar til sögunnar aðrar stórborgir sem njóta skattsins, til dæmis New York, London og svo framvegis.
Enn og aftur virðast þeir sem stjórna Reykjavíkurborg ekki skilja muninn.
Þeir sem heimsækja New York eða London, eru fyrst og fremst að heimsækja þessar borgir (þó að vissulega kunni þeir að nota tækifærið og fara annað í leiðinni).
En þeir sem heimsækja Reykjavík?
Eru þeir ekki fyrst og fremst að heimsækja Ísland? Fer ekki stærstur hluti þeirra "Gullna hringinn", o.s.frv? Er eitthvað óeðlilegt við að t.d. hluti gistináttaskattsins fari í uppbyggingu á þeim stöðum?
Þurfa ekki nær allir ferðamenn (nema þeir sem lenda á einkaþotum á Reykjavikurflugvelli) að keyra frá öðru sveitarfélagi til hótela sinna í Reykjavík? Er eitthvað óeðlilegt að einhver hluti gistináttagjalds renni til uppbyggingar á þeirri leið (Þeim meirihluta sem nú ríkir í Reykjavík, virðist fátt mikilvægara en að koma flugvelli sínum úr borginni).
Hefur eitthvert sveitarfélag á Íslandi hagnast meira á ferðamannastraumnum en Reykjavík, með síhækkandi fasteignagjöldum af hótelum, veitingastöðum og "lundabúðum? Jafnframt því er uppbygging og lóðasala til hótela jafnframt hluti af tekjum borgarinnar.
Hvert skyldi vera hlutfall gistirýmis per íbúa í Reykjavík samanborið við önnur sveitarfélög?
Hvaða kostnaði hefur Reykjavíkurborg þurft að standa straum af á móti?
Núverandi meirihluti í Reykjavík hefur kosið að einblína á það sem getur talist neikvætt við það að vera stórborg/höfuðborg, en nefnir aldrei allt það sem hún ber úr býtum vegna þess.
Er ekki mál að linni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.1.2019 kl. 06:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)