Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016
20.12.2016 | 16:36
Velkomin á Evrópska efnahagssvæðið - 25 ára gamlar "falskar fréttir".
Á stundum virðist eins og Íslendingar og íslenskir stjórnmálamenn geri sér ekki nokkra grein fyrir því hvað felist í því að Ísland sé aðili að Evrópska efnahagssvæðinu - EEA/EES.
Meðal annars felst í því að aðilar skrásetttir á svæðinu eru jafn réttháir Íslendingum er kemur að jarðarkaupum og flestum öðrum fjárfestingum.
Það gildir um Jim Ratcliffe, en gilti ekki um Nubo.
Málið er ekki flóknara en það.
Allt er málið eftir lagabókstafnum.
P.S. Þó að það sé málinu ekki skylt, ná lögin um EEA/ESS sömuleiðis yfir erlendra verkamanna í gegnum starfsmannaleigur, sem gerir það mögulegt að erlendir starfsmenn njóti ekki sömu kjara og innlendir.
Evrópusambandið hefur áhuga á því að breyta slíku, en þær breytingar mæta harðri andstöðu á meðal marga aðildarþjóða þess í A-Evrópu.
En Íslendingar þurfa að gera sér grein fyrir því að aðild að EEA/EES fylgja kostir, en ekki síður gallar.
"Allt fyrir ekkert", var ein af þessum "fölsku fréttum", sem síðan reynist enginn sannleikur búa að baki.
Ratcliffe fékk en Nubo ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.12.2016 kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.12.2016 | 17:26
Níundi áratugurinn var að hringja og vill...
Fyrir rétt rúmum fjórum árum gerði forseti Bandaríkjanna Barack Obama grín af Mitt Romney frambjóðenda Repúblíkana, með eftirfarndi orðum:
Níundi áratugurinn var að hringja og vill fá utanríkisstefnuna sína aftur, Kalda stríðinu lauk fyrir 20 árum ([t]he 1980s are now calling to ask for their foreign policy back, because the Cold Wars been over for 20 years.).
Ástæðan fyrir þessum brandara friðarverðlaunahafa Nobels, Obama var að Romney hafði sagt að helsti "geopólítíski" andstæðingur Bandaríkjanna væri enn þá Rússland.
Þetta þótti hinn besti brandari og öll hin "frjálslynda" pressa gerði mikið úr því að "kaldastríðsfákurinn" Romney væri "frambjóðandi síðustu aldar".
Spólum áfram 4. ár og hin sama "frjálslynda" pressa nær ekki upp í nefið á sér fyrir reiði vegna þess að hún er fullviss um að Rússland hafi barist gegn vonarstjörnu sinni, Hillary Clinton, og líklega komið í veg fyrir að hún yrði forseti Bandaríkjanna.
Ef til vill ekki að undra að slegið hafi á trúverðugleikann.
En líklega kemst 9. áratugurinn aðeins í símann á 4. ára fresti.
17.12.2016 | 16:57
Það hlýtur að vera eitthvað að varðandi lambakjötið
Það er skrýtið að lesa að það þurfi 100 milljónir aukalega til að markaðssetja íslenskt lambakjöt í fjarlægum löndum núna.
Að slíkt þurfi nú hlýtur að benda til þess að endurskoða þurfi lambakjötsframleiðslu Íslendinga - frá upphafi til enda. Ef til vill einnig markaðssetninguna.
Ef ég man rétt minnkaði innalandsneysla á lambakjöti (per íbúa) ár frá ári, nokkuð svo lengi sem elstu menn muna (þó að það sé vissulega teigjanlegt). Engu virðist skipta að metfjöldi ferðamanna streymir til Íslands ár hvert, lambakjötið virðist ekki ná að rísa í sölu.
Því blasir við að annaðhvort hefur neysla "innfæddra" hrunið, eða að ferðamennirnir sem mælast brátt í 2. milljónum, ef marka má spár, hafa lítinn áhuga á lambaketinu. Rétt er að hafa í huga að sá fjöldi erlendra ferðamanna sem fer um Keflavíkurflugvöll er mikið hærri.
Ef ég hef skilið rétt er reiknað með að yfir 6.5 milljón farþegar fari um flugvöllinn á þessu ári.
Vissulega er það svo að með rísandi gengi, er lambakjötið eins og margar aðrar íslenskar afurðir orðnar ansi dýrar.
En ég hygg að þetta sé markaðurinn sem ætti að einblína á.
Þess utan, held ég að einstaklingar sem hafa smakkað íslenskt lambakjöt sem ferðamenn, séu mun líklegri til að láta slík kaup eftir sér, þegar heim er komið, en aðrir.
P.S. Sjálfur borðaði ég íslenskt lambalæri í gærkveldi. Það er frábær kvöldverður og kitlaði bragðlauka allra viðstaddra, ásamt því að læða fram heimþrá hjá sjálfum mér.
Öndvegis matur og slær öllu öðru lambakjöti við. Ekki keypt í búð hér, heldur kom það með góðum vini mínum sem átti leið hér um. Komið örfáa daga fram yfir síðasta söludag, en það kom alls ekkert að sök, lungmjúkt og meyrt.
Lambakjötsala í lægð vegna deilu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2016 | 09:42
Pólítískur ómöguleiki, illdeilur og viðræður
Ég veit ekki hversu byltingarkennd úrslit nýafstaðinna alþingiskosninga eru, ég held að þau endurspegli frekar sundrungu samfélagsins en ákalli eftir byltingu.
Úrslitin í sjálfu sér ekki svo langt frá úrslitunum 1987. Alls ekki eins, enda annar tími, aðrir flokkar og aðrar "persónur og leikendur".
En úrslitin reyna hins vegar á stjórnmálamenn og ekki síst hæfni þeirra til að gefa eftir, gera málamiðlanir og horfa á málefni en ekki persónur eða flokka.
En fleiri flokkar gera slíkt að sjálfsögðu ekki einfaldara. Það skiptir engu máli þó fjölbreytni geti verið af hinu góða, þá er ekkert auðveldara fyrir stjórnmálamenn að starfa saman á milli flokka, en innan flokka (ég bloggaði stuttlega um það fyrir stuttu síðan).
Hvoru tveggja krefst samstarfsvilja og stjórnmálamenn þurfa að geta sæst á málamiðlanir og jafnvel sætta sig við pólítískan ómöguleika - alla vegna um stund.
Ef litið er til þeirra illdeilna sem hafa svo gosið upp á vinstri væng stjórnmálanna eftir að "hin 5 fræknu" slitu viðræðunum, er ekki erfitt að skilja hvers vegna viðræðurnar náðu ekki einu sinni að verða "formlegar".
Það er jú ástæða fyrir því að vinstri vængurinn á Alþingi telur 5 til 6 flokka (plús svo þá sem ekki náðu að komast á þing), svona eftir því hvernig vilji er til að skilgreina vinstri.
En ef vinstri menn á Íslandi telja það bestu leiðina til samstarfs, ættu þeir auðvitað að stofna fleiri flokka, því gleðin og samstarfsviljinn felst í fjölbreytileikanum, ekki satt?
Ekki á einu máli um framhaldið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
14.12.2016 | 06:39
Bjórlíki og trúarlíki
Þegar undarleg lög og skattar gilda er algengt að viðbrögð einstaklinga verði nokkuð skrýtin, en einstaklingar eru hugmyndaríkir grípa til ýmissa ráða til að sniðganga eða milda áhrifa undarlegra ákvarðana hins opinbera.
Þannig varð hið "sér íslenska" bjórlíki til þegar Alþingi þverskallaðist lengi við að aflétta banni við sölu áfengs bjórs á Íslandi.
Bjórlíkið dró fram fáranleika bannsins og átti án efa þátt í því að banninu var á endanum aflétt.
Þar fóru Sjálfstæðismenn í fararbroddi, eðlilega, enda sjálfsagt að aflétta banninu og treysta einstaklingum til að ákveða sjálfir hvort að áfengi sem þeir kjósa að innbyrða sé í formi bjórs eða annars, kjósi þeir á annaðborð að neyta þess.
Nú er hins vegar farið að bera nokkuð á því sem mætti kalla "trúarlíki".
Vegna undarlegra ráðstafana hins opinbera, sem hefur fellt "sóknargjöld" inn í almenna skattheimtu þannig að þeir sem standa utan trúfélaga þurfa að greiða jafnt gjald og þeir sem "telja" í afhendingu "sóknargjalda", hafa einstaklingar komið á fót trúfélögum og til þess að "endurheimta" fé sem þeir telja í raun sitt.
"Lífsskoðunarfélög" (hvað sem það svo þýðir) hafa einnig fengið stöðu trúfélaga og og fá sama "sóknargjald" og trúfélögin.
Rétt eins og bjórlíkið, dregur þetta fyrirkomulag fram fáranleika þess kerfis sem hið opinbera hefur byggt upp.
Annars vegar má halda því fram að um ekkert "sóknargjald" sé að ræða, einungis sé um að ræða "styrk á hvern haus", og þá má spyrja hver vegna hið opinbera á að standa í slíkri styrkveitingu?
Hins vegar er að um "sóknargjald" sé að ræða, hvers vegna þeir sem standa utan trú, lífskoðunar og trúarlíkisfélaga eigi að greiða gjaldið?
Réttast væri að að fella styrkveitinguna niður og lækka skattprósentuna samsvarandi, eða jafnvel hækka skattleysismörkin um "sóknargjaldið".
Hitt er svo einnig möguleiki, að breyta "sóknargjaldinu" í nefskatt, þar sem framteljendum væri boðið upp á þann möguleika að "haka í reit" þar sem framteljandi samþykkti að af honum væri dregið "sóknargjald" samkvæmt skráningu hans í Þjóðskrá.
Þannig fengist upplýst samþykki framteljanda, þeir sem svo kysu greiddu, aðrir ekki.
Að sjálfsögðu ætti flokkur sem kennir sig við frelsi einstaklingsins að vera í fararbroddi í slíkum breytingum, það segir sig eiginlega sjálft.
12.12.2016 | 14:16
Svarta Pétri laumað yfir til VG
Það er ekkert undarlegt að illa gangi að færa viðræður 5 flokka frá því að vera "óformlegar" yfir í það að vera "formlegar". Það þarf óneitanlega að sætta mörg sjónarmið áður en hægt er að ræða málin formlega.
Líklega eru allir væntanlegir þátttakendur að pressa fötin og bursta skóna áður ef koma skyldi til "formlegra" viðræðna.
En það er ljóst að í "forspilinu" hafa hinir flokkarnir sammælst um að lauma Svarta Pétri yfir til Vinstri grænna.
Síðast var það Viðreisn að "kenna" að ekki var haldið áfram, en nú virðast flestir vera á þeirri skoðun að það sé VG að kenna, ef ekki tekst að færa umræðurnar á "formlegt" stig.
Það setur nokkra pressu á Vinstri græn.
Annars vegar eiga þeir kost á því að sitja uppi með Svarta Pétur. Hins vegar að viðurkenna að það gefist betur að Píratar leiði samstarf þessara 5 flokka heldur en þau sjálf.
Hvorugur kosturinn er góður, allra síst fyrir formann Vg, Katrínu Jakobsdóttur.
Telja VG vera vandamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.12.2016 | 18:25
Himinháir skattar hvetja til sóunar
Það er gömul saga og ný að þegar þarf að ná í fleiri krónur í ríkiskassann, þá ákveður ríkísstjórnin að hækka álögur á áfengi.
Í og með er þessi leið valin vegna þess að hún er án pólítískrar áhættu. Því sem næst engin stjórnmálamaður vogar sér að andmæla slíkum fyrirætlunum, vegna þess að það er pólítískt hættulegt að taka sér stöðu með "drykkjumönnum" og áfengi er slíkt böl að allir ættu að sammælast um að hafa það sem dýrast.
Persónulega finnst mér sorglegt að horfa upp á Sjálfstæðismenn taka þátt í slíku.
Ég myndi vilja minna þá að að það er ekki einungis rétt að almenningur geti keypt sér hvítvín með humrinum á sunnudögum, heldur ætti hann að geta gert það án þess að velta því um of fyrir sér "hvort hann hafi efni á að kaupa sér nýja skó", sömuleiðis.
Það sem líka skiptir máli er að slíkir ofurskattar sem nú eru lagðir á áfengi á Íslandi skekkja verðskyn almennings og hvetja til sóunnar.
Allt verð á áfengi fletst út með slíkri ofurskattlagningu.
Mjög líklegt er að það auki kostnað við heildarinnflutning Íslendinga á áfengi og sömuleiðis er það hvetjandi til aukinnar neyslu á áfengi í dýrari umbúðum, sem eykur kostnað, mengun og stækkar "kolefnispor" Íslendinga, ef menn vilja velta slíku fyrir sér.
Hár áfengisskattur letur Íslendinga frá því að velja sér ódýrari tegundir til drykkjar. Ótrúlega lítill munur er t.d. á því að kaupa vodkareitil og svo aftur sama magn af cognaki.
Munurinn á innkaupsverði er hins vegar verulegur.
Sama gildir t.d. um muninn á því að kaupa sér rauðvínsflösku og svo sömu tegund í "belju", sem jafngildir 4. flöskum af sama víni. Munurinn á ódýru rauðvíni í flösku eða "belju" á Íslandi getur numið ca. 100 kr. per flösku, eða innan við 10%. Varla þess virði að eltast við.
Víða er slíkur munur á milli 30 og 40%, enda flutningskostnaður mikið lægri á "beljunni" og umbúðakostnaður sömuleiðis. Magnkaup ýta sömuleiðis undir lægra verð.
En fyrir íslenska innflytjendur hefur örlítil lækkun á heildsöluverði lítinn eða engan tilgang. Hann hverfur einfaldlega í "skattahítinni".
Því ýtir ofurskattlagning hvata til samkeppni í raun algerlega til hliðar.
Þegar hið opinbera er farið að taka til sín vel yfir 90% af útsöluverði vodkaflösku blasir við að til dæmis 8% verðlækkun af hendi framleiðenda eða heildsala hefur lítinn tilgang.
Hér er skattlagningin löngu farin yfir velsæmismörk og farin að hafa veruleg áhrif á neyslumynstur, ekki eingöngu í þá átt að neytandinn velji sér vöru sem er dýrari í innkaupum og óhagstæðari fyrir þjóðarbúið og umhverfið, heldur ekki síður að hann velur sér "alt" vörur svo sem heimabrugg og smyglvarning.
P.S. Það er svo sérstakt umhugsunarefni að hið opinbera rekur svo einnig aðra vínbúð sem selur áfengi mun ódýrara, en þar fá einungis þeir Íslendingar að versla sem fara til útlanda (sem margir gera oft á ári) svo og þeir rúmlega ein og hálf milljón útlendinga sem koma til Íslands.
Er það réttlætanlegt?
Áfengisskatturinn hækkar um áramót | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.12.2016 | 06:33
Er Þorgerður Katrín að kalla eftir massívri peningaprentun Seðlabankans?
Ég er reyndar ekki hissa á því að "Sambandssinnar" eins og Þorgerður Katrín fitji upp á vaxtaumræðu.
Það er gamalt trix til að fá almenning til að halda að vextir myndu lækka verulega ef Ísland gengi í "Sambandið".
Slík vaxtalækkun er þó "fugl í skógi", en ekki hendi, þó að líklegt væri að vextir myndu lækka að einhverju marki, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, t.d. eftir 10 ár eða svo.
Því þótt vaxtalækkunin yrði næsta víst einhver, hafa fjárfestar brennt sig eftirminnilega á því að halda að allar skuldir í euroum séu hinar sömu, ef svo má segja.
Það sem Þorgerður Katrín minnist heldur ekkert á er hvers vegna vaxtakostnaður eurolandanna sem hún nefnir er lægri en Ísland (í %stigum).
Það er vegna dapurs efnahagsástands á Eurosvæðinu, gífurlegra skulda, atvinnuleysis og stöðnunar.
Undir venjulegum kringumstæðum myndi efnahagsástand eins og ríkir í löndum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal, Ítalíu og jafnvel Frakklandi, þýða að vextir á skuldum þeirra ríkja væru mun hærri en þær eru í dag, líklega jafnvel hærri hjá sumum þeirra en þau kjör sem Íslandi bjóðast.
En til að reyna að koma lífi í staðnað og þreytt efnahagslíf Eurosvæðisins hefur Seðlabanki (ásamt seðlabönkum aðildarríkjanna) þess staðið fyrir gríðarlegri peningaprentun, keypt stóran hluta af skuldabréfum ríkisstjórna og einnig sumra stórfyrirtækja.
Eðlilega keyra slík risa inngrip upp eftirspurn eftir bréfunum og jafnframt niður vexti á þeim. Skuldabréf einstakra ríkja hafa enda farið í neikvæða vexti.
Þetta veit Þorgerður Katrín, hún kýs einfaldlega ekki að minnast á það, það hentar ekki hennar málflutningi.
Er það nýja peningastefnan sem Þorgerður Katrín er að kalla eftir?
Heldur einhver að vextir í landi þar sem talað er um að hagvöxtur hafi dansað í kringum 10% á síðasta ársfjórðungi, geti verið nálægt vöxtum á efnahagssvæði þar sem horft er til 2% hagvaxtar í hillingum?
Heldur Þorgerður Katrín að massvív peningaprentun og neikvæðir stýrivextir væri það sem hentaði Íslandi í dag? Vill Þorgerður Katrín beita Seðlabankanum til kaupa á skuldum ríkisstjóðs til að keyra niður vextina? Telur hún að Seðlabankinn ætti að ýta undir þennslu?
Það væri veruleikinn ef Ísland væri á Eurosvæðinu.
Stjórnmálamenn geta ekki leyft sér að tala eins og vextir séu ótengdir almennu ástandi í efnahagsmálum, þó að vissulega megi deila um hvort þeir eigi að vera örlítið lægri eða hærri.
Ég hygg að öll þau lönd sem Þorgerður Katrín nefndi (og fleiri til á Eurosvæðinu) væru til í að skipta á vaxtaprósentu við Ísland, ef með fylgdi framtíðarhorfur, atvinnuleysistölur, atvinnuþátttaka, skuldastaða og viðskiptajöfnuður. Jafnvel verðbólgan sem Ísland býr við þætti eftirsóknarverð sum staðar, því verðhjöðnun er ekki skemmtilegt fyrirbrigði.
Stjórnmálamenn og flokkar sem tala hátt um ný vinnubrögð ættu ekki að hoppa niður í skotgrafirnar sem þeir höfðu komið sér fyrir í síðast þegar þeir sátu á þingi.
P.S. Svo er aftur algengt að lágt stýrivaxtastig á Eurosvæðinu skili sér misvel t.d. í fasteignalánum. Þar sker N-Evrópu sig yfirleitt nokkuð frá með afar lága vexti, oft í kringum, eða jafnvel örlítið undir 2%. En vextir til húsnæðiskaupa, t.d á Írlandi eru miklu hærri, sama gildir um Eistland, svo tvö dæmi séu tekin af handahófi.
Þannig er ekki til neitt sem heitir "fasteignavextir á Eurosvæðinu", enda um verulega mismunandi svæði að ræða, sem eru talin mismunandi góð veð. Svo er endalaust hægt að velta því fyrir sér og rökræða um hvort, ef euro yrði lögeyrir á Íslandi, vextir á fasteignalánum yrðu líkari því sem gildir í Þýskalandi, eða hvort þeir yrðu nær því sem er á Írlandi, eða jafnvel enn hærri.
Spurði út í óþolandi vaxtabyrði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2016 kl. 12:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.12.2016 | 18:39
Gjaldfelldir sérfræðingarnir leita skýringa á því af hverju almenningur trúir þeim ekki
Það er alltaf gaman að reyna að kryfja málin. Spá og spegúlera hvaða orsakir liggja að baki ákvörðunum, ekki síst hópákvörðunum sem teknar eru í kosningum.
Það er í raun engin leið til að fullyrða um slíkt, þó að rannsóknir séu til á þessu sviði, þá eru breyturnar svo margar og jafnvel stundum hætta á því að viðfangsefnin segi ekki satt frá, ekki síst ef þau bera vantraust til þeirra sem framkvæma rannsóknirnar.
Stundum segja þau einfaldlega það sem þau telja að rannsakendurnir vilja heyra.
Ég hygg að varíenta af þessu megni að skýra að hluta til hve niðurstöður kosninga hafa komið á óvart og jafnframt hve á skjön þær hafa verið við álit "sérfræðinganna".
En ég tel líkur á því að það sé rétt að tilfinningar spili þar inn í, enda ætti aldrei að vanmeta þær.
En tilfinningar eru margskonar. Á meðal þeirra er vantraust. Ég held að það sé engin spurning að það spilar vaxandi hlutverk í því þegar kjósendur taka ákvarðanir.
Þar á meðal er vantraust á "sérfræðingunum", sem er ef til vill skiljanlegt, þegar litið er til þess hve þeir gjaldfella sig oft á tíðum.
Íslendingar þekkja dæmi um slíkt.
Eitt af þeim skýrari undanfarin ár er IceSave málið svokallaða. Hve margir "sérfræðingar" komu ekki fram og spáðu Íslendingum "dauða og djöfuldómi" ef þeir samþykktu ekki samningana.
"Kúba norðursins", og "N-Kóreuvist", var það sem ætti að bíða Íslendinga ef þeir tækju ekki mark á "sérfræðingunum" og segðu já. "Hákarlinn" kæmi og æti þá.
Hvað voru þeir margir úr "háskóla og álitsgjafsamfélaginu" sem gjaldfelldu sig með eftirminnilegum hætti á "IceSave tímabilunum"? Bæði fyrir bankahrun, þegar þeir voru önnum kafnir við að kjósa "viðskipti ársins" og svo eftir bankahrun þegar hugmyndir þeirra snerust um "sósíalskar paradísir" og hlutskipti Íslendinga.
Bretar þekkja sömuleiðis slíkan málflutning vel af eigin raun. Þeir voru ófáir stjórnmálamennirnir, "sérfræðingarnir og álitsgjafarnir" sem upplýstu Breta um alla hina hræðilegu hluti sem myndu skella á þjóðinni ef hún tæki ekki upp euro á sínum tíma.
Bretland myndi einangrast, útflutningur hrynja, pundið hrynja o.s.frv. Bretland yrði "hnípin þjóð í vanda".
En hið þveröfuga gerðist. Líklega er sú ákvörðun Breta að standa utan við euroið einhver sú skynsamlegasta pólítíska ákvörðun sem þar hefur verið tekin um langa hríð.
Skyldi fullyrðingarnar sem dundu á Bretum þá, hafa gert sem er heldur eldri eru auðveldara að standa gegn "dómsdagsspám" þeim sem komu nú, þegar þeir greiddu atkvæði með því að yfirgefa "Sambandið"?
En ég held að engin mótmæli því að í kosningabaráttunni um "Brexit" hafi "já hliðin" gengið heldur langt í málflutningi sínum. En ég held að það sé engin ástæða til þess að horfa fram hjá því að það gerði "nei hliðin" sömuleiðis. Enda hafa þær efnahagslegu hörmungar sem þeir fyllyrtu að biðu Breta "daginn eftir" að þeir segðu já, hafa ekki komið í ljós. En vissulega eru Bretar enn í "Sambandinu".
Og euroið sjálft hefur ekki staðið undir þeim loforðum sem "sölumenn" þess gáfu. Það má ef til vill segja að það sé engin von til þess að gjaldmiðill geti gert það. En eins og einn af stuðningsmönnum euro upptöku á Íslandi orðaði það: Menn voru svo uppteknir af því að selja kosti eurosins, að þeir gleymdu að fjalla um gallana.
Það sama var að ýmsu leyti upp á teningnum hvað varðar Trump. Vissulega var málflutningur hans verulega ámælisverður á köflum. En framganga keppinautar hans hefur heldur ekki verið til fyrirmyndar, þó að því leyti hafi Trump og stuðningsmenn hans gengið mun lengra.
En framganga fjölmiðla og "sérfræðinga" var heldur ekki hnökralaus og ekki að ástæðulausu að fjölmiðill eins og New York Times sá sig knúinn til að biðjast í raun afsökunar á hlutdrægum fréttaflutningi sínum. Þar snerist þó málið í raun frekar um það sem fjölmiðillinn lét hjá líða að segja frá.
Því held ég að ef finna eigi sameiginlegan þráð með kosningaúrslitum undanfarinna missera, sé það ekki síst vantraust.
Vantraust á "Kerfinu", vantraust á stofnunum, vantraust á fjölmiðlum, vantraust á stjórnmálamönnum og vantraust á "talandi höfðum". Fyrir mörgum dugar reyndar eitt orð til að lýsa öllum þessum hópum, "Kerfið".
Enda á köflum eins og þessir hópar séu í "hringekju". Fjölmiðlamenn eru álitsgjafar, þeir gerast stjórnmálamenn, sem aftur gerast fjölmiðlamenn og enda svo sem embættismenn einhverstaðar.
Stjórnmálamenn keppast svo við að láta sjá sig með "slebbum", fá stuðningsyfirlýsingar frá poppstjörnum og kvikmyndaleikurum (sem betur fer þó ekki verulega algengt nema í Bandaríkjunum).
Tilfinningin sem æ fleiri finna er vantraustið.
Veruleikinn sem æ fleiri stjórnmálamenn standa frammi fyrir er að þeir þurfa að læra að hlusta, ekki predika.
Tilfinningar fram yfir staðreyndir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.12.2016 kl. 08:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2016 | 17:56
Niall Ferguson um Brexit - Ég hafði rangt fyrir mér (myndband)
Ég hef alltaf haft gaman af því að lesa það sem breski sagnfræðingurinn Niall Ferguson hefur skrifað og sömuleiðis að hlusta á það sem hann segir.
Hér eru myndbönd frá panel sem hann var í hjá Milken stofnuninni, þar sem fjallað var um Brexit og afleiðingar þess.
Fyrst er klippa þar sem innlegg Nialls hafa verið klippt saman, en síðan er "panellinn" í heild sinni.
Fróðlegt efni að hlusta á. Niall stendur sig ákaflega vel að mínu mati. Í máli hans kemur fram að hann viðurkennir að hafa haft rangt fyrir sér hvað varðaði Brexit (hann vildi áframhaldandi veru Breta í "Sambandinu") og á í nokkuð skörpum orðaskiptum við "sampanela" sína.
Virkilega þess virði að leggja við hlustir.