Gjaldfelldir sérfræðingarnir leita skýringa á því af hverju almenningur trúir þeim ekki

Það er alltaf gaman að reyna að kryfja málin. Spá og spegúlera hvaða orsakir liggja að baki ákvörðunum, ekki síst hópákvörðunum sem teknar eru í kosningum.

Það er í raun engin leið til að fullyrða um slíkt, þó að rannsóknir séu til á þessu sviði, þá eru breyturnar svo margar og jafnvel stundum hætta á því að viðfangsefnin segi ekki satt frá, ekki síst ef þau bera vantraust til þeirra sem framkvæma rannsóknirnar.

Stundum segja þau einfaldlega það sem þau telja að rannsakendurnir vilja heyra.

Ég hygg að varíenta af þessu megni að skýra að hluta til hve niðurstöður kosninga hafa komið á óvart og jafnframt hve á skjön þær hafa verið við álit "sérfræðinganna".

En ég tel líkur á því að það sé rétt að tilfinningar spili þar inn í, enda ætti aldrei að vanmeta þær.

En tilfinningar eru margskonar. Á meðal þeirra er vantraust. Ég held að það sé engin spurning að það spilar vaxandi hlutverk í því þegar kjósendur taka ákvarðanir.

Þar á meðal er vantraust á "sérfræðingunum", sem er ef til vill skiljanlegt, þegar litið er til þess hve þeir gjaldfella sig oft á tíðum.

Íslendingar þekkja dæmi um slíkt.

Eitt af þeim skýrari undanfarin ár er IceSave málið svokallaða.  Hve margir "sérfræðingar" komu ekki fram og spáðu Íslendingum "dauða og djöfuldómi" ef þeir samþykktu ekki samningana.

"Kúba norðursins", og "N-Kóreuvist", var það sem ætti að bíða Íslendinga ef þeir tækju ekki mark á "sérfræðingunum" og segðu já.  "Hákarlinn" kæmi og æti þá.

Hvað voru þeir margir úr "háskóla og álitsgjafsamfélaginu" sem gjaldfelldu sig með eftirminnilegum hætti á "IceSave tímabilunum"?  Bæði fyrir bankahrun, þegar þeir voru önnum kafnir við að kjósa "viðskipti ársins" og svo eftir bankahrun þegar hugmyndir þeirra snerust um "sósíalskar paradísir" og hlutskipti Íslendinga.

Bretar þekkja sömuleiðis slíkan málflutning vel af eigin raun. Þeir voru ófáir stjórnmálamennirnir, "sérfræðingarnir og álitsgjafarnir" sem upplýstu Breta um alla hina hræðilegu hluti sem myndu skella á þjóðinni ef hún tæki ekki upp euro á sínum tíma.

Bretland myndi einangrast, útflutningur hrynja, pundið hrynja o.s.frv. Bretland yrði "hnípin þjóð í vanda".

En hið þveröfuga gerðist. Líklega er sú ákvörðun Breta að standa utan við euroið einhver sú skynsamlegasta pólítíska ákvörðun sem þar hefur verið tekin um langa hríð.

Skyldi fullyrðingarnar sem dundu á Bretum þá, hafa gert sem er heldur eldri eru auðveldara að standa gegn "dómsdagsspám" þeim sem komu nú, þegar þeir greiddu atkvæði með því að yfirgefa "Sambandið"?

En ég held að engin mótmæli því að í kosningabaráttunni um "Brexit" hafi "já hliðin" gengið heldur langt í málflutningi sínum. En ég held að það sé engin ástæða til þess að horfa fram hjá því að það gerði "nei hliðin" sömuleiðis.  Enda hafa þær efnahagslegu hörmungar sem þeir fyllyrtu að biðu Breta "daginn eftir" að þeir segðu já, hafa ekki komið í ljós. En vissulega eru Bretar enn í "Sambandinu".

Og euroið sjálft hefur ekki staðið undir þeim loforðum sem "sölumenn" þess gáfu. Það má ef til vill segja að það sé engin von til þess að gjaldmiðill geti gert það.  En eins og einn af stuðningsmönnum euro upptöku á Íslandi orðaði það: Menn voru svo uppteknir af því að selja kosti eurosins, að þeir gleymdu að fjalla um gallana.

Það sama var að ýmsu leyti upp á teningnum hvað varðar Trump. Vissulega var málflutningur hans verulega ámælisverður á köflum. En framganga keppinautar hans hefur heldur ekki verið til fyrirmyndar, þó að því leyti hafi Trump og stuðningsmenn hans gengið mun lengra.

En framganga fjölmiðla og "sérfræðinga" var heldur ekki hnökralaus og ekki að ástæðulausu að fjölmiðill eins og New York Times sá sig knúinn til að biðjast í raun afsökunar á hlutdrægum fréttaflutningi sínum. Þar snerist þó málið í raun frekar um það sem fjölmiðillinn lét hjá líða að segja frá.

Því held ég að ef finna eigi sameiginlegan þráð með kosningaúrslitum undanfarinna missera, sé það ekki síst vantraust.

Vantraust á "Kerfinu", vantraust á stofnunum, vantraust á fjölmiðlum, vantraust á stjórnmálamönnum og vantraust á "talandi höfðum".  Fyrir mörgum dugar reyndar eitt orð til að lýsa öllum þessum hópum, "Kerfið".

Enda á köflum eins og þessir hópar séu í "hringekju". Fjölmiðlamenn eru álitsgjafar, þeir gerast stjórnmálamenn, sem aftur gerast fjölmiðlamenn og enda svo sem embættismenn einhverstaðar.

Stjórnmálamenn keppast svo við að láta sjá sig með "slebbum", fá stuðningsyfirlýsingar frá poppstjörnum og kvikmyndaleikurum (sem betur fer þó ekki verulega algengt nema í Bandaríkjunum).

Tilfinningin sem æ fleiri finna er vantraustið.

Veruleikinn sem æ fleiri stjórnmálamenn standa frammi fyrir er að þeir þurfa að læra að hlusta, ekki predika.

 

 


mbl.is Tilfinningar fram yfir staðreyndir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband