Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016

Tæpir 4. mánuðir í lífi tímarits

Ég fékk þessa mynd senda nú í morgunsárið. Það getur margt breyst á 4. mánuðum.

Time on Trump


Hver er lausnin fyrir Íslendinga í menntamálum?

Það má auðvitað ekki líta á PISA sem hinn endanlega stóra dóm yfir íslensku menntakerfi.

En það má heldur ekki líta fram hjá þeirri einkunn sem það fær. Það er varla til neinn betri samanburður á milli landa.

En burtséð frá því hvernig Ísland kemur út í samanburði við önnur lönd, er niðurstaðan ill ásættanleg og allra síst að þróunin liggur niður á við.

En hvað veldur?

Því er ábyggilega erfitt að svara, og á því sjálfsagt margar mismunandi skoðanir. En ég held að vandamálið verði ekki leyst með því einu að segja að það þurfi meiri fjárveitingar.

Niðurstaðan bendir til þess að eitthvað meira sé að en að lausnin geti verið fjármunir einir saman.

Ég held að Íslendingar hljóti að þurfa að huga að endurskipulagningu kerfisins í heild. Það er í raun undarlegt þegar litið er til þessarar niðurstöðu að gripið hafi verið til þess ráðs að stytta framhaldsskólann, eins og það væri líklegt til að skila betra menntakerfi í heild.

En eitt af því sem mér þykir eftirtektarvert við PISA niðurstöðuna er hvaða Evrópuland kemur í raun best út.  Það er ekki eitt af Norðurlöndunum, það er ekki eitt af "ríku" löndunum í N-Evrópu.

Það er Eistland sem kemur í raun best út þegar dæmið er skoðað í heildina, stærðfræði, náttúruvísindi og lesskilningur.

Til þess að gera fátækt land í A-Evrópu, þar sem þjóðartekjur eru verulega lægri en á Íslandi og landið eyðir líklega lægra hlufalli af þeim í menntun en Íslendingar.

Land sem neyddist til að skera heiftarlega niður í framlögum til menntunar vegna afleiðinga fjármálakreppunnar, vegna þess að Eistland safnar ekki skuldum.

Kennaranám er 5 ár, meðallaun þeirra um 1100 euro (sem er rétt yfir landsmeðaltali), byrjunarlaunin rúmlega 900 euro (sem er undir landsmeðaltali).

Landsmeðaltal fyrir bekkjarstærð er ekki ýkja há, en í borgunun (og sérstaklega í þeim skólum sem oft eru taldir "betri") er ekki óalgengt að yfir 30 nemendur séu í bekk.

Allir nemendur fá ókeypis hádegismat, yfirleitt einfalda rétti.

Einkarekstur þekkist á eistneskum skólum, en þó er líklega um 90% af grunnskólum reknir fyrir framlög hins opinbera.   En skólarnir eru sjálfstæðir, taka mikið af sínum ákvörðunum "innanhúss" og hafa mikið að segja um kennsluaðferðir.

Grunnskólar geta verið bæði "opnir" og "lokaðir", og vísar það til "umdæmis" og hvort þeir taka inn nemendur utan skólasvæðis.  Sumir skólar eru bæði, það er eru til dæmis með 2. "stofur" fyrir sitt umdæmi og svo eina eða tvær "stofur" fyrir nemendur "utan svæðis".  Í flestum tilfellum þurfa þeir nemendur að þreyta inntökupróf.

Þetta fyrirkomulag og sú samkeppni sem byggst hefur upp á milli skóla og á milli nemenda virðist henta Eistlendingum vel og hefur skilað þeim vel áfram í skólamálum.

Það er alls ekki þar með sagt að slíkt kerfi myndi henta á Íslandi.  En mér þykir þó það blasa við að Íslendingar þurfa að fara í uppskurð á sínu kerfi og leita fanga víða.

En skólakerfi er eitt af þeim kerfum sem alls ekki á að umbylta á stuttum tíma.

Það þaf að huga vel að málunum og vanda til verksins.

Til lengri tíma litið ætti það ekki að vefjast fyrir íslenskum nemendum að fara á sama hraða og nemendur annarr ríkja gera.  Útskrifast úr framhaldsskóla 18 ára.

En slíkar breytingar þarf að undirbúa vel.

Í Eistlandi má líklega skipta þeim ferli í þrennt (svo þeir séu einfaldaðir örlítið) 6. ár grunnskóli sem hefst við 7 ára aldur, 3ja ára miðskóli og svo 3ja ára framhaldsskóli.

Skólatími er ekki lengri en á Íslandi. Skóli hefst 1. september og lýkur í kringum 10. júni.

 

 


mbl.is Skuldum börnunum okkar að gera betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euro krísan: Almenningur orðinn langþreyttur á stjórnvöldum sem hlusta ekki

Það er gömul saga og ný að þjóðaratkvæðagreiðslur vekja ekki lukku innan Evrópusambandsins, hvorki að efna til þeirra, né niðurstöðurnar.

Það má segja að það sannist enn á ný, nú á Ítalíu. Matteo Renzi varð undir með hugmyndir sínar um stjórnarskrárbreytingar og það með miklum mun. Rétt um 60% þeirra sem greiddu atkvæði höfnuðu þeim. Þeim hefur enda ekki þótt rétt að verðlauna léleg stjórnvöld með frekari völdum.

Ef marka má fréttir þá snerist atkvæðagreiðslan, eins og oft vill verða, ekki nema að hluta til um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskránni.

Kjósendur vildu nota tækifærið að refsa stjórnvöldum og það er af nógu að taka í þeim efnum á Ítalíu.

Atvinnuleysi er í hæstu hæðum og hreyfist lítið niður á við, þó að atvinnuþátttaka minnki. Hagvöxtur er svo gott sem enginn og heildar hagvöxtur frá því að Ítalía tóku upp euroið er sömuleiðis óþægilega lágur. Skuldir ríkisins hafa aukist jafnt og þétt og eru nú yfir 130%/GDP. Fjármál héraðstjórna og borga eru sömuleiðis í mörgum tilfellum í kaldakoli.

Við þetta má bæta bankakerfi sem hriktir verulega í, fallandi útflutningshlutdeild og svo flóttamannastrauminn, sem mörgum Ítölum þykir "Sambandið" gera lítið til að hjálpa þeim að kljást við, hvað þá leysa.

Líklega mætti segja að þessu sé í raun haldið saman af Seðlabanka Eurosvæðisins, það er engin leið til að segja um hvernig ástandið væri án atbeina hans.

En Ítalir eiga enga leið til að "refsa" þeim sem halda um stjórnartaumana í Brussel, en grípa "það sem hendi er næst" sem er þeirra eigin forsætisráðherra, sem hefur þó gagnrýnt "Sambandið" í vaxandi mæli.

Það þykir "góð latína" nú til dags að tala með niðrandi tón um "populíska" flokka. En staðreyndin er sú að almenningur vill að á sig sé hlustað og tekið tillit til sjónarmiða sinna.

Það er lexía sem stjórnmálamenn þurfa að læra. "Alþjóðleg stjórnmála elíta", er ekki eitthvað sem hrífur kjósendur með sér, og þegar þjóðarleiðtogar eyða æ meiri tíma á "krísufundum" Evrópusambandsins, snúa kjósendur sér annað.

En það að má segja að það ríki krísa í Evrópusambandinu - nokkuð stöðugt. Í upphafi snerist hún fyrst og fremst um fjármálamarkaði, banka og euroið, en hún hefur færst í vaxandi mæli yfir á hið pólítíska svið.  Það er eðlilegt, enda euroið í eðli sínu verkefni sem tók meira tillit til hins pólítíska veruleika en hins efnahagslega.

Stjórnmálaleiðtogar hverfa á braut nú með vaxandi hraða.  Cameron, Renzi, Hollande þorir ekki að bjóða sig fram, fæstir höfðu áhuga á því að sjá Sarkozy aftur, nýjar ríkisstjórnir hafa verið myndaðir í Danmörku, Eistlandi og Litháen.

Svo verða kosningar í Frakklandi og Þýskalandi á næsta ári, þó að ég reikni og voni með að þær verði með heldur "hefðbundnari" sniði, ef nota má það orðalag.

Svo eiga eftir að verða magnaðar deilur innan "Sambandsins" næstu tvö árin, í það minnsta, vegna Brexit.

Það er í raun ótrúlegt að enn skuli aðildarumsókn vera stórt atriði í stjórnarmyndunarviðræðum á Íslandi.

 


mbl.is Frestar afsögn fram yfir fjárlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir frasarnir í bókinni

Það eru dagar frasanna hjá stjórnmálamönnum, jafnvel enn fremur en venjulega.

Það eru auðvitað allir lausnamiðaðir, þeir hyggja að verkferlunum, það eru málefnin sem eru aðalatriðið, ráðherraembætti eru ekki rædd (líklega vegna þess að þau skipta engu máli við að koma málefnunum áfram, eða hvað :-).

Fundirnir eru allir árangursríkir, þar fara fram hreinskilnar umræður og allt er upp á borðinu.

Stjórnmálaleiðtogarnir ná vel saman með viðmælendum sínum og flokkarnir eru samstíga í mörgum málum.

En svo gerist ákaflega lítið.

 


mbl.is „Fer bara inn í þetta lausnamiðuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kemur næsti forseti Frakklands frá vinstri eða hægri?

Það er ekki rétt að Sósíalistaflokkurinn franski eigi í erfiðleikum með að ákveða hver verður fulltrúi þeirra í forsetakosningunum á næsta ári. Þeir halda forkosningar þann 22. janúar næstkomandi, og seinni umferð (ef þarf) þann 29. sama mánaðar. 

En það er ekki ljóst hverjir verða þar í kjöri, enda framboðsfrestur ekki runninn út. Á meðal þeirra sem ekki hafa tilkynnt af eða á um framboð, er Hollande núverandi forseti og forsætisráðherra hans, Manuel Valls.

Nú þegar eru 4. einstaklingar komnir í framboð, en þó þykir mörgum líklegt að annað hvort Valls eða Hollande hafi sigur í forkosningunum, þó að hvorugur þeirra þyki líklegur til að komast áfram í seinni umferð forsetakosninganna sjálfra.

Nú er mikið gert úr því að líklega geti Frakkar eingöngu valið á milli tveggja hægri kosta þegar kemur að úrslitum forsetakosninganna.

Flestar spár og kannanir (ekki eins að þær hafi reynst "hoggnar í stein" upp á síðkastið) benda til þess að að slagurinn muni standa á milli François Fillon, frambjóðanda Lýðveldisflokksins og Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar.

Fillon þykir hallur undir (engilsaxneska) frjálshyggju í efnahagsmálum, en er íhaldsmaður hvað varðar samfélagsmálin, en hann hefur þó gefið út að hann hyggist ekki framfylgja sínum persónulegu skoðunum, í málum eins hjónabandi samkynhneigðra og hvað varðar fóstureyðingar. Ef til vill má í stuttu máli segja að hann hyggist ekki snúa klukkunni afturábak, en ólíklegt sé að réttindi á þessum sviðum aukist í stjórnartíð hans.

Hann hefur talað fyrir róttækum aðgerðum í efnahagsmálum, miklum uppsögnum í opinbera geiranum, lengingu vinnuvikunnar o.s.frv.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að það tíðkast að tala um Marine Le Pen og Þjóðfylkinguna sem hægri öfgaflokk.

Persónulega er ég ekki sammála þeirri greiningu, enda stór partur af stefnu hennar rétt eins og hún hafi verið tekin frá franska Kommúnistaflokknum á árunum fyrir og kringum 1980.  Og merkilegt nokk þá fékk Kommúnistaflokkurinn í kringum 20% atkvæða á þeim árum.

Kjósið mig og ég mun endurreisa velferðarkerfið, félagslegar varnir og bjarga ykkur frá Bandarísk stýrðri hnattvæðingu.

Ég mun opna heilsugæslustöðvar í smærri bæjum; útvíkka "lærlingakerfi", stofna háskóla fyrir listir og nytjalistir; setja pressu á landsstjórnina að halda póstútibúum og öðrum ríkisstofnunum opnum; og setja pressu á svæðisstjórnir að taka innlend fyrirtæki fram yfir erlend í viðskiptum.

Í stuttu máli má segja að þetta hafi verið boðskapur Le Pen í héraðskosningunum sem fóru fram seint á síðasta ári.

Boðskapur hennar fyrir forsetakosningarnar verður líklega svipaður. Þó er líklegt að tónninn um "Bandarísk stýrða hnattvæðingu" verði eitthvað endurskoðaður eftir kjör DJ Trump.

Le Pen stendur fyrir mikil ígrip hins opinbera í efnahagslífinu, verndarstefnu, strangt aðhald með fjölda innflytjenda, allt eins og Kommúnistaflokkurinn fyrir tæpum 40 árum. Íhaldssemi hennar í samfélagsmálum hefði komið kommúnistum í kringum 1980 lítið á óvart, nema auðvitað að kaþólska kirkjan var ekki í hávegum höfð hjá þeim.

Hvernig úr þessu muni spilast ef Fillon og Le Pen muni berjast í seinni umferð forsetakosninganna er erfitt að spá um.

Flestir á vinstri væng franskra stjórnmála "hata" Le Pen eins og pestina.  En stefnulega séð stendur hún þeim mikið nær en Fillon.

Miðað við stöðu efnahagsmála í Frakklandi í dag, telst stefna Fillon líklega mun róttækari en Le Pen - að einu atriði undanskildu - afstöðunni til Evrópusambandsins (franskir kommúnistar, sumir hverjir, hafa viljað rifta Maastricht samkomulaginu og búa til "nýtt Samband").

Það er því mikil einföldun, ef ekki beinlínis rangt, að líkur séu á því að Frakkar muni aðeins geta valið á milli hægri og hægri stefnu í forsetakosningunum.

Le Pen býður þeim stefnu til vinstri, það mun Sósialistaflokkurinn að sjálfsögðu einnig gera og það mun að öllum líkindum svo verða kjósendur hans sem munu ráða úrslitum í seinnig umferðinni.

Margir telja að "trendið" um að kjósa "gegn kerfinu" muni sigra í Frakklandi og Le Pen eigi góða möguleika. 

Frakkar eru hins vegar nokkuð þekktir fyrir að vera á skjön við "pólítísk trend" og hafa líklega verið það í það minnsta frá lokum seinna stríðs.

Ég er því þeirrar skoðunar að Fillon muni hafa góðan sigur, það er þrátt fyrir allt hann sem er að boða breytingar, þrátt fyrir að hann hafi verið partur af "kerfinu" í bráðum 40 ár.

En það er enn langt til kosninga og ótal margt eftir að gerast sem getur haft áhrif á úrslitin.

Ekki síst ef að svo illa færi að frekari hryðjuverk yrðu í Frakklandi.


mbl.is Munu Hollande og Valls takast á?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband