Bloggfærslur mánaðarins, maí 2015

Píratar "ræna" atkvæðum hægri vinstri

Þetta er að mörgu leyti merkileg könnun, mesta fylgi sem mælst hefur við einn flokk, 30%, er við Pírata.

Ætli þetta gæti ekki gefið þeim 25 þingmenn eða svo, á kjördegi ef þeir halda slíku fylgi? Svona ef skiptingin er þeim hagstæð.

En það er hætt við að þeim reynist erfitt að halda þessu fylgi allt til þess er kjörstaðir loka, en þó ekki ómögulegt.

Mestu skiptir líklega hvernig Pírötum tekst til að byggja upp flokkinn og svo hvernig skipast á framboðslista í næstu kosningum.

Nú til dæmis skilst mér að sá þingmaður þeirra sem ég hef talið fremstan, sé að hætta nú í vor.

Hvernig verður sá sem fyllir í skarðið á eftir að koma í ljós.

En þessi staða hlýtur að vera öðrum flokkum all nokkurt umhugsunarefni.

Enginn þeirra er í stöðu sem þeir kæra sig um að vera.  Ríkisstjórnarflokkarnir tapa fylgi jafnt og þétt, en hinir hefðbundnu stjórnarandstöðuflokkar ná litlu sem engu af því til sín.

Guðmundur Steingrímsson og félagar, virðast síðan eiga Bjarta framtíð að baki, alla vegna sé litið til þróunar í skoðanakönnunum.

En hvað er það sem veldur því að Píratar sækja fylgi í svo ríkum mæli, bæði frá hægri og vinstri?

Að mínu mati er erfitt að taka eitt atriði út úr málflutningi Pírata og segja að það skýri fylgisaukninguna.

Og að hluta til er það freistandi að halda því fram að fylgisaukningin sé ekki síður til komin vegna óánægju með aðra flokka, en að kjósendur fylki sér um málefni Pírata.

En það þýðir ekki að aðrir flokkar geti leyft sér að að líta á þetta fylgi sem stundarfyrirbrigði. Nei, full ástæða er til þess fyrir þá að líta þetta "alvarlegum augum".

En þó að mörgu leyti sé erfitt að gera sér grein fyrir stefnu flokks Pírata, og talsmenn þeirra tali á stundum nokkuð "út og suður" (það er þó líklega ekki meira en hjá öðrum flokkum, hygg ég að krafa þeirra um aukið lýðræði og vernd réttinda einstaklinga (á sumum sviðum) falli almennt nokkuð vel í kramið.

En það sem ég held að dragi ekki síður að, er að þingmenn þeirra koma fram og fyrir sem "venjulegt fólk", með sínum kostum og göllum.  Einstaklingar sem hafa ekki "fetað brautina" og valið hina "hefðbundnu" leið að þingsæti.

Og eins og ég sagði áður, þá er sá þingmaður Pírata sem mér hefur litist hvað best á að hætta nú í vor. Ef ég man rétt sá ég einhvers staðar að hann reiknaði með að "fara aftur í malbikið".

Það er ágætlega hressandi að lesa slíkt, og auðvitað er ekkert sem kemur í veg fyrir að hann bjóði sig að nýju fram í næstu kosningum.

Það er alls endis óvíst að Píratar nái slíku fylgi sem þeir hafa nú í næstu kosningum. Mér finnst það reyndar ólíklegt að slík verði raunin, þó að þeir komi líklega til með að vinna verulega á.

Bæði er það að mér þykir líklegt að hinir "hefðbundnu" flokkar muni að nokkru ná vopnum sínum, og svo er alls ekki útilokað að fleiri flokkar komi til sögunnar.

En ef að Píratar ná að hrista upp í stjórnmálakerfinu og ýta við hinum hefðbundnu flokkum, er það tvímælalaust af hinu góða.

 

 

 

 

 


mbl.is Píratar á hraðri siglingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband