Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Allt dýrara á Íslandi miðað við höfðatölu?

Í umræðum um Ríkisútvarpið undanfarna daga hefur oft mátt sjá þá röksemd að eðililegt sé að rekstur slíkrar stofnunar kosti mun meira per íbúa á Íslandi en hjá stærri þjóðum.

Í sjálfu sér er ekki hægt að bera á móti því að ýmis rök styðja við slíkar fyllyrðingar.

Líklega mætti þá segja að býsna margt annað ætti að vera mun dýrara á íbúa á Íslandi en í fjölmennari löndum.

Líklega er sínfónían dýrari á hvern íbúa, listasöfn sömuleiðis, Þjóðleikhúsið, íþróttaiðkun, vegakerfið, heilbrigðiskerfið og svo mætti eflaust lengi áfram telja.

Sannleikurinn er þó líklega sá að svo er í sumum tilfellum, en öðrum ekki.

Það liggur í hlutarins eðli að oftast nær geta Íslendingar ekki leyft sér meira en að eyða svipuðu hlutfalli af þjóðartekjum, eða skatttekjum og aðrar þjóðir til sambærilegra hluta.

Það blasir við að ef flestir hlutir væru dýrari á hvern íbúa en hjá öðrum þjóðum, væru lífskjör Íslendinga verulega slakari en þekkist annars staðar, því þó að þjóðartekjur á einstaklinga séu með ágætum á Íslandi, skara þær á engan hátt fram úr.

Það liggur því í hlutarins eðli að íslendingar verða að sníða sér stakk eftir vexti. Flestum þætti líklega eðlilegt að slíkt snið næði jafnt yfir Ríkisútvarpið og aðra starfsemi.

En vissulega má deila um það eins og flest annað. Það er einmitt það sem er verið að gera þessa dagana og getur varla talist óeðlilegt.

Ríkisútvarpið er að mörgu leyti merkileg stofnun, en flokkast þó ekki undir grundvallarþjónustu ríkisins, eða þá mikilvægustu, alla vegna ekki í mínum huga.

 


Maastricht skilyrðin

Ég var að þvælast um netið þegar ég sá á einhverju bloggi að verið var að ræða að ef færi fram sem horfði, og "stöðugleikaaðgerðin" tækist vel og gjaldeysishöft yrðu afnumin, væri Ísland í þeirri stöðu að uppfylla flest skilyrði Maastricht samkomulagsins, hvað varðar upptöku á euro.

Það vantaði eingöngu að uppfylla skilyrði hvað varðaði vaxtakjör.

En hvað varðaði verðbólgu, afkömu hins opinbera (skuldir og halla) og jafnvel gengistöðugleika lyti dæmið vel út fyrir Ísland.

Þetta telja ýmsir merki þess að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið.

Það er vissulega rétt að horfur í efnahagsmálum Íslendinga eru að mörgu leyti öfundsverðar. Sigur er ekki unninn, ef svo má að orði komast er útlitið er gott og kúrsinn virðist réttur.

Flest stefnir í rétta átt og til betri vegar.

Verðbólga er lág, skuldir hins opinbera (og reyndar heimilanna einnig) fara lækkandi, atvinnyuleysi er lágt, kaupmáttur eykst og framtíðarhorfur all bjartar.

Hví í ósköpunum ætti slík staða að hvetja íslendinga til að ganga í "Sambandið" og taka upp euro?

Hvað mörg euroríki skyldu nú uppfylla skilyrðin til að vera þar, eftir mislanga dvöl sína á myntsvæðinu?

Skyldi Eurosvæðið sem heild (meðaltal ríkjanna) uppfylla skilyrðin sem þar gilda?

Hvert er atvinnuleysið á Eurosvæðinu?

Það er á Eurosvæðinu að nú er glaðst yfir því að í síðasta mánuði, jókst "verðbólga" og varð 0%, svæðið er, alla vegna í bili, komið út úr verðhjöðnun.

Það er á Eurosvæðinu, að glaðst er yfir því að atvinnuleysi dróst saman um 0.3%, og er nú ekki nema 10.8%, það lægsta í 3. ár.

Vissulega eru vextir lágir á Eurosvæðinu, verulega svo en á Íslandi. Seðlabanki Eurosvæðiðisins hefur nú stýrivexti sína í mínus og "prentar" peninga eins og enginn sé morgundagurinn.

Slík er örvæntingin við að reyna að "hrista" líf í efnahag svæðisins.

Að bera saman vexti á Íslandi við nágrannalönd sem standa í stórfelldri preningaprentun og öðrum aðgerðum til að keyra gengi gjaldmiðla sinna niður, er langleiðina út í hött.

Reyndar eru æ fleiri að komast á þá skoðun að (of) lágir vextir séu alvarleg meinsemd sem skapi æ fleiri vandræði til framtíðar, því lengur sem þeir gilda, en það er önnur saga.

 


Evrópusambandið eða lýðræði?

Ég get heilshugar tekið undir með forseta Portúgals þegar hann segir að vinstri stjórn sé ekki það sem Portúgal þarfnist nú.

En þrátt fyrir það er ég alfarið á móti því framferði hans að hundsa meirihlutann á nýkjörnu þingi Portúgal og sniðganga þannig vilja portúgalskra kjósenda.

En það kemur í ljós æ oftar að leiðir lýðræðisins og Evrópusambandsins séu ekki samþættanlegar.

Setningar úr fréttinni vekja ugg, og sýna út í hvaða ógöngur ríki innan Evrópusambandsins láta "hagsmuni" þess leiða sig.

"For­set­inn sagði að lýðræðið yrði að víkja fyr­ir regl­um evru­svæðis­ins og aðild­ar­inn­ar að því sem vörðuðu mik­il­væg­ari hags­muni. Eng­in rík­is­stjórn í Portúgal hefði í þau 40 ár sem landið hefði verið lýðræðis­ríki nokk­urn tím­ann stuðst við „and­evr­ópsk öfl“. Þar ætti hann við öfl sem hefðu meðal ann­ars bar­ist gegn Lissa­bon-sátt­mála Evr­ópu­sam­bands­ins, væru hlynnt því að Portúgal segði skilið við evru­svæðið og vildu að NATO yrði leyst upp."

Hvort að forsetanum var gert ljóst að Seðlabanki Eurosvæðisins myndi grípa til "sinna ráða" ef stjórnmálaöfl sem ætluðu ekki að hlýða kæmust til valda, eða hvort forsetinn var sinn "eigin herra" veit enginn, en fordæmi þess að Seðlabankinn virki sem "handrukkari" Eurosvæðisins, vekja vissulega spurningar.

En það er ljóst að að í Portúgal gilda ekki lengur niðurstöður lýðræðislegra kosninga, þar tekur forsetinn það sem hann telur hagsmuni Eurosvæðisins framyfir.

Verðum við þá að telja að þeir hagsmunir séu andsnúnir lýðræði?

 

 

 

 


mbl.is Vill ekki vinstriflokka í ríkisstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frjálslyndið hefur alltaf átt heimili í Sjálfstæðisflokknum

Frjálslyndisvindar virðast hafa átt allgreiða leið inn í Laugardalshöll, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hélt landsfund sinn um nýafstaðna helgi.

Það er vel.

En það er undarlegt að lesa fréttir og "spegúleringar" þess efnis að vegna þess að frjálslyndið hafi sótt á í ályktunum Sjálfstæðisflokksins hafi hann verið "Píratavæddur",eða tekið skarpa "vinstri beygju".

En Sjálfstæðisflokkurinn hefur í gegnum tíðina verið mannmargur flokkur, og mikil "breiðsíða". Þannig hafa frjálslyndir sjálfstæðismenn deilt flokki sínum og ýmsum skoðunum, með mörgum öðrum.

Þar með töldum íhaldsmönnum, kristilegum íhaldsmönnum og þeim sem ég kalla stundum í hálfkæringi "kristilega talíbana".

En styrkleiki hins frjálslynda hluta Sjálfstæðisflokks hefur farið upp og niður í gegnum tíðina, og það sem er talið frjálslyndi hefur sömuleiðis breyst.

Þannig hefur ytri ásýnd flokksins verið misjöfn, og frjálslyndið verið misjafnlega sýnilegt.

Það er óskandi að nú fari í hönd langt (ef ekki eilíft) tímabil þar sem frjálslyndið verður í fararbroddi í Sjálfstæðisflokknum.

Þó ávallt þannig að frelsi einstaklingsinga og réttindi þeirra séu í fararbroddi.

Ég hygg að það séu ekki endilega margir af sjálfstæðimönnum, eða þeim sem hafa kosið flokkinn í gegnum tíðina,  sem eru 100% ánægðir með ályktanir landsfundar.  Ekki er ég það.

En mér finnst samt að stefnan hafi að all nokkru leyti verið "leiðrétt" og kúrsinn settur fram á við.

P.S. Eitt af vandamálunum við umræðu sem þessa, er að sjálfsögðu mismunandi skilgreiningar á hugtökum eins og frjálslyndi og frelsi. Þar eins og mörgum öðrum málum eru skiptar skoðanir.


mbl.is Frjálslyndið í fyrirrúmi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er kyrrstaða alræðisins betri?

Þegar sterkir ein- og alræðisherrar falla skapast oft ástand sem sýnist litlu eða engu betra en það alræði, misþyrmingar og kúgun sem þeir eða stjórnir þeirra standa fyrir.

Sterkt einræði er oft á yfirborðinu, stöðugt og "gott" stjórnskipulag. Þegar ein/alræðis fellur, fylgir gjarna upplausn, ringulreið og "grimmd" í kjölfarið, eða innan fárra ára.

Sagan geymir mörg dæmi um slíkt.

Franska byltingin sem er gríðarlegar mikilvægur atburður í sögu Evrópu (og í raun heimsins alls), fæddi af sér "hryðjuverkastjórn" og ekki löngu síðar var aftur komið á einveldi í Frakklandi.

Þó hygg ég að fáir séu þeirrar skoðunar að betur hefði farið á að Franska byltingin hefði aldrei orðið.

Rússneska byltingin hafði ekki síður blóðbað í för með sér, og þó að upphaflega byltingin hefði að mörgu leyti jákvæðar rætur, verður það sama ekki sagt um þá bolsevísku.

Í kjölfarið fylgdi blóðbað, og eyðilegging trúartákna og fornminja, sem helst minnir á framgöngu Talibana og ISIL í samfélagi nútímans.

Í kjölfar sigurs lýðræðisaflanna í fyrri heimstyrjöld, fylgdi uppgangur alræðisafla.

Í lok seinni heimstyrjaldar voru lýðræðisöflin illa undirbúin fyrir sigurinn, sem hafði í för með sér að þó að þau hefðu mikið lagt til hans, var eingöngu skipt um ein/alræðisherra í stórum hluta Evrópu.

En hið kommúníska heimsveldi sem byggðist upp eftir seinni heimstyrjöld fól í sér feigðina, þannig að frekar var spurning um hvenær en hvort það riðaði til falls.

En fallið þýddi í för með sér hörmungar, ofbeldi og í sumum tilfellum blóðug stríð. Afleiðingar þess að al/einræðisherra Júgóslavíu gekk á vit feðra sinna og "sterka aflið" sem hélt ríkinu "saman" hvarf er líkleg mörgum í fersku minni.

Í Rússlandi er ekki enn útséð um hvernig "spilast" úr kaosinu sem fylgdi hruni kommúnismans, og hvort að einræði eða lýðræði verður ofan á. Útlitið er þó ekki jákvætt þessa stundina.

Þannig er erfitt að sjá fyrir hvað gerist, og auðveldara að "vinna stríðið" en að "vinna friðinn"

Þannig veit enginn hvort að t.d. Kúbu tekst að feta leiðina til aukins lýðræðis án upplausnar.  Það sama gildir um hina "sósíalölsku paraadís" í Venezuela. Þar er upplausn þegar farin að festa rætur.

Það sama má segja um ein/alræðisríki eins og t.d N-Kóreu og olíuríkin við Persaflóa. Engin veit hvort að þau ná einhverntíma að snúast á lýðræðisbraut, eða hvort það verður án ofbeldis og upplausnar.

En slikt væri vissulega óskandi.

En frelsi og lýðræði eru gæði sem vissulega er ýmsu fórnandi fyrir.

Kyrrstaða og "svikalogn" eða "friður" ein/alræðis kann vissulega að virka heillandi, en oftar en ekki er það virði verulega fórna að fella það.

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Heimurinn betri með Saddam og Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Offramboð á yfirvöldum?

Það hefur aukist að fyrrum sjálfstæði ríki eða einstök héruð viji kljúfa sig úr ríkjasböndum að nýju, jafnvel eftir hundruði ára samstarf.

Þar á meðal er Katalónía, en á Spáni hafa Baskar (eða alla vegna stór hluti þeirra) sömuleiðis lengi viljað öðlast sjálfstæði.

Flsestum ætti að vera í fersku minni atkvæðagreiðsla um sjálfstæði í Skotlandi, og ekki er langt síðan Tékkóslovakía skiptist í tvennt.

Júgóslavía brotnaði sömuleiðis upp, og margir hafa efasemdir um framtíð Belgíu.

Færeyjar og Grænland hugleiða aðskilnað frá Danmörku og barátta íbúa Quebec er sömuleiðis vel þekkt.

Fjöldamörg önnur dæmi má finna víðsvegar um heiminn.

Ef til vill er þetta ekki síst tilkomið vegna "offramboðs á yfirvöldum". Borgararnir vilja færri "yfirmenn", stytri boðleiðir.

Ef við tökum "týpíska" borg í Evrópusambandinu, er ekki ólíklegt að stjórnkerfið sé  eitthvað á þessa leið:

Í borginni eru að sjálfsögðu hverfisráð (í þeim stærri), síðan kemur borgarstjórn, í mörgum ríkum er síðan fylkis eða héraðsstjórn, með sitt eigið þing, síðan er auðvitað landsstjórnin og þing, og svo er Brusselveldið, með sitt þing og tilskipanir.

Persónulega þykir mér það ekki þurfa að koma á óvart að vilji sé til að "klippa" eitt eða fleiri stig af.

Borgararnir líta svo á að "yfirmennirnir" eigi að gæta hagsmuna sinna og vita sem er að þeir eiga það til að þynnast út, eftir því sem þau fara í gegnum fleiri "síur".

 


mbl.is Sjálfstæðissinnar lýsa yfir sigri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Slæm söguleg reynsla

Það er vissulega óskandi að það takist að ná sáttum í Ukraínu, þó að erfitt sé að sjá hvernig það gerist.

En ríki A-Evrópu hafa af því slæma reynslu þegar Þýskaland og Rússsland/Sovétríkin hittast og ákveða hvernig landamæri og áhrifasvæði skuli vera.

Hvort að þátttaka Frakklands breyti þar einhverju um á eftir að koma í ljós.

En það er vissulega nokkuð sérstakt þegar reynt er að finna lausnir á deilum, án þess að deiluaðilarnir séu hafðir með.

Það segir þó ef til vill nokkuð um hver staða Ukraínu og svokallaðra "aðskilnaðarsinna" raunverulega er.


mbl.is Pútín, Merkel og Hollande funda um Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband