Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

Eru það öfgar að vilja takmarka fjölda innflytjenda? Er Franski Sósíalistaflokkurinn "óstjórntækur"?

Öfgar eru að verða eitt útbreiddasta orðið í umræðu um stjórnmál á Íslenskum vefsíðum.  Það eru ótrúlega margir, ótrúlega umburðarlyndir sem vilja kalla flesta sem eru ekki sammála þeim öfga hitt eða þetta.

Rétt er þó að hafa í huga að því sem næst aldrei er talað um öfga vinstrimenn, eða öfga vinstriflokka.  Þeim mun oftar er talað um öfga hægrimenn, eða öfga hægri flokka.

Líklega eru flestir vinstrimenn svo hófstilltir og miðjusæknir, eða hvað?

Eitt er afar vinsælt í öfgaumræðunni, en það eru þeir stjórnmálamenn eða flokkar sem hafa lýst sig andsnúna óheftum straumi innflytjenda til þeirra landa sem þeir starfa í.

Það er algengt að reynt sé að stimpla þá "öfga" eitthvað, eða jafnvel tala um þá sem útlendinga eða kynþáttahatara.

En hvaða ríki heimsins hefur engin höft hvað varðar innflytjendur?

Og þó að óheft flæði fólks sé einn af hornsteinum Evrópusambandsins, er langt í frá að þar ríki ekki strangar takmarkanir fyrir innflytjendur frá löndum utan "Sambandsins".

Fjöldi búða fyrir ólöglega innflytjendur má finna víða um lönd "Sambandsins". Í mín eyru er fullyrt að þar sé farið svo illa með þessa "útlendu" einstakling og mannréttindi þeirra svo lítilsvirt, að til sumra landa "Sambandsins" sé ekki forsvaranlegt að senda einstaklinga þangað frá Íslandi, í samræmi við alþjóðlegar samþykktir.

Er það dæmi um öfgastefnu?  Er það dæmi um kynþáttahyggju?

Er opinber stefna Evrópusambandsríkja dæmi um hvoru tveggja?

Eða kemst öfgastefnan og "rasisminn" aðeins á hættulegt stig þegar vilji er til að takmarka för innflytjenda á milli "Sambandsríkja"?

Er Franski Sósíalistaflokkurinn "rasískur flokkur", vegna þess hvernig stjórnvöld Frakklands ganga fram gegn Rómafólki í Frakklandi og senda það til síns heima?

Er það ef til vill dæmi um vinstri öfgaflokk?

Eða er hann kannski "óstjórntækur", jafnvel þótt að hann fari með stjórn Frakklands og hafi í kosningum hlotið til þess fylgi?

Hvað er hægt að takmarka innstreymi innflytjenda mikið, eða lítið, án þess að fá þann stimpil að um öfga, útlendingahatur eða kynþáttahyggju sé að ræða?

Eða er það ef til vill umræðan um öfgar sem er komin út í öfgar?

 

 


NATO heldur enn trúverðugleika sínum, en ...

NATO heldur enn trúverðugleika sínum og hefur líklega gert meira en nokkurt annað fyrirbrigði til þess að tryggja frið í Evrópu á undanförnum áratugum. 

Það sést enda hve miklar vonir (og einnig að hluta til kröfur) ríki bandalagsins í A-Evrópu hafa til þess.  Þau ríki bandalagsins sem eru einnig í Evrópusambandinu, treysta frekar á sáttmála NATO en styrkleika "Sambandsins".

En vissulega er trúverðugleikinn vandmeðfarinn og það má með rökum halda því fram að hann hafi beðið nokkurn skaða af "ævintýrum" bandalagsins í fjarlægum löndum.  Eftir á að hyggja hefði ef til vill verið betra að koma á fót öðrum stofnunum til að annast slíkt.

En eftir fall Sovétríkjanna og upplausn Varsjárbandalagsins, fannst mörgum að NATO væri komið í tilvistarkreppu og skjóta þyrfti frekari stoðum undir tilvist þess.

En varnir fara ekki úr tísku, eða verða óþarfar þó að fríðvænlegra kunni að horfa um stundarsakir.

Það hefur svo sannarlega komið í ljós undanfarna mánuði og má ef til vill segja að Putin og Rússland hafi minnt NATO á sinn upprunalega tilgang með eftirminnilegum hætti.

Sem sé að tryggja varnir og öryggi bandalagsríkjanna.

Þessi áminning frá Rússum hefur einnig orðið til þess að ýmsir hafa velt því fyrir sér hvort að of rösklega hafa verið gengið í því að stækka bandalagið og hvort að grunnverkefni þess sé að verða því ofvaxið.

Það hefur sömuleiðis orðið till þess að ekki líst öllum of vel að Finnar og Svíar gangi í NATO, því þeir hafi takmarkað fram að færa en auki verulega á skyldur bandalagsins.

Sú tilhneyging Evrópuþjóða að draga sífellt úr úgjöldum til varnarmála, en kalla því sterkar eftir nærveru Bandaríks herliðs þegar eitthvað á bjátar, kann einnig að draga dilk á eftir sér til lengri tíma litið. 

Það hefur verið óopinbert viðmið innan NATO að aðildaríki verji ca. 2% af þjóðarframleiðslu til varnarmála. Í dag eru fjögur ríki innan bandalagsins sem ná því marki, Bandaríkin, Bretland, Grikkland og Eistland.

Það hlýtur að vekja upp spurninguna hvaða kröfur ríki geti gert til NATO, ef þau gera engar kröfur til sjálfs sín og vanrækja varnir sínar?

En kjarni NATO er sú grein sáttmála þess sem segir að öllum aðildarríkjum sé skylt að koma öðrum aðildarríkjum til hjálpar ef á það er ráðist.  Að árás á eitt ríki þess, jafngildi árás á þau öll.

Á meðan aðildarríkin standa að baki þeirri grein heldur NATO trúverðuleika sínum.  Um leið og hún væri brotin væri trúverðugleikinn fyrir bí og bandalagið ónýtt.

En samtíminn sýnir að tími NATO er ekki liðinn og mun aldrei líða undir lok. Þó friðvænlega kunni að horfa um stundarsakir.  Slíkt er engin trygging inn í framtíðina.

Það verður alltaf þörf fyrir traustar varnir, bandamenn og samstöðu.


mbl.is Skortir NATO trúverðugleikann?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott í útrás

Það er gott mál að útflutningur á Íslensku sælgæti sé í sókn. Frábært að lesa að sælgætisframleiðandi eins og Freyja flytji út meira en 20% af framleiðslu sinni.

En Íslenskt sælgæti er gott.  Það er fyllilega sambærilegt að gæðum við flest það sælgæti sem framleitt er erlendis.  Stundum dulítið öðruvísi, en gott.

Það er ekki að undra að hin Íslenska samsetning á lakkrís og súkkulaði vekji lukku, enda góð "tvenna" á ferðinni sem ekki er á boðstólum víða.

En það er vert að gefa gaum, eftirfarandi orðum í greininni:

„Með veik­ari krónu skap­ast tæki­færi til út­flutn­ings. Þegar krón­an er á þeim slóðum sem hún var fyr­ir hrun, þá eiga menn í mikl­um erfiðleik­um með að flytja út.“

Hin Íslenska króna, sem féll  illa hefur hjálpað útflutningsgreinunum, gert ferðaþjónustunni kleyft að þenjast út með undraverðum hætti og þannig mildað höggið sem hlaust af bankahruninu.

Vissulega er það ekki án þess að erfiðleika á öðrum sviðum.  En hvað er rétt gengi? Á það að vera fast?  Hvar á það að vera fast?

Hvernig væri umhorfs á Íslandi ef gjaldmiðilinn hefði ekki falllið?  Hvað hefðu launin þurft að lækka mikið, hvað væri atvinnuleysið mörg %stig?

En auðvitað hefðu þeir sem áttu fé ekki tapað neinu, verðmæti þess hefði haldist stöðugt.

 


mbl.is Freyja stóreykur útflutning á sælgæti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað snæða þeir í Kína?

Það er gott mál að kynna Íslenskar afurðir í Kína.  Það er mikilvægt að Íslendingar reyni eftir fremsta megni að nýta sér fríverslunarsamninginn sem nú er í þann veginn að taka gildi.

Hinn Kínverski markaður er stór og vaxandi kaupgeta og eftirspurn erftir gæðavörum, jafnt matvælum sem öðru.

Framleiðendur af Íslenskri stærðargráðu þurfa ekki að komast inn nema á nema littla "niche markaði" í Kína til að um muni.

Það er einnig nauðsynlegt fyrir Íslendinga að dreifa útflutningi sínum á sem flesta markaði og vera ekki háðir neinum einum um of.

Það er því fyllsta ástæða fyrir Íslensk fyirtæki að horfa vongóðum augum til Kína og reyna eftir fremsta megni að koma sér fyrir á þeim stóra markaði.

 

 

 

 


mbl.is Kynna íslenskar afurðir í Kína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fríverslun hvað?

Á undanförnum mánuðum hafa ýmsir talað á þann veg að fríverslunarsamningur á milli Bandaríkja Norður Ameríku og Evrópusambandins verði kominn á innan tíðar og í raun sé það hálfgert formsatrði að ganga frá honum.

Viljinn sé það mikill beggja vegna Atlantshafsins.

En þegar litið er til þeirra tveggja mála sem er vísað til í þessari frétt, lagasetningu til höfuðs Amazon og Netflix, sést að það er langt í frá gefin niðurstaða.

Þegar að auki haft er í huga það uppnám sem tilboð General Electric í Franska fyrirtækið Alstom hefur vakið, sést hins vegar að það getur og er líklegt að það bregði til beggja vona með samninginn.

Þá hefur ekki verið minnst á hið öfluga lobbýkerfi landbúnaðarframleiðenda bæði vestan hafs og austan.

En það er auðvitað hræðilegt að selja bækur með afslátti og bjóðast ofan í kaupið til að senda þær ókeypis heim.  

Sterkir Evrópskir hagsmunir eru augljóslega fyrir því að það sé bannað.


mbl.is Frakkar setja lög til höfuðs Amazon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rugl, bull og vitleysa

Það að 2018 einstaklingar heiti því að borða ekki hvalkjöt og vilji eða hvalveiðum verði hætt er algerlega meiningarlaust, hefur enga þýðingu og er engin ástæða til að veita athygli, eða í raun hlusta á.

Vilji þessir einstaklingar ekki borða hvalkjöt er það að sjálfsögðu þeirra val og mál.  Það er engin ástæða fyrir aðra að taka sérstakt tillit til þess.

Ekki frekar en að sérstök ástæða er fyrir alla þá sem njóta þess að borða kjöt að hætta því, vegna þess að svo mörg þúsund, eða hundruð þúsunda einstaklinga hafa ákveðið að vera grænmetisætur (eða það að borða eingöngu grænmeti).

Val eins (eða fleiri) skuldbindur ekki á nokkrurn hátt annan einstkling til að fylgja fordæmi hins, eða segir að valið sé rangt.

Hins vegar er eðlilegt og sjálfsagt að umgangast dýr, bæði villt og ræktuð, í sjó og á landi af virðingu og með eðlilegri nýtingu í huga.

Það er ekkert sem bendir til þess að hvalveiðar Íslendinga stefni nokkrum hvalastofnum í hættu. Þvert á móti er eðlilegt að nýta hvali, rétt eins og aðra nytjastofna á Íslandsmiðum.

Kjötið af þeim borða svo að sjálfsögðu eingöngu þeir einstaklingar sem hafa á því list og finnst eðlilegt að hvalir séu veiddir.

Rétt eins og nautakjöt borða aðeins þeir sem finnst eðlilegt að snæða kjöt og dýr séu alin til þess að nýta þau til matar, leðurs o.s.frv.

Annað er einfaldlega rugl, bull og vitleysa.

Því er engin ástæða til að taka undirskriftasöfnun eins og þess hátíðlega.

 

 

 


mbl.is Heita því að borða ekki hval
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður dagur án efa, en verða góðir mánuðir og ár?

Ég tek undir það að það er góður dagur að Evrópusambandið skrifi undir frekara samstarf við Ukraínu, Georgíu og Moldóvíu. 

Aukið samstarf þjóða á mill er af hinu góða og allar þjóðir eiga rétt á því að velja sér samstarfsaðila, án afskipta eða yfirgangs nágrannaþjóða.

En það sem mestu skiptir í slíku samstarfi er heiðarleiki og þrautseigja.  Það er að segja að hvor aðilinn um sig verður að vera reiðubúinn til að standa við samkomulagið, styðja hvorn annan og láta sameiginlega hagsmuni ráða för.

Því miður vill slíkt ekki alltaf verða raunin.

Þó að dagurinn í dag verði góður, og allir aðilar lýsi yfir hamingju, ánægju og velþóknun yfir hinum nýju samingum, eru það komandi mánuðir og ár sem skipta mestu máli.

Er Evrópusambandið reiðubúið til að standa þétt við bakið á Ukraínu, Georgíu og Moldóvíu, ef og þegar Rússland beitir þau þrýstingi? Hvað langt er Evrópusambandið reiðubúið til að ganga til að standa með þessum ríkjum gegn Rússum?

Því miður er saga Evrópusambandsins og ríkja þess ekki með þeim hætti að ástæða sé til bjartsýni hvað þetta varðar.

Auðvitað er það svo að Rússland telur sig eiga rétt á því að hlutast til um nágrannaríki sín, en auðvitað er það ekki svo.  En það þarf kjark, fyrir hvaða þjóð sem er, til að stand upprétt gegn Rússlandi og fæstar þjóðir megna það einar og sér.

Skýrasta dæmið um það eru nýafstaðnir atburðir á Krímskaga.  Rússland tók yfir Krímskaga, hvað megnaði Ukraína að gera?  Hvað megnaði Evrópusambandið að gera?  Hver voru viðbrögð Ukraínu?  Hver voru viðbrögð Evrópusambandsins?

Jú, Evrópusambandið setti ferða og fjárfestingarbann á örfáa einstaklinga af Rússneskum uppruna.  Það var allt og sumt.

Þörf "Sambandsins" fyrir orku frá Rússlandi yfirskyggði flest annað.  "Sambandið" hefur enda á undanförnum árum hagað málum á þann veg að á margan hátt er vart hægt að álykta á annan veg en að vilji hafi verið til þess að gera "Sambandið" (og þá sérstaklega Þýskaland) háð orku frá Rússlandi.

Á sama tíma hafa flest ríki "Sambandsins" skorið niður útgöld sín til hermála og þau þeirra sem eru aðilar að NATO, telja sig ekki eiga nokkurn annan kost en að treysta á samninga þess bandalags um sameiginlegar varnir, verði nokkkurt ríki bandalagsins fyrir árás.

Þess vegna eru engar líkur á því að nokkurt þeirra ríkja sem "Sambandið" hyggst nú gera saminga við, fái inngöngu í NATO, og raunar verður að teljast ólíklegt að NATO hafi mikinn áhuga á aðild Finna, þó að forsætisráðherra þeirra verðandi, hafi á því mikinn áhuga.

Stóra spurningin er því undirritun samninga sem þessara, hefur Evrópusambandið áhuga og ekki síður kjark og kraft til þess að standa við hlið þeirra þjóða sem það er að gera samninga við?

Sagan segir að svo sé ekki.


mbl.is „Frábær dagur fyrir Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hollur er heimafenginn baggi. Heimsins mesta þjóð - í grasreykingum

Það verður ekki af Íslendingum skafið, þeir skara fram úr og taka hlutina með áhlaupi og trompum.  Nú hafa þeir náð titlinum "Mesta graseykingaþjóð veraldar".

Og það sem meira er, þó að ekki sé minnst á það í fréttinni sem vísað er til, eru miklar líkur á því að megnið af því sem reykt er,  sé innlend framleiðsla, framleidd með vistvænni orku og heilnæmu vatni.

Hollur er heimafenginn baggi og vafinn í "jónur" eigi síður.

En að öllu gamni slepptu sýnir þetta hvað tilgangslaust "stríðið" gegn fíkniefnum hefur verið.  Hve hjákátleg slagorð eins og "Fíkniefnalaust Ísland 2000" voru og eru.

Fíkniefni hafa verið á Íslandi frá upphafi vega og eru komin til að vera. Aðalspurningin er hvort að vilji sé til að gera fleiri þeirra lögleg, eða halda áfram "stríðinu".

Persónulega er ég þeirrar skoðunar og hef verið lengi að eina leiðin sé að gera fleiri fíkniefni lögleg.  Það er gott að byrja á Íslenska "grasinu".

Ekki aðeins á að "afglæpavæða" það með því að gera eign þess löglega, heldur er best að fara alla leið, gera sölu þess löglega og skattskylda.

Til að byrja með væri eðlilegt að banna áfram inn og útflutning af tillitssemi við aðrar þjóðir sem hafa önnur lög.  Fljótlega mætti þó huga að viðskiptum við þær þjóðir sem lögleitt hafa notkun marijuana.

Það er engin ástæða til að halda "stríðinu" áfram.  Það hefur sýnt sig að neyslan hefur haldið áfram að aukast þrátt fyrir bann og frameiðsla og dreifing við núverandi fyrirkomulag, gerir ekkert annað en að tryggja skipulögðum glæpahópum góðar og tryggar tekjur.

P.S.  Fréttin er ögn skringilega orðuð.  Af lestri hennar að dæma eru Íslendingar með hæsta hlutfall "grasneytenda", en það segir ekki að þeir séu endilega með mesta neyslu per einstakling.  "Grasneysla" er með öðrum orðum, útbreiddust á Ísland, en þarf ekki að þýða að neyslan sé mest á Íslandi.

P.S.S.  Það hlýtur að vekja athygli Jamaika skuli aðeins ná í 10. sætið, en þeir eiga augljóslega ekkert í Íslendinga.

 

 


Auðvitað á að birta PISA gögnin

Það er sjálfsagt og eðlilegt að PISA gögnin séu birt.  Ég get ekki séð nokkra ástæðu til þess að meina almenningi aðgengi að þessum gögnum.

Það er jú almenningur, skattgreiðendur sem borga rekstur skólanna.

En það er svo oft sem kjörnir fulltrúar virðast gleyma því hverjir það voru sem völdu þá til embættis og hverjir það eru sem borga reikningana sem þeir stofna til í nafni stjórnvalda/borgar/sveitarfélaga.

Það er eðliegt að foreldrar og aðrir borgarbúar vilji fylgjast með hvernig skólarnir standa sig og hvernig þeir standa innbyrðis.

Vissulega þarf að hafa í huga að PISA niðurstöður eru ekki hinn endanlegi dómur um skólastarf, og öll slík próf þarf að skoða með fyrirvara.

En það er rökrétt krafa að niðurstöðurnar séu "uppi á borðinu".

 


mbl.is Verða að afhenda PISA-gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af flikker

Ég hef alltaf jafn gaman af því að taka ljósmyndir, það er eitthvað sem virðist ekki eldast af mér. 

Iðulega er ég með langan hala af myndum sem ég hef ekki komið í verk að vinna, þannig að vel fari, en reyni þó að halda mér við efnið.

Hér eru nokkrar af þeim myndum sem ég hef komið inn á flikker síðuna mína.  Það er einnig hægt að fara þangað beint, www.flickr.com/photos/tommigunnars

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband