Góður dagur án efa, en verða góðir mánuðir og ár?

Ég tek undir það að það er góður dagur að Evrópusambandið skrifi undir frekara samstarf við Ukraínu, Georgíu og Moldóvíu. 

Aukið samstarf þjóða á mill er af hinu góða og allar þjóðir eiga rétt á því að velja sér samstarfsaðila, án afskipta eða yfirgangs nágrannaþjóða.

En það sem mestu skiptir í slíku samstarfi er heiðarleiki og þrautseigja.  Það er að segja að hvor aðilinn um sig verður að vera reiðubúinn til að standa við samkomulagið, styðja hvorn annan og láta sameiginlega hagsmuni ráða för.

Því miður vill slíkt ekki alltaf verða raunin.

Þó að dagurinn í dag verði góður, og allir aðilar lýsi yfir hamingju, ánægju og velþóknun yfir hinum nýju samingum, eru það komandi mánuðir og ár sem skipta mestu máli.

Er Evrópusambandið reiðubúið til að standa þétt við bakið á Ukraínu, Georgíu og Moldóvíu, ef og þegar Rússland beitir þau þrýstingi? Hvað langt er Evrópusambandið reiðubúið til að ganga til að standa með þessum ríkjum gegn Rússum?

Því miður er saga Evrópusambandsins og ríkja þess ekki með þeim hætti að ástæða sé til bjartsýni hvað þetta varðar.

Auðvitað er það svo að Rússland telur sig eiga rétt á því að hlutast til um nágrannaríki sín, en auðvitað er það ekki svo.  En það þarf kjark, fyrir hvaða þjóð sem er, til að stand upprétt gegn Rússlandi og fæstar þjóðir megna það einar og sér.

Skýrasta dæmið um það eru nýafstaðnir atburðir á Krímskaga.  Rússland tók yfir Krímskaga, hvað megnaði Ukraína að gera?  Hvað megnaði Evrópusambandið að gera?  Hver voru viðbrögð Ukraínu?  Hver voru viðbrögð Evrópusambandsins?

Jú, Evrópusambandið setti ferða og fjárfestingarbann á örfáa einstaklinga af Rússneskum uppruna.  Það var allt og sumt.

Þörf "Sambandsins" fyrir orku frá Rússlandi yfirskyggði flest annað.  "Sambandið" hefur enda á undanförnum árum hagað málum á þann veg að á margan hátt er vart hægt að álykta á annan veg en að vilji hafi verið til þess að gera "Sambandið" (og þá sérstaklega Þýskaland) háð orku frá Rússlandi.

Á sama tíma hafa flest ríki "Sambandsins" skorið niður útgöld sín til hermála og þau þeirra sem eru aðilar að NATO, telja sig ekki eiga nokkurn annan kost en að treysta á samninga þess bandalags um sameiginlegar varnir, verði nokkkurt ríki bandalagsins fyrir árás.

Þess vegna eru engar líkur á því að nokkurt þeirra ríkja sem "Sambandið" hyggst nú gera saminga við, fái inngöngu í NATO, og raunar verður að teljast ólíklegt að NATO hafi mikinn áhuga á aðild Finna, þó að forsætisráðherra þeirra verðandi, hafi á því mikinn áhuga.

Stóra spurningin er því undirritun samninga sem þessara, hefur Evrópusambandið áhuga og ekki síður kjark og kraft til þess að standa við hlið þeirra þjóða sem það er að gera samninga við?

Sagan segir að svo sé ekki.


mbl.is „Frábær dagur fyrir Evrópu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bravó! Viturleg grein sem ber vott um jafnvægi og skíra hugsun. Höfundur "heldur" ekki "með" Rússlandi og ekki heldur ESB. Greinin er ekki skrifuð sem málpípa einhverrar heilaþvottamaskínu, heldur sem yfirveguð umræða þar sem enginn er stráður glimmer og enginn ataður tjöru. Markmið greinarinnar er sannleiksleit, en ekki að "standa með sínum mönnum". Upplýsing en ekki þörf fyrir að "hafa rétt fyrir sér", "sigra" og önnur prímítív markmið flestra greinahöfunda hérna á Moggablogginu. Engan er verið að lofsyngja og engan að draga niður í svaðið og greinarhöfundur er ekki einu sinni að hlaða sjálfan sig lofi. Gott fordæmi fyrir aðra bloggara. Greinin er mjög óvenjulegt framlag hérna á Moggablogginu að því leyti að hún lýsir raunverulegum áhuga á alþjóðastjórnmálum og heimsmálunum, en ekki einhvers konar gerfiáhuga sem notaður er í smáborgaralegum pólítískum tilgangi til að klekkja á local pólítískum andstæðum eins og smámenna er siður.

Yin Yang. (IP-tala skráð) 29.6.2014 kl. 01:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband