Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2014

Á að bíða eftir skýrslum?

Það er líklega óþarfi að rifja upp að sú ákvörðun ríkisstjórnar Íslands að leggja fram þingsályktunartillögum um að draga til baka umsókn Íslands um að aðild að Evrópusambandinu, hefur vakið blendin viðbrögð.

Ein af þeim rökum sem sett hafa verið fram gegn því að taka slíka ákvörðun nú, er að rétt sé að bíða eftir skýrslu Alþjóðastofnunar HÍ, sem ku vera væntanleg eftir einhverja mánuði.

Persónulega er ég því algerlega ósammála.

Það skiptir engu máli hver er skýrsluhöfundur, það skiptir engu máli hvaða stofnun vinnur skýrsluna, það skiptir engu máli hvaða félagasamtök pöntuðu skýrsluna.

Í mínum huga er það skýrt að hvorki stofnanir, né félagasamtök stýra eða ákveða tímasetningu ákvarðana ríkisstjórna.

Það er ekki nóg að panta skýrslu til að ríkisstjórn eða Alþingi fresti ákvörðunum sínum í nokkru máli.

Það skiptir engu máli hversu velmeinandi, eða ekki, viðkomandi stofnanir eða félagasamtök eru.

Kjósendur ákváðu skipan Alþingis, sem síðan ákveður hvernig skipast til með ríkisstjórn.

Alþingi á ekki að stjórnast af því hvort félagasamtök panta skýrslur eða ekki.

Öllum er hins vegar frjálst að standa að og panta skýrslugerð.  Þær geta oft verið gott og þarft innlegg í umræður. 

En þær leggja ekki línurnar fyrir Alþingi og ríkisstjórn.

Alþingi og ríkisstjórn standa svo frammi fyrir dómi kjósenda - í næstu kosningum.


Að missa "Sambandið"

Það virðist sem sú ákvörðun stjórnarflokkanna að leggja til að aðlögunarviðræðum Íslands að Evrópusambandinu verði slitið, hafi komið mörgum "Sambandssinnanum" á óvart og í opna skjöldu.

Margir þeirra virðast reiðir, áttviltir og engu líkara en þeir séu (jarð)"Sambandslausir".

Þeir krefjast þjóðaratkvæðis, sem þeim þótti algerlega óþarft, bæði við upphaf málsins árið 2009 og svo aftur þegar tillaga þess efnis var lögð fram árið 2010. 

Margir þeirra keppast við að spá Íslandi illri framtíð, verði umsóknin dregin til baka og það hvarflar að mér að það styttist í að "Kúba norðursins" og N-Kórea verði komnar í umræðuna.

Ýmsir spá að illa fari fyrir EES samningnum og minna á að Ísland standi ekki við samninginn, hvað varðar frjálsa fjármagnsflutninga.  Það er rétt, en sjálfsagt er að minna á að fjármagnsflutningar hafa ekki verið frjálsir um allt "Sambandið" um all nokkurt skeið.  Slík brot eru því að báða vegu.

Aðrir hafa talað um að nú sé útilokað fyrir Íslendinga að sækja um "Sambandsaðild" að nýju, fyrr en í fyrsta lagi eftir 15 til 20 ár.

Ég efast um að sótt verði um aðild aftur, og slík niðurstaða er mér ekki á móti skapi, en ég leyfi mér þó að halda því fram, að ef Íslendingar sækja um aftur, muni Evrópusambandið taka vel á móti þeim. Jafnvel þó að slíkt yrði gert eftir t.d. 5 eða 6 ár.

Auðvitað tala ég ekki fyrir "Sambandið" og geri ekki kröfu um að teljast sérfræðingur í málefnum þess, en ég held að þó að ESB, sé reiðubúið fyrir Íslenska umsókn því sem næst hvenær sem er.

Það er að segja ef sú umsókn er vel undirbyggð og -búin.  Ef Íslensk ríkisstjórn stendur heil og óskipt að baki umsókninni og flest bendi til þess að þjóðinni standi einnig hugur til þess að ganga í "Sambandið".  Þegar samningsmarkmið Íslendinga eru skýr og ákveðin og um þau ríkir nokkuð víðtæk sátt.

En ég reikna ekki með að "Sambandið" sé reiðubúið til að taka til greina aðra jafn illa undirbúna og ruglingslega umsókn og nú er talað um að draga til baka.

Umsókn sem var knúin fram á Alþingi með því að "snúa" nógu margar hendur á loft. Umsókn sem helmingur ráðherra reiknaði með að fella í atkvæðagreiðslu, eða það sögðu þeir í það minnsta.  Umsókn frá þjóð sem margoft gaf til kynna í skoðanakönnunum að hún væri andsnúin því að ganga í "Sambandið".

Það er auðvelt að taka undir með Pírötum þegar þeir segja að Samfylkingin hafi klúðrað umsókninni. Með óðagoti, flumbrugangi og ónógum undirbúningi keyrði hún umsóknina áfram.  Svo illa gekk og lítið miðaði áfram, að ríkisstjórnin sjálf ákvað að slá ferlinu á frest fyrir síðustu kosningar.

Umsóknin var misheppnuð frá upphafi og löngu tímbært að slá hana endanlega af.

Samfylkingin klúðraði þessu meginstefnumáli sínu með eftirminnilegum hætti.  Þeim væri hollast nú, að horfa í eigin barm. 

 

 


mbl.is Ákveðið að slíta aðildarviðræðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rökrétt ákvörðun

Það er rökrétt að Alþingi taki ákvörðun um hvort afturkalla skuli umsókn um "Sambandsaðild".  Það var á Alþingi sem ákveðið var að sækja um, og því eðlilegt að Alþingi taki ákvarði framhaldið, nú eða ákveði að ekki sé um framhald að ræða.

Vissulega má finna rök, bæði með og á móti þjóðaratkvæðagreiðslu um málið, en það er - að mínu mati - veigaminni ákvörðun að slíta aðlögunarferli að "Sambandinu", en að hefja það.

Ef ekki var ástæða til þess að bera umsóknina undir þjóðaratkvæði, er ekki sérstök ástæða til þess að setja afturköllun hennar í slíkt atkvæði.  Í því sambandi er rétt að minnast að þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar höfnuðu að þjóðaratkvæði yrði viðhaft við það tækifæri.  Það gerði einnig Guðmundur Steingrímsson, ef ég man rétt.

Það er því holur hljómur í kröfu þeirra um þjóðaratkvæði nú.

En það verður fróðlegt að fylgjast með framvindu þessa máls, ekki síst hvaða afstöðu þingmenn Vinstri grænna taka og hvernig þeir greiða atkvæði. 

 

 

 


mbl.is Ekki sótt um án atkvæðagreiðslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Land án atvinnu

Þó að baráttan við Eurokrísuna hafi að ýmsu leiti gengið ágætlega, hefur hún gengið afleitlega á öðrum sviðum. Vissulega hefur Seðlabanki Eurosvæðisins gengið nokkuð vasklega fram og náð að slökkva stærstu eldana og bjargað Eurosvæðinu frá því að molna.  

Líklega er stærsta vandamálið sem blasir við svæðinu atvinnuleysi.  Víða á Eurosvæðinu er atvinnuleysi langt yfir því sem getur talist eðlileg þolmörk og í sumum ríkjum afnvel svo að meirihluti ungs fólks er án atvinnu.

Hér er stutt heimildamynd um atvinnuleysi á Spáni. 

 

 


Af hverju kláruðu Steingrímur, Össur og Árni Páll ekki málið, á meðan það var á þeirra forrræði?

Ég hef ekki haft mikinn tíma til þess að fylgjast með Íslenskri þjóðmálaumræðu undanfarna mánuði, en hef þó reynt að fylgjast með.

Það sem stendur upp úr að mínu mati, er að lítill en hávær hópur virðist ekki ná upp í nef sér, vegna þeirra staðreyndar að núverandi ríkisstjórn ætlar ekki að fylgja sömu stefnu og ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna.

Sú staðreynd að Íslenskir kjósendur veittu þessum tveimur flokkum því líka ráðningu í kosningum, svo að um Evrópu og Íslandsmet í fylgistapi var að ræða, hefur ekki nokkur áhrif á heilaga vandlætingu þeirra yfir þessarri ósvífni.
 
Mest fer í taugarnar á þeim flestum að núverandi ríkisstjórn hafi ekki haldið áfram aðlögunarviðræðum að "Sambandinu".
 
Viðræðum sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar var búin að setja á "ís".
 
Hvers vegna var sú ákvörðun tekin?  Við hvað "voru menn hræddir"?
 
Ef "Sambandið" var tilbúiði með lausn í sjávarútvegsmálum,  sérsniðna fyrir Íslendinga, eins og Árni Páll fyllyrðir nú, hvers vegna var viðræðum ekki haldið áfram?
 
Hefði slík "glæisleg niðurstaða", ekki verið fyrrverandi stjórnarflokkum til framdráttar í kosningunum? Hefðu Samfylking og Vinstri græn ekki getað forðast, í það minnsta hluta af því gríðarlega fyligistapi sem varð hlutskipti þeirra, með því að leggja þá "glæisilegu niðurstöðu" fyrir þjóðina?
 
Hví kusu þeir að opna ekki fleiri kafla?
 
Við hvað "voru menn hræddir"?
 
Síðasta ríkisstjórn hafði málið í forgang og gat ekki lokið því, þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um að klára mætti málið á stuttum tíma og kjósa um það löngu áður en kæmi til almennra kosninga.
 
Sú ríkisstjórn klúðraði málinu.
 
Það er ótrúleg tilætlunarsemi að andstæðingar aðildar klári fyrir þá málið.
 
Það er tímabært að draga umsóknina til baka.
 
P.S. Helgi Hjörvar talar um að sundferðir makrílsins inn í Íslenska lögsögu hafi orðið þess valdandi að aðlögunarferlið fór í uppnám.
 
Skyldu margir vera þeirrar skoðunar að það hefði verið Íslendingum happadrýgra að makríllinn hefði beðið með ferðalag sitt, þangað til að Ísland hefði þegar verið gengið í "Sambandið"?
 
Því trúi ég ekki. 
 
 

mbl.is „Við hvað eru menn hræddir?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband