Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

Íslendingar þurfa að spara

Það er tekist á um söluform á tveimur tegundum vökva á Íslandi þessa dagana.  Áfengi og mjólk.  Framleiðslu og sölufyrirkomulagið á þessum tveimur "guðaveigum" er eigi að síður verulega ólíkt. 

Fjöldi af sjálfstæðra framleiðanda framleiðir áfenga drykki á Íslandi, en eingöngu einn aðili má selja þá (það er að segja í smásölu, í óopnuðum umbúðum).  Ein verslunarkeðja, ríkisrekin sér um smásöluna.

Hvað mjólkina varðar, eru sömuleiðis margir smáir framleiðendur, en úrvinnsla og dreifing er því sem næst á einni hendi, sem er undanþegin samkeppnislögum.  En fjöldinn allur af útsölustöðum sér um smásöluna.

Þeir eru margir sem fullyrða það við Íslendinga að hafa fyrirkomulagið með þessum hætti spari þeim milljarða í hvoru tilfellinu um sig.

Ef marka má það sem haldið er fram, er samkeppni aðeins til trafala á Íslandi og kostar stórfé.

Það má merkilegt vera ef Íslendingar eru ekki áfram um að yfirfæra þessa miklu markaðsspeki yfir á aðrar vörutegundir, landi og þjóð til heilla og sparnaðar.

Það er til dæmis líklega hægt að reikna það út að allar fréttir komast fyrir í einu dagblaði, þar mætti líklega spara dágóðar fúlgur, svo ekki sé minnst á öll tréin.

Sama gildir auðvitað um aðra fjölmiðla, s.s. útvarps og sjónvarpsstöðvar og vefsíður. 

Auglýsingastofum mætti renna saman í eina, enda einsýnt að stórfé myndi sparast og þróun og hugmyndaauðgi yrði best tryggð með þeim hætti.

Kostnaður við áfengisframleiðslu hefur líklega kostað þjóðarbúið stórar upphæðir síðan einkaleyfi ÁTVR til framleiðslu og dreifingar var afnumið.  Það er líka ótækt að dreifa einhverjum smáfyrirtækjum um allt land, þegar eitt stórt fyrirtæki gæti annast alla framleiðsluna. Gæti hentað vel í Húnavatnssýslurnar.

Og þessi símafyrirtæki.  Tómt bruðl að hafa fleiri en eitt fyrirtæki á littlum markaði eins og Íslandi.  Búið að kosta stórfé og hefur líklega leitt til stöðnunar.  Fjarskiptakerfið væri mikið betra ef aðeins væri eitt fyrirtæki og verð til neytenda ábyggilega 20 til 30% lægra.

Og fjöldinn allur af flugfélögum að fljúga til Íslands.  Hrein sóun og gerir mun erfiðara að stýra ferðamannastraumnum.  Auðvitað væri hægt að skipuleggja ferðamannastrauminn mun betur ef aðeins eitt flugfélag fengi að fljúga til og frá Íslandi.  Og upphæðirnar sem neytendur myndu spara yrðu líklega ekki lágar.

Síðast en ekki síst mætti auðvitað endurskoða hið pólítíska kerfi.  Fjöldi flokka með skrifstofur út um allar trissur og hugmyndavinnu (fer hún annars ekki örugglega fram ennþá?) á mörgum stöðum, er auðvitað hrein sóun.  Einn stór flokkur gæti hæglega annað öllu því sem núverandi stjórnmálaflokkar koma í verk og átt hellings pening afgangs. Ekki veitir af eins og tapreksturinn var á þeim á síðasta ári.

Það myndi líka spara stórfé því kosningar væru óþarfar.

Flokkurinn myndi einfaldlega raða á Alþingi.  Þannig myndi hæfileg endurnýjun (í bland við reynslu) best verða tryggð og framganga nýrra hugmynda eiga greiðasta leið.


mbl.is Hagræðing skilaði 20% raunlækkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Yfirfrakki Frakka

Það er orðið býsna langt síðan fjárlög voru í jafnvægi í Frakklandi.  Það var annað hvort arið 1972 eða 74.  Sem sé um það leyti  þegar Pompidou var keyrt um Reykjavík í svörtum Citroen til fundar við Nixon á Kjarvalsstöðum.

En nú eru breyttir tímar.  Nú er útlit fyrir að fjárlögum Frakka verði hugsanlega hafnað, ekki af Franska þinginu, ekki af Öldungadeildinni, sem ríkisstjórnin missti meirihlutann í á dögunum, heldur af "Sambandinu".

Frakkar eru sem sé, eins og aðrar þjóðir á Eurosvæðinu búnar að afsala sér fullum rétti til sjálfstæðra fjárlega.

Sem er í senn bæði eðlilegt og óeðlilegt.

Ef þjóðir ákveða að taka þátt í myntsamstarfi, verða þær að sætta sig við reglur.  Þær verða líka að sætta sig við að því fylgi refsingar að brjóta reglurnar.  Eitt af vandamálum Eurosvæðisins er að Þýskaland og Frakkland voru fyrstu ríkin til að brjóta reglurnar, og komust upp með það refsingarlaust.

Spurning er hvort að "Sambandið" telur sér fært að sleppa Frökkum öðru sinni við refsingu, og þannig viðurkenna að regluverkið sé eitthvað sem ekki þarf að fara eftir?

Ef "Sambandið" hafnar hins vegar fjárlögum Frakka, verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Frakka, þegar það rennur upp fyrir þeim að þeir eru ekki "eigin herrar"  í fjárlagagerðinni.

Ég hef oft áður vitnað til orða Jürgen Ligi, fjármálaráðherra Eistlands, er hann sagði að Eistland hefði ekki efni á fullu sjálfstæði.  Þessi orð lét hann falla þegar Eistland tók upp euro.  Það eykur á virðingu fyrir stjórnmálamönnum, þegar þeir tala hreinskilnislega við kjósendur, frekar en að tala um töfralausnir.

Það má auðvitað deila um hvort og hvenær þjóðir hafa efni á sjálfstæði.  En það fer auðvitað best á að ræða málin hreint út.

Það er eitthvað sem segir mér að sú verði ekki raunin í Frakklandi.  Ég hef heldur ekki trú á því að hinn almenni Frakki, sé þeirrar skoðunar að Frakkland hafi ekki efni á sjálfstæði.

Líklegra er en ekki að mínu mati, að FN styrkist enn í þessum óróa, og þykir þó mörgum nóg fyrir.

Æ fleiri eru þeirrar skoðunar að það eina sem geti bjargað euroinu til lengri tíma, sé frekari samruni, sambandsríki, eða ígildi þess, sameiginleg skuldaútgáfa og jöfnunargreiðslur frá norðri til suðurs.

Vandamálið er að það er, í það minnsta eins og staðan er í dag, óframkvæmanlegt, pólítískt séð.

Þess vegna hriktir í Eurosvæðinu og Seðlabanki Evrópusambandsins á í æ meiri erfiðleikum við að halda stöðugleika og euroinu gangangi, vegna þess hve þarfir ríkjanna á svæðinu eru mismunandi.

P.S.  Það má velta því fyrir sér, ef við reynum að heimfæra þessa stöðu upp á Ísland, og við segjum að það sé nauðsynlegt fyrir "Sambandið" að hafa "neitunarvald" gagnvart fjárlögum aðildarríkjanna, hvort það sé ekki nauðsynlegt fyrir Íslensk stjórnvöld að hafa "neitunarvald" gagnvart fjárhagsáætlunum sveitarfélaga?

Hvernig ætli standi á því að enginn hefur lagt slíkt frumvarp fram á Alþingi?

 


mbl.is ESB hafnar líklega fjárlögum Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góð þróun

Þeir eru býsna margir sem vilja telja Íslendingum trú um að best að allt sem snýr að landbúnaði sé í fárra höndum.  Þannig fáist bestu afurðirnar og lægsta verðið.

En samkeppni eykur yfirleitt fjölbreytni, stuðlar að vöruþróun og styður leitina að hagræðingu og framþróun.

Boðleiðir á milli eigenda, framleiðenda, starfsfólks og neytenda verða styttri og fjölbreyttari.

Það er virkilega ánægjulegt að enn skuli vera til einstaklingar sem hafa áhuga og kraft til að leita annara leiða í framleiðslu á landbúnaðarvörum.

Ég vona að þessi tilraun gangi upp.


mbl.is Fyrsta handverkssláturhús landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laug Jóhanna Sigurðardóttir að þjóð og þingi?

Það vantar ekki að undanfarin ár hefur all nokkuð verið rætt um launakjör Seðlabankastjóra á Íslandi. Bæði þegar þau voru lækkuð og þegar Seðlabankastjóri fór í mál við Seðlabankann.

Nú hafa nýjar upplýsingar komið fram, í viðtali við Seðlabankastjóra í þættinum Sprengisandi. Ég hef ekki hlustað á þáttinn, en sá endursögn úr honum á vef Viðskiptablaðsins.

Þar segir:

 

 

 

Már Guðmundsson segist hafa rætt launakjör sín við Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra áður en hann hafi verið ráðinn í starf seðlabankastjóra. Þetta kom fram í viðtali við hann í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Már segist hins vegar ekki hafa neitt skriflegt um þessi samskipti.

„Það voru kannski mín mistök," sagði Már. „Ég hafði verið í störfum þar sem orð standa og allir treysta öllum og var ekki alveg að átta mig á því inn í hvers konar samfélag ég var að koma en er reynslunni ríkari núna."

Már var spurður hvort honum þætti hann hafa verið svikinn af  fyrrverandi forsætisráðherra, eða öðrum, þegar laun hans hafi voru lækku.

„Já, að einhverju leyti er það þannig, en það er náttúrlega bara liðin tíð og henni verður ekki breytt," sagði Már. „Þegar ég kem hingað til lands og þetta ferli er að ganga yfir varðandi mína ráðningu, þegar ljóst var að ég hafði orðið efstur hjá dómnefndinni, sem var undir forystu Jónasar Haralds, sá ég að það var líklegt að mér yrði boðið starfið. Um líkt leyti berast mér fréttir af því að það sé komið fram þetta frumvarp um kjararáð. Mér var náttúrlega ekki alveg ljóst hvort það hefði einhver áhrif á mína stöðu."

 

Það merkilega er að þegar ég las þetta, kom upp í hugann að Jóhanna hefði svarið af sér öll afskipti af málinu.  Því leitaði ég til góðvinar míns Hr. Google, og fann eftirfarandi þingræðu:

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það liggur fyrir að ráðuneytisstjórinn í forsætisráðuneytinu, Már Guðmundsson og Lára formaður bankaráðs hafa öll komið fyrir viðskiptanefnd og gert grein fyrir sínu máli. Í máli þeirra allra kom fram að ég hefði engin afskipti haft af þessu máli, engin loforð gefið og engin fyrirheit. Ráðuneytisstjóri minn upplýsti líka og sendi skriflega greinargerð inn í nefndina þess efnis að hún hefði engin loforð gefið í þessu efni, enda ekki á hennar færi. Lög og reglur gilda í þessu efni, um kjararáð, og það er alveg ljóst að hún hafði einungis milligöngu um að koma upplýsingum til Más Guðmundssonar sem formaður bankaráðs Seðlabankans hafði fengið í Seðlabankanum um launamálið. Það eru hennar einu afskipti af þessu máli.

Ég er að velta fyrir mér hvort þingmenn vilji virkilega hafa svona samskipti og áherslur í málum þegar kallað er eftir breytingum og nýjum tímum. (Forseti hringir.) Við erum í heilan mánuð búin að ræða þetta mál, allt hefur komið fram, (Gripið fram í.) það hefur allt verið skýrt (Gripið fram í.) og allt verið opið í því. (Forseti hringir.) Ég hef svarað öllum spurningum sannleikanum samkvæmt en ég hef ekki svarað því sem hv. þingmaður vill fá fram, að ég sé eitthvað sek (Forseti hringir.) í þessu máli og hafi leynt upplýsingum. Það hef ég ekki gert, það er alveg ljóst.

Það virðist blasa við í þessu máli, að annað hvort hefur Jóhanna Sigurðardóttir logið að þjóð og þingi, eða þá að Már hefur farið með ósannindi í viðtalinu á Sprengisandi.  Hann virðist reyndar vera orðinn nokkuð tvísaga í málinu, ef hann hefur borið það fyrir Viðskiptanefnd, að Jóhanna hafi engin afskipti haft af málinu.

Það hlýtur eiginlega að vera að sannleiksþyrstir Íslenskir fjölmiðlar komist til botns í þessu máli.

Persónulega fæ ég það á tilfinninguna að Már fari með rétt mál, og hafi undir þrýstingi afneitað afskiptum Jóhönnu fyrir nefndinni. 

En það er bara mín tilfinning.

 

 

 


Hvenær rugla menn og hvenær ekki?

Vefurinn Andríki er með allra bestu vefum Íslenskum.  Þar er skrifað skýrt og stefnufast.  Einstaklingar geta eðli málsins samkvæmt verið sammála eða ósammála því sem þar er skrifað, en lesningin er öllum holl.

Á laugardaginn var skrifuðu þeir aðeins um Ríkisútvarpið og Rás tvö.  Þar hitta þeir naglann skemmtilega á höfuðið.

Þá hafa menn það. Ef menn lofa 300 milljarða þjóðnýtingu einkaskulda eru þeir kosnir til að stýra landinu. Ef menn viðra þá hugmynd að selja Rás 2 eru þeir ruglaðir og stórhættulegir.

 


Lítið kjöt á beinunum

Ekki líst mér vel á nýja ríkisstjórn í Svíþjóð, eða stöðuna sem þar ríkir.  Afar veik minnihlutastjórn og verður fróðlegt að sjá hvernig spilast úr þessari stöðu.

En þessi frétt sýnir að mínu mati ákveðna meinloku sem er býsna algeng í nútíma lýðræðissamfélögum.  Það er að "grafa upp" allar þær "beinagrindur" sem hugsast getur að finnist hjá stjórnmálamönnum eða öðrum "opinberum persónum".

Ef að um virkileg "hneykslismál" er að ræða, er sjálfsagt að fjölmiðlar fjalli um þau.

En að ráðherra hafi einhvern tíma í fyrndinni neytt ólöglegra vímuefna, greitt einhverjum fyrir "svarta vinnu", hafi látið taka af sér nektarmyndir, eða trúi á endurholdgun, finnst mér ekki mikið kjöt á beinunum, né reyndar alvöru "beinagrindur".

Það einfaldlega sýnir að að ráðherrar eru menn, rétt eins og allir aðrir og hafa lifað lífinu rétt eins og allir aðrir.

Sé einhver ráðherra í neysli, eða hafi einhvern í "svartri vinnu", er annað upp á teningnum.

En hvað gerðist fyrir mörgum árum síðan, er ekki meiri frétt nú, en það var þá.

Þetta er einmitt eitt af því sem fælir "venjulegt fólk" frá því að taka þátt í stjórnmálum og væri óskandi að fjölmiðlar lét af slíkum "afhjúpunum".


mbl.is Ráðherrar með beinagrindur í skápnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æskilegt, en varasamt

Ég held að flestir geti verið sammála um það að æskilegt væri að skattayfirvöld kæmust yfir upplýsingar um undanskot Íslendinga frá skatti.

Að upplýsa lögbrot er æskilegt og eitt af hlutverkum yfirvalda.

En svo er það siðferðislega og lagahliðin.

Er alveg sama hvernig upplýsingarnar eru fengnar, hversu áreiðanlegar eru þær og síðast en ekki síst standast þær fyrir dómi.

Er réttlætanlegt að hið opinbera borgi t.d. "tölvuhakkara" stórar fjárhæðir fyrir upplýsingar sem hann hefur undir höndum eftir að hafa framið lögbrot?

Sama spurningin gildir auðvitað t.d. um starfsmann banka, sem kann að hafa tekið skjöl ófrjálsri hendi.

Geta yfirvöld varið það að ráða t.d "hakkara" til tölvuinnbrota?  Tæplega, en hver er þá munurinn?

Svo er það spurningin um áreiðanleikann.  Það er auðvelt að falsa skjöl nú til dags, nú eða reikningsyfirlit.  Það má nokkuð ganga út frá því sem vísu að þær stofnanir sem skjölin eiga eða þau koma frá munu neita að tjá sig um það sem þar kæmi fram.

Hvernig er þá hægt að sanna að þau séu rétt?

Og í framhaldi vaknar spurningin hvernig myndu dómstólar taka á slíkum "sönnunargögnum"?

Ef gögn sýna undanskot, viðkomandi einstaklingur neitar sök, og viðkomandi fjármálastofnun neitar að sjá sig um málið, hvers virði eru gögnin fyrir dómstólum?

En svo má velta því fyrir sér hvort að gögnin geti leitt skattayfirvöld á rétta slóð, og auðveldað þeim að finna sönnunargögn, jafnvel þó að þau sjálf geti ekki staðið sem slík fyrir dómi.

Þannig eru ýmis álitamál, en vissulega er það þess virði að skoða þennan möguleika nánar.

En ein og spurningunum hlýtur að vera, eru lögbrot í lagi, ef afbrotamaðurinn finnur eitthvað misjafnt um aðra með lögbrotinu?

P.S.  Til að enda þetta á léttu nótunum, verða menn að velta því fyrir sér hvort að þeir sem skjóta fé sínu undan sköttum, séu ekki einfaldlega áhugamenn um lægri skatta sem hafa ákveðið að gerast "aðgerðasinnar".

 

 


mbl.is Ljóstrað upp um leynilega reikninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband