Yfirfrakki Frakka

Það er orðið býsna langt síðan fjárlög voru í jafnvægi í Frakklandi.  Það var annað hvort arið 1972 eða 74.  Sem sé um það leyti  þegar Pompidou var keyrt um Reykjavík í svörtum Citroen til fundar við Nixon á Kjarvalsstöðum.

En nú eru breyttir tímar.  Nú er útlit fyrir að fjárlögum Frakka verði hugsanlega hafnað, ekki af Franska þinginu, ekki af Öldungadeildinni, sem ríkisstjórnin missti meirihlutann í á dögunum, heldur af "Sambandinu".

Frakkar eru sem sé, eins og aðrar þjóðir á Eurosvæðinu búnar að afsala sér fullum rétti til sjálfstæðra fjárlega.

Sem er í senn bæði eðlilegt og óeðlilegt.

Ef þjóðir ákveða að taka þátt í myntsamstarfi, verða þær að sætta sig við reglur.  Þær verða líka að sætta sig við að því fylgi refsingar að brjóta reglurnar.  Eitt af vandamálum Eurosvæðisins er að Þýskaland og Frakkland voru fyrstu ríkin til að brjóta reglurnar, og komust upp með það refsingarlaust.

Spurning er hvort að "Sambandið" telur sér fært að sleppa Frökkum öðru sinni við refsingu, og þannig viðurkenna að regluverkið sé eitthvað sem ekki þarf að fara eftir?

Ef "Sambandið" hafnar hins vegar fjárlögum Frakka, verður fróðlegt að fylgjast með viðbrögðum Frakka, þegar það rennur upp fyrir þeim að þeir eru ekki "eigin herrar"  í fjárlagagerðinni.

Ég hef oft áður vitnað til orða Jürgen Ligi, fjármálaráðherra Eistlands, er hann sagði að Eistland hefði ekki efni á fullu sjálfstæði.  Þessi orð lét hann falla þegar Eistland tók upp euro.  Það eykur á virðingu fyrir stjórnmálamönnum, þegar þeir tala hreinskilnislega við kjósendur, frekar en að tala um töfralausnir.

Það má auðvitað deila um hvort og hvenær þjóðir hafa efni á sjálfstæði.  En það fer auðvitað best á að ræða málin hreint út.

Það er eitthvað sem segir mér að sú verði ekki raunin í Frakklandi.  Ég hef heldur ekki trú á því að hinn almenni Frakki, sé þeirrar skoðunar að Frakkland hafi ekki efni á sjálfstæði.

Líklegra er en ekki að mínu mati, að FN styrkist enn í þessum óróa, og þykir þó mörgum nóg fyrir.

Æ fleiri eru þeirrar skoðunar að það eina sem geti bjargað euroinu til lengri tíma, sé frekari samruni, sambandsríki, eða ígildi þess, sameiginleg skuldaútgáfa og jöfnunargreiðslur frá norðri til suðurs.

Vandamálið er að það er, í það minnsta eins og staðan er í dag, óframkvæmanlegt, pólítískt séð.

Þess vegna hriktir í Eurosvæðinu og Seðlabanki Evrópusambandsins á í æ meiri erfiðleikum við að halda stöðugleika og euroinu gangangi, vegna þess hve þarfir ríkjanna á svæðinu eru mismunandi.

P.S.  Það má velta því fyrir sér, ef við reynum að heimfæra þessa stöðu upp á Ísland, og við segjum að það sé nauðsynlegt fyrir "Sambandið" að hafa "neitunarvald" gagnvart fjárlögum aðildarríkjanna, hvort það sé ekki nauðsynlegt fyrir Íslensk stjórnvöld að hafa "neitunarvald" gagnvart fjárhagsáætlunum sveitarfélaga?

Hvernig ætli standi á því að enginn hefur lagt slíkt frumvarp fram á Alþingi?

 


mbl.is ESB hafnar líklega fjárlögum Frakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband