Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2012
16.2.2012 | 05:25
Grikkland: Inn og út um gluggann
Það virðist miða bæði afturábak og áfram í viðræðun Evrópusambandsins við Grikki. Fréttir eru svolítið sitt á hvað.
Ástandið er enda erfitt viðureignar, svo ekki sé sterkara að orði kveðið. Enginn veit hvað kemur til með að gerast eftir kosningarnar sem stendur til að halda í apríl. Það er varla að nokkur viti hvað getur gerst þangað til.
Það hefur enda flogið fyrir að sum euroríkin vilji gera það að skilyrði að kosningunum verði frestað. Hljómar ekki óskynsamlega, en spurningin er hvort að ástandið í Grikklandi þolir frekari misbeitinug á lýðræðinu?
Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands lét hafa eftir sér að hann kærði sig ekki um að henda peningum í botnlausan pitt. En eins og oft áður eru skiptar skoðanir um hvað þurfi að gera til að setja botn í Grikkland, sömuleiðis um hvort það tekst áður en Grikkland nær botni.
Venizelos, fjármálaráðherra Grikkja, er í þeirri stöðu að afar ólíklegt er að hann verði í þeirri ríkisstjórn sem tæki við eftir fyrirhugaðar kosningar. Hann lét hafa eftir sér í daga að það væru margir á eurosvæðinu sem vildu Grikkland út af svæðinu. Hann sagði marga leika sér að eldinum, bæði heima fyrir og erlendis.
En það eru líka fleiri og fleiri sem telja að sú áætlun sem nú er unnið eftir gangi aldrei upp. Samdrátturinn í Grikklandi sé orðinn það mikill og ekkert í þeirri áætlun sem er í gangi stöðvi það. Samdráttur í landsframleiðslu í Grikklandi er nú u.þ.b. 13%, spáð er að samdrátturinn í ár verði allt að 7% stigum til viðbótar. Hraði samdráttarins hefur aukist. Atvinnuleysið hefur sömuleiðis ekki gert neitt nema að bæta í.
Kröfur um "landstjóra", eða að "þríeykið" verði til frambúðar í Grikklandi, eða að stofnaðir verði sérstakir reikningar til að tryggja endurgreiðslu Grikkja á lánum, eiga að tryggja að Grikkir stingi ekki undan fé. En það tryggir ekki að þeir verði borgunarmenn fyrir skuldunum.
Það sem aldrei er talað um er hvernig standa eigi að því að koma Grísku efnahagslífi af stað aftur, hvernig eigi að efla von og trú. Það er enda það sem hefur misfarist svo illa síðan "Sambandið" tók yfir efnahagsstjórnina hjá Grikkjum, leiðin hefur aðeins legið niður á við.
Það er alveg ljóst að þeim fer fjölgandi á meðal eurolandanna sem vildu ekkert frekar en að sjá Grikkland yfirgefa sameiginlegu myntina. Það treystir sér hins vegar enginn til þess beinlínis að henda þeim út. Grikkir yrðu að fara af sjálfsdáðum, eina leiðin til þess er að setja óaðgengileg skilyrði.
En þetta er undarleg staða. Smá ríki í efnahagslegum skilningi, eins og Grikkland er, heldur sér mikið stærri ríkjum í ógnarstöðu, því enginn veit hvað gerist ef þeir ákveða að yfirgefa euroið, þó að ýmsir telji það nú skársta kostinn. Þó að ástandið sé mun betra en var, er "eldveggurinn" ennþá óbyggður og hræðslan um að önnur ríki fylgi á eftir er enn til staðar. Nú er talið næsta öruggt að Portúgal þurfi frekari aðstoð og Ítalíu gengur verr en vonast var til
En eitt verða euroríkin þó ekki sökuð um, þau trassa ekki að halda fundi. Þeir skila bara litlum sem engum árangri.
Árangur í viðræðum við Grikki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.2.2012 | 21:53
Þeir eru af ýmsum tegundum fílarnir
Það hefur mikið verið rætt um í hvað horf Íslendingar vilji koma myntmálum sínum undanfarin misseri. Sitt hefur hverjum sýnst í þeim efnum.
En ákvörðun hefur verið tekin í þeim efnum. Núverandi stjórnvöld hafa tekið ákvörðun. Þau stefna lóðbeint niður í ESB aðild og upptöku euros.
Það veit þó engin hvenær upptaka euros yrði möguleg og svo er það nokkur galli við aðgerðarplan þeirra Steingríms og Jóhönnu að allt bendir til þess að Íslendingar muni hafna því að ganga inn í "Sambandið".
Það eru sömuleiðis blikur á loft með að euroið verði til staðar óbreytt þegar kæmi að því að Íslendingum stæði til boða að taka það upp, ef áætlanir Jóhönnu og Steingríms gengju eftir.
Á vef Bloomberg fréttastofunnar mátti til dæmis lesa eftirfarandi, haft eftir vogunarsjóðsstjóranum John Paulson, í dag:
We believe a Greek payment default could be a greater shock to the system than Lehmans failure, immediately causing global economies to contract and markets to decline, the hedge fund said in the letter, a copy of which was obtained by Bloomberg News. The euro is structurally flawed and will likely eventually unravel, it said.
Auðvitað er þetta enginn stóridómur, en þetta er langt í frá einu spádómurinn um að euroið muni eiga í erfiðleikum á næstu árum og lönd muni yfirgefa myntsvæðið, nú eða það hreinlega leysist upp.
En það eru vissulega til aðrar leiðir, rétt eins og hugmyndir sem hafa komið fram um einhliða upptöku erlends gjaldmiðils. Persónulega held ég að það geti verið tvíeggjuð lausn.
Það er líka sjálfsagt að skoða hvernig þjóðum hefur vegnað með euroið nú þegar það hefur verið við lýði í áratug. Allir þekkja hvernig ástandið er hjá ríkjum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal, Italíu og Írlandi. En það er líka gott að hafa í huga að landi eins og Frakkland hefur verið með sívaxandi viðskiptahalla undanfarin 10 ár. Auðvitað væri það einföldun að skrifa það einvörðungu á euroið, en það hefur þó svo sannarlega ekki hjálpað til. Atvinnuleysi þar fer sömuleiðis vaxandi.
Staðreyndin er sú að þó að Íslenska krónan eigi engan frægðarferil að baki, þá hefur Íslendingum ekki vegnað illa í efnahagslegu tilliti þegar litið er til baka. Vissulega var bankahrun á Íslandi, en það er langt í frá einsdæmi. Það þarf ekki að leita langt hvorki í tíma eða landfræðilega til að finna dæmi um bankahrun.
En efnahagslegar framfarir hafa síst verið minni á Íslandi en í öðrum löndum. Ef til vill er það ekki síst að þakka því að atvinnuleysi hefur sem betur fer oft verið minna en í nágrannalöndum og aldrei hefur verið litið á langvarandi atvinnuleysi sem eðlilegan hlut á Íslandi.
Eins og margar þjóðir hafa lært er kostnaður við langtíma atvinnuleysi gríðarlegur. Efnahagslega og félagslega.
Ef til vill ætti það ekki að vera fyrirferðarminna atriði í umræðunni, en gjaldmiðillinn.
Krónan er fíllinn í stofunni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 16.2.2012 kl. 03:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.2.2012 | 14:15
Fyrirmynd fyrir Jóhönnu og Ólaf Ragnar?
Einn af merkilegri stjórnmálamönnum Kanada fagnaði afmæli sínu í gær, á degi elskenda, Valentínusardeginum. Hazel McCallion, borgarstjóri í Mississauga varð 91. árs. Hún er nú á sínu tólfta kjörtímabili (3ja ára kjörtímabil), og er í fullu fjöri, þó að hún segi að þetta verði sitt síðasta kjörtímabil, hún hyggist ekki sækjast eftir endurkjöri.
Hún var fyrst kosinn borgarstjóri árið 1978 (hljómar það ekki eitthvað kunnuglega?) og hefur gegnt embættinu allar götur síðan. 12 sinnum hefur hún náð endurkjöri eins og áður sagði.
Fjármálin hafa verið í góðu lagi hjá Hazel og þó að reiknað sé með að Mississauga þurfi að slá einhver lán í ár, er það í fyrsta skipti sem það gerist. Vitanlega eru ekki allir alltaf sammála henni, en í nýlegri könnun naut hún þó stuðnings 78% borgarbúa.
14.2.2012 | 22:22
Lífið eftir vinnu
Það að barnaskólakennari sé settur í óumbeðið frí vegna bloggskrifa vekur upp margar spurningar. Ekki hvað síst, hvenær er réttlætanlegt að hefta skoðana eða tjáningarfrelsi? Getum við neitað sumum starfsgreinum um tjáningarfrelsi sem við leyfum öðrum? Þarf slíkt þá ekki að koma skírt fram í ráðningarsamning? Getur slíkur samningur stangast á við stjórnarskrá?
Ef hægt er að banna kennara að tjá skoðanir trúarsafnaðar sem hann er í, á opinberum vettvangi, þarf þá ekki að banna trúarsöfnuðinn? Ef þær skoðanir sem kennarinn lét í ljós er hatursskrif, byggir söfnuðurinn þá ekki á hatri?
Ef talið er að ekki sé um vísvitandi místúlkun á orðum í Bíblíunni, þarf þá að banna Bíblíuna? Eru hatursskrif í bókum ekki bönnuð líka?
En hvað má kennari blogga um? Er ef til vill best að banna þeim að blogga? Mætti kennari til dæmis skrifa fallega um nazisma? Nú eða lýsa því yfir að hann sé kommúnisti og að Sovétríkin hefðu verið fyrirmyndarsamfélag? Hvað ef hann fjallaði fjálglega um yfirburði A-Þýska kommúnistaflokksins. Vill einhver að barnið sitt umgangist slíka einstaklinga?
Ættu höft á tjáningarfrelsi bara að gilda um barnaskólakennara eða gilda þau líka um framhalds og háskólakennara?
Hvað um aðrar stéttir? Þarf að gefa út handbók um hvað lögreglumenn mega blogga um, hvað um opinbera starfsmenn sem almenningur þarf ef til vill að leita til? Nú eða stöðumælaverði?
Hver á lífið eftir vinnu? Er eitthvað líf eftir vinnu?
Og hvað með einkageirann? Myndi verkalýðsfélagið samþykkja að ég myndi reka einstakling sem skrifaði illa um samkynhneigða, nú eða vel um kommúnista eða nazista, á þeirri forsendu að hann kæmi slæmu orði á fyrirtækið mitt?
Að gera kröfu til einstaklinga á vinnutíma er eitt, að gera kröfu til þeirra í einkalífi er annað, en hvar liggur línan?
Ég held að það séu ekki til nein einhlýt svör við þessum spurningum. Það er líklega svo að svörin við þeim eru mismunandi eftir einstaklingum. Það er eðlilegt og sýnir fjölbreytileika mannlifsins.
Það er allt í lagi að vera á móti skoðunum annara, það getur verið allt í lagi að fyrirlíta þær. Það sama gildir um trúarbrögð og annað það sem einstaklingar samsama sig í.
En persónulega hef ég engan áhuga á því að banna fólki að hafa skoðanir eða að tjá þær. Ef einhver er vafi, eigum við að bera gæfu til að leyfa tjáningarfrelsinu að njóta hans.
14.2.2012 | 15:48
Kína vill sterkt euro og stórt eurosvæði
Kína vill markað fyrir vörur sínar. Sterkt euro gerir Kínverskar vörur samkeppnishæfari en ella. Það er sérstaklega erfitt fyrir "Suðurríkin" sem hafa allt of sterkan gjaldmiðill miðað við efnahag sinn. Það hefur ekki aðeins svipt þau samkeppnishæfni sinni við "Norðurríkin" heldur skekkir líka samkeppnisstöðu þeirra við lönd eins og Kína.
Oft er talað um að euroið sé á bilinu 30 til 40% of hátt skráð fyrir Grikkland. Það þýðir að Kínverskar vörur eru hlutfallslega allt of ódýrar í Grikklandi. Grísk fyrirtæki eiga minni möguleika en ella að keppa við innfluttar Kínverskar vörur.
Þessu er hins vegar öfugt farið í Þýskalandi. Þýskaland sifellir gengi sitt með því að tengja það við Grikkland, Portúgal, Ítaliu og Spán. Þess vegna er gengi myntar Þýskalands lægri en ella, kaupmáttur Þýskra neytenda lægra á Kínverskar vörur en ef Þýskaland hefði sína eigin mynt og samkeppnisstaða Þýskra fyrirtækja betri.
Hin hliðin á þessu er svo að Þýskar vörur eru ódýrari fyrir Kínverja að kaupa en ella væri. Vörur frá "Suðurríkjunum" eru hins vegar dýrari en hefðu þau sína eigin mynt.
Það er enda svo að u.þ.b. 50% af útflutningi Evrópusambandsins til Kína kemur frá Þýskalandi, 10% frá Frakklandi, 7% frá Italíu. Það er rétt að hafa það í huga að hér er gengið ekki eina ástæðan fyrir mismunandi gengi þjóðanna í viðskiptum við Kína, en hefur vissulega sín áhrif.
Þegar litið er til innflutnings frá Kína, er Þýskaland einnig með stærsta einstaka hlutann, en þar er hlutfall þess aðeins 23%, eða þar um bil. Viðskiptajöfnuður allra Evrópusambandslandanna við Kína hefur yfirleitt verið neikvæður, þó að einstaka lönd hafi náð honum á köflum í ofurlítinn plús eða haldið honum við núllið. Halli Þýskalands hefur verið töluverður, en hefur farið minnkandi.
En Kína hefur eðlilega áhuga á þvi að halda góðum viðskiptum við "Sambandið", það er stærsti útflutningsmarkaður þess. Því er áríðandi að euroið sé traust og kaupgeta íbúa "Sambandsins" á Kínverskum vörum haldist. Líklega hafa þeir takmarkaðan áhuga á að auka lán sín til ríkja "Sambandsins", en þeim mun líklegri eru þeir til að kaupa eignir í löndunum, nú þegar þær eru gjarna boðnar á hagstæðu verði. Það hafa þeir þegar gert að einhverju marki í Portúgal og Gríkklandi.
En líkleg verður líka rætt um atriðið eins og viðurkenningu á Kína sem "markaðshagkerfi", hugsanlega afléttingu á vopnasölubanni til Kína og fróðlegt verður að fylgjas með hvað gerist varðandi kolefnisgjaldið, en það fer ákaflega í taugarnar á Kínverjum.
Funda um efnahagskrísuna á evrusvæðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.2.2012 | 04:43
Eldfimt ástand
Gríska þingið samþykkti niðurskurðartillögurnar með yfirburðum, en þó ekki án átaka. 199 greiddu atkvæði með tillögunum, 74 sögðu nei og 5 sátu hjá. 22 voru fjarstaddir. En yfir 40 þingmenn voru reknir úr flokkum sínum fyrir að lúta ekki flokksaga.
Sósíalistaflokkurinn, PASOK, rak 22. þingmenn úr flokki sínum og Nýtt Lýðræði rak 21. þingmann. LAOS rak 2. þingmenn, eftir því sem ég kemst næst fyrir að greiða atkvæði með tillögunum.
Nú á eftir að sjá hvernig fjármálaráðherrar euroríkjanna taka næstu skref og hvort þeir telja Grikki ráða við að hrinda tillögunum í framkvæmd. Vilji er ekki alltaf allt sem þarf.
Mótmælin í landinu eru ógnvænleg. Jafn sjálfsagt og það er að mótmæla, þá er skelfilegt að sjá myndir af eyðileggingunni og átökin á götunum. Þau benda ekki til þess að framkvæmdin á niðurskurðinum verði án harmkvæla, ef hún tekst á annað borð.
Ef kosningar verða haldnar snemma í apríl, eins og nú er talað um, er erfitt að spá um hvernig fer og hvað það gæti þýtt fyrir þá samþykkt sem nú fór í gegnum þingið. Hugsanlega yrði þingið allt öðruvísi skipað. Kosningar eru líklega ekki það sem Grikkland þarfnast nú, en frekari frestun á þeim gæti þýtt frekari og harðari óeirðir.
En þessi samþykkt er ekki endirinn á erfiðleikum Grikkja, þeir eru rétt að byrja. Því miður bendir allt til þess að spírallinn haldi áfram að toga þá nður á við. Götuóeirðir, íkveikjur og gripdeildir hjálpa ekki til í landi sem á gríðarmikið undir ferðaþjónustu.
En allt getur gerst í samfélagi sem virðist að hruni komið. Enn og aftur koma orð forstætiráðherra Danmerkur upp í hugann, fólk er reiðubúið til að færa fórnir, en ekki að vera fórnað.
P.S. Smá sögugetraun hér í endann. Hvaða ár fengu fengu Þjóðverjar eftirgjöf hluta skulda sinna frá hópi ríkja (þar á meða Grikklandi)?
"Klippingin" var 50%, en metin á u.þ.b. 70% þegar allt var reiknað. Merkilegt hvernig sagan endurtekur sig oft, þó með breyttum formerkjum sé.
Grikkir samþykkja niðurskurð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2012 | 19:21
Sekt Grikkja
Það hafa margir haldið því fram að vandi Grikkja sé heimatilbúinn og vissulega má færa fyrir því ýmis rök. Skuldirnar eru þeirra, stjórnmálamennirnir eru þeirra, þó að ekki séu allir kjörnir og ákvarðanirnar hafa verið þeirra.
En höfðu Grikkir ekki flest það sem eitt ríki getur haft?
Ef viljayfirlýsing um að stefnt sé að umsókn að Evrópusambandinu er töfralausn gegn efnahagslegum óstöðugleika, er þá óstöðugleiki ekki óhugsandi þegar ríki er þegar gengið í "Sambandið"? Er ekki fullur "sigur" unninn þegar ríki eru meðlímir í "Sambandinu", hafa tekið upp euro og hafa "sæti við borðið"?
Var ekki Grikkland oft tekið sem dæmi um hve gott væri fyrir ríki að ganga í Evrópusambandið og hve það hjálpaði ríkjum í efnahagslegu tilliti og til að skapa gott þróað samfélag? Var ekki Grikkland oft tekið sem dæmi um hvernig "Sambandið" hífði upp lönd á "jaðrinum"? Grikkir höfðu það býsna gott og í könnunum var eftir því tekið að almenn ánægja með Evrópusambandið var gjarna meiri í Grikklandi en öðrum löndum "Sambandsins". Grikkir kunnu að meta það sem "Sambandið" hafði gert fyrir þá.
Þeir voru þjóð á meðal þjóða og deildu gjaldmiðli með efnahagslegum stórveldum eins og Þjóðverjum og Frökkum. Gjaldmiðli sem var talað um að myndi samstilla efnahag þeirra ríkja sem notuðu hann og efla viðskipti þeirra á milli. Að verðlag, kaup og kjör myndu hægt og rólega samstillast.
Skyldu Grísk verkalýðsfélög hafa sagt umbjóðendum sínum að eftir að Grikkland hefði tekið upp euro, yrði kaupmáttur ekki framar af þeim tekinn? Skyldu þau hafa sagt umbjóðendum sínum að lágir vextir og nægur aðgangur að lánsfé væri allt sem þyrfti? Skyldu þau hafa sagt umbjóðendum sínum að enginn þyrfti lengur að óttast að eiga neikvæða eign í húsinu sínu?
Einn Íslenskur "Sambandssinninn" orðaði það svo að að Evrópskir stjórnmálamenn hefðu verið svo áfram um að selja kosti eurosins, að þeir hefðu gleymt að minnast á gallana.
Er sekt Grikkja ef til vill að hluta til fólgin í því að hafa látið glepjast af sölumönnunum?
Að ráðum sölumannanna aftengdu Grikkir höggvara eins og gengisskráningu og vaxtaákvarðanir. Í staðinn voru notaðir höggvarar sem hentuðu Þýskalandi. Þeir tóku upp "erlenda mynt".
Þegar þetta er skrifað veit líklega enginn hvaða leið Grikkir munu fara. En þeim bjóðast engir góðir kostir. Euroið hefur rænt þá samkeppnishæfni sinni, framundan er að Gríska þingið samþykki aðhalds og samdráttaraðgerðir sem þeir eiga litla möguleika á að standa við. Atvinnuleysi mun líklega halda áfram að aukast, laun lækka, tekjur hins opinbera eiga eftir að dragast saman, þörf verður á meiri niðurskurði. Og svo koll af kolli, hring eftir hring.
Því er fleygt fram að Grikkir þurfi 145 milljarða euroa nú, og svo 250 milljarða euroa stuðning næstu 10 ár. Að öllum líkindum verða þeir ekki í boði.
En það verða haldnir fundir.
Reyna að losna við Grikki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.2.2012 | 02:22
Verður næst farið í að "lagfæra" skuldir Portúgals? "Falin myndavél"
Þessi stuttu myndbútur hefur farið hratt yfir netið í kvöld. Fjármálaráðherra Þýskalands og Portúgals, þeir Wolfgang Schauble og Vítor Gaspar, lentu "óvart" í mynd, þar sem þeir eru að tala saman.
Hljóðið er ekki til fyrirmyndar, en ekki er hægt að heyra annað en að Schauble gefi Gaspar ádrátt um að Þýskaland sé reiðubúið til að fallast á aðgerðir í skuldamálum Portúgals. Ekkert verði þó hægt að gera fyrr en búið sé að fá niðurstöðu í Grikklandi.
10.2.2012 | 14:49
Staða ofar fylkingu
Skoðanakönnunum sem þessri ber alltaf að taka með fyrirvara, en það er ekki þar með sagt að hún gefi ekki vísbendingar og ekki megi leggja eitthvað út frá niðurstöðum hennar. En hér er ekki talið upp úr kjörkössum.
Það sem vekur fyrst og fremst athygli mína í þessari könnun er afar mismunandi staða nýju framboðanna og svo aftur hrikaleg staða Samfylkingarinnar og Vinstri grænna.
Mér kemur ekki á óvart að Björt framtíð fái ekki mikinn hljómgrunn. Persónulega tel ég ekki mikla eftirspurn eftir bergmáli af Samfylkingunni, sem leggur mesta áherslu á að styðja núverandi ríkisstjórn.
Gríðargott fylgi Samstöðu kemur mér hins vegar nokkuð á óvart, en Lilja hefur verið óhrædd við að kynna aðrar leiðir og lagt mikla áherslu á skuldamálin. Það er því ekki óeðlilegt að óánægja með ríkisstjórnina skili sér til hennar flokks í góðu fylgi. En það er rétt að hafa í huga að fylgi margra álíkra framboða hefur legið niður á við, eftir gott gengi í skoðanakönnunum. En þessi skoðanakönnun sýnir að framboð Samstöðu á góða möguleika, hver svo sem niðurstaðan verður.
Staða Samfylkingar og Vinstri grænna verður að teljast afleit. Samfylkingin með "léttvínsfylgi" og Vinstri græn eins og þokkalega sterkur bjór, svo notuð sé vinsælar líkingar. En fylgismenn VG eru líklega enn í skýunum yfir að Lilja hafi yfirgefið flokinn og segja hverjum sem er að brottför 3. þingmanna hans hafi "styrkt" flokkinn. Ég yrði ekki hissa þó að fleiri örvæntingarupphlaup sæjust hjá þingmönnum Samfylkingar á næstu dögum, enda gefur könnunin vísbendingar um meirihluti þeirra geti ekki reiknað með að sitja á þingi á næsta kjörtímabili.
Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur geta þokkalega við unað, en könnunin er engin ástæða til gleði af þeirra hálfu. Hún sýnir að þeim hefur ekki tekist nógu vel að ná til kjósenda og nýta sér hrikalegar óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn með 35% fylgi, en er þó að missa mikið fylgi frá síðustu könnun. Það hlýtur að vera flokknum áhyggjuefni. Framsóknarflokkurinn stendur nokkuð fast á sínu, er stærri en báðir ríkisstjórnarflokkarnir, en er ekki að bæta við sig fylgi heldur dalar svo lítið.
Þessi könnun er auðvitað því marki brennd að svarhlutfall í henni er lágt. Aðeins 52.9% af 800 manns taka afstöðu til flokka. Það sýnir óánægju með flokkana og það sem í boði er, en það getur líka gefið vísbendingar um að ef ekkert breytist gæti svo farið að kosningþátttaka yrði í lægri kantinum. Það er rétt að hafa í huga að í síðustu sveitarstjórnarkosningum sáust þátttökutölur í kringum 66% í stórum sveitarfélögum.
P.S. Með þennan góða árangur Samstöðu í þessari könnun, verður auðvitað farið að spauga með að þessa Lilju myndu nú allir hafa kveðið. En það má líka segja að "gömlu" flokkarnir hafi fengið "Storminn" í fangið.
Samstaða er í skýjunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er óneitanlega jákvætt að þessi niðurstaða hafi fengist. Það hefur að vísu ekki skort fréttir undanfarin ár að Grísk stjórnvöld ætli að grípa til róttækra ráðstafana í efnahagsmálum, en því miður hafa þær orðið til lítils.
Nú tekur eurosvæðið við boltanum og ræðir hvort að nógu langt sé gengið og hvort grikkir fái 130 milljarða euroa (sem margir eru farnir að segja að sé of lítið). Stór spurning er hvað Seðlabanki eurosvæðisins ætlar að gera, en hann er talin eiga í það minnsta í kringum 40 milljarða euroa í Grískum skuldabréfum. Við eigum einnig eftir að sjá til hvaða ráðstafana Evrópusambandið ætlar að grípa til að fylgja málum eftir. Persónulega yrði ég ekki hissa þó að ein af þeim fyrstu væri að fresta fyrirhuguðum þingkosningum sem fyrirhugaðar eru í apríl. Ég leyfi mér að efast um að stjórnmálaforingjarnir, eða Evrópusambandið treysti sér í þær.
Tölurnar sem koma frá Grikklandi eru ekki uppörvandi. Í gær birtust tölur um hvernig tekjur Gríska ríkisins hafa skroppið saman, 1. milljarð euroa vantaði upp á áætlanir fyrir janúar. Framleiðsla í landinu dregst saman á ógnarhraða og atvinnuleysi eykst stöðugt. Atvinnuleysi í nóvember var 20.9% en hafði verið 18.2% í október. Atvinnuleysi í nóvember 2010 var 13.9%. Atvinnuleysi ungs fólks var 48% í nóvember. (Byggt á tölum héðan og héðan).
Erlend fyrirtæki geyma helst ekki fé í Grikklandi yfir nótt (það gildir reyndar um fleiri lönd á eurosvæðinu), heldur eru fjármunir umsvifalaust fluttir til Bretlands, Bandaríkjanna eða Þýskalands. (sjá hér)
En þegar tölur yfir atvinnuleysi er skoðaðar er vert að hafa í huga að atvinnuleysisbætur í Grikklandi eru aðeins greiddar í 1. ár. Vaxandi hópur Grikkja hefur fallið út úr almannatryggingakerfinu og á ekki rétt á heilbrigðisþjónustu.
Fyrir 10 árum settu Læknar án landamæra upp starfsstöðvar í Grikklandi til að hjálpa umkomulausum innflytjendum sem streymdu þar inn. Nú segja samtökin að æ fleiri Grikkir leiti til þeirra með grunn heilbrigðisþjónustu. Samtökin hafa nú hafið dreifingu matvæla rétt eins og þau gera í þriðja heims ríkjum. Borgaryfirvöld í Aþenu starfrækja "súpueldhús" við ráðhúsið. Heimilislausum hefur fjölgað um 25% á síðustu 2. árum.
Fyrir stuttu komu Grískir bændur færandi hendi til Aþenu og dreifðu ókeypis á meðal borgarbúa 50 tonnum af kartöflum og lauk. Biðraðirnar leystust upp og til slagsmála kom. (Hér er byggt á grein í Franska blaðinu Liberation - enska þýðingu má finna hér)
En það er ljóst að euroið hefur ekki tryggt stöðugleika í Grikklandi. Euroið hefur ekki tryggt kaupmátt Grikkja. Euroið hefur ekki tryggt verðmæti fasteigna í Grikklandi. En gengi þess hefur auðvitað verið nokkuð stöðugt, sem hefur gert þeim sem eiga umtalsverða fjármuni kleyft að flytja þá óskerta frá Grikklandi. Euroið hefur ekki aukið aga í Grískum efnahag, hvorki í ríkisfjármálum eða kjarasamningum. Grikkland hefur glatað samkeppnishæfni sínu og atvinnuleysi eykst sem aldrei fyrr.
Sameiginlega hafa euroið og efnahagsleg óstjórn komið Grikkjum á vonarvöl. Hin pólítíska mynt Evrópusambandsins gengur ekki upp samhliða efnahagslegum veruleika Grikkja.
Verkalýðsfélög boða verkföll | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.2.2012 kl. 04:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)