Sekt Grikkja

Það hafa margir haldið því fram að vandi Grikkja sé heimatilbúinn og vissulega má færa fyrir því ýmis rök.  Skuldirnar eru þeirra, stjórnmálamennirnir eru þeirra, þó að ekki séu allir kjörnir og ákvarðanirnar hafa verið þeirra.

En höfðu Grikkir ekki flest það  sem eitt ríki getur haft?

Ef viljayfirlýsing um að stefnt sé að umsókn að Evrópusambandinu er töfralausn gegn efnahagslegum óstöðugleika, er þá óstöðugleiki ekki óhugsandi þegar ríki er þegar gengið í "Sambandið"?  Er ekki fullur "sigur" unninn þegar ríki eru meðlímir í "Sambandinu", hafa tekið upp euro og hafa "sæti við borðið"? 

Var ekki Grikkland oft tekið sem dæmi um hve gott væri fyrir ríki að ganga í Evrópusambandið og hve það hjálpaði ríkjum í efnahagslegu tilliti og til að skapa gott þróað samfélag?  Var ekki Grikkland oft tekið sem dæmi um hvernig "Sambandið" hífði upp lönd á "jaðrinum"?  Grikkir höfðu það býsna gott og í könnunum var eftir því tekið að almenn ánægja með Evrópusambandið var gjarna meiri í Grikklandi en öðrum löndum "Sambandsins".  Grikkir kunnu að meta það sem "Sambandið" hafði gert fyrir þá.

Þeir voru þjóð á meðal þjóða og deildu gjaldmiðli með efnahagslegum stórveldum eins og Þjóðverjum og Frökkum.  Gjaldmiðli sem var talað um að myndi samstilla efnahag þeirra ríkja sem notuðu hann og efla viðskipti þeirra á milli.  Að verðlag, kaup og kjör myndu hægt og rólega samstillast.

Skyldu Grísk verkalýðsfélög hafa sagt umbjóðendum sínum að eftir að Grikkland hefði tekið upp euro, yrði kaupmáttur ekki framar af þeim tekinn? Skyldu þau hafa sagt umbjóðendum sínum að lágir vextir og nægur aðgangur að lánsfé væri allt sem þyrfti?  Skyldu þau hafa sagt umbjóðendum sínum að enginn þyrfti lengur að óttast að eiga neikvæða eign í húsinu sínu?

Einn Íslenskur "Sambandssinninn" orðaði það svo að að Evrópskir stjórnmálamenn hefðu verið svo áfram um  að selja kosti eurosins, að þeir hefðu gleymt að minnast á gallana.

Er sekt Grikkja ef til vill að hluta til fólgin í því að hafa látið glepjast af sölumönnunum?

Að ráðum sölumannanna aftengdu Grikkir höggvara eins og gengisskráningu og vaxtaákvarðanir.  Í staðinn voru notaðir höggvarar sem hentuðu Þýskalandi.  Þeir tóku upp "erlenda mynt".

Þegar þetta er skrifað veit líklega enginn hvaða leið Grikkir munu fara.  En þeim bjóðast engir góðir kostir.  Euroið hefur rænt þá samkeppnishæfni sinni, framundan er að Gríska þingið samþykki aðhalds og samdráttaraðgerðir sem þeir eiga litla möguleika á að standa við.  Atvinnuleysi mun líklega halda áfram að aukast, laun lækka,  tekjur hins opinbera eiga eftir að dragast saman, þörf verður á meiri niðurskurði.  Og svo koll af kolli, hring eftir hring.

Því er fleygt fram að Grikkir þurfi 145 milljarða euroa nú, og svo 250 milljarða euroa stuðning næstu 10 ár.  Að öllum líkindum verða þeir ekki í boði. 

En það verða haldnir fundir.


mbl.is Reyna að losna við Grikki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Án þess að lítið sé gert úr sök Grikkja sjálfra þá er ágætt að halda því til haga að þeir settu ríkið ekki viljandi á hausinn. Gríska ríkið var skuldsett miðað við ákveðna greiðslugetu og vaxtakjör sem byggðu á efnahagsbólu sem var bein afleiðing af myntbandalaginu.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 00:33

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það er sjaldnast neitt eitt sem ræður úrslitum.  Það er þegar margt bregst á sama eða svipuðum tíma sem stóru áföllin verða. 

Ef boginn er spenntur til hins ýtrasta má lítið út af bregða.

Grikkjum hefði getað vegnað ágætlega með euro, ef þeir hefðu til dæmis lækkað raunlaun, eins og Þjóðverjar gerðu stóran hluta síðasta áratugar.  En Grikkjum var ekki seld aðild að "Sambandinu" með því fororði að kjör ættu að versna, þvert á móti, allt átti að stefna upp á við.  Innganga í "Sambandið" var lausnin.

Þeir hefðu líka getað hækkað skatta jafnt og þétt yfir allt tímabilið, það hefði dregið úr lánsþörf.  En vextirnir voru lágir og ekkert mál að selja skuldabréf í euroum, þó að greiðandinn væri Gríska ríkið.  Vextirnir voru nærri því þeir sömu og hjá Þjóðverjum.

Þeir hefðu auðvitað líka getað rekið fullt af ríkisstarfsmönnum, en það er nú lítið "Evrópskt" við það.

Það er þegar öll þessi atriði koma saman (og mörg fleiri auðvitað) sem þessi eldfima blanda verður til, sem hlaut að springa fyrr eða síðar.

Hefði Grikkland verið með sinn eigin gjaldmiðil hefði það aldrei komist jafn langt á skuldabrautinni, né glatað samkeppnishæfni sinni með jafn afgerandi hætti.  Gjaldmiðillinn hefði látið undan síga og hefði byrjað á því fyrir löngu síðan.  Þá hefði líka verið "dýrara" fyrir hina ríku Grikki að flytja fé sitt úr landi. 

Það er auðvelt að tala upp euro skýjaborg, gallinn er sá að Grikkir fluttu inn í hana.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2012 kl. 01:56

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er sama hvora leið Grikkir velja, að samþykkja afarkröfur ESB eða fara í gjaldþrot. Landinu verður ekki lengur bjargað.

Eini munurinn fyrir þá er að með gjaldþroti eiga þeir sér viðreysnar von, en með samþykkt afarkosta ESB mun hörmung þeirra verða viðhaldið.

Gunnar Heiðarsson, 12.2.2012 kl. 09:12

4 identicon

Sæll G. Tómas, þú gerir allt of lítið (ekki neitt) úr bókhaldsfölsunum gríska ríkisins fyrir inngönguna í ESB. Því er grein þín í raun ómerk, því þú velur þér falskan grunn.

Ef vitað hefði verið um ástandið fyrir inngönguna, hefðu Grikkir ekki verið teknir inn. Þeir svindluðu, og því er allt sem gerðist eftir það "eðlileg þróun".

Valgeir (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 15:14

5 identicon

Á þýsku þýðir "Sekt" freyðivín. Passar einhvernveginn...

Valgeir (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 15:17

6 identicon

Eins og ég segi vil ég alls ekki gera lítið úr sök Grikkja sjálfra í málinu.

Hinsvegar má spyrja sig hvernig hefði farið ef Þjóðverjar hefðu hækkað skatta og skorið niður til að kæla hagkerfið á uppgangstímanum á fyrri hluta 6. áratugarins. Þeir voru þá að taka miklu stórstígari framförum en Grikkir á bóluárunum. Hefðu þeir ekki bara misst af öllum uppganginum?

Er það framfarahvetjandi að hafa kerfi sem virkar þannig að þjóðir þurfa að stilla sér af gangvart öllum uppgangi eins og hann sé bóla? Er það ekki ávísun á stöðnun ef ekki er hægt að ná sér á strik eftir skakkaföll?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 17:47

7 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Sökin er auðvitað Grikkja,í upphafi færslunnar má lesa: "Skuldirnar eru þeirra, stjórnmálamennirnir eru þeirra, þó að ekki séu allir kjörnir og ákvarðanirnar hafa verið þeirra."

Þau eru að verða býsna mörg löndin innan eurosvæðisins sem hafa ekki uppfyllt þau skilyrði sem sett eru um aðild á einum eða öðrum tíma. Það breytir því ekki að Grikkir "hagræddu" hjá sér staðreyndum til að sleppa inn (staðreyndum hefur m.a. verið "hagrætt" með aðstoð Deutsche Bank og EuroHypo, til að Grikkland gæti keypt Þýsk vopn. Goldman Sachs kom einnig við sögu í þeim leik, en í öðrum viðskiptum.)

Það sýnir ef til vill betur heldur en margt annað á hvílíkum brauðfótum eurosamstarfið er byggt. Ríkin spila "sóló" og ekkert raunverulegt eftirlit hefru verið viðhaft.

Það er líka vert að hafa það í huga að það voru býsna mörg ríki sem vildu ekki hleypa Grikkjum inn á eurosvæðið (ekki heldur inn í "Sambandið" sjálft á sínum tíma ef ég man rétt), en um það var tekin pólítísk ákvörðun og ef minnið svíkur mig ekki er það gjarna talið hafa verið fyrir tilstilli Frakka. Þar er komið að grunnvandamáli eurosins. Ákvarðanir allt frá því að ákveðið var að koma því á fót hafa verið teknar á pólítískum forsendum en ekki efnahagslegum. Euroið var það gjald sem Þjóðverjar greiddu Frökkum fyrir það að fá að sameinast. Þeir eru enn að greiða af þeim "víxli" og verða líklega að því enn um sinn.

En Þjóðverjar hafa líka hagnast gríðarlega á euroinu, enda hagstætt fyrir útflutningsdrifna þjóð að sífella gengi sitt með því að tengja það við lönd eins og Ítalíu, Spán, Portúgal og Grikkland. Þessi lönd hafa glatað samkeppnishæfni sinni, eftir að þau tóku upp hina "erlendu mynt" og þar liggur stærsti veikleiki þeirra. Euroið hentar ekki efnahagslegum veruleika þeirra. Það skiptir í raun mun meira máli heldur en hvernig skuldastaðan er, eða hefur verið. Þó að allar skuldir yrðu felldar niður, endar land sem hefur glatað samkeppnishæfni sinni, flytur meira inn en út, rekur ríkisjóð með halla, alltaf í vandræðum aftur fyrr eða síðar, það er bara spurning um tíma.

Skoðaðu sömuleiðis hvernig viðskiptajöfnuður Frakklands hefur þróast síðan euroið var tekið upp.

P.S. Sekt er ágætis orð yfir freyðivín. Ef ég man rétt nota Þjóðverjar orðið geld yfir peninga. Það Íslenska orð lýsir líklega ágætlega hlutskipti ýmissa annara ríkja undir hinu sameiginlegu "Þýsku" mynt.

P.S.S. Hér er ágætis grein úr Spiegel sem birtist í hittifyra. En fullgild lesning enn í dag. Byggð á lygi er hluti fyrirsagnarinar.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2012 kl. 18:10

8 identicon

já, ef Þjóðverjar "þyrftu" að taka aftur upp þýska markið, þýddi það rúmlega 40% gengisstyrkingu. Það væri semsagt ódýrt fyrir hinn venulega vinnandi mann að fara í frí til útlanda, en útflutningmarkaður fyrir þýskar vörur myndi deyja. Hinn vinnandi maður, nýkominn úr fríinu, myndi missa vinnuna því fyrirtækið sem hann vann hjá fór á hausinn osfrv. 

Þýska Evran er sterk, sú gríska ansi veik. Þannig er það nú...

ps. geld og Sekt, gott svar, takk! :)

pss. Miðað við öll þau viðskipti sem eiga og áttu sér stað á síðastliðnum árum/áratugum, þykir mér ljótt að lesa "til að Grikkland gæti keypt Þýsk vopn". Hér sé ég vott af annarlegum tilgangi greinarhöfundar...

Valgeir (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 19:05

9 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það sem þú segir um styrkingu myntar Þjóðverja er nokkuð rétt. Yfirfærðu það nú yfir á Grikki sem hafa búið við alltof háa gengisskráningu í of mörg ár. "Þýska euroið" er of veikt, en "´Gríska euroið" er of sterkt. Það hefur eitrað Grískan efnahag.

Hinn Þýski maður sem þú segir að myndi missa vinnuni, hefur verið hinn Gríski maður undanfarin ár. Grísku fyrirtækin hafa farið á höfuðið.

Það sem þú lýsir segir hverjar hafa hagnast á euroinu undanfarin ár og hverjir tapað. Ein mynt fyrir alla gengur ekki upp.

Það sem ég var að benda á með Þýsku vopnin, er að Þjóðverjar (alla vegna sumir) vissu vel af því að Grikkir voru að "hagræða" í bókhaldinu. Deutsche Bank og Eurohypo aðstoðuðu þá við það.  Þannig pasaði sá "díl" inn í bókhald Grikkja.

Ég get fullvissað þig um að baki mínum skrifum er enginn annarlegur tilgangur, heldur eingöngu sú skoðun mín að ein mynt henti ekki "sjálfstæðum þjóðum", með mismunandi efnahag. Sú pólítíska tilraun stendur yfir, en eins og þú bendir á, hagnast sumar þjóðir á meðan aðrar tapa.

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2012 kl. 20:16

10 identicon

Ein mynt hentar vel misjöfnum efnahögum. Líttu bara á USA og öll fylki þess, sum nú þegar gjaldþrota, sum ekki enn. Öll nota dollarann. Ekki má borga sama tímakaup í Grikklandi og Þýskalandi. Ef það er gert, er vitleysan komin af stað. Það er ekki myntinni eða Þýskalandi að kenna að Grikkinn þinn varð atvinnulaus.

Ég, búinn að vera búsettur í Þýskalandi í tuttugu ár, þurfti að lesa um kreppuna í fjölmiðlum. Hér varð engin uppsveifla, hér varð ekkert hrun. Enginn græddi, enginn tapaði (jú reynar hafa lífeyrisvonir mínar minnkað). Og nú á Þýskaland alltíeinu að vera vondi gaurinn??? Þýskir bankar eru jafn skrítnir og allir aðrir bankar annara landa, sumir fóru sér geyst, sumir minna. Í Þýskalandi sitja fjölmargir fyrrverandi bankamenn í fangelsi, spáðu í því. Gott að ekkert gerðist á Íslandi...

Ef þú talar um að "Þjóðverjar" hafi vitað að Grikkir væru að falsa bókhaldið, mun ég kalla þig Björgúlf eða Björgólf hér eftir. Þú ert jú líka terroristi samkvæmt bóhaldi sumra nágranneyja Íslands.

Evrópa er í sköpun, það ferli tekur 100000 ár. Það mun vera upp og niður allan tímann, mest þó niður. Þannig er það.  Í þau tuttugu ár sem ég hef búið í Þýskalandi hefur alltaf allt verið að hrynja. Það mun ekki breytast. Maður venst þessu og nýtur þess að vera til.

Valgeir (IP-tala skráð) 12.2.2012 kl. 21:13

11 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það hafa mörg ríki með mismunandi efnahag sameinast um mynt.  T.d. Bandaríkin, eins og þú réttilega bendir á, það sama gildir um Kanada þar sem ég bý, og einnig Þýskaland.  Að sumu leyti gildir það einnig um Bretland.

En þau hafa öll valið þá leið að mynda sambandsríki, þar liggur munurinn.  Það hefur eurosvæðið ekki gert.  Bandríkin og Kanada hafa einn seðlabanka og eina alríkisstjórn (federal government).  Þess vegna fer ekki allt í uppnám þó að eitthvert ríkið standi illa.  Þýskaland er ekkí í uppnámi þó að Bremen standi illa.

En hvers vegna logar þá eurosvæðið þó að eitthvað smáríki eins og Grikkland sé við það að rúlla?

Hér í Kanada hefur uppgangur Alberta styrkt dollarann umtalsvert.  Það þýðir vandræði á öðrum svæðum.  Þess vegna fær t.d. Quebec 8 milljarða dollara (um 1000 milljarða Íslenskra króna) frá alríkisstjórninni í ár.  Svipaðar upphæðir hafa þeir fengið í langan tíma.  Ontario hefur fengið greiðslur í 2 eða 3. ár, vegna þess að iðnaður þar hefur átt undir högg að sækja vegna styrkingar dollarans.  Mig minnir að Ontario hafi fengið um 300 milljónir dollara í ár.  Þetta er í landi sem telur 33 milljónir íbúa, þannig að þú getur ef til vill séð út frá því hve hlutfallslega háar þessar greiðslur eru.

Bandrísku og Breski seðlabankarnir eru mjög "aktívir" og sýnist sitt hverjum um það,

Þessar vopnasölur Þjóðverja til Grikkja voru ekkert leyndarmál, og þó ekki væri talað um hvernig þær voru "bókfærðar" þá vissu Þýsk stjórnvöld um það.  Hvernig heldur þú að Der Spiegel hafi vitneskju um þær?  Frá Grikkjum?

Það getur meira en verið að það taki langan tíma að "skapa" Evrópusambandið, en Evrópa hefur verið til lengi, og mun verða það löngu eftir að "Sambandið" er komið undir græna torfu.  Hún hefur séð "heimsveldi" koma og fara.  Ég hef ekki trú á því að margir hafi áhuga á hundrað þúsund ára ríkinu sem þú talar um.

Ég er ekki að tala um að Þýskaland sé "vondi gaurinn", ef þú hefur misskilið eitthvað hvað það varðar.  En það breytir því ekki að það hentar ekki Grikklandi að vera með sömu mynt og Þýskaland, hvort sem það er "góður gaur" eða ekki.  Ekki nema þá að ætli að munstra sig saman og stofna sambandsríki, með hinum euroþjóðunum.

P.S.  Hvernig væri ástandið í A-Þýskalandi, ef þar hefði aðeins verið tekið upp V-Þýskt mark og látið þar við sitja?  

G. Tómas Gunnarsson, 12.2.2012 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband