Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2012

Nokkrar ekki alfarið einskisverðar tölulegar staðreyndir sem getur verið gott að halda til haga

Hér á eftir koma nokkrar athygliverðar tölulegar staðreyndir sem ég hef rekist á undanfarna daga. 

Evrópski seðlabankinn keypti skuldabréf ríkja Eurosvæðisins fyrir u.þ.b. 4.9 milljarða euroa fyrstu tvær vikur þessa árs.   Það eru u.þ.b. 784 milljarðar Íslenskra króna.

Grikkland þarf að greiða skuldabréf að upphæð 14.4 milljarða euroa þann 20. mars næstkomandi.  Það eru u.þ.b. 2304 milljarðar Íslenskra króna.

Ávöxtunarkrafa á 10 ára Portúgölsk skuldabréf hækkaði um ríflega 2. prósentustig á mánudaginn og var þá 14.72%

Evrópski seðlabankinn upplýsti að falsaðir euroseðlar sem fundist hefðu á síðustu 6 mánuðum síðasta árs, hefði fjölgað um 4.7% og hefðu verið 310.000.  Vinsælustu seðlarnir hjá fölsurum eru 20 og 50 euro, en samanlagt eru þeir um 80% af fölsuðum euroseðlum.

Kanadíski seðlabankinn hélt stýrivöxtum sínum í 1%.

Spánn seldi skuldabréf í dag.  Þeir náðu að selja 3 milljarða í skuldabréfum til 1. árs með 2.15% vöxtum, sem er umtalsverð lækkun frá síðasta útboði, er vextirnir voru 4.15%.  Þeir seldu sömuleiðis 1.87 milljarða af skuldabréfum til 18 mánaða með 2.49% vöxtum.  Athygli vekur að eftirspurnin í útboðinu minnkaði verulega frá því sem síðast var, en samt lækkuðu vextirnir. 

Fjárfestingar- og eignarhaldsfélög hafa fengið 83 prósent skulda sinna niðurfelld frá því lög um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins tóku gildi til og með 30. september 2011. Frá þessu er greint á vef Efnahags- og viðskiptaráðuneytisins.

Samtals nemur eftirgjöf skulda til þeirra rúmum 170 milljörðum króna.

Rúmlega 60 prósent skulda verslunar- og þjónustufyrirtækja og sjávarútvegsfyrirtækja hafa verið afskrifuð, 94 milljarðar hjá verslunar og þjónustufyrirtækjum og tæpir þrettán milljarðar hjá sjávarútvegsfyrirtækjum.

Þá hafa verið afskrifuð tæplega 60 prósent skulda verktaka og byggingafyrirtækja, tæplega helmingur skulda fasteignafélaga og um 47 prósent skulda fyrirtækja í öðrum greinum.

Það er eftirlitsnefnd um framkvæmd sértækrar skuldaaðlögunar sem tekur saman og birtir greinargerð með tölfræðilegum upplýsingum um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja þar sem eftirgjöf skulda nemur hærri fjárhæð en einum milljarði króna.

Upplýsingarnar um skuldaniðurfellingu er fengnar úr frétt RUV sem finna má hér.  Ekki er minnst á hlutfall eða upphæðir afskrifta til heimila í fréttinni.


Fyrir 6 mánuðum kynnir Jóhanna fyrir Merkel það sem Steingrímur segir í dag að sé ekki til

Síðasta setningin í þessari frétt hlýtur að vekja verulega athygli á Íslandi og hugsanlega víðar.  Hún afhjúpar hvernig staðið hefur verið að umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og hvernig undirbúningur, eða skortur þar á, hefur verið.

Þá sagðist Steingrímur einstökum samningsköflum í viðræðunum yrði ekki lokað nema um væri að ræða ásættanlegan frágang á þeim. Hann lagði áherslu á að ekki væri búið að móta samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Það eru u.þ.b. 2. og hálft ár síðan núverandi ríkisstjórn sótti um aðild að "Sambandinu".  Þá segir landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Íslendinga að ekki sé búið að móta samningsafstöðu Íslendinga í málaflokkunum.

Fyrir u.þ.b. 6 mánuðum síðan birtust fréttir af því að Jóhanna Sigurðardóttir hafi fundað með Angelu Merkel og kynnt henni samningsmarkmið Íslendinga.

Í frétt RUV frá þeim tíma segir m.a.

Eitt helsta markmiða fundarins var að kynna samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Jóhanna segist hafa farið sérstaklega yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin á fundi með kanslaranum, til að sýna henni fram á sérstöðu Íslendinga. Þetta telur Jóhanna mikilvægt vegna sterkrar stöðu Þýskalands innan Evrópusambandsins.

Fyrir 6 mánuðum kynnir Jóhanna fyrir Angelu Merkel það sem Steingrímur segir í dag að sé ekki til. 

Það er eitthvað á seyði sem ekki gengur upp.  En það kemur alltaf betur og betur að núverandi ríkisstjórn lagði upp með aðeins eitt samningsmarkmið, að ganga í "Sambandið".

Því miður er ég hræddur um að samningsmarkmiðunum hafi ekkert fjölgað.


mbl.is Köflum ekki lokað nema með ásættanlegri niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að gera rétt.

Það er fagnaðarefni að Ögmundur Jónasson skuli ætla að styðja niðurfellingu á ákærum á hendur Geir H. Haarde.  Ég hef ekki lesið grein Ögmundar, enda hef ég ekki aðgang að Morgunblaðinu, en sú klausa sem birtist í fréttinni sem þessi færsla er hengd við, er vel orðuð og segir það sem segja þarf.

Í mínum huga tók málið þarna eðlisbreytingu. Málaferli sem áttu að beinast að ábyrgð „stjórnmálanna“ á mistökum í aðdraganda hrunsins urðu með þessari atkvæðagreiðslu að málsókn gegn einum einstaklingi. Mistökin, sem ég kalla svo, voru þau að stöðva ekki atkvæðagreiðsluna, þegar sýnt var að hún var að taka á sig afskræmda flokkspólitíska mynd og gefa þingmönnum ráðrúm til að íhuga málið nánar.

Þetta rýmar vel við það sem ég hef heyrt frá mínum vinum og kunningjum. Þegar Alþingi samþykkti eingöngu að ákæra Geir, breyttist málið, úr uppgjöri í hefnd.  Hefði verið samþykkt að allir fjórir ráðherrarnir færu fyrir dóm horfði málið öðruvísi við.  Sumir hafa sagt að aldrei hefði það átt að geta orðið færri en 2.

Hvernig er hægt að ákæra fyrir pólítíska ábyrgð á því bankahruni sem sem varð á Íslandi og bankamálaráðherrann þarf ekki að mæta fyrir réttinn?  Þáverandi viðskiptaráðherra (og þar með bankamála) Björgvin G. Sigurðsson var ekki ákærður.  Þar réðu flokkssystkini hans í Samfylkingunni úrslitum.  Hann situr enda enn þá á Alþingi í skjóli Samfylkingarinnar.  Eftir síðustu kosningar gerði Samfylkingin hann að þingflokksformanni sínum, en sá síðar að sér í þeim efnum. Hann var sá ráðherra sem fjármálaeftirlitið heyrði undir, og þar skipaði Björgvin sem stjórnarformann helsta efnahagsmálaspeking Samfylkingarinnar, Jón Sigurðsson.

Þegar litið er yfir málið er ekki hægt annað en að vera sammála Ögmundi.  Þetta mál tók á sig afskræmda flokkspólítíska mynd.  Ég held að þegar það gerðist hafi málið sömuleiðis misst stuðning almennings, það er alla vegna sú rödd almennings sem ég heyri. 

Það færi því vel á að Alþingi ákvæði að draga ákærur sínar til baka.

P.S.  Eitthvað eru sumir að gera úr því klæðin að þetta gæti fellt ríkisstjórnina.  Ekkert er útilokað og hún yrði fáum harmdauði held ég.  En ríkisstjórn sem hefur tapað tvisvar í atkvæðagreiðslu gegn þjóðinni, þarf ekki að hrökkva upp af þó að hún tapi einni atkvæðagreiðslu á Alþingi.  Ekki nema að ákveðið sé að nota þetta mál í þeim tilgangi.  Það yrði þá í annað skiptir sem máið væri notað á afskræmdan pólítískan hátt.  En á kærleiksheimili núverandi ríkisstjórnar kemur fátt á óvart nú orðið.


mbl.is Rangt að ákæra Geir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýr Eurosamningur í besta falli óþarfur, í versta falli hættulegur?

Umræður um hinn nýja samning Euroríkjanna um aðhald í fjármálum heldur áfram að valda deilum víða.  Finnar, sem standa nokkuð vel, eru ekki sammála innbyrðis um hvernig sé best fyrir þá að halda á málum.

Nú hefur utanríkisráðherra Finna, Erkki Tuomioja sagt á bloggi sínu að best sé fyrir Finnland að standa utan við hinn nýja samning.

Tuomioja segir að hinn nýi samningur sé í besta falli óþarfur, en í versta falli hættulegur.  Hann segir Finna hafa ástæður til að vera á móti samningnum, og í það minnsta til að standa utan við hann.  Það verður þó að teljast ólíklegt að Finnar standi utan við hinn nýja samning, það eru ekki miklar líkur til að þeir kæmust upp með það.  En það er hins vegar ljóst að það er enginn einhugur um hvert skal stefna eða til hvaða ráðstafana eigi að grípa.

Það eru æ fleiri óánægðir farþegar í "eurohraðlestinni" og sumir virðast vera þar allt að því gegn vilja sínum.  Það hriktir enda í þeim brým sem lestinni er ætlað að fara yfir og sumar þeirra eru enn í byggingu eða á teikniborðinu.


Hausinn af - Evrópskir stjórnmálamenn vilja halda áfram að tala um kosti eurosins, en forðast enn að fjalla um gallana

Viðbrögð ýmissa frammámanna innan Eurosvæðisins við lækkun S&P á lánshæfismati 9. ríkja innan svæðisins hafa verið fyrirsjáanleg en órökrétt.

Þeir ráðast á sendiboðann og eru sumir hverjir eins og gamlir einvaldar sem hrópa: Hausinn af.

Vissulega eru matsfyrirtæki engar heilagar kýr og hafa í gegnum tíðina gert mistök, en S&P færir góð rök fyrir ákvörðun sinni.

Hér eru hlekkir á þrjár greinar sem þeir birtu fyrir helgina og skýra m.a. ákvörðun þeirra

Factors Behind Our Rating Actions On Eurozone Sovereign Governments

Standard & Poor's Takes Various Rating Actions On 16 Eurozone Sovereign Governments

France's Unsolicited Long-Term Ratings Lowered To 'AA+'; Outlook Negative

Fleiri greinar m.a. rökstuðning með ákvörðun um hvert land Eurosvæðisins um sig má finna í gegnum vefsíðu þeirra.

Það sjá enda flestir, nema þeir sem ekki kæra sig um að sjá, að aðgerðir stjórnvalda á Eurosvæðinu eru ekki að virka eins og til er ætlast.  Ástandið í Grikklandi er ekki á uppleið, það er ekki einu sinni "stabílt".  Atvinnuleysi á Spáni eykst mánuð frá mánuði, og fyrir helgina kallaði nýr forstætisráðherra landsins það stjarnfræðilegt.  Talað er um að Írland eigi erfitt að standa undir skuldabyrði sinni eins og staðan er í dag.  Ítalía vegur salt á brúninni.  Það að tengjast öðrum ríkjun nánum böndum virkar í báðar áttir.

Það er ekki nóg að skera niður útgjöld hér og þar og horfa svo glaðbeittur til framtíðar.  Vandi Eurosvæðisins er miklu stærri en það.  Eins og S&P segir (og margir hafa sagt á undan þeim) hefur ekkert verið gert til að ráðast á grunnvanda eins og vaxandi bil á milli samkeppnishæfni "Suður" og "Norður" ríkja Eurosvæðisins. 

Það þarf heldur ekki annað en að hafa fylgst með hvernig "Sambandið" hefur hrakist frá neyðarfundi til neyðarfundar, til að gera sér grein fyrir því að það á langt í land með að ná tökum á vandamálunum.

Það er talað um alls kyns lausnir, "tveggja hraða Samband", sáttmálabreytingar, frekari aðhaldsaðgerðir og jafn vel um að neyða aðildarríkin til að fara eftir þeim reglum sem þegar eru í gildi (um halla á ríkisjóði, skuldahlutfall o.s.frv.), en ekkert er ákveðið.

Það heyrist æ meir talað um hættu á því að Eurosvæðið brotni upp, eða það kvarnist úr því. Það heyrist líka æ meira talað um skort á pólítískri forystu í Evrópusambandinu, sem og að uppbygging "Sambandsins" og Eurosvæðisins sé gjörsamlega ónothæf í ástandi eins og nú ríkir.  Orðin "pólítískir dvergar" njóta vaxandi vinsælda.

Hvað Eurosvæðið varðar er það ekki ný tíðindi.  Fjölmargir bentu á það þegar euroinu var komið á fót og margir hafa haft orð á því síðar.  En eins og einn Íslenski "Sambandssinninn" komst svo skemmtilega að orði, þá seldu stjórnmálamenn Evrópusambandsins sjálfum sér og fylgismönnum sínum kosti eurosins en gleymdu að fjalla um og huga að göllunum.

S&P bendir á gallana.  "Sambandsmenn" bregðast reiðir við og segja:  Hausinn af.


mbl.is Evran ekki á útleið segir Barnier
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjarnfræðilegt atvinnuleysi

Stjarnfræðilegt er orðið sem nýr forsætisráðherra Spánar notar yfir atvinnuleysið þar í landi.  Það er ekki hægt að mótmæla þeirri orðnotkun hans.  Atvinnuleysið þar heldur áfram að aukast mánuð eftir mánuð og sýnist ekkert lát þar á.

Í lok júní á síðasta ári voru 4.830.000 einstaklingar atvinnulausir á Spáni.  Í lok september voru þeir orðnir 4.980.000.  Nú um áramótin var talan kominn fast að 5.400.000 einstaklinga, sem vilja fá vinnu en geta það ekki.  Ástandið er sýnu verst hjá ungu fólki en helmingur þess er atvinnulaust.

Spænski forsætisráðherrann nefndi engar prósentutölur, en þetta er líklega á milli 23 og 24% atvinnuleysi.  Það má segja að því sem næst einn af hverjum 4 á vinnumarkaði geti ekki fundið atvinnu.

Forsætisráðherrann, Mariano Rajoy, sagði að baráttan við atvinnuleysið væri forgangsverkefni ríkisstjórnar sinnar.  Það geta líklega flestir ímyndað sér hvernig slíkt atvinnuleysi leikur ríkiskassann, bæði í minni tekjum og ekki síður auknum útgjöldum. 

Lánamarkaðir verða Spáni líklega enn erfiðari á næstunni, enda lækkaði S&P landið um 2. þrep á föstudaginn.

Það bætir ekki úr skák að hin nýja ríkisstjórn hefur einnig upplýst að halli ríkissjóðs síðasta ári hafi verið u.þ.b. 8%, í stað þeirra 6 sem fyrri ríkisstjórn hafði stefnt að.  Ríkisstjórnin hefur sakað fyrri stjórn sósíalista um að hafa vísvitandi leynt hinum aukna halla.

Það er því ekki bjart framundan á Spáni þó að landið sé sólríkt.  Mynt þeirra er reyndar nokkuð stöðug, þó að hún hafi látið örlítið undan síga á undanförnum vikum.  En tilvera launþega landsins er ekki stöðug, nema að því marki sem hún virðist liggja stöðugt niður á við.

Lánastofnanir landsins landsins eru margar í miklum erfiðleikum og er talið að þær hafi eignast u.þ.b. 900.000 fasteignir.  Margar þeirra neita hugsanlegum kaupendum alfarið um lán til húsnæðiskaupa, nema til að kaupa eignir í eign viðkomandi lánastofnunar.  Það hefur aftur leitt til þess að margir eiga í vandræðum með að selja eignir sínar, þó að þeir fegnir vildu.  Efti því sem ég kemst næst hefur húsnæðisverð lækkað um nálægt 20%, en haft er eftir aðilum á fasteignamarkaði að líklegast þurfi markaðurinn að lækka um önnur 20%.

P.S. Megnið af tölunum í þessari færslu er fengin héðan.


Leiðtogafundur Euroríkjanna: Kvöldverður fyrir einn

Það er ekki bara á Íslandi sem gert er grín að stjórnmálamönnum í árslok.  Hér að neðan er "skets" sem Þýska sjónvarpsstöðin ARD (fyrir þá sem þola ekki skammstafanir um heiti sjónvarpsstöðva þá heitir stöðin fullu nafni: Arbeitsgemeinschaft der öffentlich-rechtlichen Rundfunkanstalten der Bundesrepublik Deutschland ) birti um síðustu jól.  "Sketsinn" er byggður á stuttmynd frá 1963, sem heitir "Dinner for One".  Upphaflega Breskt atriði, en það hefur notið gríðarlegra vinsælda í Þýskalandi og hefur fengið þar "költ" status.  Þar er atriðið sýnt um hver áramót  og hafa vinsældir breiðst út til margra Evrópulanda.                                          

Í grínatriðinu er atriðinu snúið upp á Angelu Merkel og Nicholas Sarkozy, og "leiðtogafundi" Eurosvæðisins og Berlusconi (Tiger) er enn þá að þvælast fyrir þeim.   Á YouTube fann ég atriðið með enskum texta.

Á Íslensku má ef til vill segja að "sketsinn" sé um "sæti við borðið".

Fyrir þá sem vilja sjá "orginalinn" læt ég hann fylgja hér með


Hvert flytur krónan fé?

Gjaldmiðilsmál eru mikið rædd á Íslandi þessi misserin.  Það er eðlilegt enda gjaldmiðill mikilvægt tæki í efnahagslífi hvers lands.

Gengisfelling eða gengisfall er ekki vinsæll atburður.  Gengið fellur, innfluttar vörur hækka í verði, dýrara er að ferðast erlendis o.s.frv.  ´

Ýmsir tala um að gengisfall flytji verðmæti frá launþegum til atvinnurekenda.  Það er auðvitað ekki rangt, en það segir ekki nema hálfan sannleikann.  Slíkt er reyndar nokkuð vinsælt í Íslenskri umræðu, það er að segja aðeins hálfan sannleikann.

En gengisfall flytur ekki síður fé frá launþegum til launþega. 

Þegar gengið fellur batnar hagur útflytenda sem og innlendra framleiðenda sem keppa við innfluttar vöru.  Fleiri fá atvinnu, en að vísu með lægri kaupmátt, sérstaklega á innfluttar vörur.

Það þarf ekki að leita langt til að finna lönd sem eru með "stabílli" mynt, en hafa glatað samkeppnishæfni sinni og atvinnuleysi hefur rokið upp.

Hvað væri atvinnuleysi á Íslandi ef myntin hefði ekki gefið eftir, frá því sem var árin 2007-2008?  Er það hlutskipti sem Íslenskir launamenn myndu kjósa sér?

Væri atvinnuleysið á Írskum, Grískum, Ítölskum eða Spænskum "stabílum" grunni?


Saga Borgarættarinnar - á Eistnesku

Í morgun áskotnaðist mér eintak af Sögu Borgarættarinnar, á Eistnesku. Það sem er þó ef til vill hvað merkilegast við þessa útgáfu af bók Gunnars Gunnarssonar, er að hún er prentuð og gefin út hér í Toronto.  Nánar tiltekið árið 1961.  Heitir sagan á Eistnesku Borgi Rahvas.

Útgáfan virðist vera hluti af útgáfu bókaklúbbs og er bók næsta mánaðar auglýst innan á kápunni.  Líklegast er að útgáfan sé að mestu leyti endurprentun á Eistneskri útgáfu sem kom út árið 1939.  Útgáfan frá 1939 hefur líklega verið nokkuð vönduð, m.a. eru gerðar sérstakar grafíkmyndir fyrir útgáfuna af Eistneska listamanninum Ernst Kollom.  Sömu myndirnar eru að öllum líkindum í Toronto útgáfunni, en ég hef ekki hugmynd um hvort að þær eru allar.  En þær eru merktar EK þannig að líklega er óhætt að draga þá ályktun að þær séu þær sömu.

Það sem er þó ef til vill merkilegast í þessu samhengi, er að þetta litla samfélaga Eistlendinga sem var hér í Toronto skuli hafa gefið út bók Gunnars.  Þá bjuggu hér í borginni líklega einhvers staðar á milli 12 og 15.000 Eistlendingar, þannig að markaðurinn hefur ekki verið stór.  Eitthvað hefur hugsanlega verið selt til Bandaríkjanna því þar bjuggu einhverjir tugir þúsunda af Eistlendingum.

En þessi fyrsta kynslóð Eistneskra innflytjenda, sem kom hér eftir seinna stríð, lagði mikið á sig til að viðhalda tungu sinni og menningu.  Að mörgu leyti er ótrúlegt hvað ekki stærra samfélag hefur komið í verk.

Nú þarf ég að reyna að grafa upp hvort að einhverjar fleiri Íslenskar ættaðar bækur hafi verið á meðal þess sem hér var gefið út.


Vegir liggja til allra átta, en flestir niður á við

Ég held að fæstum hafi komið það á óvart að lánshæfismat Frakklands hafi verið lækkað niður í AA. En þeir hafa verið býsna margir sem vonuðust til þess að það yrði ekki.

Ég efast þó um að þeir hafi verið mikið færri sem vonuðust eftir því að matið yrði lækkað. Það er að segja allur sá fjöldi sem hefur selt "framtíðareuro" á lægri gengi en myntin hefur í dag.

Það hafa enda margir undrast hvað euroið hefur haldið styrk sínum, þó það hafi reyndar látið verulega undan síga, sérstaklega gagnvart Japanska jeninu, en ekki síður gagnvart ýmsum smærri myntum s.s. Sænsku og Norsku krónunum. Svissneski frankinn er síðan sér kapítuli, því enginn veit hvað Svissneski seðlabankinn hefur keypt mikið af euroum til að halda gengi frankans niðri og eurosins uppi. Það má reyndar segja að almenningur viti lítið um af hvað miklum krafti seðlabankar beita sér á þessum markaði, og fær lítið að vita um það.

The Battle goes on Euro Joep Bertrams DutchEn þessi lækkun á lánshæfismati getur haft mikil áhrif.  Hún hefur líklega áhrif til hækkunar á lánskostnaði hjá ríkjunum og einnig á fjármögnun EFSF, en Frakkland og Ítalíu er ætlað stórt hlutverk þar (Frakkland á að leggja fram u.þ.b. 20%).  Lækkun Frakklands ýtir sömuleiðis undir líkurnar á því að Sarkozy falli og Hollande, frambjóðandi sósíalista verði forseti.  Það minnkar hins vegar líkurnar á því að Frakkland haldi áfram á niðurskurðarbrautinni eða að gerðar verði miklar umbætur á vinnumarkaði.  Sem aftur kann að fara misjafnlega í Þjóðverja.

Enn og aftur hnýta Franskir stjórnmálamenn í matsfyrirtækið og gagnrýna um leið að lánshæfismatseinkunn Bretlands skuli ekki vera lækkuð, fyrst Frakkland þurfi að þola þá hneysu.  Nú hafa sömu raddir heyrst úr Þýska stjórnkerfinu.  Það er auðvitað til marks um pirringinn, ekki hvað síst út í Breta.  Sem aldrei fyrr sést hve afstaða þeirra að standa utan eurosins var rétt, enda er þeirra eigin mynt það sem gerir gæfumuninn að þeir haldi sinni AAA einkunn.

En þær geta orðið örlagaríkar vikurnar fram undan.  Fréttirnar um að samningar á milli Grikklands og lánadrottna þeirra gengju illa og samkomulag langt undan, eru í raun ekki síður alvarlegar eða jafnvel alvarlegri.  Ef ekkert breytist þar horfist Grikkland í augu við gjaldþrot.  Lækkun á lánshæfismati eykur ekki getu annara euroþjóða til að koma til hjálpar.

Krafan um sameiginlegar aðgerðir, sameiginleg skuldabréf og frekari samruna verða því á háværari.  Það er er hins vegar erfiður pakki fyrir stjórnmálemennina að "selja".  En áköllín um að þörf sé að setja fram neyðaráætlun um hvernig eurosvæðið verði brotið niður eru líka háværari og heyrast æ oftar.

Eins og máltækið segir, nú eru góð ráð dýr, og líklega er það rétt að lausnin, ef menn ná að sammælast um eitthvað í þá áttina, kostar líklega fleiri og fleiri euro með hverri vikunni sem líður.

 


mbl.is Lánshæfislækkunin „ekki stórslys“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband