Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009
15.4.2009 | 10:40
Samúð með innbrotum?
Mér finnst merkilegt hve margir Íslendingar virðast hafa samúð með fólki sem brýst inn í hús. Það virðist sem að það þyki ekki eðlilegt að löggæsla standi vörð um eignir fólks lengur og setji þá út sem hyggjast nýta eignir annarra í heimildarleysi.
Auðvitað er ekkert nema eðlilegt að fólk sé fært út úr húsum sem það dvelur í í óþökk eiganda og til þess sé beitt því valdi sem þarf.
Þeir sem finnst eðlilegt að eignir annara séu teknar yfir með þessum hætti, ætti ef til vill að stofna kommúnur með innbrotsfólkinu, í sínum eigin húsakynnum?
Sextán handteknir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.4.2009 | 09:37
Ánægjuleg ferð
Það var á föstudaginn sem "Bjórárgengið" lagði af stað frá Toronto með Icelandair, og lenti síðan á Íslandi snemma á laugardagsmorgunin.
Það er skemmst frá því að segja að ferðin reyndist okkur ákaflega þægileg og þó að ýmislegt hafi verið skorið niður hjá Icelandair, s.s. matur verð ég að segja að þjónustan er eftir sem áður af þeim klassa að ekki verður hjá því komist að þakka fyrir hana.
Fyrst og fremst er líka ánægjulegt að þó að þjónustan hafi minnkað, þó hefur sá niðurskurður að engu leyti látinn bitna á börnunum. Þeim er færð teppi og koddi, þau fá á heita samloku, djús og smá snarl og þeim eru færð heyrnartól, þannig að þau geti horft og hlustað á sjónvarpið. Allt án aukagjalds. Þeim er færður maturinn á undan öðrum farþegum, enda eiga þau oft erfiðast með að bíða.
Enda ljómuðu börnin eins og sólir og Foringinn hefur ekki enn tekið niður Icelandair merkið sem honum var fært að gjöf og færir það samviskusamlega á milli náttfatanna og fata þeirra sem notuð eru á daginn, hvert kvöld og hvern morgun.
Það hefur síðan ekki væst um okkur í Hafnarfirðinum frekar en endranær, hápunkturinn strax á sunnudagsmorgunin, þegar börnin þurftu að leita hátt og lágt í húsinu af páskaeggjum.
Seinna í þessari viku er síðan meiningin að halda til Akureyrar.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.4.2009 | 23:42
Þáði Samfylkingin 10. milljónir frá Landsbankanum árið 2006? "Ekki frétt" hjá Stöð 2?
Ég var rétt áðan, rétt eins og oft áður að horfa á fréttir á netinu. Fyrst horfði ég á fréttir RUV og síðan á fréttir Stöðvar 2 á vef vísis.
Það var ein fyrirsögn á fréttum Stöðvar 2 sem vakti athygli mína. En fyrirsögnin er:
Samfylkingin þáði 10 milljónir frá Landsbankanum 2006.
Síðan þegar hlustað er á fréttina er ekkert um það að Samfylkingin hafi þegið þessar milljónir frá Landsbankanum.
En það er vissulega merkilegt að þessi fyrirsögn hafi slæðst inn í fréttayfirlitið á netinu.
Spurningin er, hvernig geta mistök sem þessi orðið því hér er eitthvað mikið meira en innláttarvilla áf ferðinni.
Er fréttin til og var ekki send út? Ef enginn fótur er fyrir þessari frétt, hvernig stendur þá á því að þetta ratar inn í fréttayfirlitið?
Með tilliti til frétta undanfarinna daga, þá er ég ekki of trúaður á tilviljanir.
P.S. Það er hægt að stækka myndina með því að klikka á hana.
P.S.S. Nú þegar klukkan er tuttugu mínútur yfir 10 (02.20 á Íslandi) er búið að breyta fyrirsögninni á vef Vísis. Í stað: "Samfylkingin þáði 10 milljónir frá Landsbankanum 2006", stendur nú "Þingmaður Framsóknar vill opna bókhald flokksins".
Stjórnmál og samfélag | Breytt 10.4.2009 kl. 02:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
9.4.2009 | 22:13
Náðugir dagar hjá vinstri flokkunum
Þeir eiga náðuga daga andstæðingar Sjálfstæðisflokksins, nú um stundir. Þeir geta leyft sér að halla sér aftur og slaka örlítið á. Sjálfstæðisflokkurinn sér einn og óstuddur um að reyta af sér fylgið þessa dagana. Styrkir sem flokkurinn þáði frá FL Group og Landsbankanum eiga næsta víst eftir að kosta flokkinn nokkur prósentustig.
Auðvitað er ekkert ólöglegt við umrædda styrki, en siðferðið var ekki haft með í för þegar tekið var á móti þeim. En það sem verra er, viðbrögð flokksins eftir að umræddir styrkir komust í hámæli hafa ekki verið með því móti að dragi úr skaðanum, heldur líklega þvert á móti.
Ég hygg að fáir trúi því að ábyrgðin liggi alfarið hjá Geir Haarde, eins og reynt var að koma á framfæri. Það hljómar heldur ekki trúverðuglega að því sem næst enginn af þeim sem koma nálægt fjáröflun og fjármunum flokksins hafi vitað af þessum peningum. Það er erfitt að trúa því að 55 milljónir "detti" inn á reikninginn og engum finnist það skrýtið, eða spyrji hvaðan peningarnar koma. Eða voru þessir peningar ekki inn á hinun venjubundnu reikningum flokksins?
Frásagnir þingmanna flokksins um milligöngumenn eru heldur ekki með þeim hætti að þær upplýsi um gang mála og eru því ofullnægjandi.
En þetta er mál sem verður að upplýsa með fullnægjandi hætti, hér verður allt að koma upp á borðið og þörf er á að velta við öllum steinum.
Ef til vill er hægt að orða það sem svo, þú verður að klára þetta Bjarni.
Ekki kjörnir fulltrúar flokksins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.4.2009 | 19:06
Smá Flickr
Nú er allt að verða tilbúið fyrir væntanlega Íslands (og Eistlands) ferð Bjórárfjölskyldunnar. Eingöngu eftir að pakka smáræði ganga frá. En auðvitað er nægur tími á hinum langa föstudegi til að ganga frá ýmsum smáatriðum, enda ekki þörf á því að mæta í flughöfn fyrr en að verða 6 um eftirmiðdaginn.
En ég ákvað að birta hér nokkrar myndir af Flickr síðunni minni, hægt er að klikka á myndirnar ef áhugi er fyrir að sjá þær stærri.
8.4.2009 | 18:40
Íslendingar viljugri en Bretar til að ata ráðherra auri
Það er nokkuð merkilegt að velta því fyrir sér, nú þegar Bresk þingnefnd hefur fjallað um samskipti Íslendinga og Breta í aðdraganda þess að Bretar beittu hryðjuverkalöggjöf sinni gegn Íslendingum, að þar ýmsir Íslendingar og Íslenskir stjórnmálamenn virðast vera mun reiðubúnari til að ata Íslenska ráðherra auri, en Breskir starfsbræður þeirra.
Breska þingnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að samtal Árna Mathiesen og Alistair Darling hafi ekki getað gefið Darling og Brown nokkra ástæðu til að beita hryðjuverkalöggjöfinni gegn Íslendingum.
Það er þveröfugt við það sem margir Íslenskir stjórnmálamenn vildu halda fram og mátti heyra þá skoðun að viðbrögð Breta væru Árna að kenna margendurtekin í Íslenskum fjölmiðlum.
Það skyldi þó aldrei vera að ýmsir stjórnmálamenn hafi metið hagsmuni sína og síns flokks ofar hagsmunum Íslands þegar umræðan stóð sem hæst?
Að þeir hafi réttlætt gjörðir Breta í þeirri von um að þeir og flokkar þeirra styrktu stöðu sína, þó að staða Íslands yrði ef til vill verri fyrir vikið?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.4.2009 | 16:49
Styrkar stoðir?
Þetta er óneitanlega með stærstu fréttum þessa árs og hafa þær þó verið margar býsna merkilegar það sem af er árinu.
Á Íslenskan mælikvarða er þetta ótrúlega há upphæð sem eitt fyrirtæki gefur einum stjórnmálaflokki. Ef rétt er hér farið með staðreyndri, er hér er heldur ekki um að ræða "eitthvert" fyrirtæki heldur FL Group og styrkurinn er til Sjálfstæðisflokksins.
En það er margt athyglisvert við þessa "millifærslu", en ein athyglisverðasta staðreyndin er sú hvenær hún gerist, rétt áður en ný lög um fjármál stjórnmálaflokka tekur gildi og um það leyti sem Kjartan Gunnarsson er rétt hættur sem framkvæmdastjóri flokksins.
Nú skuldar Sjálfstæðisflokkurinn útskýringar, hver falaðist eftir styrknum (ef það er rétt að Sjálfstæðisflokkurinn hafi haft frumkvæði að málinu) og hver tók á móti honum og gaf út kvittun.
Það er áríðandi að forysta flokksins skýri undanbragðalaust frá þessu máli, sú krafa kemur ekki síst frá þeim sem styðja flokkinn.
Í málum sem þessum er er alltaf gaman að velta fyrir sér tímasetningum. Vissulega blasir það við að vart hefði verið finnaleg verri tímasetning fyrir þessa uppljóstrun hvað varðar Sjálfstæðisflokkinn. En það er líka vert að velta því fyrir sér hvort að þetta sé "skot fyrir stefnið", nú þegar pólítískt skipaðir fulltrúar eru að ákveða framtíð Stoða, og hvernig eða hvort nauðasamningar verða.
P.S. Það er vissulega vert að velta því líka fyrir sér hvernig fyrirgreiðslu hefur verið háttað til annara flokka, stuttu fyrir hin nýju lög. Sá það á vefnum áðan að fjárframlög fyrirtækja til Samfylkingar eiga að hafa verið ríflega 30 milljónum hærri árið 2006, en 2005, og sömuleiðis ríflega 30 milljónum hærri 2006 en 2007. En það næst víst ekki í Skúla Helgason, þáverandi framkvæmdastjóra. Það er nú líklegra frekar sjaldgæft að ekki náist í frambjóðendur svo stuttu fyrir kosningar, en annirnar eru miklar og enn einhver göt í farsímasambandið.
30 milljóna styrkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.4.2009 | 16:12
Bjórárfjölskyldan heldur til Íslands
Þá er að koma að því að Bjórárfjölskyldan haldi til Íslands, en við eigum pantað far með Icelandair seinnapartinn á föstudag (gott að nota þennan langa dag til að ferðast) og komum því til landsins á laugardagsmorgni - rétt svo tímanlega fyrir páskaeggjaát á sunnudeginum.
Reyndar verða það aðeins ég og ómegðin sem stoppa á Íslandi, en Kristina heldur áfram til Kaupmannahafnar og þaðan til Eistlands. Hún kemur svo síðar til Íslands og verður þar í viku áður en við verðum samferða heim.
Dulitlum tíma verður varið á höfuðborgarsvæðinu, en stefnan er aðallega sett norður á Akureyri. Nokkur mikill spenningur hefur gripið um sig hjá börnunum og hafa þau gengið um með bakpoka nokkra undanfarna daga og skipulagt hvað á að setja í þá fyrir ferðalagið.
P.S. Vitanlega er meiningin að versla eitthvað, en það var þó alfarið óþarfi að láta krónuna síga okkar vegna.
4.4.2009 | 21:08
Gott grín léttir lundina
Á vefsíðu Vísis má í dag lesa stutt viðtal við Baldur Þórhallsson, frambjóðenda Samfylkingarinnar og fyrrverandi "óháðan fræðimann".
Ég mundi ekki greiða Baldri atkvæði mitt, en hann fær hæstu einkunn fyrir húmor, það verður ekki af honum skafið að hann léttir mér lundina með gullkorni sem þessu:
Baldur segir að hann hafi hingað til ekki verið að gefa mikið út á sínar eigin skoðanir um Evrópusambandið. Baldur segist gera sér grein fyrir því að minna verði leitað til hans sem óháðs fræðimanns við Háskóla Íslands eftir ákvörðun hans um að taka sæti á listanum. En það er spurning um hvort það sé ekki heiðarlegra, þegar manni finnst svo mikið liggja við, að segja sína skoðun tæpitungulaust um hvað þurfi að gera í Evrópumálum," segir Baldur.
Hingað til hefur sem sé enginn getað rennt í grun um hver skoðun Baldurs hefur verið á því hvort að Íslendingar eigi að ganga í "Sambandið".
En Baldur vill þó ekki gefa upp vonina um að það verði áfram leitað til hans sem "óháðs fræðimanns", en hann telur að það verði minna en áður.
Stóra spurningin sem hlýtur að koma upp er hvort að Baldur hafi gengið í Samfylkinguna, eða hvort hann sé "óháður" frambjóðandi, en slíkt hefur oft verið vinsælt á vinstri vængnum, og er skemmst að minnast þeirra óháðu frambjóðenda Dags B. Eggertssonar og Ögmundar Jónassonar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 5.4.2009 kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.4.2009 | 18:25
Bannað að flytja út Íslenskan lakkrís nema fyrir erlendan gjaldeyri
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvert stjórnvöld á Íslandi stefna með þrengingu gjaldeyrishaftanna.
Nú er má ég ekki kaupa Íslenskar vörur fyrir Íslenskar krónur, ef ég ætla vörurnar til útflutnings.
Ég má til dæmis ekki selja 1000 flöskur af hlynsýrópi til Íslands fyrir 1000 krónur flöskuna, taka þá milljón sem ég fæ fyrir og kaupa mér Íslenskan lakkrís fyrir og flytja hingað til Kanada (þetta er ekki raunverulegt, heldur nefnt hér sem dæmi).
Nei, fyrir lakkrís til útflutnings skal greitt með erlendum gjaldeyri.
Íslensk fyrirtæki mega ekki taka við Íslenskum gjaldeyri ef varan er ætluð til útflutnings.
Sjálfsagt styttist í það að ferðamönnum verður bannað að koma með Íslenskar krónur til landsins, þeim verður gert skylt að nota erlendan gjaldeyri. Jafnframt verður þeim líklega gert skylt að skipta honum í ríkisbönkunum. Sjálfsagt mega þeir eiga von á fangelsi eða sektum ef þeir verða uppvísir að því að skipta "á svörtum".
Höft leiða af sér frekari höft, höft leiða af sér frekari þörf fyrir eftirlit og löggæslu.
Ég hef áður sagt það að Íslenskir stjórnmálamenn eru "ráðstjórnarlegri" en oftast áður, þetta er ein birtingarmynd þess.