Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Verður niðurstaða Viðskiptanefndar Alþingis sú að eignarréttur gildi á Íslandi og einstaklingum verði ekki refsað án rökstudds gruns um afbrot?

Það er margt sem alþingismenn taka sér fyrir hendur.

Stundum fæ ég á tilfinninguna að lýðskrum sé ekki hvað minnsti þáttur starfans, alla vegna hjá mörgum þingmönnum.

Þessi frétt af vef RUV er allt að því kómísk og ætla ég því að taka mér það leyfi að birta hana hér í heild sinni.

Ekki er hægt að frysta eignir stærstu hluthafa fjármálafyrirtækja nema sýnt sé fram á rökstuddan grun um lögbrot. Þetta kemur fram í lögfræðiáliti sem lagt hefur verið fram í viðskiptanefnd Alþingis.

Þingflokkur vinstri grænna óskaði eftir því í viðskiptanefnd Alþingis fyrir viku síðan að kannaðar yrðu lagalegar forsendur þess að kyrrsetja tímabundið allar eignir innlendra fjármálafyrirtækja sem komist hafa í þrot, eigenda þeirra og tengdra aðila hér á landi og setja bann við kvers kyns ráðstöfun, sölu og veðsetningu og þar fram eftir götunum.

Einnig hvort hægt væri að leggja hald á og eftir atvikum heimta til landsins eignir sömu aðila erlendis, allt í því skyni að gæta hagsmuna þjóðarbúsins.

Lögfræðingar nefndasviðs Alþingis skiluðu viðskiptanefnd grunnsamantekt á málinu en tóku fram að ekki væri um tæmandi úttekt að ræða.

Í álitinu sem fréttastofa hefur undir höndum segir að ekki sé að finna í lögum sérstakt ákvæði sem heimili frystingu eða kyrrsetningu eigna hluthafanna án þess að sýnt sé fram á rökstuddan grun um lögbrot. Þó séu í lögum ýmis ákvæði sem heimili kyrrsetningu í tengslum við athafnir á fjármálamarkaði og einnig í tengslum við almenn hegningarlög og lög um meðferð opinberra mála, en þá séu ætíð sett fram skilyrði um að minnsta kosti rökstuddan grun um brot.

Þá segir ennfremur í álitinu að með hliðsjón af stjórnarskrárvörðum eignarrétti og skorti á persónulegri ábyrgð hluthafa í hlutafélögum sé nauðsynlegt að gæta meðalhófs við uppgjörið eftir fall bankanna og að aðgerðir verði sem minnst íþyngjandi en nái þó takmarki sínu.

Það er sem sé að koma í ljós (hver hefði getað giskað á það) að það þurfi rökstuddan grun um afbrot til þess að hægt sé að refsa einstaklingum.  Sömuleiðis virðist það koma fram í lögfræðiálitinu að virða beri eignarétt á Íslandi, eins og yfirleitt hefur verið venjan.

Einhverjum þingmönnum þykir það sjálfsagt slæmt að ekki séu til "hryðjuverkalög" á Íslandi sem hægt er að grípa til, svo hægt sé að frysta eigur "auðmanna".

Gordon Brown hvað?

 

 

 

 


Mér finnst athyglivert

Ég er alltaf að rekast á eitthvað athyglivert á netinu.

Það sem hefur m.a. vakið athygli mína í dag er:

Blogg Gaflarans Gunnars Axels.  Þar fjallar hann um fjárfestingarstefnu Lífeyrissjóðs ríkisstarfsmanna.

Þar segir m.a.:

Í stað þess að einbeita sér að því að ávaxta sjóðinn hægt og örugglega tóku menn þá stefnu að setja peningana þangað sem vænta mátti bestrar ávöxtunar en einnig mestrar áhættu. LSR fjárfesti þannig minna og minna í ríkistryggðum bréfum og lítið í framleiðslufyrirtækjum á borð við Össur og Marel en þeim mun meira í FL Group, Kaupþingi, Exista og Landsbankanum.  Það var það sem Ögmundur og félagar lögðu höfuðáherslu á umliðnum árum.  Til að græða nú örugglega nógu mikið á sem skemmstum tíma bættu svo Ögmundur og félagar enn í með því að setja slatta í peningasjóði og ríflega summu í allskyns erlenda hlutabréfasjóði með svakalega fínum og flottum nöfnum, sbr. ACM Global Growth Trends og State Street Enhanced Fund.

Og

Ögmundur hefur gengið fram fyrir í gagnrýni sinni á stjórnvöld, bankana, talað um græðgi og tilkynnt þessari blindu þjóð að hann hafi jú vitað þetta allan tímann. Hann og félagar hans í VG vissu allan tímann að bankarnir voru byggðir á sandi, að útrásarsöngurinn var innantómt væl.

Hvernig stendur þá á því að Ögmundur Jónasson tók ekki ákvarðanir í samræmi við þessa vissu sína þegar hann ráðstafaði því sem með sanni má kalla fjöregg þjóðarinnar, lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, á bál þeirrar gróðahyggju sem hann vill nú ekki kannast við að hafa nokkru sinni kynnt undir?

Verður vinstrisinnaði verkalýðsforinginn ekki að svara fyrir þetta áður en hann gefur sjálfum sér hvítþvottarstimpilinn?

 Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekkert til málsins, en mér þykir umfjöllunin athygliverð.  Ef einhver hefur meiri viteskju um málið, eða eitthvað til málanna að leggja þætti mér fengur að því í athugasemdum.

En annað sem vakti athygli mína í dag, var umfjöllun, ef til vill á léttari nótunum, á vefnum www.t24.is  Þar undir liðnum "Götuhornið" var fjallað um það hve sagan getur verið óvægin dómari.

Þar segir, og ég tek mér það bessaleyfi að birta greinina í heild sinni:

Undir lok síðasta árs valdi Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins Jón Ásgeir Jóhannesson sem mann ársins í íslensku viðskiptalífi. Árið áður taldi blaðið að Hannes Smárason, fyrrum forstjóri FL Group, hefði staðið öðrum framar í viðskiptum hér á landi.

Sérstök dómnefnd sá um valið en á síðasta ári var Björgólfur Thor Björgólfsson í öðru sæti, Róbert Wessman, fyrrum forstjóri Actavis, í þriðja og Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, í fjórða sæti.

Dómnefndin fékk einnig það verkefni að velja bestu viðskipti ársins 2007 og niðurstaðan:

  • Sala Novators á búlgarska símanum BTC,
  • Icesave reikningur Landsbankans
  • Hlutafjáraukning Baugs í FL Group væru bestu viðskipti ársins.

Dómnefndina skipuðu eftirtaldir:
 
Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningardeildar Glitnis, Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, Svafa Grönfeldt, rektor Háskólans í Reykjavík, Halla Tómasdóttir, stjórnarformaður Auður Capital, Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, Ágúst Einarsson, rektor Viðskiptaháskólans á Bifröst, Ólafur Ísleifsson, lektor við HR, Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, forstjóri Saga Capital, Jafet Ólafsson hjá VBS fjárfestingabanka, Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis, Ásta Dís Óladóttir, dósent á Bifröst, Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins, Þórður Friðjónsson, forstjóri Kauphallar Íslands, Hafliði Helgason, fyrrverandi ritstjóri Markaðarins, Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Gunnar Ólafur Haraldsson, forstöðumaður Hagfræðistofnunar, Friðrik Már Baldursson, prófessor í HR, Hrund Rudólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Milestone og formaður stjórnar SVÞ, Jón Þór Sturluson, aðstoðarmaður viðskiptaráðherra, og Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Rétt er að taka fram að ofangreint segir ekkert um það hvernig einstakir meðlimir dómnefndar köstuðu atkvæðum sínum.

 


Almannafé er ekki gólftuska

Vildi vekja athygli á þessarri frétt sem ég sá á Vísi.

Hér er talað bæði undir nafni og nafnleysi (tveir aðilar) og undir nafnleysi er ekki skafið af hlutunum.

Sérfræðingur með víðtæka reynslu úr bankakerfinu sagði við fréttastofu að ef Seðlabankinn hefði svarað þessu tilboði - hefði það eingöngu verið til að fá Landsbankamenn til að skilja að ,,almannafé er ekki nein gólftuska sem nota má til að þrífa upp það sem til spillis hefur farið og eigendurnir, þeir sem helltu niður, geti að því búnu haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist."

,,Þarna sé meiningin að gefa saman tvo dauðvona sjúklinga, hjónabandið hefði orðið stutt og þeim varla barna auðið."

Fréttastofa Stöðvar 2 segist hafa leitað lengi að einhverjum óháðum aðila til að tjá sig um tilboð Landsbankans,.

Ég held að ég taki ekki of stórt upp í mig þegar ég segi að það sé nokkuð öruggt að Stöð 2 hefur ekki leitað í dyrum og dyngjum til að finna einhvern til að bera blak af Davíð Oddssyni.

Þeim mun athygliverðari er þessi frétt.

 

 

 


Já ráðherra....

... þetta er skref í rétta átt og til eftirbreytni.

Ég er alveg sammála Ingibjörgu í þessu máli, enda bloggaði ég á svipuðum nótum fyrir nokkru.  Fella niður loftrýmieftirlit um óákveðin tíma og alls ekki að hleypa vopnuðum Bretum nálægt landinu.

Nú þurfa að koma fram alvöru og skilyrtar sparnaðartillögur.

Það er til dæmis tilvalið að loka sendiráðum og fækka starfsfólki.  Ég hugsa að það væri ekki óraunhæft að fækka sendiráðum um einn þriðja.

Utanríkisráðuneytið hefur vaxið hröðum skrefum undanfarin ár, nú þarf að draga saman.

Síðan þurfa önnur ráðuneyti að vinna í sínum málum og tilkynna skilyrtar og ákveðnar sparnaðaraðgerðir hið fyrsta.

Það er ljóst að Íslenska þjóðin þarf að herða ólina, það er hvergi betra eða rökréttara en að byrja hjá hinu opinbera.


mbl.is Horfið frá beiðni um loftrýmiseftirlit?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá áttundi eða sá þriðji

Undanfarið hefur víða mátt lesa á netinu góðlátlegt grín þess efnis að það Íslendingar séu staddir um miðbik áttunda áratugarins, minnst á popplög, verðbólgu, forsætisráðherra og svo framvegis.

En nú er kreppa, sú hagfræðilausn er rædd manna á milli að best sé að prenta peninga og svo rekst ég á meðfylgjandi mynd á netinu.

Allt í einu er það líkara því að Íslendingar hafi færst aftur til þriðja áratugarins heldur en þess áttunda.

Mér þykir það ekki fyndið.

poster temp

 


Hækkandi vextir með lækkandi lánstrausti

Þessi vaxtahækkun var flestum ef ekki öllum ljós.  Að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn setti það sem skilyrði að raunvextir yrðu jákvæðir var því sem næst jafn líklegt og að nótt fylgir degi.

Það er því sem næsta spaugilegt að sjá þá sem sögðu Íslendinga ekki eiga neitt annað skjól en sjóðinn (ég er ekki að bera á móti því) tala nú eins og að vaxtahækkun af þessari stærðargráðu komi þeim á óvart.

Ef verðbólga á Íslandi er u.þ.b. 16% eru 18% stýrivextir rökrétt framhald, sérstaklega hjá þjóð sem er undir handleiðslu IMF.

Lækkunin sem varð fyrir u.þ.b. 2. vikum sýndi leið sem hugsanlega hefði verið Íslendingum opin, ef möguleiki hefði verið að fá lán annars staðar frá, t.d. hjá Rússum.

Í sjálfu sér er ég ekki andsnúinn þessarri hækkun, hef alltaf talið að vextir eigi að vera jákvæðir.  En ekkert er hoggið í granít, og ef einhvern tíma er réttlætanlegt að vera með neikvæða vexti, er það í árferði eins og nú geysar á Íslandi.

Ég held að hinir háu stýrivextir eigi trauðla eftir að skila tilætluðum árangri.  Krónubréf verða ekki gefin út eða framlengd, ég sé ekki fyrir mér að nokkur kaupi þau.  Útflytendur mun líklega enn um sinn draga í lengstu lög að skipta nema nauðsynlegum gjaldeyri í Íslenskar krónur (það sem helst gæti breytt því verða gríðarleg kauptækifæri sem hugsanlega myndast á eignum og fyrirtækjum á Íslandi).  Sparnaður verður því miður í lágmarki, enda færri aflögufærir og traust til sparnaðar takmarkað.  Það er raunar ekki ólíklegt að þegar gjaldeyrisviðskipti verði gefin frjáls verði umtalsverður fjármagnsflótti frá Íslandi. 

Á hinn veginn er hægt að segja að hærri vextir séu best til þess fallnir að draga úr eftirspurn eftir lánum, og ættu alla vegna að vera hvetjandi til þess að spara til þess að greiða upp yfirdrætti og annað slíkt, enda ekki völ á betri fjárfestingu, en það hefur reyndar verið um langa hríð.

Það má líka segja að ef hið opinbera vill koma fyrirtækjum til hjálpar (sem er ekki óeðlilegt í þessu árferði) eigi það að nota til þess eitthvað annað en sparifé almennings.  Það er ekki ólíklegt að orðið "sértækar aðgerðir" eigi eftir að heyrast oft í Íslenskum fréttatímum á næstu misserum.

P.S. Mér þykir annars merkilegt að ég hef ekki séð neitt í fréttum um álit t.d. utanríkisráðherra, viðskiptaráðherra eða félagsmálaráðherra um þessa vaxtahækkun.  Er ekki Samfylkingin ennþá í ríkisstjórn?

Eða er þetta bara Davíð að kenna?

 

P.S.S. Hér má lesa frétt Globe and Mail um stýrivaxtahækkunina.  Hér er frétt Bloomberg


mbl.is Vaxtahækkun vegna IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Woodoo stjórnmál

Það eru ekki ný sannindi að stjórnmálamenn eru ekki allra og njóta mismikillar hylli.  Þeir eru umdeildir, elskaðir og hataðir og um þá höfð misfögur orð.

En í Frakklandi hafa hlutirnir þróast áfram.  Frakkar hafa reyndar lengi verið þekktir fyrir að vera nokkuð blóðheitir í stjórnmálaumræðunni og mótmælaglaðir.

En nú hefur þeim boðið að feta nýjar slóðir og í Frönsku Amazon vefversluninni hefur um nokkur skeið mátt kaupa woodoo set með forseta Frakklands Nicolas Sarkozy.  Settið inniheldur dúkku af forsetanum, nálar og leiðbeiningar.  Hefur þetta verið með allra vinsælustu vörum á Franska hluta Amazon.

Nú mun forsetinn hafa höfðað mál á hendur útgáfunni, eftir að hún neitaði að draga settið úr sölu.  Segja lögfræðingingar forsetans að Frönsk lög tryggi einstaklingum einkarétt á ímynd sinni.

Einnig hefur verið hægt að kaupa sett tileinkað síðast forsetaframbjóðenda sósíalist, Ségolène Royal.

Spurning hvort að Íslendingar eigi eftir að sjá Íslenskar útgáfur af þessu fyrir jólin, eru ekki allir að tala um nornaveiðar?


Víkur nú sögunni að Viðskiptaráðuneytinu

Það er virðist ekki vera mikill vafi á því þegar þetta bréf er lesið að Viðskiptaráðherra (eða fulltrúi hans) sé að lofa því að Íslensk stjórnvöld styrki Tryggingasjóð innlána þannig að hann geti greitt lágmarksbætur, ef illa fari fyrir IceSave reikningunum.

"Support" er ef til vill ekki hægt að segja að sé afdráttarlaust loforð en þó hlýtur að vera eðlilegast að líta svo á að Íslensk stjórnvöld séu að ábyrgjast styrk sjóðsins.

Það er því áríðandi að Viðskiptaráðherra útskýri hvernig þetta bréf kom til.  Var það eftir umfjöllun á ríkisstjórnarfundi, eða var málið afgreitt innanhúss í Viðskiptaráðuneytinu?

Það er líka spurning hver var í viðræðum við Breska Fjármálaráðuneytið, var það ráðherrann sjálfur eða einhver annar?  Um hvað var rætt í því símtali?  Var það eingöngu varðandi IceSave eða vöru önnur mál einnig á dagskrá?

Það er áríðandi að Viðskiptaráðuneytið svari fyrir sig.

P.S.  Spurning er hvort sé ekki rétt að "leka" útskrift" af símafundinum sem bréfið vísar til.  Íslendingar eiga rétt á því að vita hvað um var fjallað.  Það er einnig orðið mikilvægt að efni og efnistök fundarins í byrjun september verði gert opinbert.

 

 


mbl.is Sögðust myndu styðja Tryggingasjóð innlána
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

40. eða 75 milljarðar, hver er munurinn? "Mamma" á að borga

Það er óneitanlega skrýtið að lesa að fyrrverandi aðaleigendur Landsbankann upplýsi Íslendinga um að fyrir rétt um 40 milljarða hafi verið hægt að koma IceSave í Breskst skjól og losa Íslendinga undan ábyrgðum.  Það var bara hel...is ríkisstjórnin sem ekki vildi láta peningana af hendi.

Nokkuð augljóst hver er slæmi aðilinn hér.  Hverjum klúðrið er að kenna.  Auðvitað borgar sig ekki að líta í eigin barm.

Ef til vill merkilegt að Íslenska ríkið hafi lent í þesu klúðri fyrir ekki hærri upphæð, en að sama skapi ótrúlegt að veldi Björgólfanna skuli riða til falls yfir ekki stærri upphæð. Maðurinn sem sagðist hafa fullar hendur fjár og biði eftir "brunaútsölunni", ef marka má fréttir fjölmiðla.

En síðan rakst ég á þessa frétt á Vísi.

Þar segir Björgólfur:

"Hann segir að bresk yfirvöld hafi boðist til að taka yfir alla Icesave-reikninga degi áður en neyðarlögin voru sett. Það var þó gegn því að Landsbankinn greiddi 200 milljónir punda, eða því sem nemur um 37 milljörðum króna, sem tryggingu.

Eftir að breska fjármálaeftirlitið hafði lengi sýnt tregðu í málinu urðu vatnaskil, að sögn Björgólfs, sunnudaginn 5. október, en þá var boðist til að koma Icesave úr íslenskri lögsögu á fimm dögum. Landsbankanum var veittur frestur til hádegis næsta dags til að reiða fram trygginguna svo að af þessu mætti verða. Hann segir að beðið hafi verið um lán til þess hjá Seðlabankanum gegn bestu hugsanlegum veðum.

Seðlabankinn hafi hinsvegar ekki virt Landsbankamönnum svars þar til klukkan hálfeitt að hádegi mánudags, 6. október, en þá var þeim tilkynnt að þeir fengju ekki lánið. „Við áttum sjálf nóg af lausu fé. Það var hins vegar í íslenskum krónum og það var engin leið að nálgast gjaldeyri," segir Björgólfur við Kompás."

Aðeins neðar í sömu frétt má hins vegar lesa:

"Sigurjón Árnason, fyrrum bankastjóri Landsbankans, segir Seðlabankann upphaflega hafa verið beðinn um þúsund milljónir evra vegna þess að Bretarnir báðu um umtalsvert hærri fjárhæð. „Eftir samningaviðræður náðum við að lækka þá fjárhæð í 500 milljónir. Hluta átti að nota í Icesave og restina í annað. En við vorum með eignir upp á 2,5 milljarða evra á móti. Þar á meðal voru ríkisskuldabréf, kröfur á lífeyrissjóði og ýmsar erlendar eignir. Það voru mikil vonbrigði fyrir okkur að fá ekki lánið. Ekki síst í ljósi þess að við skulduðum Seðlabankanum ekki krónu. ""

Það er nokkur mikill munur á því hvort er verið að biðja um 40 eða 75 milljarða, nú eða 150 milljarða eins og fyrst var farið fram á, eða það skyldi maður ætla.  Það verður líka að hafa í huga að á þessum tíma hafði hið opinbera alla bankana meira eða minna á herðunum.  Er það ekki ósvífni að að biðja um háa upphæð fyrir IceSave og nota eigi "restina í annað"?  Við höfum reyndar engar upplýsingar um hvað þetta "annað" er.

Kalt mat stjórnvalda virðist hafa verið að mesti möguleiki væri að Kaupþing kæmist út úr storminum og því virðist hafa verið veðjað á þá (hvernig það svo rímar við meinta óvild stjórnvalda á Kaupþingi og velþóknun þeirra á Landsbankanum er svo annað mál).  Allir vita svo hvernig fór.

Spurningin hlýtur líka að vera, hvað er réttlætanlegt að nota stóran hluta gjaldeyrisforðans til þess að bjarga bönkunum?  Allir tala um að engan gjaldeyri hafi verið að hafa, en hvað ætti að skilja eftir fyrir nauðþurftum?  Hvað átti að verða eftir handa almenningi og almennum innflutningi? 

Þegar þessu er velt fyrir sér er líka gott að hafa í huga að Seðlabankinn lá þegar með gríðarlegar upphæðir í skuldabréfum á Íslensku bankanna sem komið höfðu inn í gegnum "litlu" bankana. 

En það er margt sem vekur athygli er varðar þetta IceSave mál.

Ingibjörg Sólrún sagði í Kastljósi að henni hefði komið á óvart umfang IceSave reikninga.  Hafði það mál aldrei verið rætt í ríkisstjórn?  Hafði Viðskiptaráðherra ekki kynnt ríkisstjórninni hver staðan var? 

Vissi ríkisstjórnin ekki um þreifingar þær sem höfðu verið á milli Íslenskra og Breskra stjórnvalda um IceSave?  Var ríkisstjórninni ekki kynnt efni fundar Björgvins og Darlings á sínum tíma?

Þetta mál hlýtur að hafa verið eitt af forgangsmálum Viðskiptaráðherra og Viðskiptaráðuneytisins, enda hlýtur að hafa verið ljóst fyrir nokkru hvað umfangsmikil þessi viðskipti voru orðin og hve berskjölduð Íslensk stjórnvöld og Landsbankinn væru orðin gagnvart þeim.

Fjármálaeftirlitið og Viðskiptaráðuneytið hljóta að hafa gert sér grein fyrir að vandinn aðeins jókst og jókst, eftir því sem innstæðurnar uxu.  Þegar bankar, rétt eins og Northern Rock, riðuðu til falls hlýtur vandamálið að hafa orðið enn meira aðkallandi.

Var IceSave, upphæð innistæðna þar og ábyrgð tryggingasjóðs aldrei rædd á ríkisstjórnarfundum?  Komst það aldrei lengra en í  Fjármálaeftirlitið og Viðskiptaráðuneytið?

Eftir að lánsfjárkreppan er í raun skollin á (í júní síðastliðnum minnir mig að ég hafi lesið), opnar IceSave útibú í Hollandi.

Enn stækkar "púllían", enn eykst áhættan.  Hvenær byrjuðu viðræður Íslenskra og Breskra aðila um nauðsyn þess að IceSave reikningarnir kæmust á Breskt forræði?  Voru einhverjar viðræður um Hollensk yfirvöld þess sama efnis?  Hvers vegna krafðist Fjármálaeftirlitið ekki að það væri stofnað Hollenskt dótturfélag?

Þær eru margar spurningarnar, við flestum þeirra fáum við líklega aldrei svör.


Merkilegt

Hið ólíklegasta fólk er nú að uppgötva að það geti verið hætta á að eigendur noti þá til að koma sínum málstað og skoðunum á framfæri.

Er það ekki nokkuð eins víst og að 3. ár af hverjum 4. hafa 365 daga?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband