Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Af mannaráðningum

Fátt virðist geta valdið meiri deilum á Íslandi en mannaráðningar hjá hinu opinbera.  Aftur og aftur spretta upp deilur og auðvitað sýnist sitt hverjum.  Gjarna virðist þó afstaðan fara efir því hverjar pólítískar skoðanir hver og eins eru og svo er líka misjafnt hvað menn eru vel að sér í ættfræði og flokkspólítískum tengslum og eru því þess umkomnir að smíða góðar kenningar og tengingar.

Í sumum tilfellum er til staðar heil nefnd sem metur og vegur umsækjendur um opinber störf og skilar áliti sínu til ráðherra.

En það sem ég á örlítið erfitt með að skilja, er að ef ráðherra á aldrei að ganga gegn áliti nefndarinnar, hví er valdinu þá haldið hjá ráðherra?  Hví er nefndin ekki látin ganga frá ráðningunni?

Hin leiðin væri svo einfaldlega að sleppa þessum nefndum, því að ráðherrans er jú valdið.

Það sem mælir svo með því að ráðherrar hafi skipunarréttinn er jú sú staðreynd (í flestum tilfellum) að ráðherrar þurfa að standa frammi fyrir almenningi á fjögurra ára fresti en það þurfa nefndarmenn ekki.

Hinu verð ég svo líka að bæta við að ég held að það sé aldrei hægt að búa til eitthvert punktakerfi, þar sem öll menntun og starfsreynsla umsækjenda verði einfaldlega færð í punkta og síðan fær sá sem er stigahæstur starfið.  Slíkt er ekki raunhæft, slíkur "bjúró-kratismi" gengur einfaldlega ekki upp.

 Því verður alltaf um "mat" einhvers að ræða og það verður eilíflega hægt að deila um það mat.

Er það ekki gott í skammdeginu?


Menning og listir

Ég hef komist nokkuð í Íslenska menningu nú upp á síðkastið, bæði bækur og kvikmyndir.  Þetta er enda uppskerutíminn ef svo má að orði komast.

Í Florida náði ég að lesa Harðskafa eftir Arnald Indriðason og sömuleiðis Dauða Trúðsins eftir Árna Þórarinsson.  Það er skemmst frá því að segja að báðar bækurnar þóttu mér ágætar, þó að mér finnist Arnaldur oft hafa átt betri spretti.  Árni er hins vegar á uppleið.

Ég náði því svo á milli hátíðanna að horfa á Mýrina með konunni, en það varð okkur nokkur harmur að hafa ekki tók á því að sjá hana í bíó síðastliðið haust þegar hún var sýnd á kvikmyndahátíðinni hér í Toronto.

En myndin er ákaflega góð og við Bjórárhjónin vorum sammála um að hún væri ljómandi skemmtun, tvímælalaust í hópi bestu Íslensku kvikmyndanna, þó að vissulega sé hún langt frá því að tylla sér á toppinn.  En það er vissulega góður áfangi að komin sé til sögunnar góð og trúverðug Íslensk "krimmamynd".

En Köld slóð bíður þess að tími gefist, og svo sömuleiðis Næturvaktin, en hana horfi ég þó nánast örugglega einn, þar sem þættirnir eru ekki textaðir, en ég hlakka til að sjá hvoru tveggja.

En ég er líka nýbúinn að lesa Rimla hugans, eftir Einar Má.  Þar er á ferðinni gríðarlega vel skrifuð og grípandi bók.   Reyndar hefur Einar aldrei valdið mér vonbrigðum, alla vegna ekki svo orð sé á gerandi.  Hann hefur alla tíð síðan ég heyrði hann lesa upp úr Riddurum hringstigans í Háskólabíói forðum daga, verið í uppáhaldi hjá mér.

Í dag lauk ég svo við bók Tryggva Harðarsonar, Engin miskun - El Grillo karlinn, sem fjallar um lífshlaup Eyþórs Þórissonar.  Aldrei hafði ég heyrt af Eyþóri áður en ég fékk bókina í hendur, en henni er líklega best lýst með því að segja að hún sé "svakamannasaga".  En bókin er skemmtileg aflestrar og augljóst að ferill Eyþórs er með eindæmum líflegur eða skrautlegur eins og margir myndu líklega komast að orði.  En ávalt lendir hann á fótunum þó að þeir séu valtir á köflum.

Persónulega mæli ég með öllum þessum bókum, enda mæli ég yfirleitt með bókum, þær eru ekki margar sem eru betri ólesnar.  En svona jólasendingar eru mér ákaflega mikils virði, gefa tengingu "heim" í jólabókaflóðið og gefa ósvikna stemmningu.

Það gerir reyndar líka hangikjötsilmurinn sem liggur yfir Bjórá þessa stundina, því hangikjöt var soðið hér í dag.  Búið er að bjóða fólki heim á morgun, í hangikjöt, uppstúf, rauðkál, rauðrófur og grænar baunir.  Aldrei að vita nema blandað verði malt og appelsín sömuleiðis.

Og það eru engar eftirlíkingar, heldur ekta Hólsfjalla hangikjöt.  Nú er bara að sjá hvernig óvönum smakkast það?


Stærstu mistökin?

Ég hef verið að horfa á Íslenska spjallþætti á netinu, alltaf gaman að fylgjast með því þegar litið er um öxl og árið gert upp.

Mér virtist að flestir væru þeirrar skoðunar að stærstu mistökin á nýliðna árinu, hefðu verið gerð af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna, eða alla vegna 6/7 hluta hans.

Ég er vissulega sammála þvi að það getur ekki talist til eftirbreytni að missa stjórnartaumana, en er þó ekki alveg sammála um að borgarfulltrúarnir hafi gert mistök.  Alla vegna ekki eins og málið blasti við mér hér í útlandinu.

Eða eru allir þeirrar skoðunar að það hefði verið betra að hið svokallaða REI mál hefði haldið áfram í þeim farvegi sem það var komið í, þegar 6 menningarnir fóru á "mótþróaskeiðið"?

Eru flestir sammála um það að betra hefði verið að sameining REI og GGE hefði gengið eftir, með tilheyrandi "einkaréttarsamningum", kaupréttarsamningum og öðru því sem tilheyrði?

Eru flestir á þeirri skoðun að best hefði verið að REI og GGE hefðu keypt orkufyrirtæki á Filipseyjum, ásamt þarlendum aðilum, og borgað fyrir það fleiri milljörðum meira en nokkur annar sá ástæðu til að bjóða?

Er það helber tilviljun að móðurfyrirtæki GGE þurfti að fara í algera uppstokkun og fá stóra innspýtingu af hlutafé, fáum vikum eftir að ljóst varð að af sameiningu við REI yrði ekki?

Ekki hef ég svar við þessum spurningum, en hefði gaman af því að heyra álit þeirra sem lesa hér í athugasemdum.  Ég er þó eindregið þeirrar skoðunar að rétt sé að nota þekkingu OR ef svo ber undir, en ekki fjármagn til útrásar.  Það ætti líka að vera sett upp þannig að þeir sem áhuga hafa hefðu til að starfa með OR ættu þess kost, en ekki að binda sig við eitt fyrirtæki.

En hvaða leið ættu borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna færa, ef þeir vildu stöðva þetta ferli sem komið var í gang, og virðist hafa verið sett saman af embættismönnum í kringum OR, Vilhjálmi þáverandi borgarstjóra og Birni Inga?

Það virtist vera nokkuð ljóst að þá um stundir setti Björn Ingi það sem skilyrði fyrir áframhaldandi samstarfi að samruninn yrði keyrður í gegn.  Hann virðist þó hafa sætt sig við að svo yrði ekki í núverandi meirihluta, en hvað olli þeim sinnaskiptum getur líklega enginn útskýrt nema hann sjálfur.

Er borgarstjórnarmeirihluti ef til vill vel ásættanlegur kostnaður til þess að koma í veg fyrir fyrirhugaða samninga?

En eftir standa margar spurningar.  Ekki síst um þátt Vilhjálms og Bijörns Inga og ekki síður þátt þeirra starfsmanna OR sem stóðu að samningagerðinni fyrir fyrirtækið.

Sú spurning hlýtur líka að vakna hvort að þeir embættismenn njóti fyllsta trausts hjá núverandi borgarstjórnarmeirihluta?  Er meirihlutinn fyllilega ánægður með hvernig þeir unnu fyrir OR?  Eða var það ef til vill partur af "dílnum" við Alfreð og Björn Inga að ekki yrði hróflað við þeim?

Auðvitað hefði líka verið gott fyrir borgarbúa að vita hvort að ólöglega hefði verið staðið að fundarhöldum, það hefði verið fengur að fá úrskurð dómstóla í þeim efnum.  En slík "leiðindi" eru auðvitað ekki til þess fallin að fá atkvæði sem "maður ársins".

En hver voru mestu mistökin?  Að koma í veg fyrir það að sameining REI og GGE gengi í gegn?  Var sameining REI og GGE ásættanlegt verð fyrir að sitja áfram í meirihluta og að Villi héldi borgarstjóradjobbinu?

Ef svo er ekki, hver voru þá mistökin?

 

 


Brrrrrrr

Nýja árið hefur byrjað bjart og fagurt hér í Toronto, en nokkuð kalt.

Á nýársdag snjóaði hér svo um munaði, jafnfallin mjöll setti svip sitt á Bjórá og næsta nágrenni, trén skreytt með mjallahvítum greinum og ákaflega fallegt um að litast.

Í morgun sýndi mælirinn hér að Bjórá hins vegar -15° og fannst mér óneitanlega nokkuð kalt, þó að vissulega væri fallegt ennþá, og varð reyndar enn fallegra þegar sólskinið bættist í myndina þegar líða tók á morgunin.

En við hér lítum bjartsýnumog björtum augum til ársins 2008, og höfum alla trú á því að það verði bjart og gott eins og þeir dagar sem eru búnir, það er bara að klæða af sér kuldann.

 


Nú árið er ....

Þó að það sé næstum því klukkutími í það að árið sé liðið hér í Kanada, er nokkuð um lið að svo sé að í Eistlandi háj tengdaforeldrum mínum  og hjá vinum og vandamönnum á Íslandi.

En það er stutt í að árið sé lið í aldanna skaut, jafnvel hér í Kanada.

En enginn getur stöðvað tímann, hvort að SMS skeyti, eitt eða anað fari manna á milli.

 En REiIgin mistök gerast.

En það sem okkur hér að Bjórá er efst í huga er þakklæti og fögnuður. Þakklæti fyrir það ár sem er að líða, og fögnðuður yfir árinu sem er að koma.

Við erum nefnilega fullviss um að árið sem er að hefjast verður betra en árið sem er að líða.

Við erum alltaf bjartsýn.

Við trúum á framtíðina.

Við trúum alltaf þvi að morgundagurinnk verði betri en dagurinn í dag, ef við vinnum í þá átt.

Við höfum það ljómandi gott.

Við óskum öllum nær og góðs komandi ár og farsældar á þvi ári.

En allir eiga þar stóran þátt, þvi hamingja, á upptök hjá hverjum og einum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband