Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
22.1.2008 | 20:03
Jól í seinnipart janúar
Það var fallegt um að litast að Bjórá í morgun. Snjórinn féll lóðrétt og fallega til jarðar og hvíta teppið lá yfir nágrenninu.
Foringinn vaknaði í bítið, leit út um gluggann síðan á pakkafjöldann sem beið þess að verða opnaður og sagði svo: "Ég held að jólasveinninn sé kominn aftur".
En það var margt af góðum gjöfum, vagn, bílar, geisladiskar, bækur og nokkuð af fötum. Bestu þakkir.
Síðan var snædd Eistnesk súkkulaðihúðuð afmæliskringla sem afi (drengsins) kom með frá "heimalandinu". Staðgóður og seðjandi morgunverður það.
22.1.2008 | 05:26
Kjörtímabil myndhöggvaranna
Það er allt útlit fyrir að það yfirstandandi kjörtímabil verði fengsælt fyrir myndhöggvara í Reykjavík. Líklega þarf að móta þrjár brjóstmyndir af borgarstjórum. Reyndar var tala borgarstjóra sú sama á síðasta kjörtímabili.
Það er nefnilega ekki rétt að útlit sé fyrir að það verði 4. borgarstjórar á yfirstandandi kjörtímabili. Hið rétta er að líkur eru á því að sami maðurinn gegni embættinu tvisvar. En það er í sjálfu sér nokkuð merkileg staðreynd í sjálfu sér.
En það þýðir að á tveimur kjörtímabilum hafa 6. einstaklingar gegnt embættinu(ef allt þetta gengur eftir), en ekki sjö eins og margir halda fram. Munurinn er þó að þeir einstaklingar sem gengdu embættinu á síðasta kjörtímabili voru bornir fram af sama meirihlutanum.
En það er vissulega merkilegt að fylgjast með þessari baráttu sem ríkir um borgina. Það er líka stórkostlegt að fylgjast með þeim sem glöddust svo ákaflega yfir "kænsku" sinna manna fyrir hundrað dögum. Nú eru þeir með brigslyrðin á hraðbergi og eiga ekki orð yfir þá ósvífni og ómerkileg heit að Ólafi hafi þóknast að skipta um samstarfsmenn.
Sjálfur verð ég þó að segja að mér líst miðlungi vel á þennan nýja meirihluta, en hann getur þó varla orðið verri en sá sem nú hrökklast frá eftir 100 daga. Sá meirihluti virtist mér ekki geta tekið á neinum málum af myndugheitum. Hvort að rífa ætti tvö hús eður ei, vafðist svo fyrir borgarfulltrúunum að þeim þótti nærtækast að menntamálaráðherra ákveddi hvernig skyldi að málum staðið.
Annars velti ég því fyrir mér hvort að "húskofarnir" hafi ef til vill átt stóran þátt í því að skipt var um meirihluta. Var "stökk" Dags fram fyrir "skurðgröfurnar" ef til vill viðleitni til að halda Ólafi góðum?
En því miður virðist "húskofamenningin" festast í sessi með þessum nýja meirihluta, ekkert verður gert í flugvallarmálinu og varla kemur kælirinn aftur í ÁTVR.
En á jákvæðu nótunum er að Reykvíkingar munu líklega njóta lægri fasteignaskatta en ella hefði orðið og fyrirheit um að allt verði lagt á borðið hvað varðar OR/REI lofar sömuleiðis góðu. Reyndar held ég að nú skapist tækifæri til að taka vel til í kringum Orkuveituna þegar arfleifð Björns Inga og Alfreð kastar ekki lengur skugga yfir meirihlutann.
En það er næsta víst að það verða stálin stinn í borgarstjórn á næstunni. Það mátti skynja gríðarlega reiði í herbúðum fráfarandi meirihluta og hvöss skot á heilbrigði Ólafs. Þau skot bergmála svo frá "fótgönguliðunum" hér og þar og má búast við meiru í þá átt. Ólafur býr þó svo vel að hafa einn borgarfulltrúa, í það minnsta svo að ég viti til, uppáskrifað heilbrigðisvottorð sem hann skilaði inn.
En ég get að mörgu leyti tekið undir áhyggjur þeirra sem telja að þetta verði til að veikja traust á borgarstjórninni almenn og stjórnmálamönnum, brambolt í þessa veru er til þess fallið.
En nýji meirihlutinn verður að láta verkin tala, það er eina leiðin til að skapa traust. Slíkt kemur ekki með fé og nýjum fötum.
22.1.2008 | 05:03
4. ár
Já, í dag 22. janúar eru liðin 4. ár síðan Foringinn kom í heiminn, þá strax stæltur og pattaralegur. Þó er það eins og það hafi gerst í gær, ja eða fyrradag.
En auðvitað er ekkert eins og áður.
Í fyrsta sinn hefur afmælisins verið beðið með nokkurri eftirvæntingu og spáð í það hvort að einhverjir pakkar myndu skila sér. Sem þeir auðvitað gera.
En það verður svona "mini" hátíðarhöld að Bjórá á morgun. Stærri afmælisveisla bíður sunnudagsins. Aðalrétturinn á morgun verður Eistnesk afmæliskringla sem afi kom með á sunnudaginn.
4. ár eru merkileg tímamót, það þýðir að drengurinn er boðinn velkominn í skólann í haust, nokkuð sem honum er þegar farið að hlakka til (svo er að sjá hvort að fögnuðurinn endist), námsviljinn enda drengnum í blóð borinn.
20.1.2008 | 21:46
Af búsáhöldum Framsóknar
Það hefur verið hálf undarlegt að fylgjast með framgöngu þeirra Framsóknarmanna Björns Inga og Guðjóns Ólafs núna síðustu daga. Alla vegna héðan úr fjarlægðinni.
Á meðan annar fullyrðir að búsáhöldin standi úr baki margra Framsóknarmanna eftir Björn Inga, talar Bingi um "mannlegan harmleik". Ef þeir spádómar rætast að flokkurinn verði ekki tíræður, er þar ef til vill komin hæfileg áletrun á bautastein flokksins.
En af þessu máli má ráða að einhverjir munu þeirrar skoðunar að föt geti jafnt tortímt mönnum sem skapað þá, alla vegna í stjórnmálum.
En varla álíta menn það flokknum til framdráttar að þvo þessi plögg á almannafæri, alla vegna get ég ekki séð annað en að eingöngu sé um vandræðalegt innanflokksmál sé að ræða. Vitanlega er flokkum heimilt að ráðstafa fé til fatakaupa, þó að ég verði að viðurkenna að mér þyki það ef til vill ekki besta ráðstöfun á því almannafé sem stjórnmálaflokkar fá nú til dags, en því fylgja að því er ég best veit engar kvaðir.
En umræðan hefur frá fötunum borist um viðan völl, bæði hefur borið á góma leikhæfileikar Björns Inga sem og kjörþokki Guðjóns Ólafs og verð ég að segja að hvorugt finnst mér finnast í umtalsverðum mæli, þó hafa leikhæfileikar Björn þar vinningin í mínum huga.
En það verður fróðlegt að fylgjast með hver eftirköstin af þessu "trúnaðarbréfi" verða hjá Framsókn. Eitthvað segir mér að Framsóknarmenn í þéttbýlinu séu að brýna hnifana á meðan þeir í dreifbýlinu dengja ljáina.
P.S. Ekki þykir mér líklegt að Björn Ingi hætti í Framsókn eða í stjórnmálum, en auðvitað á aldrei að segja aldrei, það er jú nokkur hefð fyrir því hjá ungum forystumönnum í flokknum. Ekki sé ég heldur fyrir mér neinn þann stjórnmálaflokk (fyir utan Framsókn) sem Björn Ingi ætti framtíð í, en margir myndu fagna því að nýta hann út kjörtímabilið. Fyrir það mætti líklega kreista út góðan greiða.
15.1.2008 | 19:57
Er kvóti á óréttlæti?
Mikið hefur verið rætt um niðurstöðu Mannréttindanefndar SÞ hvað varðar Íslenska kvótakerfið. Eins og í öllum málum þá sýnist sitt hverjum. Slíkt telst líklega ekki óeðlilegt þegar um kvótakerfi er að ræða, enda flestir líklega sammála um að best væri ef hægt væri að vera án slíkra kerfa, ekki bara í sjávarútvegi, heldur alls staðar.
Sjálfur hef ég aldrei verið þeirrar skoðunar að kvóti væri eftirsóknarverður, en hef skilið nauðsyn þess þegar um takmarkaðar auðlindir er að ræða. Þegar útdeila á takmörkuðum gæðum er líklega ekki til öllu betri leið til að hafa á nýtingu einhverja stjórn. Auðvitað má hugsa sér misjafn útfærslu á kvóta, t.d. aflmark eða að hafa dagakvóta.
En þá er auðvitað eftir að finna leið sem allir gætu sætt sig við til að úthluta kvótanum og þá vandast nú málið fyrst fyrir alvöru.
Sjálfur hef ég alltaf hrifist af þeirri tillögu að úthluta kvóta til allra landsmanna. Þeir geti síðan ráðstafað sínum kvóta að vild. Veitt hann sjálfir, selt hann "heimamönnum", selt hann hæstbjóðenda, nú eða einfaldlega látið hann ónýttan, ef þeim hugnist ekki fiskveiðar. Ég held að margir myndu taka undir það að varla er til réttlátari leið og myndi hún undirstrika að auðlegðin væri í eign allrar þjóðarinnar.
Aðalspurningin hvað varðar þessa aðferð væri líklega að erfitt væri fyrir fyrirtæki að búa sig undir framtíðina, ef aðeins væri tryggur kvóti til árs í senn.
En hvað er réttlæti og hvað er óréttlæti? Sjálfsagt er erfitt að finna leið sem að öllum (Mannréttindanefnd SÞ meðtalin) þætti réttlát. Það sama má reyndar segja um býsna margt sem hið opinbera tekur sér fyrir hendur, ekki síst skattheimtu.
Var það til dæmis réttlátt þegar hið opinbera notaði fé skattgreiðenda til þess að létta undir útgerðarmönnum (fyrir daga kvótakerfisins) sem ekki virtust geta rekið fyrirtæki sín á sómasemlegan hátt?
Er það réttlátt að ríkið skattleggi almennng til að standa straum af kostnaði við tónlistarhús í Reykjavík? Nú eða Héðinsfjarðargöng?
Nú eða ef þér yrði boðið að velja á milli skattalækkunar eða þess að þess að ríkið greiði listamannalaun, hvort myndir þú velja? Hvort finnst þér réttlátt?
Sjálfsagt eru misjafnar skoðanir á þessum málum, rétt eins og kvótakerfinu og verður auðvitað hver og einn að svara fyrir sig.
En svo eru líka fleiri kvótar til.
Líklegt verður að teljast að kvótar í landbúnaðarframleiðslu falli í sama flokk og þeir sem gilda í sjávarútvegi. Ég tel það ólíklegt að Mannréttindanefnd SÞ myndi telja þá réttláta frekar en fiskveiðikvótana. Líklega er mest allt landbúnaðarkerfi ESB byggt á svipuðu óréttlæti.
Fiskurinn í sjónum er heldur ekki sá eini sem seldur er óveiddur, slíkt hefur lengi tíðkast inn til landsins.
Sömu sögu er svo líklega að segja af þeim laxakvótum sem keyptir hafa verið víða um lönd til þess að vernda laxastofna, sú vinna öll fellur líklega um sjálfa sig, ef Mannréttindanefnd SÞ fær einhverju um það ráðið og er samkvæm sjálfri sér.
En það er vissulega rétt að kvótakerfið er ekki gallalaust, ekki frekar en lýðræðið. En þau eiga eiga það sameiginlegt að vera það besta sem við höfum fundið upp, alla vegna ennþá.
Kvótakerfið hefur enda verið staðfest í mörgum kosningum á Íslandi ef svo má að orði komast, þvi að þó að aldrei hafi verið kosið beint um það, hefur það vissulega verið fyrirferðarmikið í fleiri en einum kosningum.
En það er eins með kvótakerfið og lýðræðið að það er sjálfsagt að ræða fyrirkomulagið, og koma með breytingartillögum, en það er áríðandi að forðast kollsteypur.
12.1.2008 | 04:21
Blessaður maísinn
Nú berast þær sorgarfréttir um heimsbyggðina að verð á bjór muni fara hækkandi og raunar hefur heyrst að sumar tegundir smærri framleiðenda muni hreinlega hverfa af markaði vegna þess hve erfitt sé að ná í hráefni og hve verð á því hefur hækkað.
Ein af ástæðunum sem heyrist hvað oftast, er að niðurgreiðslur og aukin eftirspurn eftir maís (corn) til eldsneytisframleiðslu hafi haft það í för með sér að margir bændur hafi skipt út byggi fyrir maísinn til að auka tekjur sínar.
Þannig hefur aukin ásókn eftir "hreinni" orkugjöfum haft í för með sér umfangsmikil umskipti í landbúnaði, hleypt upp verði, ekki bara á maís, heldur fjölmörgum öðrum tegundum, þar sem framboð á þeim hefur dregist saman eftir því sem meira land er lagt undir maísræktina.
Þetta er enn eitt dæmi um hvernig afskipti opinberra aðila geta haft ófyrisjáanlegar afleiðingar í för með sér.
Hreinna eldsneyti á bíla er í ekki slæmt markmið, en verra er ef það hækkar matvælaverð um allan heim auk þess að hafa í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir skattgreiðendur.
Svo ég minnist nú ekki á bjórinn og poppkornið.
Líklega er best að fara að hamstra poppmaís, áður en verð á honum rýkur upp úr öllu valdi.
Hækkandi verð á bjór | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 20:18
ÁLitlegt
Ég verð að koma því á framfæri að ég fagna því ef að rétt er að enginn ráðherra (eru konurnar ekki örugglega ennþá "ráðherrar) í ríkisstjórninni er á móti uppbyggingu álvers á Bakka.
Sérstakt fagnaðarefni er auðvitað ef full samstaða er á meðal ráðherra Samfylkingar um að setja sig ekki upp á móti álveri þar.
Ég er þeirrar skoðunar að álver fyrir norðan yrði mikil lyftistöng, ekki bara fyrir Húsavík, heldur Norð-Austur svæðið. Líklega yrði einhver samþjöppun, en það yrði af hinu góða.
En nú er að sjá hvaða stefnu málið tekur hjá hinu opinbera, vonandi er Össu áfram um að byggja álver fyrir norðan, nú þegar nokkuð ljóst er að Íslendingar byggja ekki álver í Indónesíu, og leggur þessu máli lið.
Við skulum alla vegna vona að hann tali ekki eftir "staðsetningartæki".
Össur ekki á móti álveri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.1.2008 | 20:08
Tekjur og tekjur
Það hefur nokkuð verið fjallað um það í fjölmiðlum að nú hafi Bretar farið fram úr Bandaríkjamönnum í tekjum. Engin ástæða er til að draga það í efa, enda hefur efnahagsástand í Bretlandi verið hagfellt, en Bandaríski dollarinn hefur hins vegar ekki verið að "meika það" ef svo má að orði komast.
En það er þó eftirtektarvert að í fréttinni kemur jafnframt fram að kaupmáttur er þó ennþá meiri í Bandaríkjunum en Bretlandi.
Það er nefnilega ekki það sama tekjur og tekjur og þó gott sé að hafa háar tekjur er hár kaupmáttur betri.
Þetta sýnir þá annmarka sem eru á alþjóðlegum samanburði sem þessum. Dollarinn hefur sjaldan verið lægri, og það þýðir að tekjur Breta í dollurum hafa sjaldan eða aldrei verið hærri. En það þýðir auðvitað ekki að þeir fái eitthvað meira fyrir pundin sín heimafyrir. Nei, í raun hafa lífskjör þeirra aðeins batnað ef þeir fara í ferðalag til Bandaríkjanna.
Sama má segja um Ísland. Nú nýverið birtist niðurstaða frá Alþjóðabankanum að hvergi væri verðlag hærra en á Íslandi. Auðvitað er það ljóst að Ísland er með dýrustu löndum, en það er sömuleiðis ljóst að það er hátt gengi krónunnar sem hækkar verðlagið í dollurum upp úr öllu valdi, án þess að verðhækkanir heima fyrir þurfi að koma til (sem hafa þó ábyggilega verið nokkrar).
Sömu sögu er svo að segja af því þegar lífkjör eru metin, þá kemur gengið (sérstaklega lækkun dollarans) Íslendingum upp á við, vegna þess að þá hækka tekjur Íslendinga (í dollurum) umfram það sem gerst hefur heima fyrir.
Þetta breytir því ekki að samanburður sem þessi á fyllilega rétt á sér og gefur vissulega vísbendingar sem vert er að taka mark á. En það er kaupmátturinn sem gildir, hvað fæst fyrir peningin, ekki hvað seðlabunkinn er þykkur.
Bretar munu þéna meira en Bandaríkjamenn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
5.1.2008 | 05:04
Í leit að lýðræði sem hentar?
Nú eru farnar að berast fregnir af því að hugsanlega verði kosið um frambjóðendur til forseta á Íslandi næsta sumar.
Ef marka má fréttir bendir ýmislegt til þess að frambjóðendur verði "the usual suspects".
En það er þegar byrjað að tala um að koma verði í veg fyrir að Ástþór Magnússon geti verið í framboði. Einhverjir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að það sé "nauðgun á lýðræðinu" ef hann bjóði sig fram.
Undarlegur málflutningur.
Ég get fúslega viðurkennt að ég hef aldrei kosið Ástþór, kem ekki til með að kjósa Ástþór og teldi það landi og þjóð til heilla ef hann byði sig ekki fram.
En ég get sagt það nákvæmlega sama um Vinstri græna og raunar Frjálslynda flokkinn sömuleiðis.
Samt dettur mér ekki í hug að tala um að þeir eigi ekki að bjóða sig fram, eða það eigi að herða á öllum skilyrðum svo að þeim væri gert erfiðara fyrir.
Sama segi ég um Ástþór.
Lýðræðið verður að hafa sinn gang, það er ekki gallalaust, en það langbesta stjórnarform sem enn hefur komið til. Við eigum ekki að fara að leita að lýðræði sem "hentar".
Það er líka hvimleiður málflutningur að emja og væla yfir nokkrum tugum milljóna sem fara í kosningar. Ef nokkrar óþarfa kosningar væru mesta sóunin á vegum hins opinbera á Íslandi væru Íslendingar í góðum málum.
Kosningar gæfu líka Íslendingum tækifæri til að sýna hug sig til forsetans, þeir skunda þá væntanlega á kjörstað og færa honum glæsilega kosningu.
Eða hvað?
5.1.2008 | 04:52
Hólsfjalla
Það var hangikjöt á borðum að Bjórá í dag. Ekta Íslenskt Hólsfjallahangikjöt. Uppstúf með, rauðkál, grænar, rauðrófur og meira að segja malt og appelsín, maltblandan þó ekki "ekta", ekki frekar en grænu baunirnar.
En þetta var ljúf máltíð, seðjandi fyrir bæði líkama og sál.
Við buðum kunningjafólki okkar að deila þessum dásemdum með okkur, en þau höfðu aldrei séð, heyrt eða smakkað hangikjöt áður.
Til að færa þetta allt í stílinn bauð ég upp á snakkrétti áður en hin eiginlega máltíð hófst, Íslenskan kavíar og hertan steinbít og ýsu. Smá brennivínstár með því.
Það er skemmst frá því að segja að fólkinu líkaði vel. Kunnu afar vel við harðfiskinn, sérstaklega steinbítinn og kavíarinn féll sömuleiðis í kramið.
En hápunkturinn var þó hangikjötið. Það kom þeim alfarið á óvart, bragðið og "texturinn" og hvað það var meyrt og gott.
Aðeins tvisvar sinnum sá ég koma á þau svip sem lýsti því að eitthvað væri skrýtið og þau væru ekki alveg viss um hvort þau ættu að trúa mér eður ei.
Í fyrra skiptið var það þegar ég sagði (á afar kurteisan og varfærin hátt) að eldsneytið við reykinguna væri "skíturinn úr skepnunni". Í seinna skiptið var það þegar ég svaraði spurningu þeirra í þá veru hvað þetta kostaði á Íslandi.