Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008

Að stjórna með hótunum

Þegar ég les fréttir sem þessar fæ ég alltof svolítinn hroll.  Ef ég einfalda það sem ráðherra segir og endursegi það eins og ég skil það, þá hljómar það svona.

Það eiga allir að gera eins og ég segi.  Besti þykir mér að mér að það sé gert vegna þess að ég segi það, en ef menn eru ekki reiðubúnir til þess þá mun ég setja lög að um það.

Þó að það séu eigendur fyrirtækjanna, þeir sem hafa hætt fé sínu í rekstri þess,  sem kjósa í stjórnir fyrirtækja finnst viðskiptaráðherra ekkert að því að skilyrða hvernig þeir megi nota atkvæðisrétt sinn. 

Viðskiptaráðherra virðist eignarétturinn ekki vera merkilegri en svo.

Það er rétt að taka það fram að mér hefur þótt Björgvin G. Sigurðsson áberandi slakasti ráðherrann í núverandi ríkisstjórn, hann fengi falleinkun frá mér.

Lýðskrum og stjórnlyndi virðist mér gjarna einkenna það sem frá honum kemur og þó að hann tali fjálglega um "frjálslynda jafnaðarstefnu", sést alltaf betur og betur að hann er bara gamall "allaballi", reyndar ekki sá eini í Samfylkingunni.


mbl.is Kynjakvóti bundinn í lög?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölskylduveldin

Ef að gengið er út frá því að, rétt eins og svo margir telja, að Demókratar vinni Bandarísku forsetakosningarnar í nóvember og að Hillary Clinton verði frambjóðandi þeirra, eins og ekki er ólíklegt (en ekki öruggt) kemur upp nokkuð merkileg niðurstaða.

Þá verður það í annað sinn sem Clinton fjölskyldumeðlimur tekur við af Bush fjölskyldumeðlim og það aðeins með 16. ára millibili.

Ef Hillary næði því að verða endurkjörin og sitja í 8. ár þá verða þau orðin 28., árin sem engar aðrar fjölskyldur hafa lagt til forseta Bandaríkjanna.  Ef að hún léti af embætti í Janúar 2017, þá þyrfti að fara allt aftur til ársins 1989 til að finna forseta sem kæmi ekki úr annarri hvorri fjölskyldunni. 

Það var Ronald Reagan.

Bush feðgarnir eru ekki fyrstu feðgarnir til að verða báðir kosnir forsetar, en Clinton hjónin myndu brjóta blað.  Hillary sömuleiðis, sem fyrsta konan sem næði því að verða forseti.

 


Skref í rétta átt, en ennþá hróplegt ranglæti

Það er fyllsta ástæða til að fagna þingsályktunartillögu sem Kristján Þór Júlíusson hefur lagt fram, þess efnis að þeir einstaklingar sem standi utan trúfélaga fái meira að segja um ráðstöfun "sóknargjalda" sem falin eru inn í álagningu á Íslendinga.  Sjá má frétt á Vísi um þetta mál.

Gallinn er hinsvegar að þessi breyting gengur allt of skammt.

Hvað um að gera þessar álögur sýnilegri og að þeir sem utan trúfélaga standa þurfi ekki að greiða nein slík gjöld? (eða fái upphæðina endurgreidda).

Hvernig er hægt að verja fyrirkomulag þar sem hið opinbera tekur slíkt gjald af öllum, og ef þeir vilja ekki greiða til "sóknar", þá skuli þeir gott vel borga til háskóla eða einhvers annars?

Hvað varð um sjálfsákvörðunarrétt þegnanna?

Hví skyldu þeir sem ekki eru í trúfélögum vera skyldaðir til að borga til háskóla eða líknarfélaga fremur en aðrir þegnar landsins?

Heitir þetta ekki að mismuna fólki, lagðar eru álögur á þá sem ekki eru í trúfélögum umfram aðra?

Hvernig hljómar nú aftur klásúlan í stjórnarskránni?


Húskofamenningin

Nokkuð mikið hefur verið fjallað um kaup Reykjavíkurborgar á þremur gömlum húsum við Laugaveg og er líklega vægt til orða tekið að kaupin séu umdeild.

Upphæðin sem er greidd fyrir húsin er gríðarhá og mitt persónulega álit er tvímælalaust að skaðinn af því að rífa húsin væri enginn.  Ég sé ekki þessa stórmerkilegu 19. aldar götumynd, og heldur ekki tilganginn með því að reka "safn" þar sem einu sinni var aðal verslunargata Íslands. 

Hitt er svo annað mál að hugmyndin (sem ég held að sé ætluð frá Hrafni Gunnlaugssyni) að flytja gömul hús í Hljómskálagarðinn og gera þar lítið heildstætt "þorp" er allra athygli verð.  Þar mætti örugglega byggja upp skemmtilegt "þorp" með veitinga og kaffihúsum, handverks og hönnunar verkstæðum og verslunum.  Ég set hins vegar stórt spurningamerki við það að "geyma" nokkur gömul hús á milli stórra steinsteypubygginga, hef aldrei séð sérstakan sjarma við það.

Árum saman hafa menn talað um að það þurfi að gera eitthvað fyrir miðbæ Reykjavíkur, en á sama tíma er öll uppbygging bannorð (endurbygging er það sem koma skal) og menn sjá það helst til bjargar að koma þangað með söfn og skóla. 

En þó að ég sé eindreginn andstæðingur þess að borgin hafi keypt húsin þá finnst mér ég verða var við nokkuð skrýtinn málflutning hjá þeim sem eru á móti því að borgin hafi keypt húsin, eða finnst þetta of dýru verði keypt.

Óskar Bergsson, sem ég veit ekki hvort talar eingöngu fyrir Framsóknarflokkinn eða hvort hann er talsmaður hins samhenta minnihluta í heild, talar í sífellu um að að borgin hefði átt að bíða eftir því að menntamálaráðherra friðaði húsin, þannig að hluti ábyrgðarinnar félli á ríkið.

Hafa borgarfulltrúar ekki meiri metnað en það fyrir hönd borgarstjórnar, en að þeir vilji að ríkisstjórnin ákvarði og hlutist til með hvernig skipulagsmálum er háttað í borginni?  Vilja þeir helst sitja með hendur í skauti og sjá til hvort að ráðherrum þóknis hitt eða þetta?

Þó að ég sé eins og áður sagði fylgjandi því að "kofarnir" verði rifnir, þá finnst mér þó lofsvert af borgarfulltrúum að taka af skarið og kaupa "spýtnahrúgurnar".  Þannig sýna þeir þó að minnsta kosti frumkvæði, taka af skarið og bera þá ábyrgð á  verknaðinum, frekar en að fela sig á bak við ráðherra og ríkisvaldið.

Hitt er svo þegar sífellt er talað um hve eigendur húsanna hafi hagnast mikið og hve stóran "snúning" þeir hafi tekið á borginni, þá er auðvitað um gríðarlega einföldun að ræða, og hlutur "stóru ljótu kapítalistanna" auðvitað gerður sem stærstur og verstur.

Ef mismunurinn á því sem fyrrverandi eigendur og því sem borgin borgaði fyrir húseignirnar er u.þ.b. 300 milljónir, þá er auðvitað ekki nema hluti þess hagnaður.

Nú veit ég ekki hvenær fyrrverandi eigendur eignuðust húsin, en ljóst er að ef t.d. kaupverðið hefur verið tekið að láni, hefur safnast á það þó nokkur fjármagnskostnaður.  Síðan hafa þeir lagt út í þó nokkurn kostnað við að skipuleggja og hanna þann húsakostnað sem rísa átti á lóðunum.  Sömuleiðis hafa eigendur og starfsmenn fyrirtækisins án efa eitt drjúgum tima í að undirbúa verkefnið og meðal í að hafa samráð við borgarkerfið um fyrirhugaða uppbyggingu. 

Fyrirtækið hlýtur sömuleiðis að hafa verið búið að tryggja sér tæki og tól  (krana og aðrar nauðsynjar) starfsfólk og jafnvel búið að semja við undirverktaka um ákveðna verkþætti.  Allt þetta verður auðvitað að engu.

Án þess að ég þekki til verksins þykir mér ekki óeðlilegt að ætla að vinna og undirbúningur að framkvæmdinni hafi tekið nokkur ár og ófáum vinnustundum til kostað.

Síðan er að sjálfsögðu ekki óeðlilegt að borgin bæti þeim hluta af væntanlegum hagnaði af framkvæmdinni, þegar ráðist er í að stöðva hana með þessum hætti.

Allt þetta vegna þess hve illa var staðið að málum, framkvæmdir flautaðar á og síðan af.  Hverjir voru það annars sem stóðu að skipulaginu sem gerði ráð fyrir því að þessi hús yrðu rifin?

P.S.  Svo er það smá getraun í lokin, hvaða stjórnmálamaður lét þau orð falla að það væri enginn stjórnmálamaður merkilegri en húsin að Laugavegi 4. og 6.?

 


Biturt Silfur

Ég var að enda við að horfa á Silfur Egils á netinu.  Þó að mér þyki Silfrið yfirburðaþáttur á sínu sviði, þá verð ég að segja að mér þótti þátturinn einhvern veginn ekki gera sig að þessu sinni.

Ég fékk það allt að því á tilfinninguna að þátturinn hefði verið "settur upp".  Það þyrfti eitthvað krassandi á nýja meirihlutann.

Ég held að Egill verði að vara sig á því að gera þáttinn að vettvangi fyrir bitra menn sem vilja ráðast á fyrrum samstarfsmenn.

En ég fékk líka tölvupóst í dag, þar sem mér er bent á umfjöllun um þáttinn.  Skrifari tölvupóstsins vildi meina að fyrst að Stefáni Pálssyni þætti svona áberandi halli á þættinum, þá væri það líklega svo.  Stefán væri ekki líklegur til að taka upp hanskann fyrir nýja meirihlutann, hann væri næsta örugglega ekki stuðningsmaður, hvorki dulinn né ódulinn.

Sjálfur hef ég miklar efasemdir um hinn nýja meirihluta, mér þykir lækkun á fasteignagjöldum til fyrirmyndar (það er reyndar lítið talað um hana), en er algerlega á móti "kofamenningunni" sem meirihlutinn stendur fyrir (kem líklega til með að skrifa meira um það).

En meirihlutinn og borgarstjórinn á rétt á heiðarlegri umfjöllun, rétt eins og allir aðrir.


Blásið á kertin

Hér var haldin afmælisveisla í gær. Nokkuð mikill fagnaður. Foringinn kunni vel að meta gjafirnar, gestina og veisluföngin. Súkkulaðiterta, heitt súkkulaði, pizza, og annað meðlæti voru gerð góð skíl, af honum sem öðrum. Hér er svo örstutt myndband af því þegar blásið á kertin, en ekki er vitað hvort að einhvers var óskað.

Af dauðalistum stjórnmálanna

Eins og eðlilegt má teljast hefur mikið verið fjallað um þá ákvörðun Björns Inga Hrafnssonar að hverfa úr hringiðu stjórnmálanna og segja sig úr borgarstjórn Reykjavíkur.

Sitt sýnist hverjum um hvort að Björn Ingi muni snúa aftur í stjórnmálin, tvíefldur, að nokkrum árum liðnum.  Sumir vilja jafnvel meina að afsögnin geti styrkt hann, hann hafi tekið rétta ákvörðun og vaxið við hana.

Ég er ekki sammála þessu.

Björn Ingi er nefnilega (í það minnsta að eigin sögn) ekki að segja af sér vegna þess að hann telji að honum hafi orðið eitthvað á.  Hann er að segja af sér vegna þess að hann lenti á "dauðalista" samherja sinna.  Honum hugnaðist ekki að standa í stkotlínunni innan Framsóknarflokksins.

Það þarf sterk bein til að standa í pólítík.  Það þarf að hafa þykkan skráp.  Það þarf að geta staðið í meðvindi sem mótvindi og hafa auga með bæði sam og mótherjum.  Baráttan er síst óvægnari innan flokka en þeirra á milli.

Þeir eru margir í forystu stjórnmálanna sem hafa mátt þola miklar árásir og það jafnvel frá flokksmönnum sínum.  Það mun ekki breytast.

Enginn veit það líklega betur en Guðni Ágústsson hvernig það að er lenda á "dauðalistanum", en standa keikur og hafa að lokum sigur.

Skyldi Björn Ingi hafa spurt Guðna ráða, hvernig maður bæri sig að undir slíkum kringumstæðum?

Líklega ekki.


Grátið í glerhúsinu

Ég sagði það hér í fyrir stuttu að mér litist miðlungi vel á nýjan meirihluta í Reykjavík.  Þó sýnu betur en þann sem er að fara frá og er reiðubúinn til að gefa nýjum meirihluta séns á því að láta verkin tala.  Upphafið, það er lækkun fasteignaskatta er af hinu góðu og er vonandi að haldið verði áfram á þeirri braut.

Annað líst mér síður á, s.s. "kofamenninguna" sem er að festa sig í sessi í Reykjavík.

En það hefur líka verið fróðlegt að fylgjast með reiði fráfarandi meirihluta og stuðningsmanna þeirra.  Heiftin virðist vera mikil og ég er ekki frá því að biskupinn myndi segja að hún væri hatrömm.

Það var ótrúlegt að sjá í fréttum hvernig forsvarsmenn "Tjarnarkvartettsins" (sem nú er orðinn að Dúett í borgarstjórn) tjáðu sig um skrílslætin á áhorfendapöllunum.  Þau virtust vera ánægð með framkomu mótmælenda og í raun lítast vel á skrílræðið.

Reyndar er ótrúlegt að hlusta á lýðskrum eins og þegar sagt er að það ætti að kjósa í Reykjavík í dag, án þess að taka það fram um leið að það sé engin heimild fyrir því í sveitarstjórnarlögum.  Það er einfaldlega (alla vegna sem ég best veit) ekki hægt að "rjúfa borgarstjórn".

Málflutningur eins og sá að Ólafur eigi ekki að vera borgarstjóri vegna þess hve hann hafi fá atkvæði á bakvið sig, verður léttvægur þegar hann kemur frá flokkum sem höfðu á síðasta kjörtímabili, borgarstjóra sem ekki sat í borgarstjórn, hafði aldrei verið til þess kjörinn.  Líklega eru Samfylkingarmenn á Akureyri heldur ekki sammála því að stærri flokkurinn eigi að hafa bæjarstjórann alltaf, allan tímann.

Þegar forsagan er höfð til hliðsjónar þarf svo ef til vill engum að koma á óvart að ekki sé samstaða hjá þeim skipa framboðslista F-listans, í hvaða flokki sem það er svo í núna.  Það er líklega best að orða það sem svo að nú sé fólkið sem klauf sig frá Frjálslynda flokknum (en hélt sætunum sínum í borgarstjórn, þó svo að sumir þeirra hafi áður skrifað "lærðar" greinar um hve slíkt framferði væri siðlaust) sé klofið.

Auðvitað er endurtekin lausung í borgarstjórn ekki af hinu góða og ekki til eftirbreytni.  En það verður hver að velja sér samstarfsmenn sem þeir kjósa og telja að þeir geti með komið sínum málefnum á framfæri.

Það er best að gefa hinum nýja meirihluta frið til starfa, "Tjarnardúettinn" og þeir borgarfulltrúar sem með þeim starfa í minnihluta sjá um að veita þeim öflugt aðhald og svo gefa borgarbúar álit sitt í kosningum árið 2010.

Vonandi verða ekki frekari umskipti þangað til.

 


Ungliðahreyfingar skrílræðisins

Það er í seinn hryggilegt og skelfilegt að horfa upp ungliðahreyfingar flokka sem telja sig lýðræðissinnaða, gefa sig skrílræðinu á vald.

Það er skiljanlegt að þeim sem ýmsum öðrum mislíki að nýr meirihluti taki við í Reykjavík.  Það er sömuleiðis eðlilegt að þeir kjósi að koma fram mótmælum þegar nýi meirihlutinn tekur við.

En slík mótmæli eiga að sjálfsögðu að fara fram þannig fram að þau trufli ekki störf borgarstjórnar sem kjörin er með lýðræðislegum hætti.  Líklega hefðu þau mótmæli orðið áhrifameiri ef þau hefðu farið fram með þöglum og kurteisum hætti.

Skrílræðið má aldrei taka yfir.

Ungliðahreyfingarnar skulda almenningi afsökunarbeiðni á framferði sínu. 

Nema auðvitað að þær hafi kosið að standa fyrir skrílræðið?

 


mbl.is Segja atburðina í Ráðhúsinu sögulega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af fatahlunnindum og skattsvikum

Ég man ekki eftir því að hafa séð kjörna fulltrúa viðurkenna að þeir hafi svikið undan skatti.  Þó virðist það vera staðreyndin með Björn Inga Hrafnsson.  Hann virðist ekki hafa gefið fatahlunnindi sín upp til skatts, og virðist ekki skammast sín neitt fyrir það.

Ef marka má fréttir á síður visis, hér og hér er fyllsta ástæða fyrir skattayfirvöld að hefja rannsókn á framtali Björns Inga og krefja Framsóknarflokkinn um öll gögn hvað varðar þetta fatamál. 

Eftirfarandi má lesa á rsk.is og hlýtur því að vera ástæða til þess að rannsaka hvernig þessum málum hefur verið háttað hjá Birni Inga og Framsókn.

"Fatahlunnindi

Einkennisfatnaður færist til tekna í samræmi við hlunnindamat fjármálaráðherra.
Fatnað, sem ekki telst einkennisfatnaður, skal telja fram á kostnaðarverði. Nái kostnaðarverð einkennisfatnaðar ekki framangreindu mati, skal miða við kostnaðarverðið.

Ekki skal reikna launamanni til tekna nauðsynlegan öryggis- eða hlífðarfatnað við störf hans sem launagreiðandi afhendir honum til afnota."
Sjálfur sé ég aldrei DV, en það hlýtur sömuleiðis að vekja áhuga fjölmiðlamanna og skattstjóra að ef marka má Björn Inga, upplýsir Alfreð Þorsteinsson það á síðum DV að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi fengi fatapeninga hjá R-listanum sáluga.  Það væri vissulega fróðlegt ef fjölmiðlamenn spyrðu Ingibjörgu um þetta, en líklega væri það mál (ef fatapeningar hafa verið greiddir og ekki gefnir upp) fyrnt hvað varðar skattskyldu.

Það hlýtur sömuleiðis að vekja athygli áhugamanna um stjórnmál og fjölmiðla að Björn Ingi segir í fjölmiðlum að fatahlunnindi hans hafi ekki komið niður á "almennum Framsóknarmönnum", heldur hafi verið fengir styrkir til þessa verkefnis. 

Það hlýtur að vekja þær spurningar hvort að þeir styrktaraðilar vissu að styrkir þeirra væru "eyrnamerktit" sem fatapeningar og ef svo er hverjir þeir styrktaraðilar voru. 

Ef svo er ekki er hægt að álykta sem svo að um "almennt kosningabaráttufé" hafi verið að ræða. 

Það hlýtur líka að vekja spurningar um hversu nauðsynlegt það er að ríki og sveitarfélög verji stórum fjárhæðum í að styrkja stjórnmálaflokka, ef þeir hafa ekkert nauðsynlegra að verja fénu til en að kaupa föt á frambjóðendur.

Er þá ekki orðið tímabært að vinda ofan af ríkisvæðingu stjórnmálaflokkana og láta þeim eftir að fjármagna sig sjálfa?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband