Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007
9.11.2007 | 16:42
Hvers vegna tollfríðindi?
Þó að ég sé ekki á móti tollfríðindum fyrir ferðamenn per se, þá þykir mér umfjöllunin sem ég hef séð á mbl.is og hjá bloggurum nokkuð merkileg og á villigötum.
Flestum virðist þykja það sjálfsagt að ferðamenn megi taka með sér tollfrjálsan varning og þykja núverandi upphæðir alltof lágar. Popúlískir stjórnmálamenn virðast svo taka undir, enda líklega hræddir við að segja nokkuð sem ekki er líklegt til vinsælda.
En er ekki nær að spyrja hvers vegna allir þessir tollar og vörugjöld eru lögð á og hvað er svona merkilegt við það að ferðast til útlanda að þeir sem það gera eigi að njóta betri kjara en þeir sem heima sitja?
Ef fluttir eru 20 geisladiskar til landsins þá eru greiddir af þeim tilhlýðileg gjöld og virðisaukaskattur af innflytjenda og verslun. Ef einstaklingur pantar sér 20 geisladiska af www.amazon.com þá innheimtir pósturinn af honum tilheyrandi gjöld og virðisaukaskatt (flutningskostnaður innifalinn í báðum tilfellum), en ef að sami einstaklingurinn flýgur til London og kemur heim með 20 geisladiska þá þykir öllum sjálfsagt að hann greiði engin gjöld og engan virðisaukaskatt (og ekkert hugsað um flutningskostnaðinn).
Hver eru rökin fyrir þessum mun? Hví skyldi sá sem þarf eða kýs að fara til útlanda oft á ári geta gert sín innkaup að stórum hluta án þess að þurfa að borga vörugjöld, tolla og virðisaukaskatt, en sá sem heima situr er gert að borga af öllu?
Þetta þýðir ekki að ég sé mikill aðdáandi tolla og vörugjalda, heldur finnst mér rétt að allir sitji við sama borð eins og frekast er kostur. Það er því nær að stefna að því að fella niður slík gjöld, lækka virðisaukaskatt og þar fram eftir götunum.
Þá er sanngjörn samkeppni á milli innlendra söluaðila, þess að kaupa inn af netinu og því að fara erlendis og versla. Einstaklingar geta þá valið þann kost sem þeim líst best á, án þess að hið opinbera sé að hygla einni aðferð umfram aðra með toll, vörugjalda og vsk fríðindum.
Ólíkar reglur um tollfríðindi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.11.2007 | 15:22
En netið?
Þó að sjálfsagt verði erfitt að koma nýrri sjónvarpsstöð á traustan áhorfsgrundvöll, þá líst mér ágætlega á framtakið og hún á líklega þokkalega möguleika að hassla sér þröngan en góðan áhorfshóp.
Hins vegar gat ég hvergi séð að efnið ætti að vera aðgengilegt á netinu, alla vegna gat ég ekkert fundið á www.inntv.is Ég held að það hljóti að vera mikilvægt fyrir stöð í þessum samræðu/pólítíska flokki að hafa efni sitt aðgengilegt á netinu. Sjálfur er ég búsettur erlendis en horfi t.d. á nær alla þætti af Silfri Egils á netinu, kíki stundum á Fréttir, Kastljós, Ísland í dag og leyfi börnunum að horfa á Stundina okkar stöku sinnum. Allt á netinu.
Ef einhver hefur upplýsingar hvað þetta varðar eru þær velþegnar á í athugasemdir.
Ný sjónvarpsstöð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Sjónvarp | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2007 | 05:04
Af "ofurfrjálslyndi" og bókabrennum
Kunningi minn einn sem gjarna hefur þótt ég vera frekar of langt frá miðjunni í stjórnmálum vakti athygli mína á því sem hann sagði feikna góða "Bakþanka" Guðmundar Steingrímssonar í Fréttablaðinu á föstudaginn. Sagði að ég yrði að lesa þá.
Ég dreif í því að "dánlóda" Fréttblaðinu og lesa "Bakþankana". Ég verð að segja að mér þótti ekki mikið koma til skrifanna. Guðmundur virðist hafa undarlegar skoðanir á því hvað frjálslyndi er, alla vegna frá þeim sjónarhóli sem ég stend á.
Í "Bakþönkunum" mátti lesa meðal annars:
"En flestir eru hins vegar mjög ákveðið á móti bókabrennum, skiljanlega. Hinir ofurfrjálslyndu líka. En spurningin er: Af hverju er það? Jú, þær tengjast ákveðinni viðurstyggð í sögunni. En hér blasir við klemma: Þeir sem hvað harðast mæla með því að það sé fullkomlega í lagi að gefa út bækur eins og Tíu litla negrastráka hljóta að telja það jafnframt hið sjálfsagðasta mál að fólk brenni slíkar bækur ef það svo kýs. Þetta eru í stuttu máli ógöngur hinna ofurfrjálslyndu."
Nú tel ég mig frjálslyndan mann en skammast mín ekkert fyrir að segja að ég er á móti bókabrennum, þykir þær ekki til fyrirmyndar. En ég er sömuleiðis á móti því að banna þær. Það liggur nefnilega himinn og haf á milli þess að vera ósammála einhverju og vilja að sami hluturinn sé bannaður, eða þaggaður niður. Auðvitað eiga allir rétt á því að brenna þær bækur, hljómplötur, geisladiska, myndir eða hvað annað sem þeir vilja brenna. Það er sjálfsagður réttur hvers og eins, svo lengi sem þeir brjóta ekki lög t.d. hvað varðar eignarétt eða hegðun á almannafæri með athæfi sínu. Ég reikna t.d. ekki með að lögreglan væri ginkeypt fyrir því að leyfa bókabálköst á Austurvelli, né heldur að slökkviliðið gæfi því meðmæli.
En frá þeim sjónarhóli sem ég hef tekið mér stöðu á, þykir mér það einmitt vera frjálslyndi þegar menn telja það sjálfsagt að gefnar séu út bækur eins og "10 litlir negrastrákar" eða sú sama bók brennd, það þótt önnur athöfnin eða báðar séu mönnum á móti skapi.
Frjálslyndi felst ekki síst í því að geta unnt öðrum skoðanir, eða athafnir sem eru við sjálf höfum ekki áhuga fyrir, eða erum á móti.
Það er því ekkert athugavert við að vera á móti bókabrennum, svo lengi sem ekki er verið að kalla eftir því að þær séu bannaðar. Það er sjálfsagt að segja sínar skoðanir á athöfnum annarra eða því sem þeir eru að hvetja til.
Þegar ég las þetta rann hins vegar upp fyrir mér hvers vegna mér þykir oft að frjálslyndi þeirra sem gjarna kalla sig "frjálslynda jafnaðarmenn" vera lítið þegar á reynir. Þeir virðast einfaldlega leggja annan skilning í orðið frjálslyndi heldur en ég. Þegar á reynir virðast þeir líta svo á að það sem menn séu ekki samþykkir, það vilji þeir banna. Oft virðast þeir reyndar líka vilja banna allt það sem þeir sjálfir eru ekki samþykkir.
P.S. Það má svo ef til vill bæta hér við að allir þeir sem eru "réttsýnir" og hafa "samfélagslega vitund" hljóta að vera á móti bókabrennum, þeir vita jú að pappír er ekki brenndur heldur er farið með hann í endurvinnsluna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.11.2007 | 04:15
Öflug "Troika"
Ef þessi frétt reynist rétt, þá hefur Red Bull komið sér upp öflugri "troiku". Newey, Brawn og Alonso er þríeyki sem ætti örugglega eftir að skila árangri, þó að það tæki líklega 2 til 3 ár.
Brawn veit hvernig á að byggja upp lið og ökumenn, veit að það tekur tíma rétt eins og þegar hann fór með Schumacher yfir til Ferrari. Það á sjá svolítið líkt með þessu og þegar það gerðist. Schumacher var eins og Alonso er nú, búinn að vinna titilinn 2svar sinnum (en hafði titilinn þó með sér) en þurfti að þola "þurrt" tímabil á meðan liðið var byggt upp.
Spurningin er líklega frekar hvort að Alonso hafi þolinmæðina í uppbygginguna?
Alonso og Brawn sagðir á leið til Red Bull | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2007 | 04:39
Blessað áfengið og heilbrigðisráðherra
Nokkuð mikið hefur verið rætt um frumvarp þess efnis að leyft verði að selja áfengi í fleiri verslunum en hins opinbera, þ.e.a.s. að verslun með létt vin og bjór verði gefin frjáls og geti farið fram í matvöruverslunum.
Reyndar hefur komið í ljós að þess munu vera dæmi um að áfengi fáist í matvöruverslunum á landsbyggðinni, og það án þess að hið háa Alþingi hafi verið spurt álíts, en það er í auðvitað önnur saga, því ef "neyðin" er fyrir hendi, þá er þetta sambland áfengis og matvæla auðvitað fyrirgefanlegt og enginn hefur heyrt um "róna" í dreifbýlinu, hvað þá á þar þekkist að bjór sé seldur kældur í stykkjavís.
(Þetta minnir mig reyndar á það hvað margt vill verða líkt með tilhögun hér í Ontario og á Íslandi, en hér er að segja má sama fyrirkomulag á áfengissölu (fylkið rekur hana) með þeim undantekningum að vínframleiðendur mega selja eigin vöru, björframleiðendur reka saman bjórverslanir og svo er það rétt eins og á Íslandi að í dreifbýlinu eru áfengisverslanir í "slagtogi" við aðrar verslanir, þar með taldar matvöruverslanir).
En rökin sem fram eru færð á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum virðast helst vera þessi:
Að aðgengi að áfengi aukist og þar með "lýðheilsutjón" sem það veldur.
Að úrval minnki og verð komi til með að hækka þegar einkaaðilar taki við.
Margir nefna það einnig að það sé enginn fyrirhöfn að fara í aðra verslun (gjarna hvort eð er í sömu verslunarmiðstöð) og þeir hafi aldrei orðið að neita sér um vín þess vegna. Þessu er ég reyndar nokkuð sammála, þ.e.a.s. að ég man ekki eftir því í fljótu bragði að hafa ekki getað drukið vín þegar ég vildi við hafa, en það skiptir einfaldlega ekki miklu máli í umræðunni.
Það hlýtur þó flestum að vera ljóst að þetta gengur ekki alveg upp, enda varla hægt að tala um að aðgangur aukist, ef verð hækkar og aðgangur er slíkur að enginn hefur nokkru sinni misst af því að kaupa vín, eða fundið nokkuð óhagræði af núverandi fyrirkomulagi.
Það má líklega einnig minna á þær "heimsendaspár" sem fram komu þegar rætt var um að leyfa sölu á áfengum bjór á Íslandi. Ég held að það geti ekki talist að þær hafi gengið eftir.
Loks hafa margir hneykslast á því að sjálfur heildbrigðisráðherra skuli hafa lýst því yfir að hann styðji frumvarpið og gangi þannig gegn ráðleggingum jafnvel sjálfs Landlæknis. Slíkt virðist þeim þykja hneysa.
Slíku fólki þykir líklegast heilbrigðisráðherra nokkuð óþarfur í stjórnsýslunni, enda geta líklega Landlæknir og aðrir embætitismenn í heilbrigðiskerfinu hæglega stjórnað með tilskipunum, ef það er reginhneyksli að ráðherra skuli leyfa sér að hafa aðra skoðun en þeir.
Í umræðunni hafa einnig verið rannsóknir frá Svíþjóð, Kanada og einhverjum öðrum löndum sem eiga sýna það að einkavæðing á léttvíns og bjórsölu sé feigðarflan og komi til með að kosta tugi Íslendinga lífíð árlega.
Ekki hef ég kynnt mér þær rannsóknir og efast reyndar um að ég eigi nokkurn tíma eftir að gera það, svo sterkur er áhugi minn á þessu máli ekki. Það er reyndar svo oft með rannsóknir að þær virðast stundum sýna það sem menn hafa áhuga fyrir að þær sýni (hér er ekki verið að alhæfa, eða taka sérstaklega til þeirra rannsókna sem hér um ræðir), enda þveröfugt við það sem margir halda, þá hafa margir vísindamenn skoðanir.
En svo háttar þó til að ég bý í Kanada, þar sem einkasala ríkír hér í Ontario, þar sem ég bý, en í næsta "hreppi" Quebec, er leyft að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. Eftir því sem ég hef heyrt, ríkir þó síst verra ástand í áfengismálum í Quebec en hér í Ontario. Reyndar hafa margir fullyrt í mín eyru að þar hafi alkóhólismi dregist saman frekar en hér í Ontario.
Þegar ég núna rétt í þessu googlaði þetta fann ég tvær rannsóknir, sem má finna hér og hér.
Á fyrri hlekknum má lesa eftirfarandi:
"This paper examines the effect of introducing wine into grocery stores in Quebec. Beer has been available in Quebec grocery stores for many years but limited wine sales were introduced in 1978. Data on wine sales and total sales of alcoholic beverages were examined for Quebec and Ontario for the years 19671983. Neither beer nor wine are sold in the grocery stores of Ontario and it represented a control province. The analyses show that there was no impact on wine sales or total alcohol sales from the introduction of wine into grocery stores. In fact, alcohol consumption fell a little more in Quebec than in Ontario. The reasons for the lack of impact could include depressed economic circumstances, the relative unpopularity of wine compared to other beverages and the long-term trend toward lower alcohol consumption throughout Canada. "
Á þeim seinni segir að alkóhólistar sem hlutfall af 100.000 íbúum hafi verið 4300 bæði í Quebec og Ontario árið 1975. Árið 1990 var hlutfallið 2700 í Ontario en komið niður í 2500 í Quebec.
Ekki ætla ég að segja að þessar rannsóknir séu einhver stóri dómur, enda hef ég hvorki kynnt mér þær né aðrar rannsóknir til hlýtar. En þessar niðurstöður benda vissulega til þess að það séu einhverjir aðrir "kraftar" að verki en hvort að létt vín og bjór er selt í matvöruverslunum eður ei, þegar umræðan er um "lýðheilsutjón" og áfengisfíkn.
Ég vil því taka ofan fyrir heilbrigðisráðherra fyrir að taka afstöðu með frjálsræðinu og ganga ekki í forræðisbjörgin í þessu máli.
Að lokum vil ég rétt minnast á það, að þegar forræðishyggjumennirnar byrja að tala að hætta sé að stórauknum útgjöldum í heilbrigðiskerfinu vegna aukins aðgengis að áfengi, að það eru verstu meðmæli með opinberu heilbrigðiskerfi sem hugsast getur, ef forræðishyggjumenn nota það sem vopn til þess að banna allt það sem hugsanlega getur aukið útgjöld í því sama kerfi.
Má ég þá frekar biðja um að standa utan þess kerfis (sem ég annars held að sé nokkuð mikil sátt um bæði hér í Kanada sem og á Íslandi), heldur en að fela ákvarðanir sem varða lífstíl minn og frelsi forræðishyggjufólkinu í hendur.
Slík forræðishyggja grefur undan samkomulaginu um sameiginlegt heilbrigðiskerfi og almannatryggingar.
2.11.2007 | 03:01
Fyrstu skrefin og
1.11.2007 | 07:38
Óþarfa áhyggjur?
Ég las það nýlega á vef mbl.is, að einhverjir væru farnir að hafa af því áhyggjur að kenninafnasiður Íslendinga ætti undir högg að sækja og ef fram héldi sem horfði þá liði hann undir lok.
Ég er einn af þeim sem þætti það miður ef svo færi, því mér þykir geta góð og gild hefð. En ég vil hins vegar vara við því að Íslendingar fari að grípa til þess ráðs sem þeim virðist einna tamast þessi misserin, það er að segja að setja ný lög eða herða á þeim eldri, til að varðveita þennan góða síð.
Lagasetning í kringumstæðum sem þessum er ekki rétta leiðin.
Það verður að horfast í augu við það, að ef Íslendingum sjálfum er þessi siður ekki kærari en svo að þeir haldi honum ekki við, þá sé eðlilegast að hann verði hægt og rólega úr sögunni. Ef Íslendingar vilja ekki viðhalda siðnum gera engir aðrir það og heldur ekki lagabókstafurinn.
Það hafa enda verið að ég best veit í gildi lög í langan tíma sem takmarka eftirnöfn, en þó fjölgar þeim Íslendingum sífellt sem þau bera og er ekki nema hluti þeirrar skýringar aukning Íslendinga sem eru af erlendu bergi brotnir. Íslensk ættarnöfn eru nefnilega þeirrar náttúru að erfast í flestum tilfellum bæði í kven og karllegg, öfugt sem gerist víðast hvar annarsstaðar.
Það þarf heldur ekki að fara víða um þjóðfélagið til að sjá hve áberandi hin Íslensku ættarnöfn eru.
Það er því lang eðlilegast að fella niður öll takmörk, gefa Íslendingum frjálst val um hvaða sið þeir vija nota, ættarnöfn verði skráð gegn vægu gjaldi hjá Hagstofunni. Síðan kennir hver sig við móður, föður, eða notar sitt ættarnafn, eða skráir nýtt ef hann kann ekki við "fjölskylduættarnafnið".
Jafnvel gætu menn tekið upp Rússneska siðinn og notað hvorutveggja. Jón Guðmundsson Mýrdal svo dæmi væri tekið.
Í leiðinni væri mannanafnanefnd lögð niður og eiginnöfn sömuleiðis gefin frjáls.
Það er reyndar rétt að geta þess að ég er það hrifinn af kenninafnasiðnum, að börnin mín eru Tómasson og Tómasdóttir, þó að þau séu fædd hér í Kanada og ættu eftir þeim síð sem hér er algengastur að vera "Gunnarsson" jafn illa og það myndi hljóma fyrir dóttur mína.
En Kanadamenn eru frjálslyndir í þessum efnum sem ýmsum öðrum. Á eyðublaðinu sem fylla þarf út þegar börnin eru tilkynnt til skráningar, þá er gefin sá möguleiki að barnið beri annað kenninafn en foreldrarnir og er þá merkt með í viðeigandi reit, hvort það er sé af "ethnic" eða "relligous" ástæðum. Flóknara er það ekki.
Það hefur heldur ekki skapað okkur vandræði að við berum fjögur mismunandi kenninöfn hér að Bjórá, pósturinn kemst til skila, enginn fettir fingur út i þetta. Einstaka sinnum veldur þetta þó smá misskilningi, eins og þegar hringt er frá lækni sonarins og spurt hvort að ég sé ekki Mr. Tómasson eða konan Mrs. Tómasson, þar sem drengurinn er auðvitað skráður undir því nafni hjá þeim.
En það er ekkert til þess að láta fara í taugarnar á sér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2007 | 06:37
Þrasgirni?
Ég get alvega viðurkennt að hafa gaman af góðum rökræðum, sumir hafa jafnvel sagt að ég eigi það til að vera þrasgjarn (sem er auðvitað ekki rétt).
En hvernig menn geta rifist fram og aftur um einhverjar breytingar á bíblíutexta er mér dulítil ráðgáta. Ekki það að ég geti ekki skilið að menn séu ekki sammála um orðalag, heldur hitt, þegar látið er eins og textinn sé kominn beint frá "guði" og hafi aldrei áður tekið breytingum. Að hingað til hafi þetta allt verið orðrétt frá yfirvaldinu ef svo má að orði komast.
En líklega er ekki rétt að gera of lítið úr þessu, því að í upphafi var orðið, eða hvað?
Alltaf þegar ég heyri það, kemur mér reyndar í hug þessi skemmtilega viðbót sem ættuð er frá Pétri Gunnarssyni: "Andra fannst eins og það vantaði "S"".
(Ég man þetta nú ekki alveg orðrétt ennþá, en held að meiningin komist nokkuð óbreytt til skila).
1.11.2007 | 06:27
Halloween
Eins og flestir líklega vita var Halloween í gær (nú er komið fram yfir miðnætti hér) og mikil hátíð hjá krökkunum hér, sem fara hús úr húsi og fá sælgæti, og það aðeins fyrir að segja "trick or treat". Enginn óþarfa söngur hér.
Framan af kvöldi vildi Foringinn þó ekki fara út og betla nammi, sagðist ekki vilja fara í búninginn og að honum langaði ekkert í nammi. Síðan þegar krakkaskarana fór að bera heim að Bjórá og allir voru leystir út með sælgæti án þess að nokkuð kæmi í hans hlut fór að fara um hann.
Það var því laust fyrir klukkan 8 að hann tilkynnti að það væri tímabært að fara í bangsabúninginn og fara að herja á nágrennið. Og auðvitað drifum við okkur af stað. Það þurfti ekki að fara langt og ekki víða til að pokinn tútnaði út af gúmmelaði og brosið stækkaði á mínum manni og eftir u.þ.b. 10 eða 12 hús var ákveðið að nóg væri komið og haldið heim á leið.
Þá voru valinn 2. stykki til að borða og síðan burstað vel og lengi og farið í háttinn.
Pokinn er hins vegar að heita má sneisafullur af sælgæti, líklega verð ég að borða eitthvað af því, því sem ábyrgt foreldri get ég varla látið barnið borða öll þessi ósköp.
Það er misjafnt hvað menn leggja mikið á sig við undirbúning "hrekkjavökunnar", flestir láta sér nægja eitt eða tvö grasker, en aðrir leggja mikið á sig við skreytingar.