Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

En hvað með hvalinn?

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort að þessi spákona hafi ekki heyrt af hvalveiðum Íslendinga, eða hvort henni er einfaldlega alveg sama?

Sjálfur hallast ég helst að því að henni sé alveg sama, rétt eins og svo mörgum öðrum sem sækja í góðan mat.  Þeir spyrja um hvernig maturinn er framleiddur, muna hvernig hann er á bragðið, en spá minna í hvað samlandar eða nágrannar viðkomandi matvælaframleiðanda hafast að, enda væri varla hægt að snæða nokkurn skapaðan hlut án samviskubits (fyrir þá sem eru þannig innstilltir) ef allir væru dæmdir eftir samlöndum sínum eða nágrönnum.

Það verður heldur aldrei af Íslenskum matvælum tekið að í heildina litið eru þau góð.  Því held ég að það gæti vel ræst að Íslensk matvæli verði vinsæl á næsta ári og jafnvel árum.

Hitt vil ég benda á að það vantar að í Íslenskum fréttum sé greint frá því verði sem fæst fyrir Íslensk matvæli í Bandaríkjunum sem annarsstaðar erlendis, hvernig koma Íslenskir bændur frá þessu, eru þeir að efnast á þessari sölu, myndu þeir vilja auka framleiðsluna (án nokkurra styrkja) til að koma auknu magni á markað erlendis?

Er verðið það gott að þetta sé gróðaleið fyrir Íslenska bændur?


mbl.is Spáir íslenskum matvælum vinsældum í Bandaríkjunum á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Klón á diskinn minn?

Það hefur vakið athygli víða um heim að FDA (Bandaríska fæðu og lyfjastofnunin) hefur skorið úr með það að klónuð dýr séu á allan hátt sambærileg við önnur dýr og að afurðir þeirra skeri sig ekki frá afurðum "hefðbundinna" dýra.

Í framhaldi af þessu hefur stofnunin ákveðið að ekki þurfi að merkja afurðir frá eða af klónum sérstaklega.

Í frétt Globe and Mail mátti t.d. lesa eftirfarandi:

"“Meat and milk from clones and their progeny is as safe to eat as corresponding products derived from animals produced using contemporary agricultural practices,” FDA scientists Larisa Rudenko and John C. Matheson wrote in the Jan. 1 issue of Theriogenology."

"Labels should only be used if the health characteristics of a food are significantly altered by how it is produced, said Barb Glenn of the Biotechnology Industry Organization.

“The bottom line is, we don't want to misinform consumers with some sort of implied message of difference,” Ms. Glenn said. “There is no difference. These foods are as safe as foods from animals that are raised conventionally.”"

Ekki ætla ég að mótmæla þessum niðurstöðum, enda hef ég ekki sérfræðiþekkingu á málinu, en get þó vel skilið andstöðu ýmissa hópa, sérstaklega hvað varðar merkingu, en ég er þeirrar skoðunar að öll upplýsingagjöf til neytenda sé af hinu góða, enda auðveldi það þeim að taka ákvarðanir.  Sjálfur held ég að ég geti vel hugsað mér að snæða afurðir klónaðra dýra, en endurtek að ég tel upplýsingagjöf alltaf af hinu góða.

Hitt ber þó á að líta, að líklega mun markaðurinn sjálfur taka að sér þessa upplýsingagjöf, það er að segja með öfugum formerkjum, því þeim á án efa eftir að fjölga mikið þeim vörum sem sem segja með merkingum að engin klónuð dýr eða afurðir frá þeim hafi komið nálægt framleiðslu á viðkomandi vöru.  Þannig ættu þeir sem ekki vilja neyta afurða af klónunum eða geta fundið vörur við sitt hæfi.  Líklega munu þeir framleiðendur þó nota tækifærið og hækka verð sitt hægt og rólega, enda "hækka" vörur þeirra um flokk, í það minnsta í huga sumra neytenda.

En það verður fróðlegt að fylgjast með þessari umræðu á næstu árum og hvaða ákvarðanir önnur ríki taka.

En hér má sjá frétt Globe And Mail og hér frétt The Times.


Er þá áróður af hinu illa eða hinn eðlilegasti hlutur?

Mér er farið að þykja það nokkuð skondið hvað gjöf Alcan á mynddiski "Bó Halldórs" hefur vakið mikinn úlfaþyt.

Að sjálfsögðu vill Alcan minna á sig og sinn málstað þegar fyrir dyrum stendur atkvæðagreiðsla um stækkun álversins.  Að sjálfsögðu munu þeir reka áróður fyrir því að Hafnfirðingar samþykki stækkunina.  Vissulega má líta á (og það geri ég) þessa gjöf sem hluta af þeim áróðri.  En er sá áróður eitthvað óeðlilegur?

Er áróður Alcan á einhvern hátt óeðlilegri en áróður "Sólar í Straumi" á móti álversstækkuninni?

Auðvitað vill Alcan stækka, auðvitað eiga þeir ríkra hagsmuna að gæta, auðvitað vill Alcan láta Hafnfirðinga vita að þeir hafa verið í Straumsvík í 40 ár, hafa verið til góðs fyrir Hafnarfjörð og vonast til að vera það áfram.

Það er jafn eðlilegt að um það séu skiptar skoðanir og að einhverjir vilji skila gjöfinni, mér finnst það vel til fundið hjá þeim 25 aðilum sem þarna skila disknum til Alcan.  Það er auðvitað líka áróður, en alveg jafn sjálfsagður og áróður Alcan.

Við öll, en auðvitað sérstaklega Hafnfirðingar, eigum ábyggilega eftir að sjá og heyra mikinn og mismunandi áróður fram að því að kosið verður um stækkun álversins, frá báðum hliðum. 

Það er vel.  Það er æskilegt að sem flestir heyri, frá sem flestum sem hafa skoðanir á þessu máli.


mbl.is Skiluðu gjöfinni frá Alcan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snaggaralega að verki staðið

Þeir eru ekki lengi að setja ný lög í Túrkmenistan, og láta það heldur ekki standa í vegi fyrir góðu dagsverki að breyta þurfi stjórnarskránni.

Heldur horfir til lýðræðisáttar að frambjóðendur megi tala við kjósendur sína og er vart að efa að það á eftir að gjörbylta stjórnmálaumræðunni í Túrkmenistan.  Það að kjósendur megi eiga von á því að þeir kynni stefnumál sín í fjölmiðlum er ekki minni bylting.

Það verður einnig að teljast framsýni að leyfa frambjóðendum eingöngu að kosta baráttuna með fjármunum sem koma frá hinu opinbera, en í sömu átt hefur stefnt í flestum öðrum lýðræðisríkjum þótt hægar hafi miðað.  Varla þarf að efast um að frambjóðendurnir muni þurfa að skila endurskoðuðu bókhaldi yfir það hvernig hinu opinbera fé hefur verið eytt.

Ekki þori ég að spá um úrslit kosninganna, en vissulega er þó líklegt að formaður kjörstjórnar eigi eftir að reynast Berdymukhammedov nokkur liðsauki.

En það er einnig mark um hve mjög til lýðræðisáttar horfir hjá Túrkmenum að fjölmiðlum sem og innlendum og erlendum aðilum sé heimilt að fylgjast með.

 


mbl.is Ný kosningalög sett í Túrkmenistan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Papa Got a Brand New Bag

Ekki kemst ég í Appollo leikhúsið til að votta James Brown virðingu mína, en mér er bæði ljúft og skylt að gera það hér í þessum orðum, því fáir ef engir tónlistarmenn hafa veitt mér meiri ánægju í gegnum tíðina.

Þó að ég hafi ekki verið fæddur þegar Brown hljóðritaði meistarastykki eins og hljómleika sína í Apollo, þá leituðu tónsmíðar hans mig uppi og ég þær.  Þetta eru einfaldlega meistararstykki, rétt eins og James Brown var meistari á sínu sviðum, og kom fram á þeim mörgum.

Fáir tónlistarmenn hafa átt fleiri "smelli" en Brown, og líklega hefur enginn tónlistarmaður verið "samplaður" meira.  Þannig hefur t.d. meistarastykki hans "Funky Drummer" líklega getið af sér fleiri lög en tölu er hægt að festa á.

En þau eru mörg meistarastykkin, allir þekkja líklega "I Feel Good" og "(Get Up) I Feel Like a Sex Machine", en lög eins og "Try Me", "It's A Man´s Man´s Mans World", "Papa Got a Brand New Bag", "Funky Drummer" sem koma upp í hugann ásamt fjölda annara.

En nú er James Brown endanlega "Out of Sight", en tónlistin hans mun lifa, líklega í einhverri mynd að eilífu.


mbl.is James Brown í Apollo leikhúsinu í síðasta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóladagur

Þó að ég hafi vaknað alltof snemma í morgun, hefur dagurinn verið ágætur.

Það er alltaf þægilegt að vakna á jóladagsmorgun, teygja sig eftir bók og liggja áfram í rúminu.

Gjafir voru okkur hér að Bjórá gefnar, þær þegnar með þökkum og lífið hefur á sér notalegan blæ.

Eins og ég minntist á í síðustu færslu, eru Eistneskar jólahefðir öðruvísi en Íslenskar.  Fyrst ber að nefna grimmd þeirra gagnvart börnunum.  Þeir hafa þá hefð að jólasveinninn útdeilir gjöfunum, nú eða heimilisfaðirinn ef jólasveinninn kemst ekki, en fyrir hvern pakka sem börnin fá verða þau að syngja lag, eða fara með ljóð.

Þetta reyndi þónokkuð á Foringjann í gærkveldi og enn meira á mig, sem þurfti að inna þessa skyldu af hendi þegar sonurinn brást, allt til að hann fengi sína pakka.

Annað sem kemur Íslendingnum skringilega fyrir sjónir er að frosinn vodkaflaska er aldrei langt undan þegar Eistlendingar fagna, það gildir um jólin sem aðra atburði.  Ég skoraðist ekki undan þeirri hefð, frekar en öðrum.

En við fórum í heimsókn til Eistnesks vinafólk okkar, allir komu með kalda rétti og jólaborðið samanstóð af Eistneskum, Íslenskum og Kanadískum kræsingum. 

Nú er ég svo að sjóða sveppasúpu og gera klárt uppstúfinn en von er á fólki í mat.  Börnin svo upptekin af nýjum leikföngum að ekki heyrist í þeim.


Drukkin jólin

Ég veit ekki  alveg hvort ég á að vera stoltur eða skammast mín akkúrat núna.  En ég  drakk inn jólin fyrir stuttu síðan.

Jólín urðu svona "fusion", "Íslensk"Eistnesk" "skrýtin" "drukkin" "ákaflega gaman þá jólin"..

Pabbi Eistnesks vinar míns var jólasveinninn, "Foringinn" fílaði það í botn, eftir nokkurn tíma. Eistneskur vodki, Moldavískt koniak, kanadískt rauðvín, grafinn lax, kanadískt hangikjöt og hvítur fiskur, kökur og meira vín, kartöflusalat, rauðkál, frosið vodka.

Ég veit ekki 100% hvað ég á að segja meir, nema það að tilveran er yndisleg, hvernig sem það er á hana litið.

Gleðileg jól.

 

 


mbl.is Jólin gengin í garð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Angan af jólum

Nú eru jólin komin hjá mér, alla vegna í huga mér.  Það er hangikjötsilmurinn sem færir mér jólin.  Hangikjötið sem ég, rétt eins og mamma gerði alltaf, sýð á Þorláksmessu, og ilmurinn sem leggur af því er merki um að jólin séu komin.  Jólin hófust hér að Bjórá í gærkveldi.

Konan mín gerir reyndar stundum grín af mér og talar um að fyrir mér séu jólin lítið nema kokteill af mismunandi ilmum.

Þar ber fyrst að nefna hangikjötslyktina, en appelsínulyktin kemur líklega þar á eftir. Góð eplalykt er heldur ekkert til að fúlsa við og greniilmurinn getur komið sterkur inn.

Svona ganga jól bernskunnar aftur og aftur, minningarnar eru kallaðar fram með anganinni um leið og nýjar verða til.

Það var ljúf stund í gær þegar við eftir amstur dagsins, börnin sofnuð, við settum gamla mynd með Peter Sellers í tækið, Bleiki pardusinn þaut um skjáinn og við borðuðum niðursneiddar appelsínur með klementínum í bland.  Það er í raun ekki til neitt betra sælgæti.

Aðfangadagur rann svo upp bjartur og fagur, sólin skein, ekki í heiði, en hátt á himninum sem varla sést ský á, nú eru ekki nema 7 tímar til jólamáltíðarinnar.  Jólín reyndar að hefjast í Eistlandi og farið að styttast verulega í þau á Íslandi, en við þurfum að bíða aðeins lengur.

Ég óska öllum nær og fjær gleðilegra jóla.


Það þarf þá ekki fleiri vitnana við?

Ekki hef ég séð viðkomandi ritdóm, en mér þykir þetta nokkuð sérstakar upplýsingar.

Ekki ætla ég að efa að Sovétmenn hafi sagt þetta, en er einhver ástæða til að taka það trúanlegt, frekar en eitthvað annað?

Þó að ekki komi fram í fréttinni um hvaða tímabil er verið að ræða, þá þykir mér Sovétmenn ekki endilega trúverðugasta heimilidin um umsvif þeirra hér á landi, þó að vissulega megi segja að þeir þekki málið vel.

Eru ekki sendiráðsmenn Sovétmanna og Tékka þeir einu sem hafa orðið uppvísir að njósnum, eða að hafa reynt að fá Íslendinga til að njósna fyrir sig á Íslandi?

Svo er það einnig alþekkt að KGB lét "dótturfélögum" sínum eftir ákveðna hluta starfsemi sinnar, STASI var til dæmis vel þekktur undirverktaki.

En fullyrðingar Sovétmanna um "sakleysi" sitt, eru varla til að byggja mikið á.


mbl.is Engin „óeðlileg" starfsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjartsýnt fólk

Ég held að Íslendingar séu alltaf bjartsýnir, alla vegna flestir af þeim.  Sjálfsagt eru sumir þeirrar skoðunar að upphafssetningin ætti að vera:  Ég held að Íslendingar séu alltof bjartsýnir, alla vegna flestir af þeim.

En væntingarvísitalan sýnir að Íslendingar horfa bjartsýnir fram á veginn og telja ástandið í efnhags og atvinnumálum gott.  Það er enda vandséð hvernig atvinnuástandið getur verið öllu betra, atvinnuleysi nær óþekkt, en vissulega eru skoðanir skiptari hvað varða efnahagsmálin.

En það er ljóst að almenningur á Íslandi fær umtalsverðar kjarabætur snemma á næsta ári, þegar ríkið dregur úr álagningu, lækkar tekjuskatt, hækkar persónufrárátt, lækkar virðisaukaskatt á matælum og þar fram eftir götunum.

Það er hið besta mál.

Hitt er öllu verra, að ef marka má væntingarvísitöluna þá eru Íslendingar þegar komnir í startholurnar til að eyða "búbótinni".  Það má því leyfa sér að að draga þá ályktun að skuldir heimilinna muni ekki minnka við þetta, heldur gæti jafnvel farið svo að þær ykjust.

Það er ef til vill ekki að undra að Seðlabankinn telji sig þurfa að hækka vexti og slá þar með á væntingarnar.

En hækkun vaxta ætti auðvitað að skila sér í auknum sparnaði og minni lántökum, en Íslendingar láta ekki stjórnast af "lögmálum", þeir bíta á jaxlinn, bölva vöxtunum og verðtryggingunni og slá meiri lán.


mbl.is Íslenskir neytendur bjartsýnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband