Helvítis söluskatturinn

Oft hef ég bölvað söluskattinum hér í Ontario, sem og Kanada öllu.  Hér er það nefnilega til siðs að allar vörur eru verðmerkar með því verði sem kaupmaðurinn ætlar að fá fyrir þær.  Síðan legst ofan á það verð, söluskattar bæði ríkis og "fylkis".

Samanlagt eru þessir skattar 14%, 8% handa Ontario og 6% fyrir ríkið.  Ef eitthvað kostar $9.99 þá þarftu sem sé að reiða fram 11 dollara og 39 cent.  Einu undantekningarnar sem ég hef orðið var við er "ríkið" eða LCBO, en þar eru allir skattar innifaldir í útsöluverði og svo matvörur, en þær bera engan söluskatt.

En þetta er vissulega hvimleiður skratti að þurfa alltaf að vera að reikna í huganum hvað hlutirnir kosti, út frá því sem stendur á verðmiðanum, en vissulega er þetta þó farið að venjast.

En þetta hefur líka einn stóran kost.  Það velkist enginn í vafa um hvað varan "kostar" og hvað það er sem ríkið tekur í sinn hlut, það kemur ávalt skýrt og greinilega fram á strimlinum.

Og nú þegar ég heyri og sé Íslendinga hafa miklar áhyggjur af því að lækkun á virðisaukaskatti komi ekki til með að skila sér til neytenda, þá koma kostir þessa fyrirkomulags í ljós.

Hér var nefnilega líka lækkaður söluskattur í vor.  Ríkið lækkaði sinn skatt úr 7% í 6% og hefur lofað lækkun í 5% á næsta ári (ef þeir verða ekki búnir að skipta um stjórn þá).

Enginn hefur áhyggjur af því að þessi lækkun hafi ekki skilað sér til neytenda.  Verðið á vörunni breyttist nefnilega ekki neitt við þessa breytingu, aðeins skatturinn.

Verðið á verðmiðanum var hið sama, en skatturinn sem lesa má á strimlinum lækkaði örlítið.

Fyrir utan hvað það er gott fyrir neytandann að sjá það svart á hvítu hvað það er sem varan kostar og hvað það er sem ríkið fær í sínar hendur. 

Þegar málið er hugsað, er það nefnilega ekki sami hluturinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband