Kosið í Kanada - Sigur, en vonbrigði fyrir Trudeau

Kanadabúar gengu til kosninga í gær. Úrslitin eru ekki enn að fullu ljós, enda mörg atkvæði greidd utankjörstaða og send í pósti.

Þó hafa meginlínur komið í ljós og breytingin er ekki mikil.  Frjálslyndi flokkurinn (Liberal Party) og minnihlutastjórn hans undir forsæti Justin Trudeau heldur velli, en nær ekki þeim meirihluta sem hann vonaðist eftir og kannanir bentu til þegar boðað var til kosninga.

Rétt eins og í síðustu kosningum er Frjálslyndi flokkurinn með flest þingsæti, en færri atkvæði heldur en Íhaldsflokkurinn (Conservatives) sem hefur næst flest þingsæti.

Eitt af því sem hefur vakið athygli er að næsta víst er að Frjálslyndi flokkurinn fái 1. þingsæti í Alberta.

En í heild sinni hafa kosningarnar, sem boðað var til með stuttum fyrirvara þegar Frjálslyndi flokkurinn hafði gott forskot í könnunum (í kringum 10%) engu breytt.  Flokkurinn hafði vonast eftir hreinum meirihluta.

Það er líka rétt að taka eftir að, Flokkur fólksins (sem telja má klofning út úr Íhaldsflokknum), fær hvergi nóg til að fá þingsæti, en hafði hafði nokkur þingsæti af Íhaldsflokknum, ef flest atkvæði hans eru talin hafa fallið þangað (sem er líklegt, en ekki hægt að fullyrða um). En í einstaka kjördæmum fékk hann ríflega 15% ef ég man rétt.

En víða má sjá skoðanir viðraðar að ekkert hafi áunnist í þessum kosningum, nema að þjóðin sé klofnari og heiftúðugri í garðs hvers annars en nokkru sinni fyrr.

Hér má sjá hvernig staðan er þegar þetta er skrifað, og hvað reiknað er með að hver flokkur fái marga þingmenn.

Frjálslyndi flokkurinn     32,2%              158

Íhaldsflokkurinn           34%                119

Nýi lýðræðisflokkurinn    17,7%               25

Quebec blokkin            7,7%                32

Flokkur fólksins          5,1%                 0

Græningjar                2,3%                 2

Aðrir                     0,9%                 0

Eins og glöggir menn sjá þá er ekki hægt að segja að samræmi sé á milli prósentu atkvæða og fjölda þingmanna.

En slík niðurstaða er alls ekkert sem þarf að koma á óvart þar sem einmenningskjördæmi eru kosningafordæmið.

Sjálfsagt yrði þessi niðurstaða mörgum Íslenskum stjórnmálaspekingum tilefni til þess að segja að það sé lýðræðið sé alvarlega brogað í Kanada.  En þetta er einfaldlega það kosningakerfi sem þjóðin hefur valið sér.

Þó er vissulega skiptar skoðanir um núverandi kerfi og eitt af kosningaloforðum Trudeau´s í kosningunum 2015 (þá vann hann meirihluta) var að skipta yfir í hlutfallskosningu.  En það loforð gleymdist fljótt, því hann hefur haft hagsmuni af núverandi kerfi bæði í kosningunum 2019 og nú.

En eins og um margt annað eru verulega skiptar skoðanir um núverandi kerfi, eða hvernig sé best að breyta.

En væri hlutfallskosningar viðhafðar, væri Íhaldsflokkurinn stærsti flokkurinn, örlittlu stærri en Frjálslyndi flokkurinn.

En i stóru og víðfeðmu landi eru ekki einfalt að setja upp kerfi sem sættir öll sjónarmið.

P.S. Var rétt í þessu að heyra fréttalestur á Bylgjunni frá í morgun, þar sem fullyrt var að Frjálslyndi flokkurinn hefði fengið flest atkvæði.  Þannig skolast staðreyndir til.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Sinn er siðurinn í landi hverju, segir máltækið og fréttaskrifara Bylgjunnar kannski vorkunn þar sem hér á landi má segja að "fá flest atkvæði" sé bara annað orðalag yfir að vinna.

Í einmenningskjördæmakerfi má kannski segja að það sé merkingarlaust - að ég segi ekki falsfréttir - að horfa til hlutfallstalna á landsvísu, þær skipta ekki máli í því kerfi, strangt til tekið. Það er svo aftur önnur pæling hvort það kerfi sé betra eða verra. Að sumu leyti kannski betra, þá standa kjósendur sennilega nær "sínum" þingmanni, en hérna í hlutfallslandinu Íslandi verður ekki sagt að maður eigi sinn þingmann. Síst af öllu í víðfemum landsbyggðarkjördæmum. 

Varðandi úrslitin í Kanada má kannski segja að þau séu þó jákvæð fyrir Frjálslynd að því leyti að kjósendur virðast alls ekki ósáttir við hvernig þeir hafa tekist á við Covid.

Varðandi klofning og sundrungu, það er sosum ekkert nýtt, enda fátt sem kúrekarnir í Alberta eiga sameiginlegt með espressótýpunum í Quebec City og engar líkur á að sá munur fari eitthvað minnkandi.

Kristján G. Arngrímsson, 21.9.2021 kl. 20:18

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Það er er í sjálfu sér engin afsökun fyrir því að kynna sér ekki málin betur, heldur fullyrða að sigurvegarinn hafi hlotið flest atkvæði.

Ert þú þá þeirrar skoðunar að það hefi verið "merkingarlaust - að ég segi ekki falsfréttir" að horfa til þess að Hillary Clinton hafi hlotið fleiri atkvæði en Donald Trump 2016?

Því hlutfallstölur á landsvísu hafa ekkert að segja í Bandarískum forsetakosningum.  Ég get að flestu leiti tekið undir með þér, ef það er þín skoðun. 

En einhverjum "dálksentrimetrum" var þó vissulega eytt í slíka umsfjöllun.

Telur þú að það megi afgreiða atkvæðamisvægi á Íslandi með máltækinu "sinn er siður í landi hverju"?

Það er langt teygt sig í að telja að kjósendur í Kanada séu ánægðir með Frjálslynda flokkinn, enda fær hann ekki flest atkvæði.

Það er heldur ekki hægt að fullyrða um að þeir séu ánægðir með hvernig hafi tekist til með Covid, enda eykur Frjálslyndi flokkurinn ekki fylgi sitt.  Það má ef til vill segja að kjósendur hans séu sáttir með hvernig til hafi tekist, því þeir yfirgefa ekki flokkinn.

Aðrir kjósendur halda sig frá flokknum. (þó ekki megi fullyrða um að einhverjir "hafi komið", þá hafa í það minnsta jafn margir "farið".)

Ég held, og æði margir eru þeirra skoðunar, að klofningur og sundrung hafi aukist með þessum kosningum, enda þær alls ónauðsynlegar.  Kosningarnar kostuðu ca. 60 milljarða ISK, sem svo bætist við sívaxandi halla Kanadíska ríkisins.

Verðbólga í Kanada er heldur hærri en á Íslandi, húsnæðismarkaðurinn uppblásnari og raunar ekki hægt að segja að virkilega bjart sé framundan.

Ég spái því að það verði aðrar kosningar aftur áður en kjörtímabilið er liðið.

Klofningurinn og sundrungin hefur enn aukist frá því sem var og þessar ónauðsynlegu kosningar var eldsneyti á þann bálköst.

G. Tómas Gunnarsson, 22.9.2021 kl. 01:03

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það eru sýnist mér flestir fréttaskýrendur á því að Trudeau endist ekki út tímabilið. 

Þetta er athyglisverð pæling með einmenningskjördæmi og USA, ég er ekki frá því að það sé tilfellið að það hafi verið alveg merkingarlaust að tala um að Hillarí hafi fengið fleiri atkvæði en Trump "á landsvísu", því að "landsvísan" er ekki það sem ræður úrslitum. Auðvitað um að gera að greina frá því, en að eyða miklu púðri í það er sennilega að slást við vindmyllur. 

Þetta með atkvæðamisvægi á Íslandi - er jöfnuður alltaf góður? Er hann markmið í sjálfu sér? Getur ójöfnuður verið réttlætanlegur? Til dæmis ef hann er líklegur til að skila "sem mestum ávinningi fyrir sem flesta"? (Svo er önnur saga hvernig það er reiknað út).

Kristján G. Arngrímsson, 22.9.2021 kl. 17:16

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta.  Það er í sjálfu sér ekki til nein fullkomin aðferð til að greiða atkvæði eða velja forystu.  Liklega er þó einn maður eitt atkvæði það sem er hvað best til lengdar, út frá hreinu lýðræðisjónarmiði.

En það er hægt að halda því fram að þurfi að taka til fleiri sjónarmiða. Þar er hægt að finna rök bæði með og á móti.

Jafnrétti (allir eigi til dæmis rétt á heilbrigðisþjónustu), er ekki það sama og jöfnuður.

Þó að allir eigi rétt á heilbrigðisþjónustu þýðir það ekki jafn aðgangur.  Hjón geta t.d. þurft að gera langar leiðir til að komast á sjúkrahús. Jafnvel yfir fjöll í slæmum veðrum á meðan aðrir "skjótast innanbæjar".

En er besta leiðin til að bæta þeim það upp að þau fái sterkari atkvæðisrétt?  Um slíkt er erfitt að fullyrða og um það snýst jú deilan að stóru leiti.

En það er eðlilegt að það sé deilt um kosningafyrirkomulag og reglur.  Það þarf heldur ekki nema að kynna sér kosningafyrirkomulag og reglur um víða veröld til að sjá hversu misjafnar reglur gilda.

Margar þjóðir hafa reglur sem leynt og ljóst stefna að því að fækka flokkum sem ná þingsætum.  Það er vegna þess að margar þjóðir hafa "brennt" sig illa á flokkakraðaki.

En hvort það er réttlætanlegt er umdeilanlegt og verður líklega seint að eitt kerfi gildi um veröldina.

En það er að mínu mati nauðsynlegt að það sé ekki of auðvelt að breyta reglunum, þannig að valdhafar geti hrært um of í þeim.

G. Tómas Gunnarsson, 23.9.2021 kl. 16:28

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Tek heils hugar undir með því að hefta þurfi möguleika valdhafa á að hræra í reglunum. Til dæmis að breyta kjördæmaskiptingu eftir því sem hentar. Nú eða stjórnarskrá.

Kristján G. Arngrímsson, 23.9.2021 kl. 21:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband