Verðbólga og gjaldmiðlar - Er hærri verðbólga á Eurosvæðinu en Íslandi?

Það hefur oft mátt heyra að Íslenska krónan sé verðbólguvaldandi.  Því hefur líka oft verið haldið fram að verðbólga landa með sama gjaldmiðil verði svipuð eða jafnvel sú sama.

Hvorugt er rétt.

Smærri gjaldmiðlum er vissulega hættara við gengissveiflum en þeim stærri, ekki síst ef atvinnulífið byggir á fáum stoðum. Það getur valdið verðbólgu eða dregið úr henni, en verðbólga þekkist ekki síður á stærri myntsvæðum og er gjarna misjöfn innan þeirra.

Núna er verðbólga á uppleið í mörgum löndum, enda hefur "peningaprentun", eða "magnbundin íhlutun" eins og þykir fínt að kalla það, verið "mantra dagsins".

Þannig er verðbólga í Bandaríkjunum hærri en á Íslandi, verðbólgan í Kanada er svipuð þeirri Íslensku og í Eurosvæðinu eru bæði lönd með lægri verðbólgu og hærri en Ísland.

(Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að fyrirsögnin er að því marki röng, að meðaltals verðbólga á Eurosvæðinu er lægri en á Íslandi, en þar eru lönd með hærri verðbólgu en Ísland. En hærri verðbólga finnst á Eurosvæðinu.)

Hér miða ég við verðbólgutölur frá "Hagstofu Evrópusambandsins", enda fer best á að nota tölur þar sem sami grundvöllur er notaður.

Þar er verðbólga á Íslandi hvoru tveggja í júlí og ágúst 3.7%.  Í Eistlandi er hún hins vegar 4.9 og 5% í sömu mánuðum.

Euroið virðist ekki halda verðbólgu þar niðri.

Verðbólgan í Grikklandi er hinsvegar aðeins 0,7 og 1,2% í þessum mánuðum, enda ríkti þar verðhjöðnun framan af ári.

Í Belgíu jókst verðbólga skarpt í ágúst og er nú 4.7%, 5% í Litháen, 3.4% í Þýskalandi. Meðaltals verðbólga á Eurosvæðinu er hins vegar 3%, en Írland er eina landið sem sú tala gildir um.

Það hlýtur því að vera ljóst að það er ekki gjaldmiðillinn sem skapar verðbólgu né verður hún sú sama á myntsvæði.

En stýrivextir í öllum löndum á Eurosvæðinu eru þeir sömu, það þýðir ekki að vextir á húsnæðislánum eða öðrum lánum séu eins á milli landa.  Stýrivextir eru langt frá því eina breytan þegar slíkir vextir eru ákveðnir.

Það er vert að hafa þetta í huga þegar hlustað er á Íslenska stjórnmálamenn í kosningahug.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Allt saman hárrétt.

Við þetta má bæta að rétt eins og verðbólga er hærri en á Íslandi í sumum evruríkjum en lægri í öðrum, gildir það sama um húsnæðislánin. Vextir þeirra eru lægri í sumum evrulöndum en hærri í öðrum.

Gjaldmiðillinn sjálfur getur sem slíkur ekki verið orsakavaldur að neinu, hvorki verðbólgu né öðru, heldur eru eiginleikar hans afleiðing af ákvörðunum sem eru teknar um útgáfu hans, ríkisfjármál og önnur atriði sem tengjast hagstjórn. Verði gjaldmiðillinn fyrir einhverjum skelli er það ekki út af gjaldmiðlinum heldur slæmum ákvörðunum.

Vesta hagstjórnarákvörðunin sem hefur verið tekin hér á landi og sú sem hefur haft neikvæðastar afleiðingar fyrir krónuna, var innleiðing verðtryggingar á næstum öll lán almennings á sínum tíma.

Svo mikil útbreiðsla verðtryggingar hefur:

    • Aukið hættuna á fjármálalegum óstöðugleika

    • Þvælst fyrir peningastefnu seðlabankans

    • Valdið hærra og óstöðugra vaxtastigi en ella

    • Valdið óstöðugra gengi krónunnar en ella

    • Valdið sjálfvirkri peningaprentun í bönkunum

    • Leitt til meiri og óstöðugri verðbólgu en ella

    Verðtrygging er ekki afleiðing krónunnar eins og evrusinnar halda fram með falsrökum, heldur er krónan fórnarlamb verðtryggingarinnar.

    Þó Ísland myndi ganga í ESB og myntbandalagið, yrði landið alltaf jaðarríki í því sambandi. Ekkert jaðarríki evrusvæðisins hefur sjálfkrafa breyst í kjarnaríki á borð við Þýskaland eftir inngöngu. Þetta blasir reyndar við ef maður skoðar einfaldlega landakort.

    Það er svo sannarlega vert að hafa þetta í huga þegar hlustað er á íslenska stjórnmálmenn í kosningahug.

    Guðmundur Ásgeirsson, 17.9.2021 kl. 19:41

    2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

    Ætli það séu ekki þeir sem klúðra hagstjórninni mest, sem kenna krónunni um mistök sín. 

    Jón Steinar Ragnarsson, 19.9.2021 kl. 15:04

    Bæta við athugasemd

    Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

    Innskráning

    Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

    Hafðu samband