Eiga íslenskir stjórnmálamenn kröfu á Facebook?

Hér og þar á netinu hef ég rekist á umfjöllun um að Össur Skarphéðinsson hefi verið "sviptur" aðgangi sínum að Facebook.

Tala margir eins og að um sé að ræða hina mestu lýðræðisvá og ógni bæði frjálsum skoðanaskiptum og tjáningarfrelsi.

Sumir, þar á meðal Össur, tala um að skoða verði að setja lög á starfsemi slíkra fyrirtækja.

Það væri í senn fróðlegt,  skondið og sorglegt ef Alþingi íslendinga myndi setja lög sem skylduðu samfélagsmiðla til að halda halda öllum "reikningum" opnum, nema að undangengnum dómsúrskurði á Íslandi.

Eða ættu slik forréttindi eingöngu að vera fyrir þá sem gætu fært sönnur á að þeir væru stjórnmálamenn?

Og hvað með þá miðla sem "starfa" í raun ekki á Íslandi?  Ætti þá einfaldlega að banna íslendingunum að nota þá, ef þeir virtu ekki íslensk lög?

Eins og ég lít á málið eiga íslendingar, eða aðrir, hvort sem þeir eru stjórnmálamenn eða gegna öðrum störfum, enga kröfu á hendur fyrirtækjum sambærilegum Facebook, um að aðgangur þeirra sé jafn, stöðugur og óslitinn.

Ekki frekar en þeir eiga heimtingu á því að vefsvæði eins og mbl.is, visir.is, nú eða blog.is, birti allt sem þeim dettur í hug að setja fram.

Það er reyndar ekki síst vegna kröfugerða um ábyrgð og að ekki eigi að birta "vafasamt" efni, s.s. eitthvað sem felur í sér jafn teigjanleg hugtök og mannfyrirlitningu, klám, hatur o.s.frv. að sakleysingjar eins og Össur verða fyrir lokunum.

Því miðlar sem eðli málsins samkvæmt lúta ekki stöðugri ritskoðun, eru sífellt hræddir um að "uppþot" verði vegna efnis sem einhver hefur póstað á síðu sína og uppfyllir ekki "standard dagsins" um pólítíska rétthugsun.

Þannig er erfitt fyrir tölvuforrit að greina á milli berbrjósta "pin-up stúlku" og "samfélagslegrar byltingarkonu" sem birtir mynd af geirvörtum sínum.

Það er því affarasælast að banna hvoru tveggja, enda eiga bæði athæfin sér andstæðinga, þó líklega sé um ólíka hópa að ræða.

Þess vegna eru miðlar líkt og Facebook einnig með sjálfvirka lokun, ef ákveðinn fjöldi kvartana berst, og er líklegt að Össur hafi orðið fyrir barðinu á á slíku.

Það þýðir einfaldlega að hópur einstaklinga getur gert Facebook notendum lífið leitt með því að sammmælast um að kvarta, jafnvel þó að það sé að tilefnislausu.

Þeir sem fara fram á leiðréttingu sinna mála, eins og Össur gerði, fara síðan líklegast í nánari skoðun, og fá aðgang sinn opnaðan, eins og mér skilst að hafi verið raunin með Össur.

Allt eftir (Face)bókinni.

En að sjálfsögðu fagna allir stjórnmálamenn fjölmiðlaumfjöllun og fyrir marga þeirra er það plús að geta mátað sig í hlutverki fórnarlambs, þó ekki nema stutta stund.

Í þessu samhengi má minnast á það að margir íslenskir fjölmiðlar hafa valið þá leið að einungis þeir sem eru skráðir á Facebook geta gert athugasemdir við fréttir og greinar.

Þannig er ég og aðrir þeir sem ekki eru skráðir á Facebook útilokaðir frá "umræðunni".

Ætti ég að líta svo á að þetta sé tilraun til þöggunnar? Beinist þetta gegn mér persónulega?

Ætti ég að reyna að hafa áhrif á alþingismenn um að þeir setji lög sem skylda íslenska fjölmiðla til að heimila þeim sem ekki hafa Facebook aðgang að gera athugsemdir?

Auðvitað ekki.

Það að vera ekki með Facebook síðu er mitt val. Rétt eins og þeir sem slíkt hafa, hafa slíkt kosið.

Fjölmiðlaeigendur hafa svo líklega kosið þá lausn, til að reyna að hafa einhverja stjórn á "kommentakerfinu", sem fyrir þá hefur verið einföldust og ódýrust.

Það útilokar vissulega einhverja einstaklinga frá því að tjá sig, en það er ekki tilraun til þöggunar, það er ekki aðför að lýðræðinu.

Það er vel þess virði að velta því fyrir sér hverju við teljum okkur eiga "rétt á", eða "kröfu til".

Slík mál er þarft að ræða, hvort sem sú umræða fer fram á Facebook, í "kommentakerfum", eða annars staðar.

Til dæmis í kaffistofum eða heitum pottum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hóp-reporteruðu sjallar virkilega Össur?

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.12.2015 kl. 14:26

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ómar Þakka þér fyrir þetta. Í raun held ég að enginn viti hverjir hafa "atast" í Össuri. Einn kunningi minn vildi meina að hann hefði verið að "gera sig breiðan" á vefsvæði Pírata skömmu áður, og það hefði getað haft áhrif.

En um slíkt er vandi að spá eins og margt fyrir jólin.

En þetta er auðvitað langt í frá eina dæmi um viðlíka atburð og Össur ætti að vita að betur en að reyna að máta sig í fórnarlambsfötin. Þau eru alltof lítil fyrir hann.

Hann virkar eins og úlfur í fórnarlambsgæru.

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2015 kl. 15:08

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Þetta sýnir líka að internetið er ekki hlutlaust, heldur lýtur það mannlegu gildismati, sbr. þennan ágæta fyrirlestur:

http://www.ted.com/talks/andreas_ekstrom_the_moral_bias_behind_your_search_results

Kristján G. Arngrímsson, 13.12.2015 kl. 15:40

4 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Fínn fyrirlestur. Ég hugsa að ég geti tekið undir allt sem þar kom fram. Hef lengi haldið því fram að fullkomið hlutleysi sé ekki til og það er svo ótalmargt sem veldur því.

Minnir mig á aðra "deilu" sem við áttum fyrir einhverjum árum og ég var að tala um að blaða og fjölmiðlamenn gætu aldrei verið fullkomlega hlutlausir.

Þú tókst nú ekki undir það og ásakaðir mig um að rægja heila stétt.

Ég er ennþá sama sinnis, ert þú það?

G. Tómas Gunnarsson, 13.12.2015 kl. 18:58

5 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ég hef soldið sveiflast fram og til baka hvað varðar mögulegt hlutleysi blaðamanna. Strangt til tekið geta þeir verið alveg hlutlausir ef þeir halda sig við staðreyndir og ef umfjöllunarefni býður uppá að maður haldi sig bara við staðreyndir. Hitt er svo aftur annað mál hvort blaðamenn kunni nógu vel að halda sig við staðreyndir og þar með að gæta hlutleysis.

En þetta er alls ekki einfalt mál. Eignilega mjög flókið. Bæði er þetta flókið í framkvæmd fyrir blaðamenn, og svo er stundum spurning hvað er staðreynd og hvenær hún ræðst af gildismati. Jafnvel má ganga svo langt að segja að merking staðreyndarhugtaksins ráðist af heimsmyndinni og hún er vissulega háð gildismati.

Eins og þú sérð er þetta ekki einfalt mál. Kjarni þess er þó það, hvaða skilning maður leggur í "staðreynd" því að hlutleysi blaðamanna er einfaldlega fólgið í því að halda sig við staðreyndir. Ef þeir gera það þá geta þeir verið hlutlausir þannig að í prinsippinu er ég líklega enn þeirrar skoðunar að blaðamenn geti það - ef þeir kunna það.

Kristján G. Arngrímsson, 14.12.2015 kl. 08:14

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta.  Ég er nú eiginlega nokkuð sammála þér, gat samt ekki stillt mig um að skjóta á þig.

En ég er meira þeirrar skoðuna að hlutleysi sé nokkuð sem fjölmiðlafólk geti aldrei náð, en hafi ekki leyfi til að gefast upp við að reyna.

Ég vona að þú skiljir hvert ég er að fara.

Staðreyndir eru eins og þú nefnir oft nokkuð erfitt að festa hendur á.

Og frásagnir sjónarvotta geta verið svo mismunandi af sama atburðinum að furðu sætir.

Og það eru ekki margar fréttir sem bjóða upp á að eingöngu komi fram í þeim óvéfengjanlegar, óhagganlegar, óumdeildar staðreyndir.

G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2015 kl. 09:32

7 identicon

Og jafnvel þó blaðamanni takist að halda sig við staðreyndir eingöngu, þarf hann að velja hvaða staðreyndir hann vill segja frá; hvaða staðreyndir koma tilteknu máli við og líka hvaða staðreyndir eru efni í frétt og hverjar ekki.

ls (IP-tala skráð) 14.12.2015 kl. 10:45

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@ls Þakka þér fyrir þetta. Mikið til í þessu. Ef við tökum dæmi af kosningum, þá væri eingöngu greint frá atkvæðafjölda, prósentuhlutfalli og fjölda kjörinna einstaklinga eftir flokkum.

Um leið og farið er að ræða sigurvegara og þar fram eftir götunum blandast gildismat inn í málin, svo ekki sé talað um þegar reynt er að tala um "vilja kjósenda".

En lífs- og gildimat blandast svo gott sem alltaf inn í, hvort sem við gerum okkur grein fyrir því eða ekki.

G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2015 kl. 11:03

9 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er ekki blaðamanns að fullyrða um "sigurvegara" kosninga, því að slíkt er alltaf flókið og matskennt. Aftur á móti getur blaðamaður greint frá fullyrðingum einhverra annarra um hver sé sigurvegarinn. En þá þurfa blaðamenn (oftast fréttastjórar) að ákvarða hver eigi að fá að tjá skoðun sína. Þannig að þetta er flókið. En það er nú samt nokkur misskilningur að blaðamenn geti aldrei verið hlutlausir. Oftast stafar sá misskilningur á vanþekkingu á eðli fréttamennsku - og vissulega oft vegna þess að fréttamennska er ekki alltaf fagleg.

En mér finnst mjög oft - endurtek, MJÖG oft - að fullyrðingar um óvandaða fréttamennsku séu yfirborðskenndar og beri vott um vanþekkingu á eðli fréttamennsku.

Kristján G. Arngrímsson, 14.12.2015 kl. 19:15

10 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Þakka þér fyrir þetta. Það er eigi að síður staðreynd að ótrúlega oft fer fjölmiðlafólk í "þann gír" að tala um sigurvegara og þar fram eftir götunum. Síðan er "valið" hvort að árangurinn er borinn saman við skoðanakannanir, síðustu kosningar eða jafnvel "sögulegan" árangur.

En ef til dæmis eingöngu er gefin upp hrein "statistic", má vissulega halda því fram að fréttamaður geti verið "hlutlaus".

Þannig eru þeir sem lesa upp tölur um úrslit kosninga hlutlausir, en um leið og farið er að "melta" tölurnar í t.d. kosningasjónvarpi er hætt við að 100% hlutleysi glatist.

En það er svo önnur saga að æ oftar er fréttamennska miður fagleg að mínu mati, bloggaði um slíkt dæmi í dag, annað skipti á örfáum dögum sem ég geri það.

http://49beaverbrook.blog.is/blog/49beaverbrook/entry/2161917/

G. Tómas Gunnarsson, 14.12.2015 kl. 19:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband