Hvaða skilaboð eru franskir kjósendur að senda?

Það hefur verið mikið fjallað um úrslit fyrri umferðar frönsku héraðskosninganna, sem fram fóru um síðustu helgi.

Þjóðfylkingin (Front National) vann góðan sigur, er stærsti flokkur Frakklands og hristi upp í frönsku stjórnmálalífi sem aldrei fyrr. Þó hefur flokkurinn orsakað margan skjálftan áður.

En það er ekki þar með sagt að flokkurinn muni komast til valda í seinni umferðinni sem fer fram á morgun (sunnudag).

Skoðanakannanir hafa sýnt þær frænkur  Marine og Marion Le Pen eru undir í kjördæmum sínum. Munurinn er 6 til 7 %stig.

Sú ákvörðun Sósíalistaflokksins að draga frambjóðendur sína til baka ræður mestu um þá stöðu.

En það mun líka skipta máli hver kosningaþátttakan verður. Í fyrri umferðinni skreið hún rétt aðeins yfir 50% á landsvísu.

En það er erfitt að spá fyrir um hver úrslitin verða. Líklegast þykir mér að Þjóðfylkingin nái sigri í 1. eða 2. héruðum, en það gæti hæglega farið svo að flokkurinn næði engu héraði.

En jafnvel 1. hérað yrði stór sigur fyrir flokkinn.

En hvaða skilaboð eru franskir kjósendur að senda með góðu gengi Þjóðfylkingarinnar?

Það er ljóst að vaxandi þreytu gætir með hina "hefðbundnu valdaflokka", og þarf engum að koma á óvart. Staða Frakklands er langt í frá góð.

Skuldir hins opinbera fara sífellt vaxandi, fjárlög hafa ekki verið hallalaus síðan snemma á áttunda áratug síðustu aldar, eða í ríflega 40 ár, atvinnuleysi eykst jafnt og þétt og vaxandi óöld ríkir í landinu.

Æ stærri hluti kjósenda hafa enga trú á því að hinir hefðbundnu flokkar hafi lausnina, enda hafa þeir haft ótal tækifæri til þess að koma hlutunum í lag.

Þeir eru tilbúnir til að reyna næstum hvað sem er, frekar en stöðuna sem ríkir í dag.

Það má ef til vill segja að "dílemman" í frönskum stjórnmálum í dag sé að Þjóðfylkingin sé ekki það sem Frakkland þarfnast, en Sósíalsistaflokkurinn eða Lýðveldisflokkurinn (Les Republicains) hefur mistekist hrapalega við stjórnvölinn og um leið misst tiltrú stórs hluta kjósenda.

Æ fleiri franskir kjósendur líta á þá sem tvær hliðar á sama peningi og finnst tímabært að hleypa öðrum að.

En svo að við nefnum til sögunnar aðeins fleiri tölur, má nefna að í Calais fékk Þjóðfylkingin 49% atkvæða í fyrri umferðinni. Það ættu enda flestir að kannas við Calais úr fréttum.

Þær hafa reyndar ekki verið ýkja skemmtilegar þaðan undanfarna mánuði, en mikil vandræði og barátta hefur verið við þúsundir ólöglegra innflytjenda sem vilja komast yfir til Bretlands.

Calais hefur lengi verið talið öruggt vígi vinstri manna í Frakklandi.

En kannanir hafa líka sínt að stuðningur Þjóðfylkingarinnar á meðal verkamanna er í kringum 55%.

Það er því ekki að undra að margir telji útlitið langt í frá bjart fyrir Sósílistaflokkinn og telja næsta víst að frambjóðandi hans detti út í fyrri umferð í forsetakosningunum 2017.

En margir vilja meina að héraðskosningarnar nú, séu sterk vísbending um við hverju megi búast þá.

En þó að erfitt sé að spá um úrslit, virðist flest benda til þess að ofan á allt annað megi frakkar búast við ólgu og jafnvel upplausn í stjórnmálum landsins.

 


mbl.is Útiloki Þjóðfylkinguna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband