Hvað er gerlegt í Grikklandi?

Grikkland er enn og aftur í miðju umræðunnar. Eurokreppan og misvitrir stjórnmálamenn hafa leikið landið það grátt að engir góðir leikir eru í stöðunni.

Því sem næst allir eru sammála um að Grikkland standi ekki undir skuldum sínum.

Því sem næst allir frammámenn í "Sambandinu" eru sammála um að ekki sé hægt að gefa Grikkjum eftir skuldir sínar, og varpa þeim með því á skattborgara annara "Sambandsríkja".

Vandamálið má að stórum hluta rekja til "björgunaraðgerða" "Sambandsins", Seðlabanka Eurosvæðisins og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þegar Grikkland stóð á "brún hyldýpisins", sáu þessar stofnanir engin önnur ráð en að veita því frekari lán. Annað hefði verið "fatalt" fyrir Eurosvæðið. Það að Grikkland ætti enga möguleika á því að standa undir þeim lánum, eins og margbent var á af hálfu ýmissa fulltrúa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, skipti engu máli.

Þeir skyldu fá lán.

Þau lán voru svo notuð til að greiða upp skuldir við einkaaðila, en lánin komu frá skattborgurum. "Ríkisvædd" skuldasöfnun, ef svo má að orði komast.

Þetta bjargaði mörgum bönkum frá gríðarlegu tapi, en setti skattgreiðendur í þá stöðu. Bankarnir voru margir staðsettir í Þýskalandi og Frakklandi.  Þeir eru að mestu sloppnir fyrir horn.  Þó er rétt að hafa í huga að einkaaðilar þurftu að sætta sig við "klippingu".

En ef að Grikkir geta ekki borgað og ekki er hægt að afskrifa lán þeirra á kostnað skattgreiðenda, hvað er þá hægt að gera?

Jú, það er hægt að lengja lánum og það er hægt að lækka vexti, eða lengja vaxtalaus tímabil.  Allt hjálpar, en lægri vextir og vaxtalaus tímabil eru þó lítið hjálpleg, í samfélagi sem horfist í augu við verðhjöðnun.

Ef verðbólga fer ekki af stað, og einhver vöxtur í Grikklandi, er einfaldlega verið að lengja í þjáningum Grikkja.

Þó er þetta lang líklegasta niðurstaðan. Það er gjarna auðveldast að ná samstöðu um að fresta vandanum.

Pólítískt hefur Eurosvæðið ekki efni á því að gefa eftir skuldir Grikkja og afhenda Syriza sigur.

Peningalega hafa Grikkir enginn tök á því að borga.

Að hverfa af Eurosvæðinu er undir þessum kringumstæðum hrikalega erfitt, sérstaklega til skemmri tíma litið.  Bankaáhlaup og öngþveiti er líklega eitt af því mildara sem myndi gerast.

Enn og aftur er rétt að hugleiða að það reyndist Grikkjum ekki erfitt að koma sér í þessa stöðu, en enginn veit um góða og hagfellda leið úr henni.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Og "það var sagt mér" að með því að ganga í ESB yrði Íslandi borgið í efnahagslegu tilliti. (jafn vel öllu tilliti).  Stöðugur gjaldmiðill, regluverk sem kæmi í veg fyrir óráðsíu, ódýr matur og ég veit ekki hvað og hvað.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 08:32

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Bjarni Gunnlaugur  Já, "Sambandið" styrkir stjórnkerfið og ónæmiskerfið og .....

En þessir áratugir sem Grikkland hefur verið í "Sambandinu" virðast skila sér í þessu. 

En Grikkir eiga enga góða kosti.

G. Tómas Gunnarsson, 28.1.2015 kl. 09:06

3 identicon

G.Tómas, nýlega svaraði ég þér og hélt því fram að þó að skuldir íslenska ríkisins væru þær fjórðu mestu á EES-svæðinu væri greiðslubyrðin næstmest vegna hárra vaxta.

Aðeins Grikkir hefðu þyngri greiðslubyrði. Ástæðan væri að Íslendingar þyrftu að greiða miklu hærri vexti en Ítalir og Portúgalar sem eru í 2. og 3. sæti yfir skuldir.

Andri Geir Arinbjarnarson hefur nú í bloggi sínu upplýst að Grikkir greiða miklu lægri vaxtagjöld en Íslendingar af mun hærri skuld vegna þeirra kjara sem þeim bjóðast sem ESB-þjóð.

Ef Grikkir geta ekki greitt skuldir sínar getum við þá greitt okkar úr því að greiðslubyrði okkar er væntanlega þyngri?

Grikkir hafa nú náð svipaðri landsframleiðslu og 2005 meðan við eigum enn mjög langt í land eins og ég sýndi fram á með hlekk nýlega. Getur verið að staða okkar sé að mörgu leyti enn verri en Grikkja?

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 10:07

4 identicon

Staða Grikkja er að mínu mati meðmæli með ESB.

Hún sýnir að ekki er hægt að leysa eigin óráðsíu og spillingu með því að varpa henni yfir á aðrar ESB-þjóðir.

Ef Grikkir kjósa að fara argentínsku leiðina losna þeir aldrei úr snörunni.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 10:16

5 identicon

Einhvernveginn minna þessi skrif Ásmundar á söguna af Job. 

Guð átti jú að vernda þann Guðhrædda en þegar það gerðist ekki þá var farið út í langlokur!   "Staða Grikkja er að mínu mati meðmæli með ESB"  Kannski er Guð bara að reyna á trú ESB sinna með því að stúta Grikklandi? ;-)  

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 10:23

6 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það er skrítið, að ef ESB er svona voðalegt. - að grikkir vilji þá alls ekki, alls ekki, fara úr Sambandinu eða missa Evruna.  Þeir vilja það alls ekki.

Vitiði hvert meginuppleggið er eða strategían hjá þeim þessu viðvíkjandi?

Nei þið vitið það ekki.

Eg skal upplýsa:  Þeir ætla að hafa áhrif á stefnu ESB - með Aðildinni!

Strategían meikar alveg sens hjá þeim.  Og er mun skynsamlegri en bullumþrugl sjalla, framsóknarmanna, forseta og almennra þjóðrembinga hér uppi í fásinni.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.1.2015 kl. 10:40

7 Smámynd: Benedikt Helgason

Það segir sig sjálft Ómar að á meðan meira en helmingur Grikkja heldur atvinnu og fær greitt í Evrum þá vill meirihluti landsmanna ekki taka upp eigin mynt með tilheyrandi gengisfalli.  En það er ekki þar með sagt að það sé þjóðhagslega skynsamlegasta lausnin fyrir þá að vera áfram í sambandinu og halda myntinni.

En þegar það er sagt þá veit ég það svo sem ekki hvernig á að leysa vanda Grikkja. Ég vona til að byrja með alla vega að ESB sjái að sér í náinni framtíð og afskrifi hluta af þessum skuldahjalla.

Benedikt Helgason, 28.1.2015 kl. 11:47

8 identicon

"Þeir ætla að hafa áhrif á stefnu ESB - með aðildinni!"

Þetta hefurðu nú komist næst því sem ég hef séð til að vera fyndinn Ómar!

Svona svo lítið eins og þessi hér: https://www.youtube.com/watch?v=4zuUjGtXQMo

En í nafni málefnalegrar umræðu þá væri fróðlegt að sjá tengla sem sýna fram á að Grikkir séu að rétta sig betur af en Íslendingar.

Ég er meira að segja alveg tilbúinn að taka tillit til að hér er dulbúin kreppa í formi fasteignabólu.  Sú bóla er líklega síðbúin afleiðing Hrunsins þar sem bólufé fyrirhrunsáranna er líklega að leka inn í hagkerfið. 

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 11:48

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Ja, fyndið og fyndið, - þetta er það sem forsvarsmenn Syriza segja.

Það gengur og eftir sem eg ætlaði, - að Tsipras er í 4. bakkgír frá sínum stærstu fullyrðingum og gífuryrðum.

Hann er á hraðleið til ósköp hefðbundins pólitíkus í stjórnarháttum - eftir aðeins 2 daga!

Sko, sjáiði til, eg hef alveg fylgst öðru hvoru með þessai umræði í Grikklandi frá um 2010.

Það kemur mér ekkert á óvart þo nú séu öll stóru orðin gleymd hjá Tsipras.

Maðurinn er popúlisti!  Halló.  Eg er margbúinn að segja fólki það.

Að mínu mati snýst fylgi Syriza að miklu leiti um Tsipras.  Hann er þessi leiðtogakarakter og grikkir eru að horfa til leiðtoga.

Nú er bara spurningin hvernig grikkir bregðast við þegar í ljós kemur að fyllyrðingar Tsiprisar og Syriza um að bara ekkert mál væri að redda málum með einföldu töfratrikki voru bara popúlískt blaður.

Eg held að fylgið eigi eftir að falla eins og steinn.  Held það. 

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.1.2015 kl. 11:55

10 identicon

Bjarni Gunnlaugur, hér er hlekkur sem sýnir að landsframleiðsla Grikkja er um það bil eins og 2005 meðan okkar landsframleiðsla þarf að hækka um ca 20% til að ná því sem hún var 2005.

http://data.worldbank.org/indicator/NY.GDP.PCAP.CD/countries/1W-IS-GR?display=graph

Hagvöxtur er aukning hagvaxtar. Við erum sem sagt með stórleg neikvæðan hagvöxt frá 2005 þó að ráðamenn séu sífellt að hrósa sér af miklum hagvexti á Íslandi.

Hagvöxtur á Íslandi frá 2005 er sá langminnsti á EES-svæðinu. Hvergi annars staðar er hann neikvæður svo að neinu nemi.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 13:42

11 identicon

Vaxtagjöld gríska ríkisins eru 2,6% af landsframleiðslu meðan íslenska ríkið greiðir vexti sem eru 4.5% af landsframleiðslu. Það er því ljóst að Grikkir þurfa ekki lánalækkun á kostnað skattgreiðenda annarra ESB-landa.

http://blog.pressan.is/andrigeir/

Grikkir þurfa ekki annað en að ganga hart gegn skattsvikum og annarri spillingu til að rétta úr kútnum. Þeir höfnuðu hins vegar lista um grískar eignir í erlendum skattaskjólum sem aðrar þjóði hafa nýtt sér með mjög góðum árangri.

Með lánalækkun væru skattgreiðendur annarra ESB-landa að greiða fyrir skattsvikin og aðra spillingu í Grikklandi. Það má aldrei verða.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 14:46

12 Smámynd: Benedikt Helgason

Æ, æ, æ, Ásmundur.

Annars vegar þá frábiður þú þér lánalækkun hjá Grikkum vegna þess að það kosti skattgreiðendur í Evrópu peninga en hins vegar þá ert þú að dást að lágum vöxtum á ríkisskuldum Grikkja sem eru niðurgreiddir af íbúum álfunnar vegna aðgerða ECB til þess að halda vöxtum á ríkisskuldabréfum Evru ríkja í vandræðum niðri.

Vandamálið við að vera alltaf í áróðri Ásmundur, eins og er tilfellið með ESB trúnna þína, er sá að maður lendir alltaf fyrir rest í mótsögn við sjálfan sig. Að vera í ESB og vera með Evru hefur bæði kosti og galla og það myndi sennilega ekki skaða trúverðugleika þinn í umræðunni ef þú leyfðir sjálfum þér að slaka aðeins á inn á milli og viðurkenna þá staðreynd.  

Benedikt Helgason, 28.1.2015 kl. 15:43

13 Smámynd: Hólmgeir Guðmundsson

Já, Ásmundartrúin á ESB getur komið óinnvígðum sérkennilega fyrir sjónir.

Ásmundur: Þetta hefur marg-sýnt sig, íslendingar geta ekki stjórnað sér sjálfir. Við erum svo miklir aumingjar og asnar. Við verðum að ganga í ESB, þá lagast allt. Þetta er bara staðreynd.

Ekki-mundur: Já, er það? Nú virðist það ekki hafa gefist grikkjum neitt sérlega vel.

Ásmundur: Já en grikkir, þeir eru svo miklir aumingjar. Og asnar. Það þýðir ekkert að bera okkur saman við þá. Þetta yrði auðvitað allt öðruvísi hjá okkur.

Hólmgeir Guðmundsson, 28.1.2015 kl. 16:34

14 identicon

Þú lest þessa heimild eins og skrattinn biblíuna Ásmundur.http://data.worldbank.org/indicator/NY.GDP.PCAP.CD/countries/1W-IS-GR?display=graph

Hrunið á Íslandi var margfalt meira en hrunið á Grikklandi. Ástæðan var inn/út fjárfestingarhagkerfið hér, sem hrundi. Undirliggjandi var hið raunverulega íslenska hagkerfi sem fór sem betur fer ekki nærri eins illa og er að frameiða mun meira en hið gríska per haus. 

  Eðlilegt er að skoða hvað hefur gerst hér eftir 2009 þ.e. eftir Hrun og þá sést að framleiðsla hagkerfisins hefur aukist um 20%.  Óhætt að segja að við séum að rétta úr kútnum. 

Þá þegar (2009)eru Grikkir á niðurleið úr sínum toppi ári fyrr en eru með landsframleiðslu upp á 75% af þeirri íslensku per haus. Síðan liggur leiðin niður og niður og niður og Grikkir eru komnir niður í 46% af þjóðarframleiðslu Íslendinga árið 2013.

Hvernig þú Ásmundur lest úr þessu línuriti að Grikkjum sé að farnast betur en Íslendingum er einhverskonar afrek út af fyrir sig.

Þrátt fyrir að Grikkir njóti niðurgreiddra vaxta þá er staðan samt svona slæm hjá þeim.

Það má vel vera að Grikkir gætu staðið sig betur ef spillingin væri ekki svona grasserandi hjá þeim en voru það ekki einmitt ein af röksemdum fyrir inngöngu Íslendinga í ESB að þar væri svo gott regluverk?  Að pólitíkusarnir kæmust ekki upp með neitt múður?

Það er ekki að sjá!

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 16:51

15 identicon

Bjarni, ef þú kannt ekki að lesa línurit þá verður að hafa það. En trúðu mér línuritið sýnir að landsframleiðslan i Grikklandi er svipuð og 2005 en er miklu minni á Íslandi en þá.

Landsframleiðsla er sennilega mikilvægasti mælikvarðinn á velferð. Hún er reyndar enn mun meiri hér en í Grikklandi en munurinn hefur stórminnkað. Grikkir hafa sótt á okkur.

Það lýsir mikilli örvæntingu (eða heimsku) að líta á erfiðleika Grikkja sem vísbendingu um það sem bíður okkar í ESB. Telja menn að við séum þeir aular að okkur muni ekki vegna betur í ESB en þeirri þjóð sem langverst hefur vegnað þar?

Það er svo annað mál að okkur virðist varla hafa vegnað neitt betur en Grikkjum með okkar ónýtu krónu í höftum. Við erum bara ein á báti án bandamanna. Parísarklúbburinn virðist því okkar eina athvarf ef illa fer.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 17:30

16 identicon

Hólmgeir, þú virðist halda að ESB sé Grikkland eða að ástandið þar sé dæmigert fyrir ástandið í ESB.

Kynntu þér ástandið í öðrum ESB-löndum eins og td á Norður- og Vesturevrópulöndunum. Þá sérðu að það er svo miklu betra en hjá okkur.

Er ástæðan fyrir því að þú vilt miða við Grikki að þú telur að spillingin sé svo mikil hér að það hljóti að fara eins fyrir okkur og Grikkjum ef við göngum í ESB?

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 17:40

17 identicon

Benedikt, ég frábið mér ekki neitt og dáist ekki að lágum vöxtum Grikkja. Ég er aðeins að skýra stöðuna eins og hún er og bera hana saman við stöðuna á Íslandi.

Varla ertu að gefa í skyn að úr því að Grikkir fengu svona hagstæð vaxtakjör að þá eigi skattgreiðendur í öðrum ESB-löndum að fjármagna lánalækkun þeim til handa.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.1.2015 kl. 19:20

18 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Takk allir saman, er búinn að vera á þvælingi langt frá tölvu, en það er gaman að lesa svona tillegg.

Það vilja margrar þjóðir hafa "sterkan" gjaldmiðil, en það eru ekki allar tilbúnar til þess að vinna fyrir honum, ef svo má að orði komast. Það á við Grikki (og fleiri þjóðir).

Það er í sjálfu sér vandamálið.  Ef allir haga sér eins og Þjóðverjar, væri vandamálið ekki til staðar.

Auðvitað hefur "Sambandið" að miklu leyti verið með Grikki "í fanginu".  Þeir hafa vaxtalaus tímabil o.s.frv.  Það breytir því ekki að þeir hafa ekki ráðið við að greiða lánin sín og ekki er útlit fyrir það.  Það eina sem hefði getað hjálpað þeim til þess er hressileg verðbólga, en slíku er ekki að heilsa, heldur er verðhjöðnun, enda hækka skuldirnar stöðugt miðað við þjóðarframleiðsluna.

Samdráttur í þjóðaframleiðslu er enda í kringum 25% og það hjálpar lítið að færa það yfir í US$, til að það líti aðeins betur út.  Það sýnir í raun hvað "absúrd" dæmið er að Grikkland er í rúst en gjaldmiðill þess hækkaði lengi vel gagnvart dollar. 

Reyndar nær línuritið hans Ásmundar ekki nema til 2013, þannig að líklega hefur einnig syrt í álinn í dollar línuritinu nú.

En það hjálpar lítið þó að borgað sé hærra verð í dollurum, t.d. þegar Grikkir klippa á hvor öðrum hárið. Eða sitja á ríkiskontorum og gera lítið sem ekkert og fá borgað með lánsfé.

Hins vegar er það vissulega til hjálpar Grikkjum að vextir eru lágir, en lágir vextir eru gjarna fylgifiskur sjúks hagkerfis.

Það var fullyrt á fundi hjá IMF þegar aðstoðin við Grikkja var ákveðin, að engin leið væri fyrir Grikki að standa undir lánabyrðinni.  Það sést skýrt í fundargerðunum sem var lekið.  En þeir fengu samt lán, en eins og fullyrt var, geta þeir ekki staðið undir þeim.  Þurfti ekki að koma neinum á óvart.

Það sjá enda fleiri og fleiri hvað Eurosvæðið stendur tæpt: http://www.visir.is/gauti---utlitid-hefur-versnad-a-evrusvaedinu-/article/2015150129320

Hins vegar er engin ástæða til þess að líta fram hjá því að ástandið á Íslandi er ekki gott, en hefur þó stefnt í rétta átt.  En skuldirnar eru of háar.

En sem hlutfall af GDP hefur það þó farið örlítið lækkandi ef ég man rétt, en það þekkja líklega ýmsir húseigendur að það getur verið skammgóður vermir að afborganirnar séu lágar, ef skuldirnar hækka.

G. Tómas Gunnarsson, 30.1.2015 kl. 10:42

19 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Heldur jákvæðari fréttir frá Íslandi, þó betur þurfi vissulega að gera, þá er stefnan fram á við.....

http://www.mbl.is/vidskipti/frettir/2015/01/30/horfur_ur_stodugum_i_jakvaedar/

G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2015 kl. 11:16

20 identicon

Þetta er mjög lítið skref fram á við enda er sjálft matið enn óbreytt.

Það er hins vegar athyglisvert hvers vegna horfurnar skánuðu. Ástæðan var fyrst og fremst undanþágan frá gjaldeyrishöftum fyrir forgangskröfuhafa í þrotabú gamla Landsbankans.

Þetta sýnir að framferði ráðamanna skiptir miklu máli varðandi lánshæfismat og þau vaxtakjör sem okkur bjóðast.

EF SDG hefði fengið að ráða hefði matið eflaust versnað og vextir hækkað. Við hefðum ekki mátt við því enda eru vextir a erlendum lánum gífurlega háir og reyndar þeir hæstu á EES-svæðinu.

Að vísu búa Grikkir við enn hærri vexti en við á frjálsum markaði en vegna ESB-aðildar hafa þeir aðgang að mjög hagstæðum lánskjörum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2015 kl. 13:30

21 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Vextir á Grískum skuldabréfum eru mikið hærri en á Íslenskum á almennum markaði.

Hvað Euroríkin og björgunarsjóðir "Sambandsins" hafa verið tilbúnir að veita (og velta i raun yfir á skattgreiðendur) er önnur saga.  Enda kringumstæðurnarnar sem búið er að búa til, vægast sagt erfiðar og útlitið á Eurosvæðinu ekki gott, eins og Gauti (og sífellt fleiri) kemur inn á.

En auðvitað skiptir hegðun ráðamanna og ríkissjóðs megin máli. Ríkissjóður er á réttri leið, eins segir: Batn­andi af­koma rík­is­sjóðs og op­in­berra fjár­mála hafði einnig já­kvæð áhrif á breyt­ingu á horf­um í láns­hæf­is­mati rík­is­sjóðs að mati Fitch.

Heildarjöfnuður enda fyrsta sinn frá bankahruni, jákvæður 2014. Þetta stefnir því í rétta átt en alltof hægt.

Og svo: Skulda­hlut­fall hef­ur batnað veru­lega bæði vegna bættr­ar af­komu rík­is­fjár­mála sem og hag­vaxt­ar.

En hvað verður svo í Grikklandi er erfiðara að spá, en einhvers konar málamiðlun, eins og ég nefndi í upphaflega pistlinum er lang líklegust.

G. Tómas Gunnarsson, 31.1.2015 kl. 15:24

22 identicon

Grikkland og Ísland hafa verið í sérflokki á EES-svæðinu að því er vexti á erlendum lánum varðar.

Ísland hefur verið með 6%+ vexti en Grikkland 8%+ meðan evruþjóðirnar eru flestar með innan við 1% vexti. Eftir kosningaúrslitin í Grikklandi hafa þessir vextir þar hins vegar snarhækkað og eru nú 11%+.

En þrátt fyrir þessa háu vexti og þrátt fyrir að gríska ríkið skuldar mun meira en það íslenska er greiðslubyrði Grikkja lægri en Íslendinga vegna þess að þeir fá hagstæð lán frá sjóðum ESB ofl vegna ESB-aðildarinnar.

Gjaldeyrishöft grafa undan efnahagslífinu á ísmeygilegan hátt sem menn verða ekki varir við fyrr en um seinan. Fjármagn kemst td ekki úr landi og er því nýtt hér til óarðbærra framkvæmda.

Slíkar framkvæmdir skila auknum hagvexti meðan á þeim stendur þó að ekkert vit sé í þeim. Slíkur hagvöxtur er neikvæður til lengri tíma litið og stuðlar að nýju hruni.

Ástandið leiðir af sér bólur td á hlutabréfa- og húnæðismarkaði. Þær enda svo að lokum með kollsteypu.

Hagvöxtur fyrir stök ár hefur litla þýðingu. Það þarf að taka mörg ár með í reikninginn bæði uppsveiflu og niðursveiflu. Á Íslandi veldur krónan miklum sveiflum. Til að vega upp á móti niðursveiflu þarf hagvöxturinn að vera mjög mikill í uppsveiflu bara til að standast samjöfnuð við aðrar þjóðir.

Hagvöxturinn þarf að vera mun meiri en hann hefur verið undanfarið enda er Ísland eina EES-landið sem á enn langt í land með að ná sömu landsfarmleiðslu og þrem árum fyrir hrun.

Þrátt fyrir gífurlega sóun á fjármunum upp á vel yfir hundrað milljarða, að mestu til aukningar á ójöfnuði í samfélaginu, tókst að halda í horfinu með heildarjöfnuð frá því sem stefndi í þegar síðasta kjörtímabili lauk.

Þetta skýrist annars vegar af mikilli aukningu erlendra ferðamanna og hins vegar hættulegum niðurskurði á nánast öllum innviðum samfélagsins.

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2015 kl. 21:55

23 identicon

ESB mun ekki ljá máls á lánalækkun til Grikkja vegna þess fordæmis sem það myndi gefa. Ég hef heldur ekki mikla trú á að AGS muni gefa eftir lán enda er um lán á mjög hagstæðum kjörum að ræða.

Hins vegar gæti sigurvegari kosninganna, hinn vinstri sinnaði Syriza, náð árangi í öðru stefnumáli sínu sem er að uppræta spillingu. Ef vel tekst til mun það bæta stöðu Grikkja verulega.

Kaup á lista yfir grískar innistæður í erlendum skattaskjólum getur gefið af sér miklar tekjur fyrir ríkissjóð auk þess sem fælingarmátturinn verður mikill upp á framtíðina að gera.

Vandinn er hins vegar sá að spillingin grasserar í öllum lögum grísks samfélags. Það er því mikilvægt að stjórnin einbeiti sér að þeim stórtækustu til að fá ekki hinn almenna kjósanda upp á móti sér.

Smám saman á næstu árum væri svo hægt að fara neðar í þjóðfélagsstigann þó þannig að hinn almenni borgari fá tækifæri til að snúa til betri vegar áður en kemur að því að hans mál verði skoðuð.

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2015 kl. 22:18

24 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Stærsti hluti skulda Grikkja er úr Eurosjóðum og IMF. Það hefði einfaldlega aldrei gengið að fá lán annarsstaðar og líklegast hefði Eurosvæðið hrunið ef þessi lán hefðu ekki verið veitt.

Það er í raun ekki mikið flóknara en það.

Ísland var líka með hagstæðari lán, en greidi upp og tók "markaðslán" með hærri vöxtum. Það var nokkuð umdeilt á sínum tíma, en ég held að það hafi verið rétt ákvörðun. Þannig byggist upp traust.

Gjaldeyrishöft eru aldrei af hinu góða, þó að þau geti verið óumflýjanleg.  Það sést bæði á Íslandi og á Kýpur.

Vissulega er hagstjórn til lengri tíma litið en það sést t.d. í Grikklandi og fleiri Eurolöndum hvað gjaldmiðill sem ekki tekur mið af stöðunni og jafnvel styrkist þó að hagsveiflan sé á niðurleið, er erfiður.

Samkeppnishæfið hreinlega hverfur og ráðast þarf í mjög erfiðar launalækkanir og því um líkt, sem aftur eykur likur á verðhjöðnun og slíkum vandræðum, svo ekki sé minnst á atvinnuleysi.

"Sterkur" gjaldmiðill getur verið bölvun ef ríki hefur ekki unnið fyrir honum.  Það er enda að koma í ljós nú hjá þeim ýmsum.  Það eru ekki til neinar töfralausnir.

Heildarjöfnuður ríkissjóðs er betri en í lok síðasta kjörtímabils, en í raun er þörf á frekari niðurskurði, en alls ekki jöfnum. Það hefur enda verið að hluta til vandamálið að skorið hefur verið of "jafnt" niður.

En auknig ferðamanna hefur auðvitað verið eins og himnsending, og þar á krónan ekki sístan hlut, því verðið hefur verið og er enn hagstætt, þó að vissulega hafi verð hækkað.

Spilling hefur alltaf verið rík í Grikklandi og margir vilja meina að ef eitthvað er hafi hún aukist eftir að landið gekk í "Sambandið". "Pottarnir" urðu einfaldlega stærri, og möguleikinn á að halda henni gangandi með lánsfé gerði "allt auðveldara".

Að Grikkland hafi verið tekið inn í euroið er í raun skandall á "heimsmælikvarða" sem líklega margir sjá eftir nú.  En þegar gjaldmiðill er meira "pólítískur" en annað, er meiri hætta á slíku.

Ég er sammála því að afar ólíklegt er að nokkuð verði gefið eftir af skuldum, það verður lengt í lánum og vaxtalaus tímabil lengd, en eymdin verður áfram ríkjandi í Grikklandi.

G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2015 kl. 08:36

25 identicon

Krónan var allt of hátt skráð fyrir hrun og hélt því ferðamönnum frá landinu. Sú sprenging sem varð í aukningu þeirra eftir hrun er því ekkert tilefni til að mæra krónuna.

Betur hefði farið á því að ferðamannaiðnaðurinn hefði byggst upp smám saman fyrir hrun svo að aukning ferðamanna hefði orðið minni eftir hrun. Þannig hefðum við verið betur í stakk búin til að taka sómasamlega á móti aukningunni án þess að náttúran hefði legið undir skemmdum.

Aukningin núna á milli ára hefur ekkert með krónuna að gera nema síður sé enda hefur verðlag hækkað hér meira en í flestum öðrum löndum. Enn er krónan trúlega of hátt skráð vegna gjaldeyrishafta.

Ef við værum með evru væri verðlag væntanlega lægra og eftirspurnin eftir Íslandsferðum því trúlega meiri.

Mikil aukning ferðamanna hér á sér margar skýringar að mínu mati. Ein skýringin er aukin áhugi á norðlægum slóðum að vetrarlagi. Við njótum góðs af uppbyggingarstarfi Finna hvað þetta varðar. Norðurljósin hafa sérstakt aðdráttarafl.

Eldgos vekja einnig áhuga. Gos í Eyjafjallajökli kom Íslandi á heimskortið og vakti forvitni margra. Stöðvun flugumferðar vegna ösku átti stóran þátt í því.

Aukin auglýsingaherferð, ekki síst í vetrarferðir, hefur einnig skilað árangri. Einnig hafa lægri fargjöld, fleiri áfangastaðir og fleiri flugfélög með flug hingað haft mikil áhrif til aukningar ferðamanna.

Þó að hér sé um tiltölulega fámennan hóp að ræða á heimsvísu þá munar mikið um hann vegna þess hve fá við erum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 10:45

26 identicon

Spillingin í Grikklandi er ástæðan fyrir vandræðum þeirra. Það má vel vera að ESB-aðild og upptaka evru hafi aukið á vandann ef þeir hafa algjörlega hunsað að aðlaga sig þeim nýja veruleika sem upptaka evru er.

Það má líkja þessu við einstakling sem er í fjárhagskröggum og fær aðstoð til að rétta úr kútnum. Aðstoðin felst í lánum á góðum kjörum sem gefa honum svigrúm til að komast á réttan kjöl.

En í stað þess að leysa vandann sóar hann fénu í alls konar óhóf sem aðeins hjálpar honum til að hrökkva í afneitunargírinn. Að lokum situr hann uppi með miklu meiri vanda en áður.

Umræðan um aðild Íslands að ESB hefur verið á mjög lágu plani og einkennst allt of mikið af ótrúlegu bulli ESB-andstæðinga. Að þeir hafi komist upp með það vekur með manni spurningar um hvort lýðræðið verði okkur að falli.

Íslendingar ættu að spyrja sig hvers vegna allar ESB-þjóðirnar sjái sér hag í því að vera í ESB? Jafnvel Grikkir vilja alls ekki kasta evrunni eða ganga úr ESB. SDG hefur sagt að aðstæður okkar séu allt aðrar án þess að útskýra á hvern hátt.

Það er að vísu rétt að við höfum vissa sérstöðu. En ég sé ekki betur en að sú sérstaða geri ESB-aðild mikilvægari fyrir okkur en flestar ef ekki allar ESB-þjóðirnar.

Við fáum nothæfan gjaldmiðil sem verður gífurleg lyftisstö0ng fyrir okkur. Og við fáum vandaða löggjöf á þeim sviðum sem ESB nær yfir í stað þeirrar hrákasmíðar sem íslensk löggjöf óhjákvæmilega er vegna fámennis - oft með skelfilegum afleiðingum.

Auk þess stórbatnar samkeppnishæfnin með auknum atvinnutækifærum, vextir ríkis og einstaklinga snarlækka og erlendar skuldir ríkisins stórlækka með greiðslu úr gjaldeyrisvarasjóðnum. Skuldir einstaklinga munu lækka með hverri greiðslu af lánunum.

Eina spurningin varðandi ESB-aðild er hvort við séum svo miklir aular að við neitum að aðlaga okkur að að ESB-aðild og evrunni og lendum því í sama pytt og Grikkir.

Við eigum þó nóg af hæfu fólki til að færa okkur kosti aðildar og evru. En það er ekki víst að þjóðin beri gæfu til að kjósa það í fyrstu atrennu.

Hinn valkosturinn - ónýt króna og ákveðin einangrun án bandamanna - er hins vegar svo vonlaus að ESB-aðildin er engin spurning í mínum huga þó að ekki sé útilokað að hún kosti viss byrjendabrek.

Eru Íslendingar svo miklir molbúar að þeir hafa ekki vit á að bera sig eftir björginni?

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 11:58

27 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmuncur Eins og alltaf má deila um gengisskráningu og það er freistandi að segja að krónan hafi verið of hátt skráð.  Þó var atvinnuleysi ekkert á Íslandi, frekar í mínus ef eitthvað er, enda fluttist til landsins mikið af fólki.

Líklega hefði bólan orðið enn stærri ef Ísland hefði verið með euro, enda sýndi það sig á t.d. Spáni, í Grikklandi og Írlandi, þar var lánsfjárbólan ekki minni, enda vextir langt undir verðbólgu.

En undir þeim kringumstæðum hefði ferðamannaþjónusta líklega seint orðið samkeppnishæf, ekki síst um starfskraft.

Jóhanna og Steingrímur voru nú ekki lítið hreykin þegar þau tilkynntu að verðlag væri ódýrast á Íslandi af Norðurlöndunum.  Svo skilst mér að sé enn.  Þannig virðist "Sambandsaðildin" og euro aðild Finna ekki hafa fært þeim lægra verðlag, enda auðvitað svo margt annað sem spilar þar inn í heldur en nafnið á gjaldmiðlinum.  Enn og aftur þarf að hafa í huga að það eru ekki til töfralausnir.

Það er vissulega margt sem spilar inn í vinsældir Íslandsferða. En verðlagið á þar ekki sístan þátt.

Flugmiðar hafa lækkað í verði og  í raun öll þjónustan.  Það þarf ekki að fara víða um Evrópu til að sjá hve samkeppnishæf verð á Íslandi eru.

Nú er ég staddur í Noregi og þeir Norðmenn sem ég hef hitt og hafa komið til Íslands, tala um hagstæða verðlagið.  Það er nú ekki alveg dæmigert Evrópuland, en verðlag í Evrópskum borgum, er víða heldur ekkert til fyrirmndar.

En auðvitað spilar þetta saman, fleiri flugfélög og meiri samkeppni, en verðlagið er það sem skiptir gjarna mestu máli þegar upp er staðið.

Nýlega sá ég svo að tvö flugfélög höfðu t.d. ákveðið að hætta Íslandsflugi.

En það er alltaf erfiðara að selja það sem telst dýrt.

G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2015 kl. 12:11

28 identicon

G. Tómas, það er auðvelt að sjá að gengi krónunnar var skráð allt of hátt áður en það byrjaði að hrynja snemma árs 2008. Ég held að ástæðurnar fyrir óeðlilega háu gengi krónunnar hafi einkum verið þrjár:

Virkjana- og stóriðjuframkvæmdir voru látnar taka við hver af annarri. Erlendum lánum vegna framkvæmdanna var að miklu leyti skipt í krónur. Við það jókst eftirspurn eftir krónum sem hafði áhrif til hækkunar á genginu.

Vaxtamunaviðskipti olli mikilli eftirspurn eftir krónum í skiptum fyrir erlendan gjaldeyri. Háir vextir á Íslandi voru vegna ótryggrar krónu. Það var því ljóst að það var bara tímaspursmál hvenær þetta fé myndi leita aftur út með mikilli lækkun á genginu.

Á árunum fyrir hrun var mikið um að fyrirtæki tækju lán í erlendri mynt til að nota innanlands. Slík lántaka hefur óeðlileg áhrif til hækkunar á gengi krónunnar sem hlýtur að lækka þegar kemur að skuldadögunum.

Gengi krónunnar er núna óeðlilega hátt vegna gjaldeyrishafta. Mikið fé sem streymdi til landsins fyrir hrun er enn í landinu vegna hafta. Það fer út þegar þeim verður aflétt með tilheyrandi gengislækkun.

Því lengur sem höftin vara því stærri verður vandinn. Td mun fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfum verða meiri eftir því sem árin líða án þess að þeir geti fjárfest erlendis vegna hafta.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 14:03

29 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Það er að mörgu leyti erfitt að stýra framvæmdum. Þegar verið var að virkja fyrir austan og byggja upp álver, var jafnframt verið að virkja á Hellisheiðinni, á svæði sem var þó gríðarleg þennsla.

En hvernig hefði hið opinbera átt að snúa sér því að banna Reykjvíkurborg og fyrirtækjum þess að standa í slíkum framkvæmdum?

En það er alveg rétt að fé streymdi til landsins, til ávöxtunar, fjárfestinga og lánveitinga.

"Allir" höfðu trú á Íslensku bönkunum og voru reiðubúnir til að lána þeim fé.  Þeir skiluðu enda góðum hagnaði o.s.frv. Vissulega þýddi það að hefðbundnar framleiðslugreinar áttu í erfiðleikum, en allir gátu fengið vinnu, þannig að það skapaði í raun ekki vandamál. Það voru enda ekki margir sem töluðu "gegn" bönkunum þá. Bankastjórar voru eins og rokkstjörnur, ávörpuðu landsfundi stjórnmálaflokka o.s.frv.

Hvernig hefði verið best að stöðva innstreymið?

Líklega hefði verið best að "prenta dulítið" af krónum og kaupa gjaldeyri. En þá hefði verðbólgan vissulega farið hærra.

Líklega er gengið nú, líklega heldur hátt, þó að Seðlabankinn hafi að mörgu leyti staðið sig nokkuð vel, keypt gjaldeyri og leyft krónunni að síga nokkuð með euroinu, þó að dollar hafi stigið.

Fjármagn sem er bundið á Íslandi hefur minnkað verulega, en líklega verður alltaf all nokkuð þrýstingur þegar höftum verður aflétt.  Erfitt að komast hjá því.

Rétt eins og fjármagn streymir út af Eurosvæðinu og setur á niðurþrýsting.  Þess vegna spá æ fleiri 1:1 euro/dollar á árinu.  Mér þykir ekki ólíklegt að það muni rætast.

G. Tómas Gunnarsson, 1.2.2015 kl. 14:53

30 identicon

Eina ráðið til að losna við þessar sveiflur á gengi sem stórframkvæmdir valda er að ganga í ESB og taka upp evru.

Jafnvel stök slík framkvæmd veldur þenslu og síðan samdrætti þegar henni lýkur. Til að komast hjá niðursveiflu létu ríkisstjórnir sjalla og framsóknar fyrir hrun hverja stórframkvæmdina taka við af annarri til að forðast niðursveiflurnar.

Rétt eins og með alkóhólistann sem gætir sín á að verða ekki edrú urðu eftirköst framkvæmdanna bara miklu verri þegar þeim loks lauk eða hlé komst á þær.

Ég held að snjóhengjan hafi síst minnkað. Eitthvað hefur hún minnkað vegna fjárfestingarleiðar seðlabankans. Á móti kemur að íslenskur hluti hennar sem varð til eftir hrun bara vex og vex, ekki síst fjárfestingarþörf lífeyrissjóðanna í erlendum eignum.

Þrátt fyrir að seðlabankinn hafi verið að kaupa gjaldeyri undanfarið er gjaldeyrisvarasjóðurinn miklu minni nú en eftir að hann var efldur eftir hrun. Ég man ekki betur en að hann hafi verið um eða yfir 800 milljarða en sé nú, eða síðast þegar ég sá það, ekki nema 500-600 milljarðar.

Bjarni Ben vildi á sínum tíma láta kanna hvort ekki væri ráðlegt að nota hluta af gjaldeyrisvarasjóðnum til að minnka erlendar skuldir. Kannski að það hafi verið gert og skýri þessa minnkun hans.

Það er hins vegar ljóst að gjaldeyrisvarasjóðurinn þarf að vera miklu stærri en hann er eftir að höftum hefur verið aflétt. Efling hans án lántöku veldur lækkun á gengi krónunnar við eðlilegar aðstæður.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 17:59

31 identicon

Ég held reyndar að skuldir ríkisins hafi ekki minnkað neitt að ráði. Eru þær ekki alltaf um 1.500 milljarðar?

Minnkun gjaldeyrisvarasjóðsins virðist því vera af öðrum ástæðum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2015 kl. 22:31

32 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Nei, Tommi, rót vandans er ekki ESB sjálft heldur það, að Grikkland fékk aðild á röngum forsendum. Þeir uppfylltu ekki skilyrðin en fengu samt aðild, líklega vegna þess að "Evrópa" án Grikklands væri eins og stærðfræði án margföldunar.

Að ógleymdum ævintýralega spilltum ríkisbúskap í Grikklandi.

Þetta mál er miklu flóknara en nemur peningahliðinni, alveg eins og reyndar ESB er miklu meira en evran og hagsmunir einstakra ríkja. Það hvað ESB er hafa andstæðingar þess reyndar afskaplega lítinn skilning á, svona svolítið eins og herskáir trúleysingjar hafa yfirleitt aldrei neitt minnsta vit á þeirri trú sem þeir eru svo mikið á móti.

Enda er það gömul saga og ný að ef maður er á móti einhverju verður maður að passa sig á að öðlast ekki of mikinn skilning á því vegna þess að þá er hætt við að andstaðan gufi upp.

Svolítið annar punktur: Hér á Íslandi er reyndar held ég ESB-andstaða manna á borð við Styrmi Gunnarsson og Tómas Gunnarsson fyrst og fremst bundin þeirri sannfæringu að svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn er við völd á Íslandi sé Ísland sjálfstætt.

Kristján G. Arngrímsson, 2.2.2015 kl. 08:16

33 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Að taka upp euro leysir ekki vandann.  Ekki frekar en það dugði til að leysa vandann á Spáni, Grikklandi, Portúgal, Írlandi o.s.frv., þar sem euroið blés upp þvílíkar bólur að ekki er séð fyrir endann á þeim enn.

Snjóhengjan hefur minnnkað töluvert, en er ekki horfin.  Eitthvað af "gjaldeyrisvarasjóðnum" var einfaldlega skilað held ég, það var óþarfi að hafa hann á dýrum vöxtum, á meðan gjaldeyrishöft vörðu að mestu leyti.

En Seðlabankinn hefur að ég hygg verið að byggja upp sjóðinn, sem er vel.

@Kristján Það var í sjálfu sér ekki hættulegt að hleypa Grikklandi í "Sambandið", en að hleypa því inn á Eurosvæðið, var auðvitað slík vitleysa að önnur eins þekkist varla. En þar kemur inn enn og aftur að gjaldmiðilinn er pólítískur, frekar en byggður á efnahagslegum grunni.

Að sumu leyti held ég að þú sért að feta þig inn á réttar brautir, þegar þú dregur fram trúarlíkinguna, því það er einmitt það sem málið snýst um að miklu leyti.  Trúin á "Sambandið". Sem byggir á svipuðum rökum og önnur trúarbrögð.  Felst aðallega í því að sjá "ljósið", en rök og skynsemi hafa lítið með málið að gera.

Ef að þú heldur að málið snúist um Sjálfstæðisflokkinn, ertu á villigötum. Ég hef hins vegar sagt að átakalínan liggi að miklu leyti um
Sjálfstæðisflokkinn, enda ólíklegt að Ísland gangi í "Sambandið" á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er þokkalega heill í andstöðunni við "Sambandið".

En ef að Sjálfstæðisflokkurinn styður inngöngu í "Sambandið" skilur endanlega á milli mín og hans, enda hef ég lengst af nú, aðeins kosið hann sem skársta kostinn, af í raun engum góðum.

G. Tómas Gunnarsson, 2.2.2015 kl. 15:05

34 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Annarsvegar segirðu að trúin á ESB byggi á "svipuðum rökum og önnur trúarbrögð" en hinsvegar að "rök og skynsemi hafi lítið með málið að gera". Notarðu þarna orðið "rök" í sömu merkingu í báðum setningum eða er það tvírætt?

En að halda að rök og skynsemi hafi lítið með trúarbrögð að gera bendir til að sýn þín á trúarbrögð sé mjög þröng og einföld, og líklega er þá sýn þín á ESB sömu leiðis þröng og einföld.

Kannski byggir þessi misskilningur þinn á þeirri gömlu hugmynd að rök og tilfinningar séu alveg sitt hvað; að "skynsemi og rök" séu andstæða "trúar." En það er mjög margt sem bendi til að svona einfalt sé málið ekki. Það er mjög erfitt, ef nánar er að gáð, að gera skarpan greinarmun á rökum og tilfinningum.

Kristján G. Arngrímsson, 2.2.2015 kl. 16:19

35 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján Sjálfsagt má færa fyrir því rök að sýn mín á trúarbrögð sé einföld. Ég hef enda aldrei séð "ljósið".

Hef aldrei fundið þessa þröf fyrir "altumlykandi, alsjáandi, almáttugar verur". Það gildir einnig um stofnanir og hið opinbera.

Líklega mætti orða það svo að ég sé ekki mjög trúaður á "töfralausnirnar".

G. Tómas Gunnarsson, 2.2.2015 kl. 17:31

36 identicon

G. Tómas, að sjálfsögðu hverfa gengissveiflur vegna stórframkvæmda  með upptöku evru.

Evran hefur það mikla útbreiðslu að slíkar framkvæmdir á Íslandi hafa engin áhrif á gengið jafnvel þó að öll lánin væru tekin í öðrum gjaldmiðli en evrum.

Annars hljómar það svolítið örvæntingarfullt að miða alltaf við þau fáeinu lönd sem hefur gengið illa eftir upptöku evru í stað þeirra sem gengur vel og eru miklu fleiri og eru þar að auki lönd sem hefð er fyrir að við berum okkur saman við.

Ber að túlka þetta viðhorf á þann hátt að Íslendingar séu að þínu mati svo miklir aular að þeim sé ekki treystandi til að notfæra sér augljósa kosti evrunnar heldur myndu þvert á móti sökkva enn dýpra?

Ásmundur (IP-tala skráð) 2.2.2015 kl. 21:14

37 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Þarna var ég auðvitað fljótfær og biðst afsökunar á því. Tók þetta bara sem "sveiflur", en missti af gengispartinum.

Og það er auðvitað alveg rétt, að Ísland væri of lítið til að "sveifla" euroinu, en það þýddi auðvitað ekki að gengisveiflur sem slíkar væru úr sögunni, rétt eins og við höfum séð með euroið undanfarnar vikur og mánuði.

En áhrifin af stórframkvæmdum eins og fyrir austan eru ofmetin.  Slíkt vigtaði ekki mikið á móti öðru fjármagni sem streymdi inn. Fáir Íslendingar sem störfuðu við framkvæmdirnar, og megnið af lánsfénu fór úr landi í laun og tækjakaup. En vissulega verður alltaf hluti eftir, en það eins og ég sagði áður bliknaði við hliðina á öðru fjárstreymi, sérstaklega náttúrulega í kringum bankanan.

Þessi fáeinu lönd?  Grikkland, Írland, Portúgal, Spánn, Kýpur, hafa orðið verst úti. Síðan eru lönd eins og Frakkland, Ítalía, Slovenia sem hafa átt í umtalsverðum vandræðum, þó ekki öll á sama máta.

Vaxandi vandræði eru í löndum eins og Finnlandi og Belgíu. 

Lönd eins og t.d. Eistland (sem hafði gjaldmiðilinn fasttengdan löngu áður en þeir tóku upp euro) hefur átt erfitt, en kemur samt vel út vegna "járnaga" í fjármálum. Það sem bjargar þeim aftur og aftur er að hið opinbera skuldar ekki. En landflóttinn er ef til vill meiri fyrir vikið.

Í ár er reiknað með (að óbreyttu) að 8 lönd af Eurosvæðinu verði komin yfir 100% markið í opinberar skuldir/GDP.

Svæðið í heild sinni er komið í verðhjöðnun.

Hvað heldur þú að mörg lönd innan Eurosvæðisins muni uppfylla öll skilyrði til að vera þar árið 2015?

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2015 kl. 05:42

38 identicon

Það er síður en svo ástæða til að hafa meiri áhyggjur af evrusvæðinu en öðrum ESB-löndum eða allri heimsbyggðinni. Þó að áróðurinn sé allir á þann veg þá sýna staðreyndirnar annað. Evrusvæðið hefur spjarað sig betur.

Ég hef áður bent á og sýnt fram á það með hlekk að atvinnuleysi í ESB er minnst i nokkrum evrulöndum og að landsframleiðslan er meiri á evrusvæðinu og hefur auk þess aukist meira þar en annars staðar í ESB.

Opinberar skuldir sem hlutfall af landsframleiðslu hafa aukist minna á evrusvæðinu síðasta áratuginn en í ESB að öðru leyti.

http://www.statista.com/statistics/253616/national-debt-of-the-eu-and-the-euro-area-in-relation-to-the-gdp/

Í ljósi þess að svo vill til að öll PIIG löndin eru með evru sætir furðu að opinberar skuldir evrusvæðisins skuli vera aðeins lítið eitt hærri en í ESB sem heild ekki síst í ljósi þess að landsframleiðslan er mun meiri á evrusvæðinu og því eðlilegt að skuldir séu hærri.

Opinberar skuldir Bretlands, sem er ekki með evru, eru mun meiri en Þýskalands, sem eru með evru. Og skuldir Japans og Bandaríkjanna eru mun meiri en Þýskalands, Frakklands eða Breta.

http://www.statista.com/statistics/264647/national-debt-of-selected-countries-in-relation-to-gross-domestic-product-gdp/

Það er ekki aðeins að lönd með minnst atvinnuleysi í ESB séu öll með evru, þar eru einnig löndin með mestu landsframleiðsluna, Lúxemborg, Holland og Austurríki, og minnstu opinberar skuldir, Eistland og Lúxemborg.

http://ec.europa.eu/eurostat/tgm/table.do?tab=table&init=1&language=en&pcode=tec00114&plugin=1

Af þessu er ljóst að áróðurinn gegn evru með tilvísun í reynslu á ekki við nein rök að styðjast.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.2.2015 kl. 10:34

39 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Það eru nokkur Eurolönd sem hagnast verulega á því að tengjast myntsvæðinu, enda er gjaldmiðill þeirra í raun lægra skráður en væri um að ræða sjálfstæðan gjaldmiðil þeirra.  Eðlilega dregur það úr atvinnuleysi, ef gjaldmiðillinn er "sígengisfelldur" ef svo má að orði komast.

En skuldir Eurosvæðisins eru alltaf hærri en "Sambandsins", og þegar Eurosvæðið inniheldur flest stærstu efnahagskerfin, þá er ekki að undra að "Sambandið" fylgi með.

Á línuritinu sést líka skýrt hvað langt er síðan að Eurosvæðið í raun uppfyllti skilyrði til að vera "í Eurosvæðinu", ef svo má að orði komast.

Hins vegar er það alveg rétt að opinberar skuldir ríkja almennt eru alltof miklar.  Það reynist þó ríkjum með eigin seðlabanka og gjaldmiðil auðveldara að reka sig með halla og koma sér úr vandræðum.  Helst þarf auðvitað að gera það áður en til verðhjöðnunar kemur, eins og dæmi Japans sýnir.  Spurningin hvort að Eurosvæðið endi í þeirri gildru?

Luxemborg er í raun nokkuð sér á parti, enda með vinnuafl "að láni" og fær einnig skatta nágrannaríkjanna "að láni".  Holland er reyndar einnig þekkt "skattaskjól".

Eistland hefur hins vegar frá endurheimt sjálfstæðis sýnt járnaga í ríkisfjármálum.  Það hefur þó ef til vill leitt til meiri fólksflótta en ella, en til lengri tíma litið er það ómetanlegt.  Eistland hefur í raun engar skuldir.  Það er í plús.  En að sama skapi hafa einmitt margir hvatt til þess að Eistneska ríkið skuldsetji sig frekar, til að geta keppt við önnur ríki í "lífsstandard".  En það er eins og annað, hlutur sem margir deila um.

En euroið hefur auðvitað í sjálfu sér ekkert að gera með það.

Staðreyndin er auðvitað sú, að euroið hentar ekki öllum þessum ríkjum, nema til mun meiri samruna og "millifærsla" komi, og þar stendur "peningurinn í sparibauknum", ef svo má segja.

Svo eru ágætar fréttir frá Íslandi:  http://sedlabanki.is/library/Skr%C3%A1arsafn/Gjaldeyrismal/Fr%C3%A9tt%20nr%202%202015%20Innlendur%20gjaldeyrismarka%C3%B0ur%20og%20gj.pdf

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2015 kl. 11:09

40 identicon

Ánægjulegt að sjá að staðan í erlendum gjaldeyri er orðin jákvæð eða með öðrum orðum að gjaldeyrisvaraforðinn sé orðinn meiri en erlendar skuldir.

Hitt er verra að gjaldeyrisvaraforðinn hefur minnkað um meira en helming frá 2011. Með krónu án hafta þarf hann að vera margfalt stærri.

Kostir evrunnar koma öllum evruþjóðum til góða ef þær hafa vit á að færa sér þá í nyt. Þetta er eins og önnur gæði sem krefjast þess að leikreglum sé fylgt.

Sá sem byrjar nám í virtum skóla getur farið illa út úr því ef hann sinnir ekki náminu og rýrir jafnvel orðstír skólans. Sama á við um þjóðir sem taka upp evru.

Gengi evrunnar hentar mismunandi vel hinum ýmsu atvinnugreinum á mismunandi tímum rétt eins og krónan. Það er því næsta víst að gengi evrunnar sé alltaf of hátt fyrir sumar atvinnugreinar og of lágt fyrir aðrar. Meðaltalið í ákveðnu landi hefur því takmarkað gildi.

Efnahagur hvers evrulands aðlagast að gengi evrunnar. Evran verður því rétt skráð i hverju landi þangað til verulegar breytingar verða. Þá þarf evran aftur að aðlagast aðstæðum. Þetta er spurning um að gæta þess að lifa ekki um efni fram.

Slík aðlögun á sér stað með einföldum hagstjórnartækjum auk þess sem hófleg verðbólga getur hjálpað til. Ef verðbólga er mjög lítil og um leið mikill samdráttur getur í undantekningartilvikum verið nauðsynlegt að lækka laun.

Þeir sem ímynda sér að það sé í góðu lagi að lifa um efni fram með eigin gjaldmiðil eru á villigötum. Þeir geta kannski bjargað sér fyrir horn með gengisfellingu en þá eru þeir bara að varpa vandanum yfir í framtíðina.

Betra er að búa ekki við þá freistni og geta um leið byggt upp samfélagið fyrir komandi kynslóðir í stað þess að láta þær taka við óreiðuskuldum vegna ónýts gjaldmiðils.

Það er stór galli við krónuna hve mikið hún sveiflast umfram eðlilega aðlögun að efnahagnum. Ekki síst þess vegna er hún ónýt. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.2.2015 kl. 17:20

41 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Líklega hefði verið betra að minnka gjaldeyrisforðann fyrr, líklega hefur ekki verið nauðsynlegt að hafa hann svo mikinn á meðan höftin hafa verið.  Betra hefði verið að kaupa gjaldeyri fyrir vaxtagreiðslurnar. En það er alltaf auðveldara að vera vitur eftir á.  En ég get þó ekki séð að nauðsynlegt hafi verið að hafa gjaldeyrissjóð jafngildi 26 mánaða innflutnings.

Eins og marg ofte hefur verið sagt áður, þá væru fá vandamál varðandi euroið ef allar þjóðir breyttust í Þjóðverja.

En það gefst yfirleitt betur að spá í raunveruleikann en "teoríur". Hver hefur raunin verið?

Vandamálið hefur verið að efnahagur landanna aðlagast ekki að euroinu.  Upptalingin sem ég setti hér inn síðast talar sínu máli:

Þessi fáeinu lönd?  Grikkland, Írland, Portúgal, Spánn, Kýpur, hafa orðið verst úti. Síðan eru lönd eins og Frakkland, Ítalía, Slovenia sem hafa átt í umtalsverðum vandræðum, þó ekki öll á sama máta.

Vaxandi vandræði eru í löndum eins og Finnlandi og Belgíu.

Sveiflurnar eru mismunandi eftir löndum, því þó að það megi til sanns vegar færa að gjaldmiðill henti oft mismunandi atvinnugreinum mismunandi, þá er atvinnusamsetning landa gríðarlega mismunandi, og það aðlagast ekki gjaldmiðlinum, eða við skulum segja að það hafi ekki gersts.

Þess vegna blés euroið í gríðarbólur á Spáni, Írlandi, Grikklandi og fleiri löndum. Vaxtastigið tók ekkert tillit til ástandsins í þessum löndum, svo dæmi sé tekið.

Þau virtust alla vegna ekki megna að beita þessum "hóflegu hagstjórnartækjum" sem þú talar um.  Þú virðis heldur ekki treysta þér til að nefna þau.

Vandamálið var einnig t.d. mismunandi verðbólga í löndunum, en það er enn ein mýtan að verðbólga á myntsvæði "aðlagist".

Hvað er að varpa vandanum yfir á framtíðina, ef skuldasöfnun er það ekki?  Enn verra er reyndar að heila kynslóðin á Eurosvæðinu er að eyðileggjast, vegna viðvarandi atvinnuleysis.  En það er auðvitað ekki í "framtíðinni", það er í nútíð.

Það hafa allir vaxandi áhyggjur af Eurosvæðinu, enda er efnahagurinn í vaxandi vandræðum.

Staðan á Íslandi þyrfti vissulega að vera betri, en það er líklega meiri ástæða til bjartsýni þar, en víða á Eurosvæðinu.

En það er alveg rétt að Íslendingar þurfa vissulega að temja sér meiri aga í ríkisfjárálum, en það sama má líklega segja um meirihluta þjóða þessa dagana.

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2015 kl. 19:03

42 identicon

G. Tómas. Þú talar eins og að allir erfiðleikar í evrulandi, jafnvel lítilfjörlegir, séu evrunni að kenna. Það voru að sjálfsögðu erfiðleikar í evrulöndum fyrir upptöku evru, ekki síður en núna.

Td var atvinnuleysi á Spáni og Írlandi á níunda og/eða tíunda áratugnum svipað og meira en undanfarið áður en evran varð til. Opinberar skuldir Japans og Bandaríkjanna sem hlutfall af landsframleiðslu eru meiri en skuldir Þýskalands, Bretlands eða Frakklands.

Það er eins og þú hafir haft ofurtrú á evrunni og því hafi það valdið þér gífurlegum vonbrigðum að hún reyndist ekki allra meina bót þar sem allt var látið reka a reiðanum.

ESB- og evrusinnar þekkja hins vegar takmörk evrunnar og gera sér þess vegna grein fyrir að hún getur orðið gífurleg lyftistöng fyrir Ísland.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.2.2015 kl. 21:18

43 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Ásmundur Alls ekki. Ekki frekar en að uppgangstíminn vare euroinu að þakka eins og svo margir vildu meina.

Enda staðreyndin að gjaldmiðilinn sem slíkur getur aldrei verið aðalatriðið.

Efnahagur landa fer gjarna upp og niður, það koma kreppur, jafnvel bankakreppur o.s.frv.

En þegar lönd taka upp það sem kalla má "ígildi erlends gjaldmiðils" fara önnur öfl af stað.

Þá hætta "hóflega hagstjórnartæki" (sem þú hefur ekki enn nefnt) jafnvel að virka.

Þá fer efnahagsástand í öðrum löndum jafnvel að skipta meira máli, en hvað er að gerast í landinu sjálfu. Besta dæmið um það er líklega gjaldmiðill Grikklands sem steig og steig.

Og vissulega er það rétt að erfiðleikar hafa verið áður og eiga eftir að verða.

Ég hef aldrei haft trú á euroinu. Tók frekar mark á þeim hagfræðingum og stjórnmálamönnum sem vöruðu við afleiðingunum, og lýstu þróun sem er á köflum ótrúlega lík því sem hefur komið í ljós.

En þeir voru líka margir sem lofuðu því að euroið myndi "leysa vandamálin", örva vöxt og "samstilla hagkerfin".  Það voru margir sem lofuðu að euroið væri "töfralausn" og sumir eru enn á þeim buxunum.

Því miður eru ótrúlega margir "Sambands" og eurosinnar á Íslandi í þeim flokki.

G. Tómas Gunnarsson, 3.2.2015 kl. 21:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband