Illskiljanlegar afsakanir Samfylkingar

Nú afsakar Samfylkingarfólk það að þjóðaratkvæðagreiðsla hafi ekki verið haldin árið 2009, með því að það hafi verið talið að það gæti skaðað samningsstöðu Íslendinga.

Það hefði auðvitað verið alveg ótækt ef samninganefnd Íslendinga og ríkisstjórnin hefði vitað það fyrir víst að þjóðin væri fylgjandi því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Hvað þá ef "Sambandið" sjálft hefði vitað að umsóknin nyti stuðnings meirihluta Íslendinga.  Það hefði verið hræðilegt.

Líklega var það aðeins sú staðreynd að flestir gerðu sér grein fyrir að Íslenska þjóðin var algerlega andvíg IceSave samningunum, sem gerði samninganefnd Samfylkingar og Vinstri grænna að koma heim með þá "glæsilegu niðurstöðu" sem raun bar vitni.  Líklega var það andstaða þjóðarinnar sem skóp samningsstöðuna. 

Auðvitað er það svo, að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna var lafhrædd um að umsóknin yrði ekki samþykkt.  Þjóðaratkvæðagreiðsla hefði einnig hugsanlega getað splundrað VG og þar með ríkisstjórninni.

Þess vegna var ákveðin ómögugleiki að halda þjóðaratkvæði 2009.  Það var enda ekki gert.

Önnur vinsæl afsökun Samfylkingarinnar þessa dagana, er að koma makríls í Íslenska lögsögu, hafi gert það að verkum að ekki náðist að opna sjávarútvegskaflan í aðlögunarviðræðum Íslands og "Sambandsins".

Lítum nú stuttu stund fram hjá endurteknum fulyrðingum síðustu ríkisstjórnar um að makríllinn kæmi ekkert við aðlögunarviðræðunum. 

Var eitthvað erfiðara að gefa eftir forræðið yfir makrílnum, en öðrum fiskistofnum á Íslandsmiðum?

En ef Ísland heldur forræði sínu yfir fiskveiðilögunni, hlýtur það að gilda um makrílinn jafnt sem aðra stofna.

Hvað var þá vandamálið?

En auðvitað mega Íslendingar vera eilíflega þakklætir makrílnum.  Hann synti inn í lögsögu Íslands á hárréttum tima og sýndi þeim sem vilja sjá, hvers virði það er að halda óskertum réttindum og lögsögu strandríkja.

Makríllinn undirstrikar hve aumkunarverðar afsakanir Samfylkingarinnar eru.

Fyrir að leiða það í ljós, geta Íslendingar sömuleiðis verið þessum merkilega fiski þakklátir. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er alveg óþarfi að vera með einhverjar afsakanir. Þessi gröf sem núverandi ríkisstjórn gróf sér er gerð úr sviknum loforðum, ekki ESB-afstöðu. Ég held að Samfó hafi sosum ekki lofað neinu á sínum tíma, frekar að VG hafi gengið á bak orða sinna til að þóknast Samfó og koma í veg fyrir að Íhaldið kæmist í stjórn.

Kannski sögðu kjósendur ekkert þá, en batnandi mönnum er best að lifa og því ekki nema gott eitt um það að segja að þjóðin ætli ekki að láta ljúga að sér aftur.

Verður fróðlegt að sjá loforðin fyrir næstu kosningar, eins víst að þau verði hófstilltari en nokkru sinni áður ef pólitíkusarnir verða allt í einu smeykir um að verða rukkaðir um þau.

Kristján G. Arngrímsson, 2.3.2014 kl. 21:52

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Kristján hvað með skjaldborgina? hvað með stjórnarskrána? hvað með nýja sjávarútvegsstefnu?, engu lofað?? ja hérna.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2014 kl. 00:30

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það telst líklega frekar regla en undantekning að stjórnmálaflokkar svíki kosningaloforð, ekki bara á Íslandi, heldur um gjörvallan heiminn. Sérstaklega á það auðvitað við í samsteypustjórnum. Ég er ekki að segja að þannig eigi það að vera, eða það sé eftirbreytni vert.

Það er þó vissulega "teygjanlegt hugtak", hvað er kosningaloforð, eða er allt sem frambjóðendur segja fyrir kosningar, kosningaloforð? Þurfa þeir að segja: Ég lofa ... ,.

Það er hins vegar engin ágreiningur að ádráttur um þjóðaratkvæðagreiðslu kom oftar en einu sinni fram í máli frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins.

Það er bæði sjálfsagt að eðlilegt að stjórnarandstaðan nú þeim því um nasir.

En stjórnarandstöðunni, með dyggri aðstoð ýmissa fjölmiðla, hefur tekist að gera það að aðalatriði málsins.

Engin finnst lengur skipta að ræða efnisatriði hvað varðar umsóknina, eða í hvaða farveg hún var komin þegar Samfylkingin og Vinstri græn skildu við stjórnartaumana.

Hvað gerðist á þeim 3.árum sem þau stýrðu aðildarviðræðunum? Hvers vegna gengu þær ekki betur en raun ber vitni? Hvers vegna þurfti að setja þær í salt? Hvers vegna var ekki löngu búið að opna mikilvægustu kaflana, um landbúnað og sjávarútveg?

Hvað hafði áunnist? Á hverju strandaði? Hefur ástandið breyst þannig að hægt sé að halda áfram? Eru viðræðurnar komnar í þann farveg að því sem næst ómögulegt, eða tilgangslaust, er að halda þeim áfram?

Eða er viljinn sá að halda viðræðum áfram, eingöngu til að halda þeim áfram?

Voru fullyrðingar frambjóðenda Samfylkingarinnar um að aðildarviðræður myndu taka u.þ.b. 18 mánuði og ESB myndi veita Íslandi flýtimeðferð inn í ERM2, kosningaloforð? Þegar frambjóðendur Samfylkingar sögðu að hægt yrði að kjósa um aðild á síðasta kjörtímabili, var það kosningaloforð, eða innantómt hjal?

Það má alveg taka undir þá ósk að fullyrðingar (loforð) stjórnmálamanna verði hófstilltari í framtíðinni, en ég er þó ekki fullur bjartsýni hvað það varðar.

Persónulega held ég að umsóknin sé "sjálfdauð", ef svo má að orði komast. Hún "dó" í höndunum á Samfylkingunni. Þjóðaratkvæðagreiðsla mun ekki koma henni til heilsu, þó að ef til vill nægi það til að fresta því óhjákvæmilega.

En persónulega er ég þeirrar skoðunar að best sé að draga hana til baka.

Íslendingar geta svo tekið upp þráðinn að nýju, ef vilji verður fyrir hendi að ganga í "Sambandið". Þá verður að sækja um með vel undirbúinni og undirbyggðri umsókn.

Það fórst fyrir að þessu sinni.

G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2014 kl. 08:18

4 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Ef þér finnst best að draga umsóknina til baka greiðirðu atkvæði með því í þjóðaratkvæðagreiðslu. Svo einfalt er málið. Ég myndi greiða atkvæði með því að hún verði ekki dregin til baka.

Við getum verið sammála um að það sé æskilegt að við fáum að greiða atkvæði en séum ekki seldir undir vilja fáeinna manna með hvað gert verður. (Sérstaklega ekki ef umræddir menn hafa ekki verið kjörnir til valda).

Ef meirihluti þjóðarinnar er þér sammála þá verður umsóknin auðvitað dregin til baka, annahvort væri nú. En afhverju má ekki hafa þessa þjóðaratkvæðagreiðslu?

Svo er hitt, sem afskaplega fáir virðast pæla nokkuð í: Hvað er loforð? Hvað felst í því að maður lofi einhverju?

Ég held að það veiti ekki af að kenna siðfræði á Íslandi.

Ásthildur: Málið snérist um hvort Samfó hafi lofað þjóðaratkvæðagreiðslu og síðan svikið það loforð. Slíkt loforð kom aldrei, það ég man. Ekki drepa þessum punkti á dreif með því að tala um annað.

Kristján G. Arngrímsson, 3.3.2014 kl. 08:30

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það þarf að mínu mati í raun að svara því fyrst, áður en ákveðið er að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, hvar er umsóknin stödd?

Hvers vegna stöðvaðist hún? Hvað kom í veg fyrir að hægt væri að halda áfram með hana? Hvers vegna gerðu Samfylking og Vinstri græn ekki þjóðinni grein fyrir því hvers vegna það var nauðsynlegt?

Í hvaða öngstræti fór umsóknin í stjórnartíð Samfylkingar og Vinstri grænna?

Þessu ætti auðvitað að vera hægt að svara, í það minnsta að stórum hluta í umræðum um þingsályktunartillöguna um hvort eigi að draga umsóknina til baka.

Svik kosningaloforða hlýtur að snúa um fleira en svik á þjóðaratkvæðagreiðslum.

Samfylkingin "lofaði" hins vegar að aðildarferlið yrði klárað og þjóðaratkvæði yrði um um málið á síðasta kjörtímabili. Slíkar fullyrðingar komu frá fleiri en einum frambjóðenda þeirra.

En var það loforð? Hvað telur þú Kristján?

Í hvaða "fasa" sérð þú fyrir þér Kristján að aðlögunarferlið fari ef samþykkt verði að halda því áfram?

Heldur að farið verði í það að opna strax mikilvægu kaflana, eins og í landbúnaðar og sjávarútvegsmálum og samningurinn verði kláraður á fáum mánuðum?

Eða verður dólað áfram, málið í sama "saltpæklinum" og Samfylking og Vinstri græn komu því fyrir í? Er einhver tilgangur með þeirri "geymsluaðferð"?

G. Tómas Gunnarsson, 3.3.2014 kl. 08:51

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ó jú Jóhanna flutti margar ræður þar sem hún sagði að það þyrfti að byggja skaldborg um heimilin í landinu, það væri forgangsmál, það má eflaust finna þessar ræður henna á netinu. Það var hún sem kom með þetta nafn Skjaldborg og í kosningabaráttunni, og fólk sem nú lætur hvað hæst ætti eiginlega ekki að væna aðra um að "drepa umræðum á dreif" fólk sem er búið að gera kosningasvik núverandi stjórnar að aðalatriði málsins.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.3.2014 kl. 11:02

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband