Verðtrygging og jafngreiðslur

Mér finnst ég oft verða var við misskilning hvað varðar verðtryggingu, jafngreiðslur og því hvers vegna höfuðstóll lána hækkar.

Verðtrygging er í raun aðeins ein tegund af vöxtum.  Einfaldast er líklega að kalla hana vísitölubundna vexti.

Það að vextir séu vísitölubundnir hækkar ekki höfuðstól lánsins.  Hann hækkar aðeins ef svo er um samiið að lántakandi greiði ekki alla vextina um leið og þeir reiknast, heldur skuli þeir leggjast við höfuðstólínn.  Þetta er það sem oftast er kallað jafngreiðslur, þegar talað er um lán.

Þetta lækkar greiðslubyrðina í upphafi (hækkar hana þegar líður á lánstímann) og gerir mörgum kleyft að taka hærri lán en þeir ella gætu.  Hvort það er skynsamlegt er svo umdeilanlegt en það er önnur saga.

En verðtrygging er ekki skilyrði fyrir því að boðið sé upp á jafngreiðslur og slíkt fyrirkomulag tíðkast mun víðar en á Íslandi.  Oft eru vextir á slíkum lánum breytilegir (breytast þá gjarna mánaðarlega) og getur þá komið til þess, ef óvænt verðbólguskot og vaxtahækkun verður að höfuðstólll slíkra lána hækki, þó óverðtryggð séu.  Það er þó vissulega sjaldgæft, en ef næg verðbólga og vaxtahækkanir eru til staðar getur það gerst.

Eignamyndun á jafngreiðslulánum er hægari en ella, en léttir greiðslubyrðina í upphafi.  Eignamyndunum er því hægari sem lánið er lengra.  Háir vextir (t.d.vísitölubundnir vextir  + nafnvextir) og langur lánstími er hættuleg blanda í þessu sambandi.

En verðtrygging (vísitölubundnir vextir) er ekki skilyrði fyrir jafngreiðslum, né er jafngreiðslufyrirkomulag nauðsynlegt skilyrði verðtryggingar. 

Hvort að óverðtryggð lán komi til með að bera lægri vexti en verðtryggð til lengri tíma litið, er ólíklegt en ekki útilokað.

En það er rétt að hafa í huga að ef það kemur betur út fyrir þá sem ráða yfir fjármagni að nota það í annað en lánastarfsemi, er líklegt að það verði raunin.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband