Færsluflokkur: Menning og listir
17.3.2023 | 21:17
Að endurskrifa bækur
Það olli all nokkru fjaðrafoki þegar fréttist að "endurskrifa" ætti bækur Roald Dahl. Það er ekki að undra enda bækurnar á meðal vinsælli barnabóka um langa hríð. Margir hafa á þeim dálæti og áttu erfitt með að hugsa sér að þær yrðu "barnaðar", ef svo má að orði komast, en til stóð að taka út öll "særandi" orð.
Þannig hefði orðinu "feitur" verið skipt út fyrir "heljarmikill" eins og lesa má í viðtengdri frétt. Ýmsar breytingar hefðu verið gerðar til að sleppa "kyngreiningu" o.s.frv.
Persónulega finnst mér þessar breytingar ekki til bóta og myndi vera þeim andsnúinn, en geri mér þó fulla grein fyrir því að handhafi höfundarréttar getur gert þær breytingar sem honum þykja best til þess fallnar að viðhalda og jafnvel auka sölu bóka.
En ég fór hins vegar að velta því fyrir mér hvernig færi með verk sem fallin eru úr höfundarrétti? Getur þá hver sem er breytt þeim og "endurskrifað" eins og best þykir? Er eitthvað sem verndar slík verk?
Hvenær er um breytingu og hvenær er um nýtt verk að ræða? Er til einhver skilgreining á slíku?
En þó að mér skiljist að hætt hafi verið við breytingar á bókun Dahls, hef ég littla trú á því að þetta sé í síðasta sinn sem við heyrum af eða sjáum viðlíka breytingar.
En til lengri tíma litið munu slíkar breytingar líklega littlu ef nokkru skila, en krefjast sífellt fleiri og nýrri breytinga.
Því næsta víst er að ef orðum eins og "feitur" er skipt út fyrir "heljarmikill", mun fljótlega verða til einstaklingar sem móðgast yfir að orð eins og "heljarmikill" sé notað og vilja flokka það sem særandi.
Ritskoða barnabækur sem allir kannast við | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
12.4.2021 | 00:33
Slaufanir og nornaveiðar
Það hefur býsna mikið verið fjallað um svokallaðan "cancelkúltúr", eða "slaufunarmenningu eins og er byrjað að kalla fyrirbærið, upp á síðkastið.
Það kemur ef til vill ekki til af góðu, enda hefur fyrirbærinu vaxið hratt fiskur um hrygg á undanförnum misserum.
Margir hafa líkt þessu við fasisma, enda hefur "cancelkúltúr" líklega hvergi átt betra skjól en hjá alræðisstjórnum s.s. kommúnisma og fasmisma.
Kínverski kommúnistaflokkurinn er ekki síður duglegur við að "cancela" einstaklingum en "Twitterherinn".
Trúarbrögð hafa einnig ljóta sögu hvað slíkt varðar og "canceluðu" mörgum sér ekki þóknanlegum bókstaflega endanlega, og slíkt virðist enn mæta velþóknun í sumum trúarbrögðum.
Ekki er úr vegi að minnast á nornaveiðar og -brennur í þessu samhengi, enda margt keimlíkt með athöfnunum, þó að nú á tímum séu bálkestirnir og heykvíslarnar næstum eingöngu "sæber".
Þessi árátta er lang mest áberandi nú á vinstri væng stjórnmálanna nú á dögum, en hægri menn hafa vissulega spreitt sig á þessum vettvangi á ýmsum skeiðum.
Nægir þar að minna á "óameríkanska tímabilið" um miðja síðustu öld. Þar naut "cancelkúlturinn" sín vel, þó að undir öðru nafni væri. Fáir voru þar líklega "dæmdir" saklausir, ef það að vera kommúnisti er talið saknæmt athæfi, en hversu eðlilegt er að telja stjórnmálaskoðanir saknæmt athæfi?
Reyndar má segja að ekkert sé nýtt í þessu efnum og allt snúist í hringi. Eins og áður sagði hafa t.d. kristin trúarbrögð "cancelað" (t.d bannfært) marga einstaklinga í gegnum tíðina, en á upphafsárum þeirra trúarbragða létu (í það minnsta ef trúa má frásögnum) Rómverjar ljón sjá um að "cancelera" ýmsum áberandi kristnum einstaklingum.
Það sem ef til vill sker "cancel culture" nútímans hvað mest frá fornum tímum, er að nú á dögum nýtur hann alls ekki stuðnings, eða atbeina hins opinbera nema á stöku stað.
Líkamlegt ofbeldi, þó að það sé ekki óþekkt, er einnig sem betur fer fjarverandi í flestum tilfellum.
"Aftökustaðirnir" eru fjöl- og samfélagsmiðlar og refsingin smánun og atvinnumissir, frekar en "beinar aftökur".
"Athugasemdir" og "statusar" hafa leyst af "heykvíslar" og "kyndla", og vissulega má telja það að til framfara tæknialdarinnar:-)
En að sama skapi krefjast þær framfarir minna af þátttakendum í "blysförunum" sem þurfa ekki að einu sinni að hafa fyrir því að yfirgefa þægindi heimila sinna.
Það má "hafa allt á hornum" sér á sama tíma og steikin er í ofninum, nú eða vinnunni sinnt á "faraldurstímum".
En af hverju eiga svo margir erfitt með að umbera andstæðar skoðanir, önnur trúarbrögð, eða hvað það svo sem er sem fer í taugarnar á þeim?
Auðvitað er alltaf eðlilegt og sjálfsagt að ræða málin, rökræða, berjast um hugmyndir eða "fræði" þeim tengd.
En þýðir það að þeir sem eru andstæðrar skoðunar séu óalandi, óferjandi, eigi skilið að missa vinnunna, eða að engir eigi að kaupa hugverk þeirra?
Auðvitað verður hver að svara fyrir sig.
En frjálslyndi, umburðarlyndi og skilningur á mismunandi sjónarhornum virðast mér víða vera á undanhaldi.
Þó er eðlilegt að halda fram eigin skoðunum og mótmæla þeim sem viðkomandi er ekki sammála.
Jafnvel af festu, en ekki ofstæki.
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 02:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (25)
15.2.2021 | 18:06
Vatnsdeigsbollur í fyrsta sinn
Hjá mér hefur það fylgt því að búa erlendis, að þegar löngun í "Íslenskan" mat vaknar þá hef ég þurft að lára að gera eitt og annað sjálfur.
Þannig lærði ég að búa til graflax, ég sýslaði við skyrgerð fyrir mörgum árum, sem betur fer þarf ég þess ekki lengur, enda margar tegundir af skyri í flestum verslunum núorðið.
Ég hef sömuleiðis soðið bæði rauðrófur og -kál fyrir flest jól, soðið baunasúpu og svo að sjálfsögðu bakað bollur.
Það er eiginlega með eindæmum að bakarar víða um heim hafi ekki uppgötvað hvað mikill fengur væri að bolludeginum fyrir þá.
Venjuleg hef ég bakað venjulegar gerbollur og fyllt þær rjóma og húða með súkkulaði.
En nú rakst ég á góða uppskrift á Vísi og tók bollubaksturinn á næsta stig og bjó til vatnsdeigsbollur.
Það tókst svona ljómandi vel, uppskriftin virðist algerlega "ídíótaheld" þó að ef til vill megi deila um hvað vel tókst til með lögunina.
Það gleymist þó þegar rjómi, sulta og súkkulaði er bætt við.
P.S. Svo ég nöldri nú yfir einhverju, þá verð ég eiginlega að benda á að það jaðrar við "upplýsingafölsun" að kalla þetta vatnsdeigsbollur, eiginlega ættu þær að heita smjörbollur.
En það hljómar vissulega heilsumsamlegar að segjast hafa fengið sér 3. vatnsdeigsbollur en að hafa sporðrennt þremur smjörbollum.
13.1.2021 | 01:09
Höldum RUV á auglýsingamarkaði - Fréttatíminn er aldrei ókeypis
Það hefur vakið mikla athygli að Stöð2 hafi ákveðið að "læsa" fréttatíma sínum.
Að sumu leyti er það þróun sem hefur mátt sjá víða um lönd, þannig að fréttamiðlar, t.d. á netinu, hafa í auknum mæli farið að læsa síðum sínum nema fyrir þeim sem eru reiðubúnir til að greiða áskriftargjald.
Fréttirnar eru auðvitað aldrei ókeypis, það er bara spurning um hvernig borgað er fyrir þær.
En eðlilega hefur umræðan á Íslandi ekki síst snúist um hvernig aðrir miðlar geti keppt við Ríkisútvarpið, hvort að ekki sé rétt að taka það af auglýsingamarkaði og hvernig eigi að bæta Ríkisútvarpinu það upp.
Persónulega tel ég slíka umræðu á algerum villigötum.
Ef Ríkisútvarpið hefur t.d. 20% hlutdeild á Sjón/útvarpsmarkaði, þá hefur það lítið upp á sig að taka það af auglýsingamarkaði, ef aðrar tekjur gera því kleyft að halda markaðshlutdeild sinni.
Það þýðir einfaldlega að 20% af neytendum á sjón/útvarpsmarkaði eru teknir af markaði og auglýsendur þurfa að finna aðrar leiðir til að ná til þeirra. Auglýsingar í öðrum miðlum á Íslenskum sjón/útvarpsmarkaði eru ólíklegar til að þjóna því hlutverki.
Líklega er þá vænlegra að leita til annara miðla, s.s. FaceBook, sem hefur mikla útbreiðslu á Íslandi.
Persónulega finnst mér rökréttara að halda Ríkisúvarpinu á auglýsingamarkaði en fella niður útvarpsgjaldið og allan stuðning hins opinbera.
Ef ríkið vill vera á samkeppnismarkaði þá á ríkið einfaldlega að vera á samkeppnismarkaði - án allrar forgjafar.
Stjórn ríkisútvarpsins getur svo ákveðið hvort að þeir vilji vera áskriftarmiðill eða fara aðrar leiðir.
Ríkisrekstur finnst einnig á öðrum samkeppnismörkuðum, t.d. bankamarkaði.
Myndu Íslendingar vilja að allir Íslendingar yrðu skyldaðar til að leggja 20% af launum sínum inn á reiking í ríkisbanka?
Eða vera skyldaðir til að leggja 40% af öllum sparnaði sínum inn í ríkisbanka? Burtséð frá þeim kjörum sem bjóðast?
Þætti Íslendingum eðlilegt að vera skyldaðir til að að í það minnsta 30% af skuldum þeirra yrði að vera í ríkisbanka, burtséð frá þeim kjörum sem ríkisbankar bjóða?
Líklega ekki.
En Íslendingar treysta einstaklingum og fyrirtækjum til þess að velja sér þær fjármálastofnanir sem henta þeim eða bjóða best.
Ef ríkið vill eiga banka á samkeppnismarkaði er eðlilegt að hann lúti og um hann/þá gildi sömu reglur og viðmið og aðra banka á þeim markaði.
Er ekki rétt að slíkt gildi einnig um fjölmiðla?
Stundum er talað um að "þrígreiningu" valdsins og þar þurfi að vera aðgreining.
Persónulega finnst mér sú aðgreining á Íslandi oft á tíðum vera umdeilanleg.
En það er ekki síður þörf á því að kljúfa "fjórða valdið" frá ríkisvaldinu.
Engin hagræðing í Efstaleiti | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.4.2020 | 11:43
Vorboðinn ljúfi - og bragðgóði
Vorboðinn er örlítið misjafnur eftir löndum. Á Íslandi er vorboðinn auðvitað almennt talinn vera lóan, þó að reyndar hafi margir einstaklingar sinn "prívat" vorboða.
Hér í Eistlandi, þegar ég hef verið hér um vor eins og nú, hefur vorboðinn alltaf verið sá sami.
Það er villti hvítlaukurinn. Það er eitthvað svo unaðslegt að ganga um garðinn, sjá tréin byrja að skjóta út brumum, "snæbjöllurnar" blómstrandi og svo kemur villti hvítlaukurinn.
Ég ét blöðin, ég brytja þau út í smjör, ég nota þau á pizzur og ég bý til súpu. Villihvítlaukssúpa er "eiturgrænn" herramannsmatur og að mörgu leyti minn "prívat" vorboði, einstaklega ljúffeng.
Auðvitað dugar villti hvítlaukurinn ekki einn og sér, en vatn, rjómi, salt og pipar er allt sem þarf til viðbótar. Sumir bæta kartöflum út í til að gera hana aðeins matarmeiri og það virkar líka.
8.2.2020 | 01:42
Sápuópera með 10.000 (tíu þúsund) þætti
Eins og oft áður var ég að þvælast eitthvað um netið og rakst þá á þá staðreynd að í dag (föstudag) hefði verið sýndur 10.000, þátturinn af Bresku sjónvarpsseríunn, eða "sápuóperunni" "Coronation Street".
Þó að mig reki minni til að hafa eitthvað heyrt um þessa "seríu" hef ég aldrei séð einn einasta þátt.
En fyrsti þátturinn var sýndur fyrir 60 árum síðan, 1960.
Það hlýtur að vera ákveðið afrek að hafa haldið þessu gangandi í öll þessi ár.
En það besta sem ég sá var stutt umsögn sem einhver hafði sett inn, eitthvað á þá leið að fyrstu 30. árin hefðu verið góð, en síðan hefði þetta verið allt niður á við.
En þetta gæti auðvitað verið "últimate" hámhorf. lol
8.2.2020 | 01:07
Tapa Kommunist
Börnin mín hafa lengi hrifist af Tapa og Viljandi. Það ásamt "mannasúpunni" hafa lengi verið aðhlátursefni þeirra á milli.
Ekki má heldur gleyma littla þorpinu "Ape", sem er í Lettlandi, rétt við landamæri þess og Eistlands.
En Tapa hefur verið í byggð í óratíma, en þó að enginn viti 100% hvernig nafnið er til komið en fyrst var þar "herragarður" með svipuðu nafni.
En bærinn á seinni tíma tilveru sína að þakka járnbrautarlest sem lögð var í gegnum bæinn og svo einnig flugvelli/herflugvelli.
En goðsögnin um "Tapa Kommunist" í líka góðan stað í hjörtum margra Eistlendinga.
En Tapa er ein beygingarmynd Eistnesku sagnarinna að drepa. Goðsögnin segir að stuttu eftir hernám Sovétríkjanna á Eistlandi hafi deild Kommúnistaflokksins í Tapa gefið út blaðið "Tapa Kommunist", sem getur á Eistnesku hvoru tveggja þýtt, "Tapa kommúnistinn" eða "Drepum kommúnistann".
Því miður er ekkert sem bendir til þess að goðsögnin sé sönn, en góð er hún eigi að síður. En t.d. var til blað sem hét "Tartu Kommunist".
Eldvatnið í Tapa (Tapa põlev vesi) er einnig vel þekkt í Eistlandi.
Þá nafngift má rekja til þeirrar staðreyndar að eftir Sovétmenn höfðu verið með MIG23 flugsveitir sínar um árabil á flugvellinum við Tapa, hafði lekið svo mikið eldsneyti niður í jarðveginn, að oft mátti kveikja í vatninu sem kom úr krananum hjá þorpsbúum.
Taparar unnu Viljandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 01:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2020 | 22:29
Þegar stórt er spurt: Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?
Enn og aftur er Polanski í miðju deilu sem þó nær yfir mun stærra svið.
Geta "vondir" einstaklingar skapað "góða" list?
Nú er auðvitað umdeilanlegt hvað er góð list og allt það, og stundum má efast um sekt viðkomandi einstaklinga, en það er þó varla í tilfelli Polanski´s.
En hvers vegna hefur hið hámenningarlega og lýðræðislega Frakkland neitað að framselja hann? Er það vegna þess að einhver önnur lögmál gilda um listamenn en aðra "dauðlega" einstaklinga? Er það ef til vill vegna þess að í Frakklandi þess tíma þótti "framferði" Polanskis nokkuð sjálfsagt mál?
Ekki veit ég svarið við því.
Er Bíó Paradís sem sýnir nýjust mynd Polanski´s að leggja blessun sýna yfir að "nauðgari" gangi laus? Er bíóið að kynda undir einhverri "nauðgunarmenningu"?
Ekki veit ég svarið við því.
Er Reykjavíkurborg, sem styrkir Bíó Paradís, að leggja blessun sína yfir það að kvikmyndir "nauðgara" séu sýndar (og þá niðurgreiddar af Reykjavíkurborg) í Reykjavík?
Ekki veit ég svarið við því.
Eru leigusalar Bío Paradísar samábyrgir fyrir því að verið sé að sýna myndir "nauðgara" í húsakynnum í þeirra eigu? (Varð eiginlega að koma þessu að vegna fréttanna undanfarna daga).
Ekki veit ég svarið við því.
Er mögulegt að skilja á milli höfunda og verka þeirra eða ekki?
Um það hefur oft verið deilt undanfarin ár.
Það nægir að nefna nöfn eins og Woody Allen, Michael Jackson, Kevin Spacey, Bill Cosby og já Roman Polanski.
Þó er munurinn sá að af þessum einstaklingum hafa aðeins Bill Cosby og Roman Polanski verið sakfelldir, alla vegna eins langt og minni mitt nær.
En ég viðurkenni fúslega að hafa notið "listaverka" sem þessir einstaklingar hafa komið nálægt, jafnvel eftir að viðkomandi hafa verið sakfelldir.
En listamenn hafa einnig legið undir ámæli fyrir pólítískar skoðanir sínar eða "daður" í "óæskilegar" áttir.
Norðmenn hafa til dæmis átt í "erfiðu" sambandi við Hamsun, eftir "samgang" hans við nazista.
Íslendingar þekkja einnig umræðuna um Gunnar Gunnarsson og Guðmund Kamban.
Halldór Laxness "lofsaung" kommúnista og hylmdi yfir voðaverkum þeirra. Ættu Íslendingar að taka það með í reikninginn þegar þeir meta skáldverk hans?
Persónulega held ég að hver og einn verði að ákveða allt þetta fyrir sig.
Ég setti inn hér að ofan "ég veit ekki svarið við því", vegna þess að ég tel ekkert eitt svar rétt.
Hér gildir ákvörðun hvers og eins.
Ég hef aldrei átt erfitt með að skilja á milli pólítískra skoðana eða gjörða og "afurða" listamanna.
Ég hef notið mynda Woody Allen, þrátt fyrir ásakanir á hendur honum, ég hef horft á myndir Polanskis þó að ég viti af sekt hans.
Ég les bækur Hallgríms Helgasonar, þrátt fyrir að gefa minna en ekkert fyrir pólítískar skoðanir hans, það truflar mig ekkert við að lesa bækur Einars Kárasonar að hann hafi verið í framboði fyrir Samfylkinguna, og Einar Már Guðmundsson er minn uppáhalds rithöfundur þó að pólítískar skoðanir hans falli ekki að mínum.
Ef svo bæri undir gæti ég alveg hugsað mér að lesa skáldsögu eftir morðingja.
Og ég veit að Halldór Laxness er í uppáhaldi hjá mörgum þó að þeir telji hann eiga skilið skömm í hattinn fyrir að hafa hylmt yfir voðaverkum kommúnista.
Kastar "pedófílískur" boðskapur leiðtoga vinstrisinnaðra hreyfinga í kringum 1970 og seinna græningja, skugga á þær hreyfingar, eða gerir það að verkum að leiða ætti hjá sér allan boðskap þeirra?
Auðvitað ekki, alla vegna ekki af þeim ástæðum.
En fer best á, eins og í mörgum tilfellum best á að hver ákveði fyrir sig. Sumir ákveða að sniðganga mynd Polanskis, aðrir ganga lengra og sniðganga Bíó Paradís fyrir að veita henni brautargengi.
Aðrir njóta hennar og annara listaverka, burtséð frá öðrum (mis)gjörðum listamannanna.
Ef til vill er best að enda þetta á "c´est la vie".
Reiði vegna 12 tilnefninga J'accuse | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt 15.6.2020 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2020 | 18:24
Skattheimta Reykjavíkurborgar hlýtur að verða til hækkunar á leiguverði
Nú má sjá í fréttum að rekstur Bíó Paradísar sé í hætttu, vegna yfirvofandi mikillar hækkunar á leigu húsnæðis þess.
Það er reyndar eitthvað á reiki hvað hækkunin eigi að vera mikil, í viðhengdri frétt er talað um ríflega tvöfuldun. Annars staðar hefur verið talað um þreföldun, ég ætla ekki að dæma um hvort sé rétt.
Ég hef séð talað um þessa hækkun með hálfgerðri "hundablístrutaktík", talað eins og "ljótir kapítalistar" séu að drepa mikilvæga menningarstarfsemi o.s.frv.
Ég ætla ekki að dæma neitt um mikilvægi starfseminnar, hef aldrei komið í Bíó Paradís en hef heyrt vel af henni látið. Góð kvikmyndahús eru að mínu viti gulls ígildi.
En í síðastu færslu talað ég um fasteignaskatta og þar kom fram að fasteignaskattar hafi hækkað um u.þ.b. 50% að raunvirði síðan 2015.
Það er auðvitað að meðaltali, og ég get ekki ímyndað mér að hækkunin á Hverfisgötu sé undir meðaltali, frekar líklegt að hún sé vel yfir meðaltali.
Að sjálfsögu hlýtur slíkt að koma fram í hækkun leiguverðs. Hvernig í ósköpum væri hægt að komast hjá því?
Eins og kemur svo fram í fréttinni, er núverandi leiguverð rétt um 40% af meðal leiguverði í Reykjavík.
Fasteignaskattar taka ekkert tillit til þess.
Þess vegna hljóta hækkandi fasteignaskattar að leiða til hækkandi leiguverðs. Ekki bara í Bíó Paradís, heldur svo gott sem alls staðar.
P.S. Bæti hér við. Það kemur fram í frétt hjá RUV að fasteignagjöld hafi hækkað um 80% síðan núverandi eigendur keyptu fasteignina. En það kemur þó ekki fram hvaða ár það var.
En það munar líklega um minna.
Lögðu fram hugmynd um tvöföldun leiguverðs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Menning og listir | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.1.2020 | 02:55
Stóra "lúðamálið" og "sósíal realísk" kvikmyndagerð
Mér fannst nokkuð gaman að lesa um "stóra lúðamálið". Sem gömlum "landsbyggðarlúða", sem breyst hefur í "sófistíkeraðan" stórborgarmann, er mér auðvitað málið skylt og þekki það af eigin raun. Frá báðum ef ekki fleiri hliðum.
Það er vissulega freistandi að taka upp þykkjuna fyrir "landsbyggðarlúðana", þó þykist hinn "sófistíkeraði" stórborgarbúi vita betur.
Það er nefnilega þetta með raunsæið í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum.
Það vill oft fara fyrir ofan garð og neðan.
Það kann auðvitað að koma mörgum á óvart að ungt fólk í New York býr ekki eða lifir eins og sést í "Friends", allra síst ef það er atvinnulaust eða með stopula vinnu. Það eru víst sömuleiðis býsna margir New York búar sem deila ekki lífsstíl með vinkonunum í "The Sex And The City".
Homer er ekki týpískur starfsmaður í Bandarísku kjarnorkuveri og ef við skellum okkur í sumarfrí til Torquay, þurfum við ekki að eiga von á svipuðum trakteringum og gerðust í "Fawlty Towers", þó að þeir þættir (eins og margir aðrir) séu reyndar byggðir á raunveruleikanum að hluta til.
Bandarískur lögreglumaður sem ég eyddi einu sinni smá tíma andspænis á bar, sagði mér í óspurðum að kleinuhringjaát þeirra í kvikmyndum væri ofgerð og leiðinleg steríótýpa.
Líklega eru rannsóknarlögreglumenn heldur ekki jafn einmanna, þunglyndir, drykkfelldir og fráskyldir og sýnt er í þáttum og kvikmyndum. Alla vegna ekki þeir sem ég hef kynnst, en þeir eru reyndar það fáir að þeir teljast ekki marktækt úrtak.
Ég leyfi mér sömuleiðis að efast um að þeir félagar Ólafur Ragnar og Georg séu týpískir starfsmenn á bensínstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Ættu stéttarfélög ef til vill að fara að huga að "ímynd" félagsmanna sinna í kvikmyndum og sjónvarpi?
Þannig er það að oft velja sögu- og kvikmyndagerðarmenn að sýna okkur frekar ýkta, en skemmtilega/áhugaverða útgáfu af raunveruleikanum.
Oft eitthvað sem þeir teljs "söluvænlegt".
Það er engin ástæða til þess að taka það of hátíðlega, persónulega hef ég engan áhuga á því að taka undir einhver áköll um "sósíal realíska" kvikmyndagerð.
Kæfum ekki kvikmyndir eða önnur skáldverk með kröfum um um að þau endurspegli raunveruleikann.
Það er ekkert að því að einhver þeirra geri það, en alls ekki nauðsyn.
Menning og listir | Breytt 12.1.2020 kl. 02:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)