Flugeldasýningar á aðfangadag

Ég fór óvenjuseint á fætur í morgun.  "Væbblaðist" um, undirbjó matseldina og drakk kaffi.

Fór óvenjuseint á netið þennan morgunin, enda vaninn sá að það eru ekki margar né miklar fréttir á aðfangadag.  Þær snúast um færð og "fílgúd", messur og matseld.

En loksins þegar ég dreif mig á netið blasti við hver "bomban" á fætur annari.

Búið að semja í "Brexit", Kári Stef og Þórólfur allt að því komnir í hár saman yfir því hverjum datt í hug að ræða við Pfizer, og síðast en ekki síst, Bjarni Benediktsson í "hörkupartýi" í miðjum faraldri.

Það kemur einnig fram í fréttum að þar hafi flestir haft áfengi um hönd. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar voru sumir einstaklingar svo óforskammaðir að þeir föðmuðust.

Þannig að ekki vantaði fréttirnar.

Ekki dettur mér í hug að hnýta í Bjarna fyrir að hafa verið þarna.  Ég hefði ábyggilega verið þarna sjálfur - ef aðeins mér hefði verið boðið.

En ég er ekki fjármálaráðherra, né formðaur stjórnmálaflokks, hvað þá að ég hafi verið að hvetja almenning til að gæta ítrustu varúðar í sóttvörnum.  Ég hef farið allra minna ferða án þess að óttast "veiruna" um of.

Allt þetta kann auðvitað að vera skýringin á því að engin hefur boðið mér í partý lengi.

Það mátti reyndar einnig lesa í fréttum að duglegur "kóvídetectiv" hefði tilkynnt samkvæmið til lögreglu og tekið fram að fjármálaráðherra væri staddur í samkvæminu í tilkynningunni.

Það er hollara fyrir alla Íslendinga, ráðherrar meðtaldir, að gera sér grein fyrir því að fylgst er með þeim.

Þannig er reyndar staðan víðast um heim, og boðar okkur engan fögnuð.

En það er, í það minnsta í mínu minni, langt síðan aðfangadagur hefur verið jafn fréttaríkur.

 

 

 


mbl.is Hefði átt að yfirgefa listasafnið strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Samkvæmt yfirlýsingu staðarhaldara var um opinn viðburð að ræða þannig að þér þurfti ekkert að vera boðið til að mega mæta.

Sú yfirlýsing vekur reyndar upp fleiri spurningar en hún svarar, því samkvæmt gildandi reglum eiga vinveitingastaðir að vera lokaðir, nema þeir sem selja mat mega hafa opið til kl. 22:00.

Þarna var klukkan komin langt yfir umrædd tímamörk, á listasafni. Selur listasafnið mat og hver fer eiginlega út að borða á listasafni?

Þarna virðast næstum allar sóttvarnarreglur hafa verið brotnar.

Guðmundur Ásgeirsson, 24.12.2020 kl. 23:03

2 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta.  Nú hef ég ekki haft fyrir því að kynna mér þetta mál í smæstu atriðum, einfaldlega verið að hræra í pottum og njóta afrakstursins. 

En er þetta veitingahús?  Er þetta ekki "listasafn", eða "gallery", ekki að ég viti neitt um það.

Var áfengi gefið eða selt?  Hef hvergi séð nokkuð um það.

Hins vegar þekki ég það að svona samkomur geta blásið út í gestafjölda, svona rétt eins og "góð mótmæli", ef þannig ber undir og "boðið" spyrst út.

Það getur verið erfitt að eiga við slíkt.

Persónulega finnst mér þetta vera mikill ys og þys út af littlu. 

Að því sögðu þá er það auðvitað svo að kjörnir fulltrúar þurfa að hafa varann á og hegða sér með sannfærandi hætti.

En spurningin sem vaknar líka, er hvort að þetta hefði einu sinni komist í fréttir ef ráðherra hefði ekki verið á svæðinu?

Hefði atburðurinn verið tilkynntur til lögreglu, ef sá sem hringir í lögregluna hefði ekki tekið eftir því að Bjarni var á svæðinu?

Ömögulegt að segja um slíkt.

G. Tómas Gunnarsson, 25.12.2020 kl. 03:33

3 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Já það er langt síðan Aðfangadagur hefur byrjað með jafn mikilli Þórðargleði og í gær.

Annars hefur verið bent á að það verði hvorki Bjarni Ben. né Sjálfstæðisflokkurinn sem gjaldi fyrir þennan aulahátt formannsins heldur VG og Katrín Jakobs. Vegna þess að kjósendur Sjálfstæðisflokksins eru þeir sauðtryggustu sem um getur á Íslandi og þeir láta einfaldlega allt yfir sig ganga svo lengi sem flokkurinn er við völd.

En kjósendur VG munu refsa flokki sínum og formanni fyrir að láta þetta yfir sig ganga. Því að Katrín mun í meðvirkni sinni afsaka þessa vitleysu Bjarna eins og hún hefur afsakað annað hingað til.

Hitt er svo að þeir sömu Sjálfstæðisflokksmenn sem segja þetta brot formannsins á reglum sem hann setti sjálfur vera algjört smáatriði hefðu froðufellt af bræði ef um annan "leiðtoga" hefði verið að ræða, sérstaklega ef Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið í stjórnarandstöðu.

Það er óneitanlega magnað hvernig "staðreyndir" og "réttlæti" og "sanngirni" og fleiri svona prinsipp virðast algjörlega undir því komin í hvaða stjórnmálaflokki fólk er. Bendir til að siðferðiskennd fólks sé lituð/mótuð meira af pólitískri sannfæringu og valdastöðu en öðru. Rannsóknarefni.

Kristján G. Arngrímsson, 25.12.2020 kl. 07:27

4 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

G. Tómas.

Þetta virðist vera sýningarsalur með veitingaleyfi. Aftur spyr ég, hver fer út að borða á sölusýningu myndlistaverka?

Kristján.

Ég hef ekki tjáð mig um annað en staðreyndir málsins miðað við gildandi reglur um sóttvarnir sem þarna voru þverbrotnar. Hef látið öðrum eftir að leggja mat á þær eða draga pólitískar ályktanir.

Guðmundur Ásgeirsson, 25.12.2020 kl. 15:06

5 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján þakka þér fyrir þetta.  Sjálfsagt hefur veri um að ræða Þórðargleði í mörgum tilfellum, en sjálfsagt "hina réttlátu" í öðrum þannig er það oft.

Ég hins vegar tel mig sjálfan í engri ástæðu til að fjargviðrast út af atburðinum, læt það "hinum vammlausu" eftir.

Ég reikna nú með að Bjarni og Sjálfstæðisflokkurinn muni finna fyrir þessum atburði, en það er óvíst hve lengi.  Framhaldið enda enn óráðið.

Hvaða refsingu skyldu "hinir vammlausu" telja hæfilega fyrir Íslenska kaþólikka?

Er ekki lágmarkskrafa að presturinn segi af sér og kaþólíkar vitni opinberlega um að það sé ekki nóg að treysta á guðs vernd?

Hitt er svo að ég tel rétt að "siðferði" er gjarna mun sterkara í stjórnarandstöðu.  Jafnréttislög hafa "allt aðra merkingu" fyrir þingmann í sjtórnarandstöðu, en t.d. forsætisráðherra.  Það eru gömul sannindi og ný.

@Guðmundur, þakka þér fyrir þetta.  Án þess að vera sérfræðingur í "verslunarrétti" "sóttvarnarlögum", eða málefnum "listasafna", þá held ég að umrætt hús sé ekki listasafn.  Líklega má telja það "gallery", eða sambland of sýningarsal og verslun.

Máttu verslanir ekki vera opnar til 23.00  "Þorlák", gildir það ekki einnig um "gallery"?  Síða hefur það ekki tíðkast að "hreinsa út" úr verslunum á lokunartíma, heldur einungis að hleypa ekki fleirum inn, þó er hurðinni ekki alltaf skellt á þá sem eru að leita að jólagjöfum.

Mér hefur reyndar skilist að býsna margar verslanir í miðbæ Reykjavíkur hafi í það minnsta á köflum brotið reglur um fjöldatakmarkanir, enda getur lögreglan víst ekki verið alls staðar.

Ekkert af því afsakar það ef "galleryið" hefur brotið fjöldareglur, eða fjarlægðarmörk. 

Þar gildir hið sama og oft áður að "hinir vammlausu" munu kasta fram fordæmingu.  Ætli kaþólíkkarnir myndu ekki tala um að "sá yðar er syndlaus er, kasti fyrsta steininum"?

G. Tómas Gunnarsson, 25.12.2020 kl. 17:32

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má svo bæta við hér að ef ég man rétt mega verslanir vera með 5 einstaklinga á  hverja 10 fermetra.

Er "gallery" ekki verslun?

Ég reikna með því að húsið þarna sé einhverjir hundruðir fermetra.

Þá stendur eftir 2ja metra reglan og grímunotkun.

En pólítíski spuninn (sérstaklega að þetta muni koma VG illa) mun auðvitað halda áfram.  Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það.

G. Tómas Gunnarsson, 25.12.2020 kl. 17:47

7 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Það er nú alveg eðlilegt að gerðar séu meiri og ríkari kröfur til "háttvirtra" ráðherra en pöpulsins - sérstaklega er aðfinnusluvert að ráðherra brjóti þarna mjög sérstæðar reglur sem hann sjálfur setti og hefur þóst hvetja almúgan til að neita sér um mannleg samskipti. Hann er orðinn ber að hræsni sem er sjálfsagt og eðlilegt að gagnrýna hann fyrir og núa honum um nasir.

Það hefur nákvæmlega enga merkingu að einhver óbreyttur múgamaður segist sjálfur hefði gert nákvæmlega það sama og ráðherrann vegna þess að ráðherrann er ekki óbreyttur múgamaður. Það eru engir "vammlausir" að fordæma þarna einhvern jafningja sinn. Þeir sem fordæma framferði BB eru í mörgum tilvikum fólk sem hefur lagt sig fram um að fylgja sóttvarnareglunum sem BB átti þátt í að setja þannig að það er bara ekkert furðulegt að fólki sé misboðið. Að gera lítið úr þessu framferði Bjarna er að gera lítið úr öðru fólki (sem ekki er í forréttindastöðu í samfélaginu) og hver hefur efni á því?

Svo er líka einsýnt að BB telur sig hafinn yfir þær reglur sem hann sjálfur setti - svona eins og Pútín - enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn af einhverjum ástæðum verið fádæma fundvís á hrokagikki til formennsku. En eins og ég nefndi þá eru engir kjósendur á Íslandi jafn sauðtryggir og lausir við gagnrýni á eigin formenn og kjósendur Sjálfstæðisflokksins. Þeir fylgja leiðtogum sínum í blindni, mun meira en kjósendur annarra flokka.

Kristján G. Arngrímsson, 25.12.2020 kl. 18:49

8 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

@Kristján, þakka þér fyrir þetta. Ég tel það heilt yfir réttmætt að það séu gerðar meiri kröfur til ráðherra, alþingismanna og opinberra starfsmanna, sérstaklega embættismanna, þegar kemur að því að fylgja lögum og vera "fyrirmynd".

Það er þó áríðandi að allir geri sér grein fyrir því að öll erum við mannleg og breysk.

Ég tel það alls ekki marklaust að "óbreyttur múgamaður", eða það sem ég kalla almúgamaður, reyni að setja sig í spor ráðherra.  Það er alls ekki so erfitt.

Það er hins vegar rangt að Bjarni sé að bjróta einhver reglur sem hann sjálfur setti.  Mér best vitanlega hefur hann engar reglugerðir sett hvað varðar sóttvarnir.

Það undanskilur hann hins vegar á engan hátt frá því að fylgja þeim reglugerðum sem hafa verið settar.

Það er fullt af "vammlausu" fólki sem hefur fordæmt Bjarna, sjálfsagt margir réttilega.  Sumir geta talist "jafningjar" hans, aðrir ekki.

Enn og aftur hefur Bjarni ekki hafið sig yfir neinar reglur sem hann "sjálfur setti", og líkingin við Pútin frekar hjákátleg. 

Hitt er svo, að mínu mati, að vissulega má hafa áhyggjur af því að Bjarni hafi ekki sértaklega gott "pólítískt nef", enda hefði hann þá líklega gert sér betur grein fyrir "hættunni".  Það er svo ekki í fyrsta skipti.

G. Tómas Gunnarsson, 25.12.2020 kl. 20:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband