Færsluflokkur: Sveitarstjórnarkosningar

Að skilja eða skilja ekki afleiðingar orða sinna, það er spurningin?

Ekki ætla ég að fullyrða hvort að Skúli Helgason hafi sagt það berum orðum að dagforeldrar yrðu óþarfir árið 2023.

En það er ekki erfitt að draga þá ályktun að svo yrði, þegar stjórnmálamenn gefa loforð um að öll börn 12. mánaða og eldri fái dagheimilispláss.

Það er að flestu leyti erfitt að sjá hvaða hlutverk dagforeldrum væri ætlað ef slíkt loforð hefði verið efnt.

Sé haft í huga að niðurgreiðslur á þjónustu dagforeldra eru lægri en hjá dagheimilum, er auðvelt að sjá að dagforeldrar hafi ákveðið að hætta starfsemi.

Líklega er einfaldasta lausnin að niðurgreiðslur fylgi barni, og foreldrar geti áveðið hvernig þeirri fjárhæð sé ráðstafað, geti notað hana hjá dagheimilum, dagforeldrum, verið heima með barnið eða fundið önnur úrræði.

Er það ekki dulítið skrýtið að sveitarfélög geti sparað sér stórar fjárhæðir með því að bjóða upp á færri dagheimilispláss?

En orðum fylgir ábyrgð, ekki síst ef búið er að tvinna þau saman í kosningaloforð.

 

 


mbl.is „Hef ekki sagt neitt í þessa veru“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef til vill fyrst og fremst ósigur lýðræðisins

Það er mér að meinalausu að flokkar Macron og Le Pen bíði ósigur og atkvæðin færist heldur hægra megin við miðjuna. 

Reyndar virðist Franski Sósíalistaflokkurinn ætla að fá ágætis kosningu sömuleiðis, þannig að úrslitin eru "hefðbundnari" en undanfarið ef svo má segja.

En það sem stendur ef til vill upp úr er áætluð kjörsókn.  Þegar þetta er skrifað er talað um að hún hafi verið eitthvað rétt yfir 30%.

Tveir þriðju Franskra kjósenda virðast hafa hundsað þessar kosningar. Þátttakan er talinn enn lægri á meðal ungra kjósenda (undir 35) eða í kringum 23%.

Þetta eru svipaðar tölur og í fyrri umferðinni, en fyrir þá seinni eru þær ekki endanlegar þegar þetta er skrifað.

Vissulega er það svo í þessum kosningum sem öðrum að það eru þeir kjósendur sem nota réttindi sín sem ráða niðurstöðunni.

En það er óneitanlega vert að gefa því gaum þegar kjörsókn er jafn lítil og raunin er nú i Frakklandi.

Hvort það er skortur á trú kjósenda á lýðræðinu eða á frambjóðendum ætla ég ekki að fullyrða um, ef til vill hvoru tveggja, eða aðrar ástæður sem blasa ekki við.

Það má einnig velta því fyrir sér hvort að aukin hætta sé á að einstaklingar og hópar leiti annara leiða en að greiða atkvæði til að finna óánægju sinni farveg.

Léleg kosningaþátttaka enda ekki eina "aðvörunin" sem hefur komið fram í Frakklandi að undanförnu.

En hins vegar er enn býsna langt til næstu forsetakosninga og margt getur breyst á þeim tíma.  En það er ljóst að "hefðbundnu" flokkarnir eru að ná vopnum sínum, en hvort að þeir hafi "svörin" sem Frakkland þarfnast er önnur spurning.

 


mbl.is Ósigur Macron og Le Pen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosningavél Sjálfstæðisflokksins

Ég rakst á þessa skemmtilegu frétt á Vísi.  Þar er sagt frá því að Svavar Benediktsson, afabarn Svavars Gestssonar fyrrverandi alþingismanns hafi skrifað B.A. ritgerð um "kosningamaskínu" Sjálfstæðisflokksins á árunum 1929 til 1971.

Efnið vakti vissulega áhuga minn og ég fór á vef Skemmunnar og fann þar ritgerðina og hlóð henni niður.

Ritgerðina má einnig lesa hér.

Ég ætla ekki að fella neinn fræðilegan dóm yfir ritgerðinni, engin ástæða til þess af minni hálfu að elta ólar við slíkt, en ég naut lestursins og fannt hún lipurlega skrifuð.

Flest hafði ég heyrt minnst á áður og í raun lítið sem kom á óvart, en vissulega voru tímarnir aðrir.

En ég naut lestursins og kann höfundi bestu þakkir fyrir ritgerðarsmíðina.

Hjá sjálfum mér voru fyrstu "beinu" afskipti af Íslenskum stjórnmálum einmitt að sitja í kjördeild og fyljast með hverjir komu og greiddu atkvæði.  Þegar hugsað er til baka er það obbólítið merkileg lífsreynsla að hafa tekið þátt í slíkum "njósnum".

Þá var ég reyndar barn að aldri, en það kom lítið að sök. 

Áður hafði ég reyndar borið út Tímann og komst merkilega óskaddaður frá því.

En þeim fer líklega fækkandi sem muna eftir því að röð af fulltrúum flokkanna hafi setið í kjördeildum, nú eða eftir Tímanum.

Já, Þannig týnist tíminn.  

 


Borgarstjóri ræktar "garð sinn" og bílastæði

Það er rétt að taka það fram í upphafi að þessi færsla er tengd við ríflega 3ja ára gamla frétt af mbl.is.  Ég minnist þess ekki að hafa tengt færslu við jafn gamla frétt.

En í fréttinni kemur fram að Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hafi samþykkt á funti sínum stækkun á lóð í eigu Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra.

Það kemur jafnframt fram að lóð nágranna minnki samsvarandi.

Ekkert við það að athuga og um eðlileg viðskipti virðist að ræða.  Dagur segir í svari til mbl.is, að bætt hafi verið við lóð hans "órækt og rósarunnum".

Þar kemur einnig fram að lóðin sem minnkar, er skilgreind sem íbúðahúsalóð.  Þar sé þó ekki bygging, heldur sé hún nýtt að mestu leyti sem bílastæði.

Ég held því að öllum sem hefðu lagt á sig lágmarks heimildavinnu hafi mátt vera ljóst að ekkert óeðlilegt sé við að húseign Dags (og konu hans) hafi 2. til 3. einkabílastæði (ég veit ekki hver heildarfjöldinn er, þó að keypt hafi verið 2. af nágranna).

Sjálfur hefði ég líklega ekki hikað við að taka sömu ákvörðun, hefði verðið verið ásáttanlegt, enda líklegt að verðgildi húseignarinnar hækki með aðgangi að bílastæðum.

En það sem vekur ef til vill upp pólítískar spurningar, er hvers vegna oddviti þess meirihluta í borgarstjórn sem hefur tekið "bíllausan lífstíl" upp á sína arma, og talið byggingar fjölda íbúða án bílastæða til framfara, telur sig þurfa þessi bílastæði?

Ef til vill er þetta gott dæmi um stjórnmálamenn sem segja, ekki gera eins og ég geri, gerið eins og ég segi?

Slíkt væri vissulega ekkert einsdæmi, en það væri fróðlegt ef fjölmiðlar myndu beina slíkum spurningum að borgarstjóra.

 


mbl.is Borgarstjóri stækkar garðinn sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nýting" atkvæða skiptir sömuleiðis miklu máli. "Nýtingin" skapar núverandi borgarstjórnarmeirilhluta

Það er erfitt að búa til kosningakerfi sem býður ekki stundum upp á skringilegar niðurstöður, það er svo margt sem getur ráðið úrslitum.

Eftir því sem fleiri flokkar bjóða fram, aukast líkur á því að atkvæði falli "dauð".  Það þarf ekki einu sinni að koma til "þröskuldur" eða lágmark.

Þannig féllu á milli 5 og 6% atkvæða í síðustu borgarstjórnarkosningum "dauð", það er að segja að þau féllu á flokka sem náðu ekki borgarfulltrúa.

En það skiptir ekki síður máli að atkvæðin "nýtist" vel.  Þannig getur stundum munað 1. atkvæði, hvort að flokkur fær (víðbótar) fulltrúa eða ekki.

Þannig er það "nýtingin" sem raun skapar núverandi borgarstjórnarmeirihluta.

Núverandi meirihluti er með minnihluta greiddra atkvæða, en það þarf ekki að vera óeðlilegt ef nokkur hluti fellur "dauður".

En meirihlutinn hefur færri greidd atkvæði að baki sér, en fulltrúar minnihlutans hafa.  Þar kemur "nýtingin" til sögunnar.

Meirihlutaflokkarnir hafa samtals 27.328 atkvæði en minnihlutaflokkarnir 28.028.

Þannig telst mér til að 72% fleiri atkvæði séu að baki þess borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins, sem hlaut 3.578 atkvæði og 1. fulltrúa, og borgarfulltrúum Samfylkingar, þar sem (að meðaltali) hver fulltrúi hefur 2.180 atkvæði að baki sér, en flokkurinn hlaut 15.260 atkvæði og 7.fulltrúa.

En listinn er eftirfarandi, flokkar, fjöldi borgarfulltrúa og svo meðaltal atkvæða að baki hvers þeirra:

Sósíalistaflokkurinn         1. fulltrúi              3.758

Miðflokkurinn                1. fulltrúi              3.615

Vinstri græn                 1. fulltrúi              2.700

Flokkur Fólksins             1. fulltrúi              2.509

Viðreisn                     2. fulltrúar             2.406

Píratar                      2. fulltrúar             2.278

Sjálfstæðisflokkurinn        8. fulltrúar             2.268

Samfylking                   7. fulltrúar             2.180

 

Átta flokkar fengu kjörna borgarfulltrúa en aðrir átta flokkar fengu engan fulltrúa.

Gamla sagan um að hvert atkvæði skipti máli er engin bábylja, því meirihluti getur tapast á örfáum atkvæðum, jafnvel einu, eins og má lesa hér og hér.

 

Byggt á tölum frá mbl.is

 

 


mbl.is Hvað verður um dauð atkvæði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Annað sjónarhorn í kórónubaráttunni - Sóttvarnaraðgerðir Reykjavíkurborgar og Dags

Það getur verið merkilegt að sjá fréttir frá "öðru sjónarhorni" en venjulega. Hér er t.d. myndband frá góðgerðarstofnum Michael Bloomberg, sem fjallar um hvernig Reykjavíkurborg og borgarstjórinn hafa leitt baráttuna gegn Kórónuveirunni.

Borgin og borgarstjórinn hafa verið leiðandi í rakningu smita, raðgreiningu á stökkbreytingium á veirunni.

Borgin og borgarstjórinn voru í startholunum þegar fyrstu smitin komu til borgarinnar.

Það er vonandi að enginn missi af sóttvarnarfundum Dags B. Eggertssonar, þar sem hann kynnir sóttvarnaraðgerðir sínar.

 

 

 

 

P.S.  Þegar ég sé "fréttir" sem þessar verð ég stundum allt að því þunglyndur, en um fram allt hugsi.

Getur verið að margar af þeim fréttum sem ég sé frá "fjarlægum stöðum", séu jafn rangar og þessi?

En hér má lesa frétt Vísis um þetta mál og mér var bent á.

 


Skrýtið hagræði við sláttinn

Við eigum það líklega sameiginlegt Reykjavíkurborg og ég að grassláttar er gjarna oftar þörf en að mér þætti best.

Í gær sló ég lóðina hjá mér í 6. sinn það sem af er sumri.

Mér hefur þó ekki dottið það snjallræði í hug að þekja hluta lóðarinnar með grjóthrúgum til að minnka grassláttinn.

Hjá mér er þessu eiginlega öfugt farið.

Mér finnst best að hafa beinar línur og fátt sem þvælist fyrir við sláttinn.  Slátturinn finnst mér vinnast best þar sem fátt er sem þarf að slá í kringum og hvað þá að beita "orfinu".

Ég hefði talið að á svæði sem þessu væri fljótlegast og einfaldast fyrir stóra sláttuvél að slá ef ekkert væri í vegi fyrir henni.

P.S. Einhverjir myndu sjálfsagt velta fyrir sér hvort að efnið væri ekki betur komið í annarri notkun, sem og hvort að "gróðurhúsaáhrif" flutnings og minna grass hefði verið reiknuð út.

Vangaveltur vakna einnig um hvernig Reykjavíkurborg hyggst koma í veg fyrir að illgresi skjóti rótum í grjóthrúgunum?

 


mbl.is Malarhrúgurnar minnka grasslátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Síðastliðinn föstudag var Sigurborg (formaður skipulagsráðs borgarinnar) ekki búin að uppgötva að um "mistök" væri að ræða

Núna er meirihluti borgarstjórnar á hröðu undanhaldi hvað varðar ákvarðanir sínar varðandi Reykjavíkurflugvöll.

Núna eru þetta "mistök" og meirihlutinn ætlar að skoða málin og læra af þeim eins og af öllum hinum mistökunum sem hann hefur "orðið" fyrir.

En síðastliðinn föstudag var Sigurborg Ósk Haraldsdóttir (Pírötum) ekki búinn að "uppgötva" að um mistök væri að ræða.

Þá var þetta í skipulaginu.

Það má heyra í þessu útvarpsviðtali hjá Harmageddon.

Þar er áðurnefnd Sigurborg í viðtali ásamt Vigdísi Hauksdóttur (Miðflokki). 

Umræða um flugskýlið hefst þegar u.þ.b. á 19:30, mínutur eru liðnar af viðtalinu, en það er vel þess virði að hlusta á það allt.

Ótrúlegt hvernig fulltrúum meirihlutans tekst að bera á borð ósannindi án þess að fjölmiðlar geri mikið úr því.

 

 


mbl.is Borgin gerði mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ, þeir gömlu góðu dagar þegar Reykjavíkurborg tapaði á ferðamönnum

Ég var sem oft áður að þvælast á netinu og þá kom þessi frétt upp neðarlega í einni leitinni.  Síðan í febrúar á þessu ári en það virkar eitthvað svo ótrúlega langt síðan.

Tap borgarinnar af ferðamönnum 6-9 milljarðar

Þessir gömlu góðu dagar.  En nú gefst tækifæri til að byrja upp á nýtt og ef til vill halda ferðamönnum i burtu frá borginni - til langframa.

Tap gengur ekki að eilífu.

 

Bera stjórnmálamenn enga ábyrgð í þessu máli?

Þetta þykir mér býsna merkileg frétt, þó að hér á mbl.is sé hún stutt og ekki innihaldsrík.

En á Visi.is, fann ég meiri upplýsingar.

Þar kemur fram m.a.:

"„Ég var kallaður á fund formanns [Hildu Jönu Gísladóttur] og varaformanns [Kristjáns Þórs Magnússonar] Eyþings og ranglega sakaður um kynferðislega áreitni gagnvart samstarfskonu, að því að mér virðist í þeim eina tilgangi að bola mér úr starfi á sem stystum tíma,“ segir Pétur Þór í samtali við blaðið.

Pétur Þór tók trúnaðarmann með sér á umræddan fund, þar sem ásakanirnar komu fram og honum gefinn kostur á starfslokasamningi , eða þá fá formlega áminningu og í kjölfarið vera sagt upp."

"Pétur Þór segir að lögmaður sinn hafi hins vegar svo fengið bréf sem samstarfskonan hafi sent stjórn í hendurnar og að þar hafi ekkert komið fram um kynferðislega áreitni. Stjórnarmenn Eyþings hafi svo reynt að þræta fyrir að hafa komið með ásakanirnar og hafi frásögn Péturs verið staðfest í vitnaleiðslum fyrir dómi.

Hann segir að vissulega hafi komið upp ágreiningur milli hans og umræddrar samstarfskonu en að hann hafi talið það mál að baki. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, fyrrverandi formaður Eyþings, hafi hins vegar beðið konuna um að skrifa stjórninni bréf um samstarfsörðugleika við Pétur þannig að stjórnin „hefði eitthvað í höndunum til að koma honum frá“."

Í fréttum er áætlað að heildarkostnaður sveitarfélaganna af ólögmætri uppsögn verði allt að 40 milljónum.

Mér finnst stórmerkilegt ef að þeir stjórnmálamenn sem standa svona að málum þurfa ekki að svara fyrir sig.

Að sveitastjórnarfólk verði uppvíst að því að ásaka starfsmann um að kynferðislega áreitni gegn samstarfsfólki, án þess að hafa nokkuð í höndunum er forkastanlegt.

Sú hegðun sveitarstjórnarfólks er sögð hafa verið staðfest í dómsal.

Svo gripið sé til ofnotaðs frasa, þá hlýtur sveitastjórnarfólkið að þurfa að "íhuga stöðu sína".

P.S. Bæti hér við 17. apríl, stuttu fyrir klukkan 7. að kvöldi, frétt frá RUV, þar sem sveitastjórnarmenn bera af sér sakir og vísa til yfirlýsingar sinnar.

Það er hins vegar umhugsunarvert að farið hafi verið fram á að þetta hafi verið fært í trúnaðarbækur viðkomandi sveitarstjórna og að viðkomandi sveitastjórnarmenn færist undan viðtali við fjölmiðla.  Alla jafna eru þeir ekki fjölmiðlafælnir.

 


mbl.is Uppsögn kostaði á fjórða tug milljóna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband