Ólyginn sagði mér

Það hefur mikið verið rætt um efnahagsmál undanfarið, bæði á Íslandi sem annarsstaðar.  Það er vinsælast að segja að staðan sé "flókin og margræð" og er það nokkurn veginn það eina sem "sérfræðingar greiningadeilda" hafa getað sammælst um. 

Sem betur fer fyrir þá, er þó hægt að segja að staðan á "flókin og margræð" á marga mismunandi vegu.

En eitthvað það alvarlegasta sem skotið hefur upp kollinum er sá grunur að "kjaftasögum" hafi vísvitandi verið "fleytt" til að hagnast á ástandinu og "kjafta" ákveðin hlutabréf niður.  Þannig er talað um árás á Breska HBOS bankann,  og jafnvel talað um slíkar "kjaftasögur" hvað varðar fall Stearn Bear, Bandaríska fjárfestingabankann.  Sjá. t.d. hér.

Þetta er að sjálfsöðu háalvarlegt mál, þó að líklega sé erfitt að ná höndum yfir slíkt, þar sem eins og einn kunningi minn orðaði það, á markaðnum ráða þrú hráefni, græðgi, hræðsla og traust og svo bætti hann við, ef græðgi og traust ráða ferðinni, eða hræðsla og traust, þá siglir þetta áfram, en ef ekkert traust er til staðar....

En að vissu marki má segja að umfjöllunin um Íslenskt efnahagslíf taki á sig þessa mynd, það er að segja að þær fréttir sem við fáum eru það misjafnar að enginn veit hverju á að trúa, er Íslenskt efnahagslíf "eitraður vogunarsjóður", eða eru hlutirnir betri en flestir vilja vera láta?

En þetta leiðir líka hugann að því hver ábyrgði fjölmiðla er, og hversu alvarleg áhrif skrif þeirra geta hugsanlega haft.  Það leiðir líka hugann að því hver tengsl ýmissa fjölmiðla eru við áhrifamikla fjárfesta (því það er ekkert sér Íslenskt fyrirbæri) og hvort og hvernig þeir láta vita af eignatengslum sínum, þegar skrifað er um eigendur þeirra, eða keppinauta.

Og auðvitað á þetta ekki eingöngu við um að tala niður hlutabréf, það er líka hægt að tala þau upp, og þessar aðferðir má einnig nota á öðrum sviðum þjóðlífsins, en í fjármálageiranum.

En ég velti því líka fyrir mér, fyrst að bankar geta farið yfirum, eða því sem næst vegna "kjaftasagna" og "orðróms", hvaða áhrif það hafi, þegar því sem næst helmingur ríkisstjórnar, þar á meðal viðskiptaráðherra, talar fjálglega um að gjaldmiðill landsins sem þau stjórna, sé ekki á vetur setjandi og þurfi að fara á haugana. 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þórir Kjartansson

Góður pistill hjá þér, Tómas.  Sérstaklega finnst mér áhugavert til umhusunar þessi þáttur fjölmiðla.  Fyrir undraskömmum tíma virtist stór partur íslensku þjóðarinnar halda að hér væri búið að finna upp hjólið. Semsagt í því formi að allir gætu lifað af því góðu lífi að gambla með hlutabréf og peninga. Skælbrosandi fráttaskýrendur birtust daglega og lýstu hækkunum og stórgróða hvert sem litið var. Kölluðu síðan til forstöðumenn greiningardeildanna sem studdu þessar skoðanir og spáðu öllum vísitölum og kúrvum  endalaust upp á við.  Á meðan vissi meðaljóninn að þessi veisla hlaut að taka snöggan enda.  Nú hefur dæmið snúist við með daglegum fréttum af hinu gagnstæða en eitt hef ég undrast að enn eru aðal viðmælendur fréttamanna þetta sama fólk greiningardeildanna, sem afhjúpaði fávisku sína svo rækilega allt fram að því að hrunið varð staðreynd. En fréttamenn hafa aldrei, svo ég hafi heyrt, spurt  hvers vegna það sá  lækkanirnar ekki fyrir.  Var skynsemin ekki meiri en þetta, eða var bara verið að tala hlutina upp eins lengi og hægt var?  Fréttamennskan í kringum þetta hefur verið mjög grunn og ég stórefast um það séu margir fréttamenn á sjónvarpsstöðvunum sem eru í stakk búnir til að kafa ofan í það. 

Þórir Kjartansson, 24.3.2008 kl. 10:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband