Færsluflokkur: Formúla 1
13.5.2007 | 15:15
Engin Formúla
Ég sá ekki Formúluna í dag. Þetta er ein af örfáum keppnum sem ég hef misst af síðan 1996. En þetta er stundum svona, það er ekki eintóm sæla að búa í hokkíbrjáluðu landi. Sportrásin sem venjulega sýnir Formúluna, var með hokkílieik í staðinn, þannig að þetta var ekki eins góður morgun og á hefði verið kosið.
Eina "dedíkeraða" mótorsportrásin var síðan færð af kaplinum í haust, þannig að Formúla var hvergi að finna.
Engu að síður er ég ánægður með sigur Massa, en Ferrari þarf að fá báða bílana í mark, annað dugar ekki í keppni bílsmiða. Ég veit ekki nákvæmlega hvað kom fyrir hjá Kimi, en ef til vill hefur hann komið með þá óheppni sem fylgdi honum hjá McLaren yfir, eða þá að hann er dulítill "bílaböðull".
En velgengni Hamilton heldur áfram, það er ótrúlegt að þessi ungi nýliði skuli leiða keppni ökuþóra. Það er ef til vill táknrænt fyrir það umrót sem hefur átt sér stað í Formúlunni, að þeir sem voru álitnir ökumenn númer 2 hjá Ferrari og McLaren, eru að standa sig betur.
En tímabilið virðist ætla að vera skemmtilegt, allt er opnara en nokkru sinni fyrr, þó að Ferrari og Mclaren standi verulega upp úr.
Massa sigrar en Hamilton er einn efstur í heimsmeistarakeppni ökuþóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.4.2007 | 05:36
Góður sigur
Það var farið á fætur fyrir 7, til að missa nú örugglega ekki af Formúlunni sem hófst hér fyrir allar aldir, fín keppni.
Að sjálfsögðu ánægður með Ferrari sigur, hefði þó vissulega viljað sjá Raikkonen fara í 2. sætið og ná þannig efsta sætinu í keppni ökuþóra, en það verður ekki á allt kosið.
Það er síðan ekki hægt annað en að minnast á Hamilton, fantagóður akstur hjá honum og um leið tryggði hann sér sitt fyrsta met. Fyrsti ökumaðurinn til að fara á pall í 3. sínum fyrstu keppnum. Það er vissulega of snemmt að koma með stóra spádóma, en þarna gæti verið kominn fram ökumaðurinn sem á eftir að hirða metin af Schumacher í framtíðinni, alla vegna hefur hann tímann fyrir sér.
Heidfield kom líka skemmtilega á óvart og það mætti segja mér að það hafi mörgum verið skemmt (og ekki) í Þýskalandi þegar BMWinn tók fram úr Mercedes (McLaren) Alonso.
Fín spenna í keppni ökumanna, Alonso, Raikkonen og Hamilton hnífjafnir.
Annars flaug mér í hug þegar ég var að horfa á "Múluna" í morgun, að það væri ákveðinn samhljómur á milli Formúlunnar og stjórnmála.
Það er að segja að "allur pakkinn" verður að virka. Ökumaðurinn, bíllinn, dekkin, vélin, bremsurnar, bílskúrsgengið og stjórnendurnir.
Allt og allir verða að vinna saman til þess að árangur náist. Sömuleiðis í pólítíkinni.
Toyota og Honda sanna það svo, rétt eins og í stjórnmálunum að það er ekki nóg að eyða peningum til að ná árangri, það verður að byggja upp lið.
14.4.2007 | 13:07
Endurtekning
Það er ekki bara pólitíkin sem virðist endurtaka sig í sífellu með smá blæbrigðum, blessuð Formúlan er nokkuð gjörn á það líka.
Staðan eftir þessa tímatöku er því sem næst eins á toppnum, nema að Hamilton og Alonso skipta um sæti, en hin liðin virðast ekki geta ógnað stöðu Ferrari og McLaren. Færir minningarnar jafnvel aftur til áranna 1998 til 2000.
En hvað um það, ég vona auðvitað að Massa og Ferrari mönnum séu mistökin frá síðustu helgi í fersku minni og láti þau ekki endurtaka sig, heldur keyri fumlaust til sigurs.
Krafan er auðvitað Ferrari í fyrsta og öðru sæti.
En líklegt er auðvitað að bensínmagn og þjónustuhlé ráði örlögum, nú sem oft áður.
Slæmu fréttirnar eru auðvitað að þurfa að fara á fætur fyrir 7 á sunnudagsmorgni, en það er ekki í fyrsta sinn.
8.4.2007 | 08:51
Vonbrigði í Malasíu
Ég get ekki neitað því að ég var bjartsýnn fyrir hönd okkar Ferrariaðdáenda fyrir kappaksturinn í Malasíu, en hvílík vonbrigði.
Frá fyrstu mínútu glutruðum Massa og Raikkonen þessu niður, Massa gerði slík mistök að það var með eindæmum, en það verður að horfa fram á við.
Það eina sem gladdi augað í þessum kappakstri var fantagóður akstur Hamilton, raunar með eindæmum hvað hann ekur vel, rétt eins og hann sé að keyra sinn 50 kappakstur en ekki 2.