Færsluflokkur: Formúla 1

DC á útleið

Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að David Coulthard ætli að hætta.  Hann var einn af ökumönnunum sem var þegar ég byrjaði að horfa á Formúluna, árið 1995 hafði byrjað að aka áríð áður.

En í minninu tengist hann best þeim árum þegar hann ók við hlið Mika Hakkinen hjá McLaren.  Árin hans hjá McLaren voru níu að ég held og þar náði hann hápunkti ferils síns.

Þrettán sigrar (ekki endanlega útséð hvað þeir verða margir) á fimmtán árum telst ef til vill ekki gríðarlegur árangur, en sýnir vel hvernig Formúlan er.  Margir góðir ökumenn, en fáir meistarar.  Coulthard er ekki einn af meisturunum, en setti samt svip sinn á Formúluna.

En yfirlýsingu DC sjálfs má lesa hér.


mbl.is Coulthard á útleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alla baddarí - Ferrari

Það er alltaf gott að byrja daginn með því að horfa á Ferrari sigur.  Ljúfur sigur í morgun.

Massa og Raikkonen keyrðu af öryggi og þó að pústurrörið væri að angra Kimi var annað sætið aldrei í hættu, yfirburðir þeirra voru þvílíkir.

Trulli kætti Toyotamenn og Kovalainen og Kubica áttu vel ásættanlegan dag.  Nelson Piquet náði loksins í stig, þannig að þetta var stór dagur fyrir hann, en Alonso hefur líklega ekki verið alveg sáttur, en hann átti sérstaklega afleita ræsingu.

Hamilton átti erfitt uppdráttar, að ræsa úr þrettánda sætinu á Magny Cours er ekki auðvelt.  Hann gerði svo eiginlega út um allar vonir sínar um stigasæti með því að "sleppa beygju", og taka þannig fram úr Vettel.  Hann var að segja má kominn fram úr, en hefði ekki getað haldið framúrakstrinum, ef hann hefði ekki farið beint.

Ég varð eiginlega alveg rasandi hissa á því að McLaren liðið skyldi ekki láta hann gefa eftir sætið eins og skot, það var það eina rétta í þessarri stöðu.  Það verður að teljast líklegra en ekki að dómarnir veiti refsingu fyrir þetta en ekki.  Því er það illskiljanlegt að taka áhættuna á því að halda sætinu.

Líklega eru margir McLaren menn ósáttir við þennan dóm, en það má benda á að það eru gefnar upp þrjár refsingar við athæfi sem þessu, og Hamilton hlaut þá vægustu.  Hinar tvær eru 10 sec stopp og að færast aftur um 10 sæti í næstu keppni (þá hefði nú líklega farið um McLaren aðdáendur).

En kappaksturinn var skemmtilega og ágætlega spennandi að horfa á, því þó að fyrstu 2. sætin væru að segja mætti frátekin, voru ágætis aksturtilþrif víða.  En svo er það auðvitað alltaf best þegar Ferrari sigrar.


mbl.is Ferrari í sérflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Magnaður kúrs - hjá Ferrari

Sökum anna í morgunsárið sá ég ekki nema síðasta hlutann af tímatökunni, en það í sjálfu sér nægði.

Góður árangur hjá Ferrari leggur vonandi grunninn að 1 - 2 sigri þeirra á morgun.

En Alonso sýnir góða takta, en það hlýtur að vera um nokkur vonbrigði að ræða hjá Kovalainen og Kubica að hafa ekki náð betri árangri, að sama skapi vekja rauðu nautin, DC og Webber athygli.

Hamilton nær ásáttanlegum árangri, en verður færður aftur um 10 sæti.

En það sem er að sjálfsögðu aðal spurningin er hvernig eldsneytishleðslan er.  Hvað eru þessir drengir með á tönkunum?  Nú er Magny Cours betur til þess fallinn en margar aðrar brautir að taka 3. þjónustuhlé.  Þjónustusvæðið er "stutt" og það tekur ekki eins langan tíma að stoppa eins og viða annarsstaðar.  Að sama skapi er frekar erfitt að komast fram úr "í akstri", þannig að þjónustuhléin eru afar mikilvæg.

Það kæmi mér ekki á óvart þó að Hamilton væri frekar léttur, því það var meira áríðandi fyrir hann að komast framarlega en nokkru sinni fyrr, það er mikill munur á því að ræsaí 13. sætinu en því 11.  Að sama skapi er hægt að leyfa sér að draga þá ályktun að Ferrari sé með heldur meira bensín en hinir, þar sem þeir vissu af því að skæðasti andstæðingurinn átti ekki möguleika á því að ræsa frá pól.

En þetta eru auðvitað aðeins vangaveltur sem hafa lítið á bak við sig, en það má búast við hörkuspennandi keppni á morgun, ég tala nú ekki um ef það verður rigning.  Það reynir á sveigjanleika og hugmyndaauðgi áætlunameistaranna.


mbl.is Räikkönen vinnur 200. ráspól Ferrariliðsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuð í formúlunni

Þetta eru góðar fréttir fyrir Formúluna í heild.  Ég reikna fastlega með því að við eigum eftir að sjá svipaðar tilkynningar frá fleiri liðum á næstunni.

Það getur enginn horft fram hjá þessum möguleika,  80 hestöfl, þó aðeins séu í stuttan tíma er ekkert smá, ríflega 10% orkuaukning.

Þetta getur skipt sköpum á réttu augnabliki og ennfremur spurning hvernig þetta geti nýst til að spara eldsneyti ef svo ber undir.

En þetta gefur auka "vídd" í kappaksturinn og er fagnaðarefni.


mbl.is Tvinnbíll í Formúlu 1 á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott mál - sanngjarn dómur

Ég get ekki annað en verið ánægður með þennan dóm.

Mótmæli "McSpy" eru auðvitað út í hött.  Þeir sem sjá ekki muninn á því að missa stjórn á bíl sínum  á þriðja hundraðinu í erfiðri keppni, og því að keyra aftan á bíl sem hefur stöðvað á rauðu ljósi á bílskúrsfráreininni, ættu ekki að taka þátt í kappakstri.

Það er rétt að hafa það í huga að refsingin fyrir að aka gegn rauðu ljósi við þessar aðstæður er svart flagg, brottrekstur úr keppni.  Það ætti flestum að vera í fersku minni þegar Montoya lenti í því, einmitt í Montreal.

Það að Raikkonen "stöðvaði" ferð Hamilton þannig að hann braut ekki af sér hvað varðar rauða ljósið, ætti auðvitað ekki að verða til þess að hann slyppi refsingarlaust frá athæfinu, og Rosberg auðvitað ekki heldur.

Því lít ég svo á að um sanngjarnan dóm sé að ræða.  Það getur hent alla að missa stjórn á bíl sínum, jafnvel með því skemmt eða eyðilagt keppni fyrir öðrum.  Að gæta ekki að rauðum ljósum (sem þó eru viðbúin við slíkar aðstæður) eru allt annað mál.

 

 


mbl.is Hamilton og Rosberg refsað með afturfærslu í Magny-Cours
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pólstjarnan í Montreal

Montreal klikkaði ekki frekar en oft áður á að bjóða upp á litríkan og nokkuð skemmtilegan kappakstur.  Kubica var vel að sigrinum kominn og það er skemmtileg tilviljun hvernig það æxlast annað árið í röð að rísandi stjarna vinnur sína fyrstu keppni í Kanada.

Kubica tekur forystuna í keppni ökuþóra og BMW skýst í annað sæti í keppni bílsmiða með glæsilegum 1 - 2 sigri.  Það má ef til vill segja að þetta sýni betur en margt annað hve miklu máli það skiptir að koma í mark í stigasæti, helst alltaf.

Það vakti svo minningar að sjá "gamla brýnið" DC á palli, ég man ekki alveg hvenær það gerðist síðast, en hann vann vel úr því sem í boði var.

Það var fátt til að gleðjast yfir fyrir okkur Ferrari aðdáendur, þó sýndi Massa snilldarakstur á köflum, en mistök (fer að verða einum of oft hjá okkur) hvað varðar þjónustuhléín voru honum dýrkeypt.

Raikkonen virtist vera að koma til, en þá kom öryggisbilinn út og Hamilton keyrði hann síðan út úr keppninni, eins og flestum ætti að vera kunnugt.  Ég er reyndar ekki frá því að Hamilton eigi skilið refsingu fyrir þennan aftanáakstur, en ég efast þó um að nokkuð verði gert í því.

En Hamilton hafði alla vegna "vit" á því að sveigja á síðustu stundu og "velja" réttan bíl til að aka á, því annars lá stefna hans beint á Kubica.  Það kemur honum til góða í keppni bilsmiða.

En keppnin hefur ekki verið opnari í langan tíma, fjórir ökumenn sem allir eiga góðan möguleika á því að sigra, og bilið á milli Ferrari og BMW er hreint ekki neitt.  Það er ekki nema rétt rúmlega 1/3 búinn af mótaröðinni.

En þetta var dagur BMW, eftir að hafa beðið svo lengi eftir sigri, þá kemur hann 1 - 2.  Sannarlega góður dagur fyrir þá, og gott fyrir Formúluna að fá fleiri lið í fremstu röð.

Sjálfstraustið hjá Kubica hefur líklega sömuleiðis fengið "feitt" innlegg og verður honum gott vegarnesti í komandi keppnum.

 

 


mbl.is Kubica efstur í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ville Hamilton

Það kom mér ekkert verulega á óvart að Hamilton skyldi vinna pólinn í Montreal.  Hann vann hann sömuleiðis í fyrra og því má nú segja að enginn annar hafi unnið pólinn í Montreal síðan Hamilton hóf keppni.

En hitt kom mér á óvart, hvað hann vann hann með miklum mun.  Að hann skuli hafa 6/10 úr sekúndu á næsta mann og næstum því 9/10 á Raikkonen í 3ja sætinu kom mér nokkuð á óvart.  Það gefur mér hins vegar sömuleiðis ákveðna von.

Það er nefnilega freistandi að draga þá ályktun að Hamilton og Kubica sé nokkuð léttari af bensíni en Ferrari bílarnir.  Ég er næstum því viss hvað Kubica varðar, en Hamilton er meiri spurning.  En það verður gaman að sjá hvernig þjónustuhléum verður háttað.  Ég er nokkuð viss um að Kubica verður fyrstur inn af toppbílunum.

En ég átti von á því að Montreal yrði Ferrari erfið, þetta er ekki braut sem virðist henta "okkur" vel.  Það eru þó mikil vonbrigði að sjá Massa aðeins í 6. sæti, en 3ja hjá Kimi verður að teljast ásættanlegt.

En það verður einnig fróðlegt að fylgjast með Alonso og Rosberg.  Sjá hvað þeir hafa af bensíni og hvað er raunveruleg framför í farartækjunum.

En brautin var víst verulega erfið í dag, sprungin og erfitt um grip sumstaðar.  Lagt verður nýtt malbik á hluta brautarinnar í kvöld og nótt.

En svo er veðrið líka spurning.  Spáin er ekki of góð, skúrir og jafnvel hætta á þrumuveðri.  Þannig að það er ýmislegt sem getur komið upp á á morgun.

Og svo er það öryggisbílinn, hann hefur stundum leikið stórt hlutverk í Montreal.


mbl.is Hamilton á ráspól í Montreal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dagar múrmeldýranna

Það styttist óðum í kappaksturinn í Montreal, eins og ég hef áður sagt er ég ekki mjög bjartsýnn fyrir hönd Ferrari, en vissulega vona ég alltaf hið besta.

En Hamilton á góðar minningar frá Montreal, þar vann hann sinn fyrsta pól og fyrsta sigur í fyrra.  Það er því ekki við öðru að búast en að hann komi sterkur til leiks.

En vonandi verður um spennandi keppni að ræða og óskandi auðvitað að mínir menn standi uppi sem sigurvegarar að lokum.

Það er svo að lokum rétt að taka það fram að dýrið sem sleppur naumlega frá bíl Hamilton er ekki bjór.  Ef ég sé rétt leikur enginn vafi á því að um er að ræða múrmeldýr (groundhog).  Alla vegna minnir mig að Íslenska heitið sé múrmeldýr, þó að vissulega mætti segja að rökréttara væri að kalla þau jarðsvín, eða jarðgelti.

Ralf Schumacher slapp naumlega við að keyra á múrmeldýr í fyrra, en Anthony Davidson var ekki svo heppinn og fékk eitt stykki á bílinn.  Hann hélt því reyndar fram að hann hefði keyrt á bjór, og kann að vera að þessi misskilningur sé þaðan kominn.

En mikið af múrmeldýrum lifir í kringum brautina í Montreal og er reynt að fækka þeim nokkuð fyrir keppnir, með því að veiða þau í búr (gulrætur sem agn) og flytja þau í burtu.

Hámarkshraði múrmeldýra er u.þ.b. 15 km á klukkustund og eiga þau því erfitt með að forða sér ef þau hætta sér út á brautina.  En þau eru vissulega í góðum "stæðum" á meðan á keppninni stendur.

 


mbl.is Hamilton hraðskreiðastur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alonso.... á rauðum Ferrari?

Það hefur aldrei vantað sögusagnir og flugufregnir í Formúluna.  Eins og gengur reynast sumar réttar, en jafn margar eða fleiri rangar.

En þessi saga hefur það með sér að hún er trúleg.  Þessi niðurstaða myndi henta báðum aðilum.  Ferrari vill hafa góða ökumenn, og hún hentar Alonso eiginlega enn betur.  Ekkert er nefnilega góðum ökumönnum nauðsynlegra en að hafa samkeppnishæfan bíl.

Alonso hefur orð á sér fyrir að vera ökumaður sem vinnur vel með tæknideildinni og kemur því vel til skila hvað sé að.  Það er stór kostur.

Svo er hann ekki alveg óvanur að nýta sér gögn frá tæknimönnum Ferrari. :-)

En við sjáum hvað setur.


mbl.is Alonso sagður hafa samið við Ferrari fyrir 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðburðarrík vonbrigði

Það vantaði ekki viðburði í kappaksturinn í Monaco sem oft áður. Mikið um að vera og mikill atgangur.  En úrslitin glöddu ekki nema að litlu leiti.

Ég var nú ekki bjartsýnn fyrir Monaco, en þó blossuði vonin upp eftir gott gengi minna manna í tímatökunum.  En það fór fyrir lítið og hvorki Massa né Raikkonen áttu góðan dag, Raikkonen hreinlega herfilegan.

En þó að Hamilton hafi verið vel að sigrinum kominn, er ég ekki sammála því að hann hafi gert fæst mistök.  Þann titil fær líklega Sutil.  Það var hreinlega grátlegt að horfa á Raikkonen renna í afturendann á honum og eyðileggja fyrir honum frábæra keppni.

Það voru reyndar akstursmistök Hamilton sem áttu líklega stóran þátt í því að færa honum sigurinn, því hefði hann ekki rekist í vegginn, snemma í keppninni, efast ég um að hann hefði haft sigur.  En McLaren liðið vann stórkostlega úr þeim mistökum og með smá heppni færði það Hamilton verðskuldaðan sigur.

Kubica stóð sig sömuleiðis afar vel og Vettel kom skemmtilega á óvart.

En þetta galopnaði keppnina um meistaratitilinn og næstu keppnir verða þeim mun meira spennandi fyrir vikið.


mbl.is Hamilton gerði fæst mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband