Færsluflokkur: Formúla 1

Það gerðist eitthvað mjög svo undarlegt

Ég hafði ekkii tök á því að horfa á tímatökurnar í morgun, nú er Eistneski leikskólinn tekinn til starfa og því þurfti ég að skutla Foringjanum þangað og standa í innritun og því um líku.

En það hefur bersýnilega ýmislegt gengið á.  Rigningin hefur svo sannarlega stokkað upp í ráspólskeppninni.

Þetta þýðir að keppnin á morgun verður ótrúlega spennandi.  Það verður gaman að sjá hvernig "minni" liðunum gengur að að vinna úr góðri stöðu sinni.  Fyrirfram ætti staða Kovalainens að vera mjög vænleg.  Hann hefur yfir hörku bíl að ráða og er á fremstu línu, þó að hann hafi ekki náð pólnum.

Staða Massa er sömuleiðis góð, þegar litið er til keppninnar um titil ökumanna, hinir (og þá sérstaklega Hamilton) eru langt fyrir aftan hann.  Massa á því góðan möguleika á því að ná efsta sætinu með góðri frammistöðu í keppninni á morgun.

Síðan verður líka fróðlegt að sjá hvernig baráttan verður á milli Raikkonen og Hamilton, þar sem þeir ræsa í 14. og 15. sæti.  Það verður fróðlegt að vita hvað þeir setja mikið bensín á bílana en þeir eru óvanir því að mega bæta á þá.

Spurning líka hvort að Kimi leggjur allt í sölurnar til að halda Hamilton fyrir aftan sig, og hjálpa þannig Massa til að ná fyrsta sætinu.

En ég get ekki sagt annað en að ég hlakka til morgundagsins.


mbl.is Vettel yngsti ráspólshafi sögunnar og fyrsti póll Minardi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlessa

Ég verð að viðurkenna að þessi úrskurður kom mér í opna skjöldu.  Ég ætti ekki von á að nokkuð yrði aðhafst, enda atvikið ekki þess gerðar að auðvelt sé að skera úr um.

Ég hefði haldið að eins og í öðrum dómsmálum, þá ætti allur vafi að vera "sakborningnum" til bóta.

Vissulega má deila um hvort að Hamilton hafi hagnast á brotinu eður ei.  En persónulega finnst mér alltof mikill vafi ríkjandi til þess að þessi úrskurður sé rökréttur.

Það væri fróðlegt að sjá frekari rökstuðning fyrir þessum dómi.


Spa meðferð

Það var hressandi að horfa á Spa kappaksturinn í morgunsárið.  Hrein skemmtun og nóg um að vera.  Kappaksturinn endaði þó ekki eins og best verður á kosið, þó að spennan hafi verið næg.

Þetta var kappakstur sem við Ferrari-menn máttum ekki við a tapa, allra síst fyrir Hamilton og McLaren.  Raikkonen varð eiginlega að vinna til að stimpla sig inn aftur, og komst lygilega nærri því, en svo tók veggurinn við.  Niðurlæging hans er svo fullkomnuð með því að falla niður í fjórða sætið í keppni ökuþóra.

Massa stóð sig þokkalega, en það er ekki nóg að koma annar í mark, nema einhver annar en Hamilton komi fyrstur.  Bilið þarf að minnka, ekki aukast.  En Massa sigldi nokkuð auðan sjó í þriðja sætinu lengst af, og átti enga raunverulega möguleika á að missa það eða komast hærra, ekki fyrr en Raikkonen datt út.

Staðan er því ekki mjög vænleg fyrir Ferrari, en það var hún reyndar ekki heldur um þetta leyti í fyrra, en sigur hafðist samt.  Það verður því að spýta í lófana og klára þetta.

Gott tækifæri er að byrja í Monza um næstu helgi með 1 - 2 sigri.

P.S.  Svo eru dómararnir að rannsaka það sem gerðist á milli Raikkonen og Hamilton.  Ég hef ekki stúderað reglurnar til hlýtar, og hef ekki mikla trú á að eitthvað gerist hvað það varðar, en vissulega er vonandi að fréttis nákvæmlega hvað er verið að rannsaka.

 

 


mbl.is Rigningin í lokin hleypti öllu í loft upp í Spa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ásættanlegt, en ....

Tímatökurnar í morgun voru ágætar, þó að við Ferrariáhangendur hefðum að sjálfsögðu kosið aðeins betri árangur, svona eins og einu sæti hærra fyrir báða okkar keppendur, jafnvel 2. fyrir Kimi.

En það verður sjaldnast á allt kosið og það er keppnin sem gildir.  Eins og keppnin og tímatökurnar eru settar upp, þá eru tímatökurnar lítið meira en vísbending, það er jú keppnisáætlunin sem skiptir meira máli.

Það verður spennandi að sjá hvernig keppnin þróast á morgun.  Mín ágiskun er að McLaren bílarnir hafi verið heldar léttari og komi því fyrr inn á morgun. Sérstaklega hef ég trú á því að það gildi um Kovalainen.

Ef til vill er þetta örlítil óskhyggja hjá mér, en McLaren þurfti á því að halda að koma sínum bílum framarlega og reyna með því að koma í veg fyrir að Massa gæti leitt frá upphafi til enda.  Það er sérstaklega mikilvægt fyrir þá að hafa komið Kovalainen á milli Ferrari bílanna (best hefði auðvitað verið að hafa Heiki númer 2 og þannig hefði hann reynt að halda aftur af Ferrari og leyft Hamilton að byggja upp forskot) og með því hafa möguleika á trufla keppnisáætlun Raikkonen.

En það verður vonandi skemmtileg keppni á morgun, Spa hefur gjarna boðið upp á góðan kappakstur og ef það verður rigning opnast ekki bara himnarnir, heldur keppnin öll.


mbl.is Hamilton vann fyrsta einvígið við Massa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri óskandi

Ég held að flestir Formúluaðdáendur fagni hraustlega ef útlit er fyrir að framúrakstur verði tíðari en nú er, persónulega er ég þó ekki of bjartsýnn.

Hermar höfðu hermt eftir því sem ég kemst næst að mikið yrði um framúrakstur í kappakstrinum í Valencia, annað kom á daginn.

Auðvitað er þetta endalus keppni, sem snýst ekki hvað síst um að gera keppinautunum eins erfitt fyrir og mögulegt er, innan ramma reglanna.  Liðin ýta og pota í reglugerðirnar og reyna eftir fremsta megni að finna "matarholur" innan þeirra.

En ég er reyndar þeirrar skoðunar að það eigi að losa aðeins um reglurnar á sumum sviðum, t.d. að fella niður skyldu til að nota fleiri en eina gerð hjólbarða, leyfa að skipta um mótor á milli keppna o.s.frv.

En það eru auðvitað skiptar skoðanir á þessu eins og öðru.


mbl.is Framúrakstur auðveldari 2009
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fumlaus Massa, en vonbrigði í Valencia

Ég varð fyrir vonbrigðum með kappaksturinn í Valencia.  Vissulega gladdi frábær akstur Massa frá upphafi til enda mig, en kappaksturinn í heild olli mér vonbrigðum.

Brautin, þó að þokkalega hröð sé, virðist ekki bjóða upp á verulega möguleika á framúrakstri, það var varla að það sæist að ökumenn þreifuðu fyrir sér, nema á fyrstu hringjunum.  Engar verulegar breytingar á efstu mönnum, nema auðvitað að Raikkonen datt úr leik, Trulli og Vettel skiptu um sæti og Glock sem kom jú á óvart.

Það að Raikkonen skyldi detta úr leik er sérstakt áhyggjuefni fyrir Ferrari, önnur keppnin í röð þar sem Ferrari sprengir mótór.  Þarf þarf áreiðanleika til að vinna titla og staða McLaren sýnir það.

Undarleg atvik á þjónustusvæðinu undirstrikar svo vandræði Ferrari, þó að aksturinn hjá Massa hafi verið frábær, er ennþá möguleiki á því að hann missi af sigrinum, vegna mistaka á þjónustusvæði.  Persónulega hef ég þó trú á því að liðinu verði refsað, eða þá að Massa verði færður aftur í startinu í næstu keppni, en við verðum að bíða og sjá hvað verður.

Það er annars nokkuð merkilegt að bera saman stöðuna hjá Ferrari og McLaren, nú og í fyrra.  Í fyrra hafði McLaren mun betri stöðu samanlagt, með tvö ökumenn í toppbaráttunni, en Raikkonen skaust fram úr og náði titlinum.  Í ár hefur Ferrari tvö ökumenn í toppbaráttunni en Hamilton leiðir fyrir McLaren og stendur best að vígi til að ná titlinum, þó að enn sé langt í land.

Spurning hvað Ferrari gerir í stöðunni nú?  Lætur liðið meiri þunga að baki Massa og veðjar á að hann geti náð titlinum og gerir heimsmeistarann að "second" ökumanni?  Ekki gott að segja.

En næst er það Spa, þar ætti Ferrari að blómstra, það eru líklega fáar brautir sem henta Ferrari betur, svo er það Monza og krafan er auðvitað tvöfaldur sigur á heimavelli, en þar ætti McLaren þó líklega að standa Ferrari í það minnsta jafnfætis. 

Það verður spenna allt til enda.

 


mbl.is Massa ók eins og meistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Massa

Ég gat ekki horft á tímatökurnar í morgun þar sem rásin sem sendir út Formúluna á kaplinum valdi að sýna eitthvað þrautleiðinglegt efni frá Olympíuleikunum í staðinn.  Sem betur fer verður ekkert slíkt rugl á ferðinni í fyrramálið.

Í stað þess varð ég að láta mér nægja að ræsa upp tölvuna og fylgjast með tímunum í beinni, og vita þannig hvernig allt fór.

Massa virðist í fantaformi nú um stundir og tók pólinn glæsilega.  Raikkonen virðist ennþá eiga nokkuð langt í land með að ná ásættanlegum árangri í tímatökunum og á líklega frekar erfitt uppdráttar í keppninni á morgun. Þó er brautin nokkuð hröð og ætti að gefa nokkurn möguleika á framúrakstri.  Það verður því að vona hið besta.

Annars er ekki margt sem vekur sérstaka athygli, nema þá einna helst gott gengi Toro Rosso og svo afleitt gengi Renault.  Það hefur ekki verið skemmtilegt fyrir Alonso að að ná ekki í þriðju lotuna, fyrir framan heita aðdáendur sína á heimavelli.


mbl.is Massa hreppti ráspólinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki Massa dagur

Frábær akstur Massa í upphafi Ungverska kappakstursins gladdi mig svo sannarlega.  En það var jafn grátlegt að sjá Ferrari vélina gefa sig þegar aðeins 3. hringir voru eftir.

Hamilton var sömuleiðis óheppinn, hefði líklega unnið auðveldan sigur eftir óhapp Massa, ef ekki hefði ekki hent að framdekkið hjá honum sprakk.  Það var þó lán í óláni fyrir hann að það gerðist á nokkuð hentugum tíma (ef einhvern tíma er hentugur tími til þess að láta dekk springa hjá sér).  Hann komst inn á þjónustusvæðið og gat fyllt sig af bensíni til enda og þurfti ekki að taka aukahlé.

Raikkonen sýndi enga meistaratakta í þessum kappakstri, en vann sig jafnt og þétt upp, sérstaklega á óhöppum hjá öðrum ökumönnum.  En hann þarf að taka sig á ef hann ætlar að hampa titlinum í vor.

En Kovalainen átti góðan dag, og vann sinn jómfrúarsigur, og Glock kom skemmtilega á óvart og náði öðru sætinu. 

"Úgríarnir" hérna ráða sér varla fyrir kæti yfir því að tveir "úgríar" hafi verið á verðlaunapalli og verður að viðurkennast að það er harla vel að verki staðið hjá Finnunum.

En Ferrari þarf að gera mun betur en þetta.


mbl.is Kovalainen fagnar óvæntum jómfrúarsigri í Búdapest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skemmtilegt en samt svo slæmt

Silverstone kappaksturinn var ákaflega skemmtilegur áhorfs.  Hamilton vann ákaflega sanngjarnan og verðskuldaðan sigur, frábær ræsing og góður akstur. Frammistaða Ferrarimanna var eitthvað sem enginn vill leggja á minnið en er samt svo nauðsynlegt að gera.

Heidfeld átti góðan dag fyrir BMW en Kubica missti af upplögðu tækifæri til að taka forystuna titilslagnum á ný.  Maður dagsins var gamla brýnið Barrichello, þriðja sætið er stórkostlegur árangur fyrir hann.  Það eru margir sem reikna með því að hann leggi stýrið á hilluna eftir þetta tímabil, en hann sýndi að hann er enn þess megnugur að hala inn stig og myndi líklega gera meira af því ef Honda næði að setja samkeppnishæfan bíl undir hann og Button.

Það var eiginlega ótrúlegt að horfa á Ferrari kasta frá sér möguleikanum á því að keppa um sigurinn.  Að halda dekkjunum virkaði á mig sem ótrúleg áhætta, sérstaklega þar sem við sjónvarpsáhorfendur höfðum heyrt fleiri en eitt lið fullyrða í talstöðina að rigning væri væntanleg á næstu 5 mínútum.  Um Massa þarf lítið að ræða, akstur hans var einhver dýrasti tími í "spinning" sem um getur.  Að eiga síðasta bíl í mark er ekki eitthvað sem við erum vanir.  Hreinlega skammarlegt.

Þegar horft er á Ferrari gera mistök í þjónustuhléum og hafa tapað því forskoti sem þeir oft höfðu hvað varðar keppnisáætlanir, er ekki laust við að ég gjói augunum til Brawn, sem að því er virðist stýrði Barrichello nokkuð örugglega í þriðja sætið og hefði líklega náð 2. ef bensíndælan hefði ekki staðið eitthvað á sér.

En ljósi punkturinn er að titilkeppnin er galopin, 3. jafnir, Kubica skammt undan og Heidfeld þarf ekki mörg "breik" til að eiga möguleika á að blanda sér í keppnina.  Það er því nokkuð ljóst að seinnihluti mótaraðarinnar verður skemmtilegur og hver einast kappakstur telur, "big time" og hver mistök sömuleiðis.  Það er því líklegt að þetta verði hörkubarátta allt til síðasta móts.

 


mbl.is Hamilton fyrsti enski ökuþórinn sem sigrar í 13 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð magnað

Ég gat ekki horft á tímatökuna í morgun.  Þurfti að sinna öðrum róm.  Þurfti að keyra konuna í vinnuna í morgun, og einhversstaðar á leiðinni tókst mér að aka yfir skrúfu og festa hana í hjólbarðanum hjá mér.

Heilmikil vandræði, ég með ómegðina í bílnum, tókst að renna að næsta dekkjaverkstæði, og fá þar dekk við hæfi.  ÞUrfti þó að losa og taka undan og setja undir sjálfur.  Ómegðin lét auðvitað öllum illum látum á meðan, og Foringinn vissi auðvitað allt um hvernig skipta á um dekk.

En þetta hafðist allt að lokum.

En ég sé ég hef misst af góðum tímatökum, eða þannig.  Kovalainen á pól og Webber í öðru sæti.  Vissulega tíðindi.  Raikkonen í þriðja og þar af leiðandi 2. Finnar í þremur efstu sætunum sem verður að teljast harla gott.  Ég hlýt því að hitta á Finnana í góðu skapi er ég held þangað á þriðjudaginn, þ.e.a.s. ef þeir klúðra ekki keppninni.

Síðan eru þetta "the usual suspects", nema að það vekur nokkra athygli að Vettel nær 8. sætinu og Massa er í því 9.  Eftir því sem ég les á vefnum má rekja orsakir þess til mistaka í þjónustuhléi og þess að hann náði ekki að fara "aðra ferð"

En þetta ætti að þýða að keppnin verði spennandi á morgun.  Eins og oftast er mesta spennan fram að fyrstu þjónustuhléum og það fer að koma í ljós hvað er á tönkunum og hvernig keppnisáætlunin er.  Það er ljóst að Massa ætti að hafa bensín á nokkra hringi umfram, úr því að hann fór ekki af stað í aðra tilraun, en það verður fróðlegt að sjá hvað Kovalainen og Webber keyra langt inn í keppnina.

 


mbl.is Kovalainen í fyrsta sinn á ferlinum á ráspól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband