Færsluflokkur: Menntun og skóli

Inntökupróf í grunnskóla

Ég er búinn að fá þessa mynd senda nokkuð oft á undanförnum vikum.  Það er því líklegt að margir séu búnir að sjá hana.

En myndin var, að því að mér er tjáð, hluti af inntökuprófi hjá grunnskóla í Hong Kong og hefur vakið það mikla athygli að hún hefur farið víða.

Spurningin er enda hrein snilld, og því ákvað ég að birta hana hér.

Hong Kong Elementary

 

 

 

 

 

 

Það á sem sé að finna út númerið á bílastæðinu sem bílnum er lagt í.

 

Fyrir þá sem ekki hafa séð þetta áður og reyna að glíma við þetta segi ég góðar stundir.

Ef menn vilja er hægt að setja svar í athugsemdir.


Auðvitað á að birta PISA gögnin

Það er sjálfsagt og eðlilegt að PISA gögnin séu birt.  Ég get ekki séð nokkra ástæðu til þess að meina almenningi aðgengi að þessum gögnum.

Það er jú almenningur, skattgreiðendur sem borga rekstur skólanna.

En það er svo oft sem kjörnir fulltrúar virðast gleyma því hverjir það voru sem völdu þá til embættis og hverjir það eru sem borga reikningana sem þeir stofna til í nafni stjórnvalda/borgar/sveitarfélaga.

Það er eðliegt að foreldrar og aðrir borgarbúar vilji fylgjast með hvernig skólarnir standa sig og hvernig þeir standa innbyrðis.

Vissulega þarf að hafa í huga að PISA niðurstöður eru ekki hinn endanlegi dómur um skólastarf, og öll slík próf þarf að skoða með fyrirvara.

En það er rökrétt krafa að niðurstöðurnar séu "uppi á borðinu".

 


mbl.is Verða að afhenda PISA-gögn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Úrelt kerfi

Það hlýtur að teljast gott fyrir þá sem eru að nema iðngrein að starfa við hlið reyndra einstaklinga í faginu og læra af þem.

En það getur ekki verið rétt að þeir sem starfa í viðkomandi fagi geti stjórnað því hverjir ná að klára nám og hafa þannig kverkatak á hvernig eða hvort fjölgar í stéttinni.

Lausnin hlýtur að vera að bjóða upp á mismunandi námsferla, þar sem hægt er að ljúka námi með aðstoð meistara eða eingöngu skólavist.

Eða þá hitt að leggja "meistarakerfið" alfarið af.

 


mbl.is Margir gefast upp á hárgreiðslunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skortur á skynsemi?

Ég var að lesa góða grein eftir Sighvat Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra og formann Alþýðuflokksins.  Greininna má finna á vefsvæði Vísis, en fyrirsögnin er:  Að fermast upp á faðirvorið.

Þar veltir Sighvatur þeirri staðreynd fyrir sér að fjórðungur Íslenskra stráka geti ekki lesið sér til gagns þegar þeir ljúka grunnskóla.  Þó að Sighvatur varpi ekki fram neinum lausnum, enda ekki hægt að ætlast til þess í stuttri blaðagrein, þó er umræðan þörf.

Ég held líka að Sighvatur hafi rétt fyrir sér í því efni að fjármagn, eða aukin menntun kennara er ekki þar sem skórinn kreppir.

Ég hugsa að Íslendingar (sem og margar aðrar þjóðir) þurfi að endurskipuleggja menntakerfi sitt því sem næst frá grunni, með sérstaka áherslu á leik og grunnskólastig.

Gamla máltækið í upphafi skyldi endinn skoða, á við hér sem oft áður.  Háleit markmið s.s. að eiga einn af 100 bestu háskólum í heiminum, falla um sjálf sig ef grunnurinn er ekki til staðar.  Nema meiningin sé að flytja inn nemendur og kennara.


17 undirskriftir

Börnin hér að Bjórá byrjuðu í skólanum í síðustu viku.  Fyrir helgina kom svo "vöndull" af pappírum sem þurfti að fylla út og skrifa undir.

Til þess að börnin gætu haldið áfram að sækja skólann og tekið þar þátt í starfseminni á mikilla vandkvæða, eða að verða sett til hliðar við ýmis tækifæri, þurfti ég að gefa 17. undirskriftir.

9. sínnum þurfti ég að skrifa nafnið mitt á pappírana fyrir Leif Enno og 8. sinnum fyrir Jóhönnu Sigrúnu.

Með öllum þessum undirskriftum viðurkenndi ég að mér væri ljós áhættan af því að börnin tækju þátt í leikfimi, færu hugsanlega í gönguferðir um nágrenni skólans, að þau mættu sjást á myndum eða myndböndum sem hugsanlega væru tekin í skólanum, að myndirnar mættu birtast á vefsíðum tengdum skólanum og einnig á öðrum opinberum miðlum, að börnin mættu nota internetið í skólanum og ég myndi reyna að kenna þeim "rétta" hegðun og notkunarreglur þar að lútandi o.sv.frv, o.sv.frv.

Munurinn á milli krakkanna lá í því að Jóhanna er ekki í skólanum í hádeginu og þurfti ég því ekki að undirrita staðfestingu á því að henni væri óheimilt að yfirgefa skólalóðina á þeim tíma.

Lífið er ekki einfalt.


Hvað skapar árangur?

Auðvitað er þetta ekki það sem Íslendingar vilja heyra, að menntakerfið í landinu sé að síga afturúr og sé undir meðaltali OECD ríkja.  Vissulega eitthvað sem þarf að huga að hvernig verði bætt.

En það væri verulega fróðlegt að sjá samanburð á mældum námsárangri með tilliti til þess hve mikill kostnaðurinn er, bæði sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og kostnaður á nemanda.

Ég sá fyrir nokkru skýrslu þeirrar gerðar sem fjallaði um heilbrigðiskerfi í Evrópu.  Þar kom skýrt fram að ekki var saman sem merki á milli eyðslu og árangurs.

En Íslendingar þurfa vissulega að ræða hvernig þeir geta bætt námsárangur, en það er ekki endilega að lausnin liggi í því að auka fjárframlög.  Slík lausn enda líklega ekki möguleg um þessar mundir.


mbl.is Ísland undir meðaltali OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hinn daglegi vígvöllur

Þessi frétt sem ég var að enda við að lesa á Vísi, vakti mér örlitinn hroll.  Hér er fjallað um agavandamál í Íslenskum grunnskólum og hvernig daglegt starfsumhverfi kennara geti orðið þegar verst lætur.

En auðvitað eru það ekki eingöngu kennarar sem eru fórnarlömb slíks ástands.  Þeir sem mest líða fyrir ástandið eru börnin, börnin sem vilja læra, en njóta ekki skólans vegna slæmrar og ólíðandi hegðunar einstakra samnemenda sinna og því úrræðaleysi sem skólayfirvöld þurfa að búa við.

Eða eins og segir í fréttinni:

Atli segir sökina liggja að miklu leyti í þeirri menntastefnu sem nú er við lýði. Grunnskólinn ráði ekki við það hlutverk að annast uppeldi barna og menntakerfið virðist því ætla enda eins og önnur opinber kerfi. Þau lofa að gera allt fyrir alla, en krepera á sjálfum sér og gera á endanum ekki neitt fyrir neinn.

Atli segir að skólastjórnendur verði að fá ótvíræðar heimildir til að beita ráðum sem duga gegn slæmri hegðun. Meðal þess sem Atli leggur til er að: Sekta foreldra ef börn skrópa í grunnskóla, að útskrifa ekki börn eftir 10 ár heldur þegar markmið skólagöngunnar hafa náðst og þeir sem ekki kunna að haga sér fái sérstaka kennslu í hegðun sem bætist við venjulegan skóladag.

En hvað er til ráða?  Þau ráð sem nefnd eru í fréttinni geta ábyggilega komið að notum, en einhvern tíma heyrði ég þá tillögu að best væri að stækka bekkina, og hafa 2. kennara í hverri kennslustund, nemendur á kennara yrðu svipuð tala, en kennararnir myndu njóta gríðarlegs stuðnings hver af öðrum.

En þetta er vandamál sem þarfnast úrlausnar, og það fyrr en síðar.


Hlekkir hagsmunasamtaka

Mér þykir því miður það vera of algengt að ég lesi fréttir svipaðar þessari.  Hagsmunasamtök lýsa sig mótfallin breytingum á starfsumhverfi umbjóðenda sinna og síðan koma alhæfingar eins og þessi: 

"Fræðimenn séu sammála um að ungum börnum henti best að læra í leik og skapandi starfi, en leikskólar skipuleggi lærdómsumhverfi barna út frá þeirri hugmyndafræði." (Feitletrun er blogghöfundar.)

Niðurstöður rannsókna í þessum efnum hafa vissulega verið mismunandi og sumar jafnvel verið á þann veg að leikskóli sé alls ekki hollur ungum börnum, og geti aukið hegðunarvandamál, en látum það liggja á milli hluta.  Nýlega gluggaði ég t.d. í rannsókn sem sagði að vissulega kæmu börn sem væru í leikskóla yfirleitt betur út hvað varðaði orðaforða, en börn sem ekki væru í leikskóla, en að sama skapi væri hegðunarvandamál mun útbreiddari hjá þeim börnum sem hefðu verið í leikskóla.

Hins vegar er að mínu mati órökrétt að láta eins og allt sé í himna lagi og engu þurfi að breyta, það eina sem vanti til að allt sé í fremstu röð sé aukið fjármagn, en það finnst mér oft einkenna málflutning hagsmunasamtaka, sambærilegra á við Félag leikskólakennara.

Hér í Kanada byrjar skólaganga við 4. ára aldur (ég er að fara að senda frumburðinn í skóla næsta haust).  Það kallast "junior kindergarten", 5. ára er "senior Kindergarten" og síðan hefst fyrsti bekkur.  "Junior" og "senior kindergarten" eru þó ekki skyldunám og er foreldrum í sjálfs vald sett hvort að þeir sendi börn sín eða ekki. Yfirgnæfandi fjöldi foreldra kýs þó að gera svo, enda er námið gjaldfrjálst.  Foreldrar geta síðan oft ráðið (ekki í öllum skólum) hvort að börnin þeirra taki þátt í svokallaðri "French Immersion, jafnvel frá og með "senior kindergarten".  Þetta þýðir þó ekki að kennsluaðferðir í "kindergarten" séu alfarið þær sömu og í hinum "eiginlega" skóla, en muninn þekki ég ekki nægilega vel.  En þetta er innan hins "hefðbundna" skólakerfis.

En seinast þegar ég vissi stóð Kanada Íslandi ekki að baki í alþjóðlegum samanburði á skólasviðinu, nema að síður væri.

Ég held að það sé þörf á því að ræða þessi mál og fá fram ólíkar skoðanir og örlítil tilraunastarfsemi og aukið valfrelsi séu líkleg til að vera af hinu góða.

Þess vegna held ég að tillaga Sjálfstæðismanna sé af hinu góða.  Henni ætti að hrinda í framkvæmd í nokkur ár og síðan að meta hvernig til hefur tekist.  Hvernig foreldrar kunna við fyrirkomulagið, hvernig það skilar börnunum í hinn "hefðbundna" skóla og hvernig kennarar meta fyrirkomulagið.  Einnig má velta því fyrir sér hvort að rétt sé t.d. að börnin hafi tvo kennara, annan "leikskólamenntaðan" en hinn með "hefðbundna" kennslumenntun. 

En látum ekki eins og engu megi breyta.

 

 

 


mbl.is Leikskólakennarar andvígir 5 ára bekkjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að aðskilja kynþættina

Aðskilnaðarstefna er ekki eitthvað sem ekki er oft til umræðu hjá opinberum aðilum í Vestrænum samfélögum.  Slíkt hefur þó verið nokkuð fyrirferðarmikið í umræðunni hér í Toronto upp á síðkastið, bæði hjá almenningi og skólayfirvöldum. 

Hart hefur verið deilt og náðu deilurnar líklega nokkrum hápunkti í síðustu viku, þegar naumlega var samþykkt að stofna "afrocentric" framhaldsskóla, þ.e. framhaldsskóla sem eingöngu væri ætlaður þeldökkum nemendum.

Þetta hefur verið baráttumál hóps þeldökkra sem telur þetta rétta svarið við því hve hátt hlutfall þeldökkra nemenda fellur frá námi.  Aðrir sjá þetta sem ekkert annað en endurtekningu á aðskilnaðarstefnunni sem tíðkaðist á árum áður og þetta færi skólastarf áratugi aftur í tímann.

Ef til vill mætti kalla þetta "Hjallastefnu kynþáttanna", það er að segja að rökin sem sem gjarna eru lögð fram eru þau að erfiðleikar þeldökku nemendanna stafi að nokkru eða jafnvel miklu leyti af "blönduninni".

Sjálfur held ég að þetta geti verið fróðleg tilraun, en vissulega hljómar það ekki vel ef aðskilnaður kynþáttanna eykst, sérstaklega á þeim "mótunarárum" sem framhaldskólaárin eru.

En hér og hér má sjá fréttir úr Globe and Mail.


List, glæpur eða hrein og bein vitleysa

Það er óhætt að segja að "listræn sprengjuhótun" Íslenska listnemandans hafi vakið athygli hér í Kanada, eða alla vegna hér í Toronto.  Fréttirnar voru auðvitað um helgina og sjá þeir sem lesa þær að fjölmiðlar segja flestir ef ekki allir frá þjóðerni málsins, og það án þess að nokkur saki þá um "kynþáttahatur". 

Eins og eðlilegt má teljast hefur umræðan ekki síst snúist um hvað sé list, hvað sé glæpur og hvað sé hreinlega vitleysa.  Sjálfur hef ég fengið á mig nokkur skot, sem Íslendingur, og einn kunningi minn spurði mig hvort að ""islömsk list" sé í miklum metum á Íslandi"?

Persónulega hef ég ekki séð neinn í fjölmiðlum réttlæta verknaðinn sem list, nema lögfræðing gerandans og þá sem eru titlaðir vinir hans.  Hér má sjá umfjöllun CityNews og "exclusive" viðtal stöðvarinnar við gerandann hér.

Sjálfur er ég svoddan "ókúltiveraður barbari" að ég reikna með því að ef ég sæi eitthvað sem líktist sprengju í neðanjarðarlestinni, nú eða á flugvellinum hérna, eða hreinlega í verslunarmiðstöð, þá myndi ég reikna með því að væri um sprengju að ræða.  Mér dytti ekki fyrst í hug að þar væri á ferð sniðugur listamaður sem væri að reyna að fá mig til að velta fyrir mér "stöðu þjóðfélagsins", eða "stöðu mína í í samfélaginu".

Ég myndi því án efa reyna að forða mér í burtu og kalla til lögregluna.  Persónulega myndi ég ekki heldur ráðleggja lögreglunni að ef miði væri festur við hlutinn sem segði "þetta er ekki sprengja", að hún einfaldlega hefði sig á brott, og léti húsvörðinn um að fjarlægja hlutinn.

Hér að neðan er smá samtíningur af fréttum er varða þetta mál.

Umfjöllun Globe and Mail má sjá hér, og fréttir National Post hér og hér.

Toronto Star fjallar að sjálfsögðu um málið eins og sjá má hér og Toronto Sun, einnig hér.

The Torantoist, er með umfjöllun hér og skoðanakönnun, um hvort gjörðin sé list eður ei, þegar ég leit þar inn höfðu þó ekki margir tekið þátt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband