Færsluflokkur: Tölvur og tækni
11.8.2006 | 15:12
Það fjölgar að Bjórá
Íbúum Bjórár, og jafnframt þeim sem eru í aðalhlutverki í þessu bloggi, fjölgaði um einn á miðvikudaginn. Þann daginn tókum við hjónin snemma, fórum á fætur fljótt upp úr 6 og læddumst út áður en foringinn vaknaði. Líklega er þetta fyrsti morguninn sem hann vaknar og hvorki pabbi né mamma eru í nágrenninu. Hann var skilinn eftir í öruggri umsjá ömmu sinnar og samkvæmt fréttum, æmti hann hvorki né skræmti.
Leiðin lá á Sínaí fjall, eða Mt. Sinai sjúkrahúsið. Þar klukkan 10.29 um morgunin kom dóttir okkar í heiminn. Þetta var "high tech" fæðing. Keisaraskurður með "öllu tilheyrandi". Þarna voru "maskínur sem sögðu ping", læknar, hjúkrunarkonur og aðstoðarfólk. Það var ekki laust við að mér þætti ég vera lítill, allt að því fyrir í öllu þessu "gangverki", það þó að ég væri "dressaður" upp í "sterílan" galla, lítandi út eins og læknir. Enda sat ég prúður við hlið konunnar, horfði á hana og tjaldið sem aðskildi mig frá "aksjóninni" og beið þolinmóður. Það var ekki laust við að ég væri örlítið áhyggjufullur, enda stúlkurnar úr "Bjórárfjölskyldunni" báðar undir hnífnum.
En allt gekk þetta að óskum, bæði móður og dóttur heilsast vel og að öllu óbreyttu koma þær mæðgur heim að Bjórá á laugardag.
Þetta er unaðsleg tilfinning, sem ég upplifði nú í annað sinn, sitjandi við tjaldið, heyra grátinn, kíkja yfir og vera svo rétt barnið blautt og glansandi, en svo óendanlega fallegt. Hjálpa svo til við að þurka það, snyrta naflastrenginn, vefja þau í teppi, og reyna svo að halda þeim rólegum, uns læknarnir hafa lokið starfi sínu, allir eru færðir yfir í annað herbergi og mamma getur gefið brjóst. Þennan tíma, grétu þau nokkuð, enda býður pabbi þeim ekkert að sjúga, nema þeirra eigin fingur.
Það var sami læknirinn, Dr. Gareth Seaward, sem hefur stjórnað "aðgerðum" í fyrir bæði börnin okkar, á stundum líður mér eins og hann sé fjölskylduvinur, andrúmsloftið er svo gott, óþvingað og öruggt í kringum hann. Hún er stór "skuldin" sem ég á að gjalda manninum sem hefur "skorið" báðum börnunum mínum leið út í heiminn.
Foringinn, sem hækkar sjálfkrafa "í tign" og verður "stóri bróðir" kom með okkur tengdó á sjúkrahúsið seinnipartinn í gær. Hann lét sér þó fátt um finnast og hafði lítinn ef nokkurn áhuga á "litlu systur".
Meðfylgjandi er svo mynd af heimasætunni á Bjórá, tekin þegar sú litla var orðin u.þ.b. 4 tíma gömul.
Meira og fleiri myndir síðar.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2006 | 01:06
Alltaf í nógu að snúast - Ný miðstöð - Ný þvottavél
Það er búið að vera í nógu að snúast að Bjórá í dag. Stuttu eftir klukkan 8 komu menn til að hreinsa hér loftstokkana, rétt rúmum 2. tímum síðar komu svo menn til að skipta um miðstöð. Sú nýja á að vera sparneytnari, betri hitagjafi. Það á auðvitað eftir að koma í ljós, en við verðum að vona það besta. Ekki þar fyrir að ef boðið væri upp á hitaveitu hér, væri ég í þessum töluðum orðum að skrúfa upp ofnafestingar, hugnast það mun betur, en þó er sá galli að erfitt er að nota ofnana til kælingar.
Konan er hins vegar mjög ánægð með nýju miðstöðina, sérstaklega að nú logar enginn "pilot logi" þannig að gas er ekki logandi hér allan sólarhringin árið um kring.
En það varð vel heitt hér í dag, sérstaklega þegar nýja miðstöðin var prufkeyrð, ofan á þau 30 stig eða svo sem voru hér úti. Ekki hægt að hafa neina loftkælingu í gangi, þar sem þetta virkar allt saman. Síðan var ég önnum kafinn við að skúra og skrúbba eftir allt þetta um eftirmiðdaginn.
Fyrir þá sem hafa áhuga má sjá miðstöðina hér.
Fyrir nokkrum dögum tjáði konan mér að þvottavélin sem fylgdi íbúðinni, myndi ekki duga okkur, hún væri komin að fótum fram og þvoði ekki nægjanlega vel. Þá var auðvitað farið af stað að leita að þvottavél, fyrst aðallega á netinu, en síðan í nokkrum verslunum. Enduðum á því í gær að kaupa okkur Kenmore þvottavél. Hún verður send heim eftir viku, og þá taka þeir gömlu vélina okkar.
Annars er það með eindæmum hvað N-Ameríka er eitthvað forneskjuleg hvað varðar þvottavélar. Það er eins og þeir hafi uppgötvað það fyrir fáeinum vikum eða mánuðum hvað "framhlaðnar" þvottavélar eru mikið betri, skilvirkari og sparneytnari en "topphlaðnar" þvottavélar. Vinduhraði rétt um 1000 snúninga þykir einnig alveg frábært.
Þegar ég lét það flakka að mamma hefði keypt "framhlaðna" vél rétt um ´70, og toppvélar vindi með allt að 1800 snúningum eða svo, stara menn á mig, en segja ekkert. Halda líklega að ég sé galinn.
En svona er þetta, "high tech" æðið sem geysar á Íslandi hefur ekki náð hingað, ef menn vilja svo fá þvottavélar með "suðu", verður að kaupa "high end", ef til vill er ekkert að gera með það, ég þekki það ekki nógu vel, en alla vegna var konan sátt við "Kenmorinn". Það spilaði líka stóra "rullu" að "Consumer Report" gefur þessum vélum bestu einkunn.
Foringinn, konan og tengó, voru í burtu á meðan á öllu "miðstöðvarbaslinu" gekk, komu síðan heim um kvöldmatarleytið, ég grillaði svínalund, opnaði eina rauða, við skáluðum fyrir nýju miðstöðinni og all leit allt í einu betur út.
Á morgun sendum við tengdó í ferskjutínslu, það ber vonandi góðan ávöxt.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 04:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2006 | 14:30
Hinn kanadíski "kóngur" Wikipedia
Flestir þeir sem þvælast um netið ættu að kannast við alfræðiorðasíðuna www.wikipedia.org . Þar er allt unnið í sjálfboðavinnu (í það minnsta eftir minni bestu vitneskju).
Á vefsíðu Globe and Mail í dag er grein/viðtal við ungan kanadamann sem hefur helgað síðunni umtalsvert af kröftum sínum undanfarin ár.
Viðtalið má finna hér.
Datt í hug að þeir sem nota þessar síður (ég geri það töluvert) hefðu gaman af því að sjá eitthvað til fólksins á bakvið þær.
Hver skyldi nú annars hafa ritað þar inn mest um íslensk málefni? Veit það einhver?
1.8.2006 | 03:04
Auðlegð í iðrum jarðar
Var að lesa skemmtilega frétt á visi.is, rétt í þessu. Þar var fjallað um jarðhitann á Íslandi og hvað nýting hans sparaði mikinn innflutning á olíu.
Þar kom fram að til að hita upp þau hús sem íslendingar hita með jarðhita, yrði að flytja inn olíu að verðmæti u.þ.b. 30 milljarða króna. Það er því ljóst að jarðhitinn er risastór auðlind. Ekki er minna um vert að bruni olíunnar myndi orsaka að 2,5 milljónir tonna af koltvísoxíði færu út í andrúmsloftið, en til samanburðar segir í fréttinni að allur bílafloti íslendinga losi 700.000 tonn á ári hverjuj og þykir það mikið miðað við höfðatöluna margfrægu.
Orðrétt segir í fréttinni: "Ef hita ætti heimili landsins með rafmagni myndi þurfa 5800 gígavattstundir af raforku á ári. Til samanburðar framleiðir Kárahnjúkavirkjun 4600 gígavattstundir af raforku árlega. Hins vegar væri hægt að framleiða rafmagn fyrir sex sinnum fleiri heimili en nú eru í landinu með jarðvarmanum einum. Þannig væri til rafmagn fyrir um 2 milljónir manna."
Sjá fréttina hér.
Það er einnig vert að hafa í huga að íslenskir jarðvísindamenn hafa gríðarmikla þekkingu á nýtingu jarðvarma, og hefur sú þekking og það hugvit sem íslendingar ráða yfir, orðið að vaxandi útflutningsvöru, nú þegar íslendingar koma að jarðvarmavirkjunum víða um lönd.
Það er því óhætt að segja að jarðhitinn sé mikilvæg auðlind, og rétt eins og segir í fréttinni líklega mikilvægari en flest okkar gera sér grein fyrir.
Við sem fáum heitavatnið okkar úr litlum tanki, sem hitar vatnið með gasi eða rafmagni, vitum líka hvers kyns lúxus það er að hafa óþrjótandi vatn úr krananum, þegar tekin er sturta eða farið í bað, sérstaklega ef margir eru í heimili.
27.7.2006 | 03:57
Bloggað að Bjórá
Þá er bloggið farið að berast frá Bjórá. Tæknimaður kom hér í gær og lagði lagnir um allt hús, boraði og hamaðist í eina 5 tíma. Lagði nýjan streng úr staurnum og gerði allt sem ég bað um. Lagði eina 3 nýja símatengla, færði sjónvarpstengilinn, lagði nýjan internettengil og tékkaði á því að þetta virkaði allt saman.
Ég var frekar "impóneraður" með upphafið á þjónustunni og vona að þetta haldi áfram með þessum hætti. Gaukaði að manninum einni "rauðri" og annari "hvítri" bara til að þakka fyrir mig.
Fínn hraði á netinu, og ekki yfir neinu að kvarta, alla vegna ekki enn. Nú þarf ég bara að fara að kaupa mér nýja vél og þá verður allt eins og blómstrið eina í þeim efnum.
Annars er allt bærilegt af okkur að frétta, stór hluti af dótinu er þó enn í kössum, en það lagast vonandi á næstu dögum. Búinn að setja upp hillur og skrúfa þær við vegginn, þannig að engin hætta sé að foringinn velti þeim um koll. Næsta skref verður líklega að setja ljós þar sem vantar, á stofuna og ganginn, þá fer þetta að líta þokkalega út.
Fengum nýja dýnu senda heim fyrir nokkrum dögum, hún er engu lík sem ég hef sofið á áður, hreint einstök, gæðavara frá Stearns & Foster, get svo sannarlega mælt með þessari, dýr en vel þess virði.
Svo þurfti auðvitað að kaupa sláttuvél, sænsk gæðaframleiðsla frá Flymo varð fyrir valinu. Handknúin sláttuvél er rétta græjan fyrir mig, gott að reyna örlítið á sig stöku sinnum. Merkilegt nokk fann ég ekkert um græjuna á heimasíðu Flymo, þar er eingöngu fjallað um vélknúnar græjur.
Keyptum líka nýtt pottasett, með "einstakri húð" sem ekkert brennur við á, blanda af keramiki og titanium segja framleiðendurnir, en það virkar, er virkileg "non stick".
Svona hlaða svona flutningar utan á sig, sérstaklega þegar flutt er í stærra húsnæði.
Svo þurfi ég að fara til tannlæknisins í dag. Eftir strangan yfirlestur um notkun tannþráðs var krónunni sem ég var búinn að bíða nokkuð eftir smellt í kjaftinn á mér og lítur bara ljómandi út.
Vegna anna bloggaði ég ekkert um frábæran sigur "Skósmiðsins" á Magny Cours, þetta er allt á réttri leið. Svo bíð ég auðvitað spenntur eftir að fylgjast með kappakstrinum á Hochenheim. Það verður spennandi að sjá hvaða áhrif það hefur að fjöðrunarbúnaður sá sem Renault og Ferrari hafa þróað (Renault var á undan) hefur verið bannaður. Flestir virðast þeirrar skoðunar að það hafi meiri áhrif á Michelin dekkin.
Það er nokkuð ljóst að ef Schumacher nær að sigra á heimavelli, opnast mótið enn frekar.
Vissuð þið annars að Michael Schumacher var fyrsti þjóðverjinn til að vinna þýska kappaksturinn, það gerði hann árið 1995, þá fyrir Benetton, með Renault vél ef ég man rétt. Númer 2, var svo bróðir hans, Ralf árið 2001, akandi Williams.
20.7.2006 | 20:01
Lífið að Bjórá .... sími, sjónvarp og internet
... er óttalega ljúft. Þó er ennþá bloggað úr gömlu íbúðinni. Internettenging og heimasími kemur ekki að Bjórá fyrr en á þriðjudag.
Það kom þó maður í gærkveldi og tengdi sjónvarps"kapalinn", þannig að sjónvarp er farið að sjást. En þar sem þörf er á þó nokkru af nýlögnum fyrir síma og internet hefst það ekki fyrr en á þriðjudag.
En fyrir þá sem hafa gaman af að heyra hvernig kaupin gerast á þessarri eyri, þá var eftirfarandi þjóunusta keypt:
72 sjónvarpsrásir, fyrir það er greitt ca. 3.700, ISK á mánuði, en þó fæst 25% afsláttur fyrstu 4. mánuðina. Valið stendur þó eingöngu á milli tveggja pakka ca 40 rásir fyrir helmingin af upphæðinni, en til að fá formúluna (á tveimur rásum) og History Channel, Discovery og fleira varð að taka stærri pakkann.
Internetteng upp á 6.0 kostar okkur svo 3.800 ISK, með leigu á módemi. Þetta er heildargjald, þar sem engin hefur heyrt talað um að rukka fyrir niðurhal hér. Innifalið er 9 netföng, vefsvæði, allir helstu varnir og slíkt.
Með þessum pakka fylgir svo frír heimasími í 9 mánuði, en eftir það kostar hann rétt ríflega 1.700 ISK á mánuði, en rétt er að taka fram að öll "local" símtöl eru innifalin í þeim pakka.
Ef við viljum síðan binda okkur til 2ja ára fáum við 10% viðbótarafslátt af öllum pakkanum. Ég hafnaði því, sagðist vilja reyna þjónustuna fyrst, en get hringt inn hvenær sem er og látið festa þetta og fengið afsláttinn.
Innifalið er síðan lagnir á sjónvarpi, síma og interneti þangað sem ég vil um húsið.
Persónulega er ég nokkuð ánægður með "dílinn", en vissulega á eftir að sjá hvernig þjónustan reynist. En þeir sem hafa verið í viðskiptum við þetta fyrirtæki, og ég spurði, báru því þó vel söguna.
20.7.2006 | 19:44
Góð orka, gott mál
Nú er ég að lesa eldri fréttir, eftir að hafa lítið fylgst með í nokkurn tíma vegna anna við málningu og flutninga.
Það er ánægjulegt að lesa fréttir sem þessa. Þegar nýting íslenskra auðlinda, vistvæn orka, bætt nýting á auðlindinni og nýting íslenskrar þekkingar fara sama er ekki ástæða til annars en að gleðjast.
En sú spurning hlýtur líka að vakna til hvers er virkjað? Til hvers á að nýta orkuna?
Nú þegar mikið er rætt um stóriðjuframkvæmdir verður að velta þessu fyrir sér, á að stöðva frekari virkjunarframkvæmdir eða hvernig sjá menn fyrir sér að orkan verði nýtt.
Sjálfur er ég fylgjandi stóriðju, tel hana nýtast þjóðarbúinu vel, en að sjálfsögðu með öðru og hef aldrei litið á hana sem annaðhvort eða málefni.
En vissulega væri æskilegt ef nýting íslenskrar orku væri fjölbreyttari en raun ber vitni, alltaf er betra að hafa eggin í fleiri körfum, en hins vegar verður líka að sníða vonir og væntingar að raunveruleikanum. Á meðan eftirsóknin eftir orkunni er ekki meiri en raun ber vitni, og fyrst og fremst áliðnaðurinn sækist eftir henni, breytist niðurstaðan ekki. Ja, nema við hættum við frekari virkjanir.
Mikil jarðfræðiþekking og bortækni skila góðum árangri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.7.2006 | 19:02
Flutt
Og þá erum við flutt að Bjórá. Enn sem komið er kemur þó bloggið ekki þaðan, heldur sit ég hér í auðri íbúðinni og hamra á lyklaborðið. Enn er ekki búið að ganga frá sjónvarps og internetmálum að Bjórá, en það verður vonandi í vikunni. Það er auðvitað stór spurning hvað öflugan internetpakka verðu splæst í og ekki stíður hvað stóran sjónvarpspakka á að kaupa. Símamálin bíða reyndar líka úrlausnar og er vonin bundin við að þetta verði allt saman leyst í einum pakka.
En þetta gekk allt vel fyrir sig. Leigðum bíl frá U-Haul og var farið með allt í einni ferð, ja nema alls kyns smádót sem farið var með á fjölskyldubílnum. Laugardagurinn var að vísu heitur, rétt um 30 stig, og jafngilti víst um 35 stigum með rakanum, þeir "köldu" komu sér því vel.
En á sunnudag og mánudag brast svo á með 35 stiga hita sem jafngilti 43 stigum með rakanum, þannig að við gátum þakkað okkur sæla fyrir að hafa flutt á laugardeginum. Svona fær maður alltaf litla hluti til að gleðjast yfir.
En ég reyni að bæta úr þessum bloggskorti á næstu dögum......
20.6.2006 | 21:59
Heimsendir er alltaf handan við hornið - er olían á þrotum?
Þau eru býsna mörg vandræðin sem hafa sótt svo að mannkyninu í gegnum tíðina. Mörg hver hafa jafnvel verið talin "óumflýjanleg, af færustu vísindamönnum" svo notuð sé orð sem álík þeim sem oft heyrast.
Margir muna eflaust eftir "mannfjöldasprengingunni" svokölluðu, þar sem mannfjöldi yrði skjótt allt of mikill til að jörðin gæti borið hann. Á áttunda áratugnum var þó nokkuð mikið fjallað um að kuldakast væri óumflýjanlegt á jörðinni, líklega skylli á ísöld. Flestir kannast svo við 2000 vandann, yfirvofandi hlýnun jarðar, og svo það sem hefur verið ofarlega í umræðunni undanfarin misseri, að jarðarbúar séu í þann veginn að klára alla olíu sem til er, það er að segja innan nokkurra áratuga.
Þessi vandamál eiga það sameiginlegt að það er nokkuð vonlaust fyrir "bol" eins og mig að að mynda mér sjálfstæða skoðun á þessum málum. Gagnaaðgangur okkar "bolanna" er frekar takmarkaður og við höfum hvorki tíma né fé til að þeytast heimshornanna á milli til að skoða aðstæður, né höfum við peninga til að kaupa dýr mælitæki.
Því verðum við "bolirnir" að treysta á aðra, við verðum að treysta því að þeir upplýsi okkur um ástandið og reynum svo eftir besta megni að móta okkar eigin skoðanir út frá því. Stundum er það þó ískyggilega nærri því að við veljum okkur einhvern til að "halda með", því þegar svo misvísandi skoðanir koma fram, erum við "bolirnir" í raun ekki þeim vanda vaxnir að meta hver hefur rétt fyrir sér.
Ég hef þó leyft mér að hafa þá skoðun að (byggða þó á upplýsingum frá öðrum, en ekki eigin athugunum) að olíuskorturinn sé orðum aukin. Til sé mun meiri olía á jörðinni en "heimsendaspámennirnir" vilji vera láta. Mín skoðun sé sú, að það sé spurning um betri tækni, við leit og olíuvinnslu sem sé það sem skipti máli, olíu sé víða að finna.
Það sýnir sig að nokkru marki í olíusöndunum hér í Kanada, vinnslan þar er að stóraukast með bættri tækni, auk þess sem hátt olíuverð hefur gert hana mun áhugaverðari en áður var. Olíusandar munu víst líka vera gríðarmiklir í Venezuvela. Það mátti sömuleiðis sjá afar áhugaverða frétt á vef BBC fyrir nokkrum dögum.
Þarna er verið að tala um gríðarlegt magn af olíu, en tæknin til að vinna hana á hagkvæman máta er ekki til staðar - enn.
Hitt er þó líklegt að olíuverð eigi eftir að haldast hátt um fyrirsjáanlega framtíð, þó að vonir standi til að það lækki eitthvað, fer það ábyggilega ekki í fyrra horf.
Það er líka ljóst að þó að olíubirgðir jarðar séu meiri en margir vilja telja, er engin ástæða til að slá slöku við að hagnýta aðra og vistvænni orkugjafa.
En það er heldur engin ástæða til að mála í sífellu skrattann á vegginn.
Tölvur og tækni | Breytt 21.6.2006 kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.6.2006 | 20:06
Vinyllinn í laserspilara
Margir hafa ábyggilega heyrt einhvern tjá sig um hvað gömlu vinyl plöturnar hafa fram yfir geisladiskana. Vinur minn vakti athygli mína á því að nú er hægt að sameina þetta tvennt, fá geislaspilara fyrir gömlu vinylplöturnar mínar. Hljómgæðin eiga víst að vera ótrúleg.
Það sem helst mun líklega koma í veg fyrir að ég fjárfesti í þessum gæðagrip á næstunni, mun víst vera verðið, en það byrjar víst í kringum milljón íslenskar krónur, og færist svo upp.
En þeir sem vilja sjá gripinn á netinu geta það hér. Svo er spurning hvort að ég nái einhvern tíma að heyra í slíkum undragrip.