Færsluflokkur: Tölvur og tækni
15.6.2006 | 04:57
Dagurinn sem hluthafar töpuðu 500 000 000 000!
Þegar stór verkefni tefjast, geta afleiðingarnar verið stórar. Þegar ég las um seinkun þá sem verður á afhendingum á nýju Airbus risaþotunni og það sem eftir fylgdi á hlutabréfamörkuðum, varð ég þögull í smá stund og reiknaði í huganum.
Það er þegar ég les fréttir sem þessar að ég gleðst yfir því að hafa ekki stórar upphæðir bundnar í hlutabréfum (núna er eiginlega allt komið í fasteign fjölskyldunar, og því best að krossleggja fingurna að fasteignverð fari ekki lóðbeint niður). Þegar fyrirtæki lækkar í verði um fjórðung, er ekki ólíklegt að "stress" herji á einhverja hluthafa og reyndar fleiri. Ef fyrirtæki eins og Airbus "hóstar", verða býsna margir með "kvef" um alla Evrópu.
Verðmæti EADS minnkaði um u.þ.b. 500 milljarða íslenskra króna, hlutabréf í félaginu lækkuðu um 26%, á einum degi. Félagið á 80% í Airbus verksmiðjunum, en verksmiðjurnar tilkynntu í dag (miðvikudag) um 7 mánaða seinkun á afhendingu nýju risaþotunnar, A380, til viðbótar við 6 mánaða seinkun sem tilkynnt var um á síðasta ári.
Þetta hljómar ef til vill ekki svo skelfilega en þetta hefur víðtækar afleiðingar. Ekki nóg með að Airbus telji að þetta minnki hagnað félagsins um u.þ.b. 200 milljarða á árabilinu 2007 til 2010, heldur er einnig reiknað með að flugfélög sem þegar hafa pantað flugvélina muni sækja skaðabætur á hendur Airbus. Hvaða upphæðir þar er um að ræða er erfitt að fullyrða, en flugfélög og flugvellir um víða veröld hafa nú þegar lagt í gríðarlegar fjárfestingar til að þjóna nýju þotunni, undirbúið breikkun flugbrauta og nýja landganga. Heathrow hefur reiknað með að kostnaður þar verði ríflega 60 milljarðar íslenskra króna.
En það er ekki bara A380 sem verður á eftir áætlun, A350, ca 300 manna vél, er líka orðin á eftir áætlun.
Það kom svo eins og salt í sárið, og herti á sölunni, að Singapore Airlines tilkynntu um áætlanir um að kaupa 20 Dreamliner þotur frá Boing (með kauprétti á 20 til viðbótar), og fram kom í fréttum að OAO Aeroflot væri einnig í Boing hugleiðingum.
Þetta er gríðarhögg fyrir Airbus, mikill álitshnekkir fyrir stjórnendur þar, og að margra áliti stórt áfall fyrir Evrópu og Evrópusambandið í heild.
Loks er vert að geta að samsæriskenningasmiðir telja sumir að um vísvitandi lækkun sé að ræða, þar sem BAE Systems, hafa viljað selja sín 20% í Airbus, en flestir telja slíkt nokkuð fráleitt.
Svo er auðvitað rétt að hafa í huga að ómögulegt er að segja um hvort þessi lækkun er komin til að vera eða ei. En líklega þurfa hluthafar að hafa "sætisbeltin spennt" ef svo má að orði komast, það er líklega ókyrð framundan.
Fréttir Globe and Mail, The Guardian, The ToL og NYT.
31.5.2006 | 13:57
Nauðsyn erfðabreyttra matvæla
Undanfarin ár hefur oft verið rætt um erfðabreytt matvæli. Umræðan hefur oft verið á þeim nótum að helst má skilja að um eitthvert "Frankenstein fyrirbrigði" sé að ræða, öllu mannkyni standi stór hætta af þessum tilraunum og helst þurfi að stöðva þetta eins og skot.
Ekkert er fjær sanni, að mínu mati. Þó vissulega sé þörf á því að fylgjast vel með slíkum matvælum og ég sé fyllilega sammála því að neytendur eigi rétt á því að slík matvæli séu merkt, þannig að þeir viti hvað þeir eru að kaupa, eru erfðabreytt matvæli nauðsynleg og af hinu góðu.
Ekki aðeins að erfðabreytt matvæli auki uppskeruna, þau geta einning dregið úr þörf fyrir skordýraeitur og þurkþolin afbrigði geta gjörbreytt afkomumöguleikum margra.
Ég held að það sé því misskilningur að berjast á mótí erfðabreyttum matvælum, hitt er þó eins og ég áður sagði, sjálfsagt að fylgjast með þessari þróun og láta almenning vita hvað hann er að kaupa.
En erfðabreytingar hafa alltaf verið framkvæmdar, þo með öðrum og hægvirkari hætti, og er gulrófan líklega eitthvert besta dæmið um það, sem flestir hafa líklega séð og snætt.
Nóbelsverðlaunahafi segir að tvöfalda verði matvælaframleiðslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2006 | 15:37
Arnarhreiðrið - raunveruleikasjónvarp
Ég frétti af þessari vefmyndavél (sjá tengil hér að neðan) núna í gær, taldi rétt að deila henni með sem flestum. Þarna má sjá á stundum svo góða og skýra mynd af frá bakgarði á Hornby Island, Bresku Kolumbíu, að undrum sætir.
En vissulega er það ekki bakgarðurinn sem hefur þetta aðdráttarafl, heldur ernir sem hafa byggt sér hreiður þar. Þetta er víst annað árið í röð sem þeir verpa þarna og nú hefur tekist að varpa þessu beint á netið. Lítill arnarungi átti að hafa komið í heiminn á föstudaginn var, aldrei tókst mér að sjá hann, enda er nú er búið að bera það til baka. Líklegast þykir því að varpið hafi misfarist.
Þetta er stórkostleg sjón, en rétt er þó að vara þá við sem hyggjast fylgjast með arnarparinu, að aðsóknin á síðuna er slík, að erfitt getur verið að ná sambandi við myndavélina. Talið er að um og yfir 100 milljónir heimsókna hafi verið á síðuna á undanförnum mánuði eða svo, þannig að þó að aðstoð frá Microsoft og fleiri stórfyrirtækjum hafi komið til, er síðan gjarna við það að fara á hliðina.
Hér að neðan er tengill á síðuna, annar á frétt Globe and Mail um arnarhreiðrið og sá þriðji og fjórði frá CTV.
P.S. Núna hefur mér reynst ómögulegt að ná sambandi við síðuna í nokkurn tíma, en það borgar sig að reyna.
http://www.infotecbusinesssystems.com/wildlife/
http://www.theglobeandmail.com/servlet/story/RTGAM.20060429.weagle0430/BNStory/Science/home
http://www.ctv.ca/servlet/ArticleNews/story/CTVNews/20060430/overdue_eggs060430/20060501?hub=SciTech
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 16:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2006 | 21:54
Fjarlægðin gerir fjöllin blá og kaffi gott
Fann þetta líka eðal kaffi í gær, eftir langa og stranga leit.
Jamaíka kaffi, nánar tiltekið Blue Mountain Blend kaffi (smá fróðleikur hér: http://www.jamaica-gleaner.com/pages/history/story0029.html) þetta er hreint snildarkaffi, bragðið ferskt, sterkt og ljúft. Verðið var meira að segja gott, það gerist eiginlega ekki mikið betra en þetta. Ásamt Bob Marley er þetta það besta sem ég hef upplifað frá Jamaíka.
Núna þarf ég líklega að byrja að spara fyrir hreinu og ósviknu Blue Mountain kaffi, en þar er hinsvegar um að ræða annan verðflokk, en ef Blue Mountain Blend nær því að vera þetta gott, þá hlýtur hreint Blue Mountain að vera hreinn unaður.
Nú þarf ég bara að finna mér góða kaffikvörn, áður en ég eyðilegg töfrasprotann á heimilinu, en hann er núna notaður til mölunar.
Svona fyrst ég er farinn að tjá mig um innkaup, þá gerði ég fín kaup í LCD skjá í dag, keypti mér Samsung 940B, 19" skjá. Að setja gamla túpuskjáinn til hliðar er góð upplifun, orðið tímabært að koma sér inn í 21stu öldina, núna þarf ég bara að kaupa mér nýja tölvu og verð þá orðinn fær í flestan sjó.
Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 22:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)