Bloggfærslur mánaðarins, september 2015
19.9.2015 | 17:54
Meirihluti borgarstjórnar ekki starfi sínu vaxinn
Það hefur eiginlega verið með ólíkindum að fylgjast með uppákomu þessari í borgarstjórn Reykjavíkur.
Það hefur komið í ljós að meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna veldur ekki hlutverki sínu, og virðast ekki skilja það.
Þegar borgarstjóri lætur hafa það eftir sér að málið hafi ekki verið kannað til hlýtar, vegna þess að Björk Vilhelmsdóttir hafi verið að hætta í borgarstjórn, jafngildir það að hann lýsi því yfir að meirihluti borgarstjórnar valdi ekki hlutverki sínu.
Því auðvitað á það ekki að hafa áhrif á borgarstjórn og ákvarðanir hennar, hvort borgarfulltrúi ákveði að afsala sér umboði sínu. Eftir sem áður eiga hagsmunir borgarbúa að vera í mikilvægasta mál borgarfulltrúa.
Þeir hagsmunir virðast hafa yfirgefið huga borgarfulltrúa.
Enn og aftur virðist meirihluti borgarfulltrúa Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðar hafa misst sjónar á því að borgin er ekki eyríki, heldur hluti af Íslandi.
Reykjavíkurborg ætti ekki að hafa efst í huga að móta sér utanríkisstefnu, heldur að reka sig og fyrirtæki sín með hag borgarbúa í huga, en ekki eingöngu þröng pólitísk sjónarmið.
En það sést ef til vill á samþykktunum og árangrinum í fjármálum borgarinnar hvort núverandi meirihluta þykir mikilvægara.
Það er einungis hægt að óska þess að borgarbúar lýsi vilja sínu í næstu kosningum, og losi borgina við núverandi meirihluta.
P.S. Það er vissulega jákvætt að meirihlutinn hafi lýst vilja sínum til að draga samþykktina til baka, en lýsir jafnframt hve viljugur meirihluti Samfylkingar, Vinstri grænna, Pírata og Bjartrar framtíðarl, er til að samþykkja tilögur "villta vinstursins" án þess að gefa því raunverulega gaum, hvað þau eru að samþykkja.
P.S.S. Ef til vill ætti meirihlutinn einfaldlega að einbeita sér að að uppsetningu myndlistasýninga, þar virðist skaðinn þó ekki vera meiri en nokkrar milljónir og að einstaklingar missi matarlystina.
Dagur: Hefði mátt útfæra málið nánar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.9.2015 | 17:38
Flikk frá fortíðinni
Ég hef verið óttalega latur á netinu undanfarna mánuði, bæði hér á blogginu, sem annars staðar, til dæmis á Flickr. En það þýðir ekki að ég hafi ekki tekið myndir.
Hér eru nokkrar myndir af sem ég hef nýlega sett á Flickr, og eins og endranær, má smella á myndirnar til að flytjast þangað og sjá þær stærri.
Ljósmyndun | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2015 | 17:29
Um höfundarrétt
All nokkuð hefur verið fjallað um höfundarétt og brot á honum upp á síðkastið og eins og í mörgum öðrum málum sýnist sitt hverjum.
Í grunninn hlýtur þó öllum að vera ljóst, hvort sem þeir eru "sjóræningjar" eður ei, að lög skulu gilda. Það er með þeim sem við byggjum landið.
Og það er auðvitað rugl að ekki borgi sig að stoppa þá sem brjóta lögin, vegna þess að líklega munu þá aðrir gera það.
Lögbrot er alltaf lögbrot.
Ef margir eru hins vegar þeirra skoðunar að lögin séu röng og ekki "barn síns tíma", ef svo má að orði komast, er sjálfsagt að berjast fyrir því að þeim sé breytt.
Engir eru í betri stöðu í slíkri baráttu, en þeir sem eiga sæti á Alþingi.
Það hlýtur því að klaga upp á þá að leggja fram lagabreytingar hvað varðar höfundarétt, ef þeir eru sannfærðir um að slík lög þjóni ekki nútímanum.
Og að mínu mati er sjálfsagt að ræða um höfundarétt og hvort hann sé og ítarlegur, eða lög hvað slík réttindi varðar þurfi endurskoðun.
Ekki síst er t.d. eðlilegt að ræða hvers vegna höfundaréttur er jafn misjafn og raun ber vitni.
Út af hverju er t.d. höfundaréttur á tónverki varin þangað til 70 árum eftir andlát höfundar (ef ég man rétt), en allir mega kópera lyf 20 árum eftir að sótt er um einkaleyfi fyrir því?
Er það af því að tónlistarmenn eru gjarna "poppstjörnur", en vísindamenn eru "nördar", eða er eitthvað annað sem spilar þar inn í?
Er meiri ástæða til að höfundarvernda lög á geisladiski, en þá uppfinningu sem geisladiskurinn sjálfur er?
Nú skil ég mætavel og hef fulla samúð með því sjónarmiði að tónlistarmenn og aðrir hugverkasmiðir vilji fá greitt fyrir vinnu sína, en gildir ekki það sama um vísindamenn og aðra hugvitsmenn?
Út af hverju þarf t.d. lítil rakarastofa að greiða gjald fyrir það að þeir 2 til 4 viðskiptavinir, sem þar eru inni á sama tíma, hlusti á lag í útvarpi, þegar útvarpsstöðin hefur þegar greitt höfundi og flytjendum lagsins fyrir réttinn til að útvarpa því?
Rakarastofan þarf í ofanálag (í sumum tilfellum) að greiða útvarpsstöðinni fyrir að njóta útsendingar hennar, sem er auðvitað að hluta til notað til að greiða lagahöfundum umrætt gjald.
Er þetta dæmi um að höfundaréttur hafi verið teygður og langt?
Það er sjálfsagt að ræða höfundaréttarmál mun meira en nú hefur verið gert.
Ef til vill er þörf á breytingum á þeim, ef til vill ekki.
En það þurfa allir að fara eftir lögunum, á því á ekki að gefa afslátt og í raun stórhættulegt ef alþingismenn eru að leggja slíkt til.
En þeirra eru löggjafarvaldið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.9.2015 | 15:26
Að gera meiri kröfur til einkaaðila en opinberra
Það er rétt að fagna því að frumvarp um frjálsa sölu á áfengi skuli verða lagt fram á ný. Hvernig sem fer, er fyllsta ástæða til þess að Alþingi taki afstöðu til málsins og almenningur fái að sjá hverjir eru fylgjandi og hverjir á móti.
En ég set nokkurn fyrirvara við aukin skilyrði og refsigleði sem hefur bæst við frumvarpið.
Vissulega er það svo að allir eiga að fara eftir lögunum. Til að tryggja það er rétt að hafa einhverjar refsingar.
En hvort að allt að 6 ára fangelsi sé réttlætanlegt fyrir það eitt að einhver mistök eigi sér staði í afgreiðslu finnst mér vel í lagt.
Það er rétt að hafa í huga að líklega hafa þúsundir undir lögaldri keypt áfengi í í verslunum ríkisins (ÁTVR) i gegnum tíðina. Sá sem þetta skrifar er einn af þeim.
Aldrei hefur verið talað um að refsa þurfi fyrirtækinu, sekta það, fangelsa afgreiðslufólk eða stjórnendur fyrirtækisins.
Er nauðsynlegt að þyngja refsingar svo um munar, ef sala er færð í hendur einkaaðila?
Þykir það sjálfsagt að gerðar séu mun strangari kröfur til einkafyrirtækja en opinberra, þannig að engin mistök megi eiga sér stað?
P.S. Svo um endurtekin og ítrekuð brot, gegnir að sjálfsögðu öðru máli um afbrot af þessu tagi, rétt eins og öll önnur.
Áfengisfrumvarpið flutt aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2015 | 07:18
Að treysta almenningi fyrir ákvörðunum
Það er alveg rétt að stjórnmálamenn hafa í gegnum tíðina verið alltof linir og seinir að færa valdið til almennings. Að láta almenningi eftir að taka ákvarðanir og treysta honum til að stjórna lífi sínu.
Að stórum hluta til er það vegna stjórnmálamanna sem "telja sig vita betur".
Þannig má líklega segja að fæstir af þeim sem greiddu atkvæði gegn því að bjór yrði leyfður á Íslandi hafi gert það vegna áhyggja af því að þeir sjálfir gætu ekki umgengist hann, heldur hitt að "allir hinir" myndu lenda í vandræðum.
En það er rétt hjá Bjarna Benediktssyni að það er löngu tímabært að auka frelsi á Íslandi, færa ákvarðanir í auknum mæli til almennings.
Bjarni nefnir ágætis dæmi úr sögunni, bjór og frjálst útvarp. Hvorugt getur talist "lífspursmál", en er eigi að síður sjálfsögð gæði í frjálsu samfélagi, og líklega myndu margir láta í sér heyra, ef taka ætti þau af þeim.
Það er líka rétt hjá Bjarna að það er engin ástæða til annars en að treysta almenningi til að taka ákvarðanir í auknum mæli, t.d. hvort að þeir kaupa sér áfengi um leið og þeir kaupa í matinn eður ei.
Og það má nefna ótal dæmi í viðbót.
Það er fyllilega tímabært að almenningi sé gert kleyft að ákveða hvort hann vill greiða sóknargjald til trúfélaga eður ei. Það má gera með einföldum hætti, s.s. að hakað sé við reit á skattskýrslu.
Það er löngu tímabært að almenningi sé treyst til þess að ákveða nöfn barna sinna án afskipta opinberra aðila. Sömuleiðis hvort að einstaklingur ákeður að taka upp ættarnafn eður ei.
Persónulega finnst mér Íslenska nafnakerfið til fyrirmyndar, en það er rétt að einstaklingar ákveði sjálfir hvort að þeir vilja taka þátt í að viðhalda því.
Það má einnig treysta almenningi í auknum mæli til að velja hvert hann beinir viðskiptum sínum, með því að draga úr lögverndun starfsgreina. Ef marka má fréttir eiga Íslendingar Norðurlandamet í þeirri iðju og færi vel á að reyna að komast hjá þeim heiðri.
Svona má lengi áfram telja.
Það eru margar ákvarðanirnar sem færa má til almennings og færi vel á því að Sjálfstæðisflokkurinn tæki ákveðna forystu í þeim efnum á Alþingi.
Á síðasta þingi varð t.d. það framfaraskref að felld voru úr gildi lög um guðlast. Enn og aftur er það ekkert "lífsspursmál", en eigi að síður hygg ég að flestir hafi fagnað þeirri útvíkkun á málfrelsinu.
En þar var í forystu annar stjórnmálaflokkur.
Alþingi á að treysta fólki betur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.9.2015 | 06:45
Meistari tvíræðninnar
Það verður ekki af Ólafi Ragnari tekið að hann kann að að vekja athygli og skapa umræður, ekki hvað síst á og um sjálfan sig.
Enn á ný eru fjölmiðlar fullir af spádómum og spekuleringum um hvað Ólafur Ragnar ætlar að gera og sitt sýnist hverjum og engin leið er að fullyrða nokkuð.
Hlýtur að teljast nokkuð vel af sér vikið að ná slíkum árangri á fjögurra ára fresti.
Segir Ólaf ætla að hætta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.9.2015 | 16:34
Feluleikurinn með sóknargjöld heldur áfram
Þó að vissulega megi halda því fram að sannleikurinn komi fram í þessari frétt um sóknargjöld, virðist þó svo sem að ríkisstjórnin reyni að halda áfram feluleiknum um sóknargjöld.
Tvær setningar í fréttinni skipta þó mestu máli, annars vegar:
"Hækkun sóknargjalda er rökstudd með fyrri niðurskurði sem hafi verið umfram meðaltal til annarra ríkisstofnana."
Og hins vegar:
"Sóknargjöld renna úr ríkissjóði til trú- og lífsskoðunarfélaga."
Þessi framsetning í fréttinni bendir til þess að litið sé á trúfélög sem ríkisstofnanir, og hinsveger er viðurkenning á því að sóknargjöld séu ekki félagsgjöld, heldur framlag frá ríkinu til trúfélaga.
Auðvitað skiptir slíkt meginmáli.
Sóknargjöld ættu að vera innheimt af sóknum, af þeim sem vilja vera félagsmenn í slíkum félagsskap.
Að flokkur eins og Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur alla jafna viljað kenna sig við frelsi einstaklingsins, skuli standa fyrir því að allir greiði jafnt, hvort sem þeir tilheyra trúfélögum eður ei, sýnir að flokkurinn stendur ekki vörð um hugsjónir sínar.
Það þarf ekki að koma neinum á óvart að flokkur sem ekki stendur betur vörð um grunnhugsjónir sínar tapi fylgi, ekki síst á meða yngra fólks, sem hefur í æ minna mæli áhuga á trú og trúfélögum.
Sóknargjöld hækka um tæp 10% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)