Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015
25.3.2015 | 09:41
Eitt í dag og annað á morgun og engin "olíumálaráðherra"?
Það er nokkuð merkileg ályktun á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar, um að engin olíuvinnsla verði á Íslenskum hafsvæðum.
Og nú tekur VG undir slíkan málflutning.
Það er ekki síst merkilegt í ljósi þess að það var í tíð ríkisstjórnar þessara flokka, sem leyfi til olíuleitar voru útgefin, og mikið gert úr málinu.
"Olíumálaráðherra" Samfylkingarinnar talaði fjálglega um þau auðæfi sem líklega yrðu Íslendinga. Þá var talað um að olíuvinnsla myndi gera Ísland að auðugasta ríki í heimi.
En skjótt skipast veður í lofti, enginn talar nú um að gera Ísland að auðugasta ríki í heimi, ekki aðein hefur olía snarlækkað í verði, heldur vilja nú í það minnsta 2. stjórnmálaflokkar að olían verði látin liggja ónýtt.
En þó að vissulega megi segja að það sé eðlilegt að stjórnmálaflokkar skipti um áherslur og skoðanir, er þó rétt að segja að æskilegt er að nokkur staðfesta ríki í stefnunni, og ekki sé kúvendt á stuttum tíma.
Það hlýtur til dæmis að vekja upp spurningar, um hvort Íslenska ríkið geti orðið skaðabótaskylt, ef seinni tíma ríkisstjórnir með SF og VG innanborðs ákveða að banna nýtingu olíulinda, eða afturkalla öll leyfi til leitar.
Þó að leit hafi ekki verið með þeim krafti sem vonast var eftir, hafa fyrirtæki líklega þegar fjárfest all nokkrar fjárhæðir í undirbúngi til leitar.
Enda er það ljóst að ekki er almennt reiknað með að stjórnvöld séu í "gríngírnum" þegar leyfum til olíuleitar er úthlutað.
VG vill líka hverfa frá olíuáformum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
21.3.2015 | 17:05
Vilja Íslendingar halda þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn sem er andstæð stjórnarskrá landsins?
Um fátt ef hefur verið tekist harðar um (nema ef til vill formannsstólinn í Samfylkingunni) undanfarnar vikur, en hvort rétt sé að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild, eða aðlögunarviðræður Íslands að Evrópusambandinu.
Eins og eðlilegt er í hitamálum sem þessu eru verulega skiptar skoðanir um slíkt.
Eitt af því sem hefur komið upp í umræðunni af og til er hvort að "Sambandsaðild" sé ekki andstæð stjórnarskrá Íslands, og vilja margir meina að stjórnarskráin heimili ekki slíkt fullveldisframsal.
Nú síðast hefur Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari ritað um þessa andstæðu, að stjórnarskráin heimili Íslandi ekki að ganga í Evrópusambandið.
Eflaust eru þeir all margir sem ekki þykir mark takandi á Jóni Steinari, vegna þess að hann er þeim andstæður í skoðunum og pólítík almennt.
Það er auðvitað engin ástæða til þess að svara rökum hans ekki efnislega, en það er þó einnig svo að hann er langt í frá á vera einn um slíka skoðun.
Á vef Samfylkingarinnar mátti þann 17. apríl 2009, lesa grein sem var að mestu leyti sammála túlkun Jóns Steinars, en á öndverðum eiði, hvað varðaði viðbrögð. Þar sagði m.a.:
Samfylkingin stendur við þann ásetning sinn að hefja án tafar umsóknarferli að Evrópusambandinu eftir kosning þótt ekki verði hægt að breyta stjórnarskrá án þingkosninga segir Árni Páll Árnason, þingmaður. Hann telur að afleiðingin sé fyrst og fremst sú að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðildarsamning muni einungis snúast um hann en ekki um staðfestingu stjórnarskrárbreytingar í leiðinni. Aðild að ESB muni svo fyrst taka gildi eftir stjórnarskrárbreytingu að loknum kosningum.
Síðar í greininni segir:
Verði aðildarsamningur samþykktur þarf að leggja fram frumvarp til laga um breytingu á stjórnskipunarlögum fyrir Alþingi. Það sé fyrst hægt að gera í aprílmánuði 2011. Ef marka má reynslu af stjórnarskrárbreytingunni núna kann að reyna á málþóf, en líka kann vel að vera að undanfarandi dómur þjóðarinnar verði til þess að draga úr töfum í þingmeðferð stjórnskipunarbreytingarinnar. Þegar stjórnarskrárbreytingin hefur verið samþykkt er þingið rofið og boðað til nýrra kosninga.
Sem sé, í huga Árna Páls, ný endurkjörins formanns Samfylkingarinnar, er engin vafi á því að til þess að aðild að Evrópusambandinu geti orðið að veruleika, þarf stjórnarskrábreytingu.
Því virðist enginn vafi leika á að útbreidd skoðun er að aðild að Evrópusambandinu stangsist á við stjórnarskrá Íslands.
Hví skyldu Íslendingar þá vilja halda þjóðaratkvæðagreiðslu um athöfn sem felur í sér stjórnarskrárbrot?
Ef vilji er til þess að halda þjóðaratkvæðagreiðslu, væri þá ekki nær að halda hana um hvort gengið skuli í Evrópusambandið, eða í það minnsta kosti hvort sótt skuli um aðild?
Ef já fengist úr slíkri niðurstöðu, þá yrði farið í að breyta stjórnarskrá Íslands til að slík aðild stangist ekki á við stjórnarskrá, og síðan haldið áfram.
En jafnframt er gott að velta því fyrir sér hvers kyns flokkar það eru, og hvers kyns athæfi það er, að sækja um aðild að bandalagi sem stríðir gegn stjórnarskrá landsins?
Og hver kyns alþingismenn það eru sem greiða atkvæði með slíku, og telja að stjórnarskránni megi breyta síðar, til að réttlæta slíka lögleysu?
20.3.2015 | 21:05
Verstu hugsanlegu úrslit fyrir Samfylkinguna?
Þó að ég viðurkenni fúslega að mér stendur á sama hver er formaður Samfylkingarinnar, þá verð ég að segja að ég hygg að þetta séu verstu hugsanleg úrslit fyrir flokkinn.
Það á varla að vera hægt að vinna, en tapa jafn illilega og Árna Páli tókst í dag.
Með minnihluta greiddra atkvæða, gegn einum keppinauti, en vinnur samt - með einu atkvæði.
Eftir stendur formaður líkt og "lömuð önd", og flokkurinn í "tómu tjóni".
Ég held að úrslitin gætu varla hafa orði verri fyrir Samfylkinguna og formanninn.
Munaði bara einu atkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
20.3.2015 | 08:23
Píratar og "full kista af atkvæðum"'?
Hvort sem kosið er að trúa því að Píratar séu stærsti flokkurinn á Íslandi eða ekki, staðfestir þessi könnun að þeir eru í stór sókn um þessar mundir, ekki er langt síðan könnun Fréttablaðsins sýndi þá sem næst stærsta.
Það er því lítill vafi á því að kjósendur geta í æ ríkara mæli hugsað sér að greiða Pírötum atkvæði sitt og væru afar líklegir til að gera það, ef kosið væri nú.
Auðvitað eru skoðanakannanir eitt og kosningar annað, en það er engin ástæða til annars en að taka vísbendingar sem þessar alvarlega.
Að hluta til má líklega segja að þetta sé hluti af þróun sem sést víðs vegar um Evrópu, en einnig að hluta til með "Íslenskum snúning".
Víða um lönd hefur flokkkum sem standa "utan kerfisins", ef svo má að orði komast, skotið ógnarhratt upp, og náð miklu fylgi á tiltölulega stuttum tíma. Annars staðar hafa flokkar sem hafa verið "utangarðs" all lengi, náð að skjóta undir sig fótunum.
Dæmi um þá fyrrnefndu eru t.d. Syriza í Grikklandi og Podemos á Spáni. Í síðari hópnum má nefna Þjóðfylkinguna í Frakklandi (sem er spáð afar góðu gengi í sveitarstjórnarkosningum um helgina) og Svíþjóðardemókrata , í þessum hópi mætti sömuleiðis nefna Skoska þjóðarflokkinn, sem stefnir í stórsigur í kosningum í maí. Marga fleiri flokka mætti taka með þessum hóp.
Margir þessar flokka hafa staðsett sig vel frá miðjunni og þykja býsna róttækir.
En það er einmitt þar sem breytingin á Íslandi sker sig skemmtilega úr. Ég held að Píratar hafi einmitt komið sér á blað með frekar hógværum hætti.
Það má segja að það sé ólíklegt að Píratar fái slíka útkomu í kosningum eftir 2. ár. Margoft áður hafa flokkar náð slíkum toppi á um miðbik kjörtímabils, án þess að ná fylginu í hús, þegar kemur að kosningum. Enn veit enginn hver skipar lista og hvernig spilast úr kosningabaráttu.
En það er líklegt að Píratar muni ná að bæta verulega við sig, ef þeir halda rétt á "krókstjökunum".
En það má teljast líklegt að Píratar muni finna fyrir aukinni athygli og ef til vill auknum áhuga á að starfa innan flokksins.
Það getur verið bæði til góðs og ills.
En oft hafa "Sjóræningjar" opnað rommflösku af minna tilefni en að mælast stærsti stjórnmálaflokkur á Íslandi.
Píratar stærstir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.3.2015 | 18:11
Steingrímur, Össur, rýniskýrslan og Kínverjar
Það gera sér flestir grein fyrir því að aðlögunarviðræður "Sambandsins" og Íslendinga sigldu í strand á sjávarútvegsmálum. "Sambandið" neitaði einfaldlega að afhenda rýniskýrsluna fyrir þann kafla, nema Ísland hæfi aðlögun að sjávarútvegsstefnu þess.
Jafnvel harðsvíruðustu "Sambandssinnar" á Íslandi gerðu sér grein fyrir því að það jafngilti "pólítísku sjálfsmorði".
Í janúar 2012, fór svo til þess að gera nýskipaður sjávarútvegsráðherra, Steingrímur J. Sigfússon til Brussel og vildi fá rýniskýrsluna afhenta.
En meira að segja eftirlætisdrengur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins kom tómhentur frá Brussel. Þar var ekki hlustað á hann.
Þá var aðildarumsóknin þegar orðin "lifandi dauð". Þó að slíkan pólítískan ósigur þætti best að fara með sem mannsmorð á Íslandi.
Og hvað gerðist næst?
Sama ár, 2012, örfáum mánuðum seinna eða í apríl, kom forsætisráðherra Kína í heimsókn til Íslands.
Þá var drifið í því að hefja aftur samningaviðræður um fríverslun við Kína, sem höfðu legið niðri um nokkra hríð. Það mark var sett að klára þær viðræður á u.þ.b. ári (meiri tíma hafði enda vinstri stjórnin ekki).
Og þó að hlé væri gert á á viðræðum við Evrópusambandið, gilti ekkert slíkt í viðræðum við Kínverja, enda skammur tími eftir af líftíma ríkisstjórnarinnar og skoðanakannair vægast sagt neikvæðar.
Það tókst að klára og var fríverslunarsamningur undirritaður á milli Íslands og Kína þann 15. apríl 2013. Það var líklega síðasta "stóra stund" ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna. Þau voru óneitanlega stolt á þessari stundu Össur og Jóhanna.
Eru slíkar tímasetningar tilviljun?
Stendur þjóð sem er "korteri" frá því að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið í viðræðum við aðrar þjóðir um fríverslun?
Eru einhver fordæmi fyrir því að þjóð sem rífandi gangur er hjá í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, geri fríverslunarsamning við fjölmennustu þjóð veraldar?
Eru einhver fordæmi fyrir því að þjóð sem rífandi gangur er hjá í aðlögunarviðræðum við Evrópusambandið, geri fríverslunarsamning við einhverja þjóð, hvað þá "stuttu áður" en líklegt megi teljast að þeim ljúki?
Hver og einn verður að svara slíkum spurningum fyrir sig, en ég segi nei, og ég þekki engin dæmi um slíkt.
Það væri eiginlega virðingarleysi við bæði Kínverja og Evrópusambandið, ef mikil vinna er lögð í samninga sem ljóst er að aðeins annar getur staðið.
En ef til vill vildi Össur sýna að "það væru fleiri fiskar í sjónum", og vissulega voru þeir fleiri á Íslandsmiðum en oft áður, því makríllinn gekk þar sem aldrei fyrr. Og margir vilja meina að það hafi gert samningamönnum erfitt fyrir.
P.S. Fyrir mannleg mistök (af minni hálfu) birtist þessi færsla áður en hún var fullkláruð. Ég einfaldlega hef ýtt á rangan takka.
Ég biðst velvirðingar á þeim, og vona að mér fyrirgefist.
Það er rétt að hafa það í huga að 3. fyrstu athugasemdirnar við þessa færslu, voru gerðar á meðan hálfkaraða færslan var í "loftinu". Bið ég þá sem þær settu inn sérstaklega afsökunar.
P.S.S. Glöggir lesendur sjá líklega að þessi færsla er sett fram meira sem það sem hugsanlega hefur gerst, en staðreyndahlaðið, enda hefur aldrei verið lögð fram viðhlítandi skýring á því hvers vegna nauðsynlegt var að gera hlé á aðildarviðræðum, eða hvers vegna þær gengu svo mikið verr en búist hafði verið við.
Ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna gerði aldrei hreint fyrir sínum dyrum, hvað það varðaði.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.3.2015 kl. 04:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (30)
15.3.2015 | 20:18
Píratar flaggskip stjórnarandstöðunnar?
Hún er býsna merkileg skoðanakönnunin sem birtist í Fréttablaðinu fyrir helgi. Þar eru Píratar orðinn annar stærsti flokkurinn og stærstur stjórnarandstöðuflokkanna.
Auðvitað ber að taka könnunum sem þessari með varúð, og "spotkönnun" sem þessa er varasamt að bera saman við kannanir eins og t.d. hjá Capacent sem eru teknar yfir lengri tíma.
En þrátt fyrir það er flest sem bendir til þess að Píratar séu að "trenda" núna. Að þeir séu einfaldlega í stórsókn, og að þeir geti hæglega orðið stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn. Og þar með í lykilstöðu eftir kosningar.
En það er rétt að hafa í huga að slík staða hefur oft sést hjá nýlegum stjórnarandstöðuflokkum um mitt kjörtímabil, en ekki skilað sér í kosningum.
Vissulega myndi niðurstaða eins og þessi gefa möguleika á tveggja flokka stjórn Sjálfstæðisflokks og Pírata, en sú stjórn yrði veik og mjög ólíkleg. Næsta víst að Sjálfstæðisflokkurinn myndi ekki treysta á slíka stjórn.
En hitt væri líklegra að "Reykjavíkurmynstur" yrði ofan á, ef úrslitin yrðu eins og í þessari könnun.
Þá yrði myndum ríkisstjórn Pírata, Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og VG.
Og yrði þá ekki forsætisráðherra Birgitta Jónsdóttir, reynslumesti þingmaður Pírata? (Að því gefnu að hún verði í framboði í næstu kosningum).
15.3.2015 | 18:29
Sáttaleiðin um "Sambandsumsóknina"?
Það er vægt til orða tekið að nú sé tekist harkalega um stöðu aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu.
Nú segja margir "Sambandssinnar" að málið snúist ekki um hvort einhverjir séu á móti "Sambandsaðild" eður ei.
Heldur hitt, að ákvörðun sem þessi verði að koma fyrir þingið og þingræðið hafi sett niður.
Undir það má taka að flestu.
En hverjir voru það sem komu í veg fyrir að málið hlyti eðlilega þinglega meðferð þegar það var lagt fram?
Væri þá ekki eðlileg sáttaleið að að allir flokkar á Alþingi sammæltust um það að taka málið á dagskrá þingsins, settu því eðlileg tímamörk og að því loknu væru greidd atkvæði?
Svo vitnað sé til orða ýmissa stjórnarandstöðuþingmanna, er það ekki til þess sem Alþingi er?
Ekki til þess að beita brögðum, þannig að jafn mikilvægt mál fáist ekki afgreitt.
Hvers vegna sættast ekki allir á það?
13.3.2015 | 11:57
Formlegt andlát aðildarumsóknar? Ekkert virði eftir í umsókninni - en breytir þetta einhverju?
Það er ekki laust við að þetta komi allt dulítið á óvart. Ekki það að ég hef verið því afar fylgjandi að draga aðildarumsóknina til baka. Ég tel sömuleiðis að líklega sé ríkisstjórnin í fullum rétti til þess að standa svona að málum.
En ég tel það ekki klókustu málsmeðferðina.
Persónulega lít ég svo á að ekkert virði sé eftir í umsókninni. Aðildarferli sem byggist á rýniskýrslum, aðlögum og áætlunum þar að lútandi, er fljótt að missa gildi sitt.
Rýniskýrslur sem voru unnar árin 2010 og 2011, og samþykkt eftir þeim aðlögunaráætlun, munu ekki hafa mikið gildi ef aðildarviðræður yrðu hafnar aftur t.d. 2018 eða 2019.
Afar líklegt er að öll rýnivinnan yrði að vinnast á ný, enda lög bæði Íslands og ekki síður "Sambandsins" háð stöðugum breytingum. Einnig yrði að vinna aðlögunaráætlanir upp nýtt.
Að því leiti til get ég ekki séð að nokkurt virði yrði í aðildarumsókninni, þegar hún yrði orðin 2ja kjörtímabila gömul.
Þannig er að mínu mati ekkert með því unnið að láta umsókn að "Sambandinu" liggja inni, á meðan ekkert er unnið í henni og hún í raun dauð.
Það er hins vegar ekki eftirsóknarvert eða til framdráttar að það öðrum ríkjum sé sífellt sagt að Ísland sé "umsóknarríki", og stefni þannig leynt og ljóst að "Sambandsaðild".
En hverju breytir þetta?
Í sjálfu sér sé ég ekki að þetta breyti miklu, nema að því leyti, eins og segir að ofan, hætt verður að tala um Ísland sem umsóknarríki. En undir sumum kringumstæðum getur það komið sér vel.
En eina virðið í umsókninni er í raun að ef hún stendur, þá þarf ekki samþykki Alþingis til þess að "lífga" hana við.
Annað er allt undir "Sambandinu" komið. Bæði hvernig litið væri á þá viðræður sem hafa fram farið og hvernig framhald viðræðna yrði.
Ef "Sambandið" er enn á þeim buxunum að neita Íslendingum um rýniskýrslu í sjávarútvegsmálum, gerist lítið frekar.
En ef til þess kemur að Íslendingar sæki um aftur, þarf sú umsókn að vera mikið betur undirbúin, en sú sem ríkisstjórnin telur sig nú vera að enda.
Fyrst og fremst þarf hún að hafa einhuga ríkisstjórn að baki sér, og meirihlutinn á Alþingi þarf að vera traustari en svo, að þeir sem greiða atkvæði með umsókn, lýsi því yfir að þeir séu mótfallnir aðild.
En eins og ég sagði í upphafi, get ég ekki litið á þessa leið sem klókustu leiðina að þessu marki.
Mikið eðlilegra hefði verið að draga aðildarumsóknina til baka, með afgreiðslu þingsins. Það hefði líklega þýtt veruleg átök, en sumir slagir eru einfaldlega þess virði að taka. Mér er enda til efs um að þessi leið verði friðvænlegri.
Það hefði enda verið gott að fá afstöðu hvers og eins þingmanns til aðildarumsóknar. Hvort sem þeir eru í Vinstri grænum, Sjálfstæðisflokknum, Pírötum eða öðrum flokkum.
Sömuleiðis finnst mér illskiljanlegt, ef stjórnarandstöðuflokkarnir drífa ekki í því að leggja fram vantrauststillögu á ríkisstjórnina.
Það er eðlilegt á tímapunkti sem þessum að slík tillaga komi fram og að þingmenn svari afdráttarlaust hvort að ríkisstjórn njóti áfram stuðnings meirihluta þingsins.
Ísland ekki lengur umsóknarríki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
11.3.2015 | 13:20
Af sjálfstæði seðlabanka
Á fréttarúnti mínum í dag, hnaut ég um litla frétt á vef Viðskiptablaðsins. Fyrirsögn hennar er: Evran ekki veikari í 12 ár
En það kemur þó líklega fáum á óvart og var ekki það sem vakti athygli mína.
En í fréttinni mátti lesa eftirfarandi:
Aðgerð seðlabankans er ekkert annað en peningaprentun og voru Þjóðverjar mjög andvígir aðgerðinni en Angela Merkel samþykkti hana að lokum.
Og nokkru neðar mátti lesa:
Í gær gagnrýndi Jens Weidmann bankastjóri þýska seðlabankans aðgerðirnar og sagði ástæðu verðhjöðnunar á evrusvæðinu m.a. olíuverðslækkanir sem væru tímabundnar. Þýski seðlabankinn hefur ítrekað lýst yfir andstöðu við kaup á skuldabréfum evrulandanna á eftirmarkaði.
Nú má líklega halda því fram að Viðskiptablaðið fari með rangt mál, því ekki séu þjóðarleiðtogarnir að skipta sér af aðgerðum Seðlabanka Eurosvæðisins, eða hvað?
En þó að ákvörðunin hafi ef til vill ekki verið tekin af Merkel opinberlega, er þetta þó nákvæmlega eins og "allir" tala um að ákvörðunin hafi verið tekin. Það er að segja að ekki hafi verið ákveðið að leggja af stað í peningaprentun (Quantative Easing) fyrr en samþykki Merkel hafi legið fyrir.
Og Þýski seðlabankinn, sem vegna samsetningar peningaprentunarinnar (sem er að stærstum hluta framkvæmd af seðlabönkun hvers lands, í réttu hlutfalli við eignarhluta landsins í Seðlabanka Eurosvæðisins) er kominn í bullandi peningaprentun, í raun þvert gegn vilja stjórnenda hans.
Og enn og aftur er það pólítíkin sem stjórnar för. En þetta undirstrikar einnig hve gríðarlega mismunandi aðstæður eru í Euroríkjunum.
10.3.2015 | 13:01
Euro eða lýðræði - Verður það valið sem kjósendum verður boðið upp á?
Grikkir vilja lýðræði í sjálfstæðu landi. Þeir vilja líka hafa euro sem gjaldmiðil.
Staða Grikklands er slík að þetta tvennt fer illa saman.
Vissulega ber öðrum þjóðum að virða lýðræðislegar kosningar í Grikklandi. En Grikkir verða sömuleiðis að skilja að þeir geta ekki sent öðrum þjóðum reikninginn fyrir eigin lýðræði.
En Grikkland er í raun gjaldþrota, eins og fjármálaráðherra landsins þreytist ekki á að lýsa yfir. Það má líklega segja að það hafi verið það um all nokkra hríð. Landið var í raun gjaldþrota árið 2010, ef ekki fyrr.
En þá "hentaði" það ekki öðrum Euro og "Sambandsríkjum" að Grikkland borgaði ekki skuldir sínar. Þá var drifið í að lána Grikklandi, þó að í raun væri mest verið að bjarga þeim bönkum sem áttu skuldir Grikklands, frekar en að aðstoðin væri til Grikkja sjálfra.
Hjá Alþjóða gjaldeyrisssjóðnum, voru uppi miklar efasemdir um lánaáætlunina fyrir Grikkland, eins og komið hefur í ljós í fundargerðum sem var lekið. Margir sögðu að hún byggðist á allt of mikilli bjartsýni og í raun væru engar líkar á því að Grikkir gætu staðið undir lánabyrðinni.
En Evrópusambandsþjóðirnar höfðu sitt í gegn og Grikkjum var lánað hærri upphæðir en nokkur reiknaði með að þeir gætu greitt.
Árið 2011, hentaði það heldur ekki Euro og "Sambandsríkjum" að haldin yrði þjóðaratkvæðagreiðsla, eins og Papandreou þávarandi forsætisráðherra talaði um að halda. Þau drifu í því að skipta um stjórn í Grikklandi.
Þá drifu hin Euro og "Sambandsríkin" í því að lána Grikkjum enn meira fé, almennir fjárfestar fengu "klippingu" og þannig var megnið af skuldum Grikkja fært yfir á skattgreiðendur á Eurosvæðinu.
Ekki það að það skipti Grikki í raun verulegu máli hver á skuldirnar, það eykur ekki greiðslugetu þeirra.
En það verður að hafa í huga að allt þetta samþykktu Grískir stjórnmálamenn. Þó að Papandreou hafi í raun verið hrakinn úr embætti, þegar hann ætlaði að hleypa Grískum almenningi að ákvörðunartökunni.
En það er einnig rétt að hafa í huga að frammámenn Evrópusambandsins og Seðlabanka Eurosvæðisins, eiga auvitað sinn stóra þátt í öllu þessu klúðri. Það voru þeir sem bjuggu til "björgunaráætlunina" fyrir Grikki og þar réðu þarfir þeirra og eurosins meira en Grikkja. Þeir geta því ekki afsalað sér ábyrgð á þessari stöðu.
En eftir standa Grikkir, skuldum vafnir, án raunverulegs seðlabanka og geta lítið annað gert að en brúka stóryrði, sem seint verður talið þeim til framdráttar.
Ef að eigandi skuldanna á jafnframt seðlabankann sem ríki hefur kosið að gera að "sínum", eru ekki margar leiðir eftir opnar.
Nema að "beygja" sig eða skipta um gjaldmiðil.
Enn og aftur er vert að hafa í huga að í stöðu sem þessa er auðveldara í að komast en úr.
En þetta verður æ skrýtnara "Samband".
Þjóðaratkvæðagreiðsla möguleg | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)