Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2013

Af hyski, ræflum og bjánum

Það er hið besta mál að beðið sé afsökunar á því að nota orð eins og hyski í pólítískri samræðu.

Þetta er þó langt frá því það versta sem heyrst hefur undanfarin misseri, en alger óþarfi að grípa til slíks orðbragðs eigi að síður.

Viðkomandi einstaklingur er maður að meiri að biðjast afsökunar.

En þetta er því miður nokkuð í stíl við hvernig umræðan á Íslandi hefur þróast á undanförnum árum.

Ýmsum þykir sem þeir tali best sem noti stærst og grófust orðin. Þeir sem kalla þá sem eru þeim andstæðir, ræfla, bjána, þykja tala "tæpitungulaust" og vera býsna töff.

Það er slík framkoma sem á stóran þátt í því að grafa undan virðingu og trausti á stjórnmálastéttinni, þó að fleira komi vissulega til.

Hitt er svo að sjálfsagt er að sækja fast að andstæðingum sínum, en kurteisi setur engin takmörk þar á. Þvert á móti getur farið svo, rétt eins og í tilfellinu með borgarstjórann, að stóru orðin fái alla athyglina og engin umfjöllun verði um efnisatriðin.

Þá tapa allir.

P.S. Þó að orðið hyski sé dregið af orðinu hús og hafi upprunalega haft jafn sakleysislega merkingu og heimilisfólk, þá hefur merking þess orðið niðrandi með tímanum.

Í dag er merkingin líklega í átt við, skríll, ómerkilegt fólk og orðið er stundum notað sem þýðing fyrir enska orðið trash. White trash væri þá þýtt sem hvítt hyski.

Hvort að orðnotkun á við ómerkilegir stjórnmálamenn, hefði ekki átt betur við i þessu tilfelli, er gott að velta fyrir sér, en þar dæmir hver fyrir sig.

Þess má að lokum til gamans geta, að Hyski þekkist vel sem ættarnafn í A-Evrópu, sérstaklega Póllandi.


mbl.is Baðst afsökunar á ummælum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hláturinn lengir lífið. IceSave og húsnæðisvandræði Samfylkingarinnar

Það er sagt að hláturinn lengi lífið.  Það verður þá að teljast nokkuð líklegt að ég komi til með að lífa heldur lengur en annars var útlit fyrir.  Svo dátt hló ég nú í morgunsárið.

Ég fór inn á vefsíðuna Andríki, og sá þar skemmtilega og vel myndskreytta frásögn af fyrirhuguðum fundi Samfylkingarinnar um hugsanlegar afleiðingar dómsins í IceSave málinu.

Icesfundur Samfylkingarinna

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En því miður fór það svo að vegna húsnæðisskorts varð að fresta fundinum.  Það skelfilegt til þess að hugsa að Íslendingar skuli hafa farið á mis við þessa fræðslu vegna húsnæðisskorts.

Líklega myndi Árni Þór Sigurðsson, segja að hér sé um algera tilviljun að ræða.  Þær hafa víst verið algengar í IceSave málinu.

Icesfundur Samfylkingarinna afbodun

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

P.S.  Tók þessar myndir af vefsíðu Andríkis, hvorki með þeirra samþykki né Samfylkingarinnar.  Vona að mér fyrirgefist sá verknaður. Hvet alla til að fara reglulega á vef Andríkis.  Virkilega góð vefsíða.


Auðvitað er sjálfsagt að skoða hlutina frá öllum hliðum, en það eru ekki til neinar töfralausnir

Þeir sem hafa rekist á þetta blog, þó ekki nema annað slagið, vita líklega að ég hef talið að Íslenska krónan væri eina raunhæfa myntin fyrir Íslendinga.

Ég er enn þeirrar skoðunar.

Það þýðir ekki að það sé ekki sjálfsagt að velta upp öllum möguleikum og reyna að skoða og spá í hvernig hinn eða þess möguleiki gæti reynst.

En það eru ekki til neinar töfralausnir.

Gjaldeyristekjur Íslensku þjóðarinnar aukast ekki, þó að skipt verði um mælieiningu.

Skuldir Íslensku þjóðarinnar minnka ekki við það að skipta um mælieiningu, né eykst geta þjóðarinnar til að greiða þær.

Hagstjórnin verður ekki traustari við það eitt að skipta um mynt.

Kjarasamningar verða ekki ábyrgari við það eitt að skipta um mynt.

Það þarf ekki nema að líta til Suður-Evrópu til að sjá að "erlend" mynt skapar ekki stöðugleika, eykur ekki aga í hagstjórninni eða samstillir efnahagskerfi.

Euroið sýnir okkur að verðbólga rennur ekki í sömu tölu á sama gjaldmiðilssvæði.  Hæsta verðbólga Eurosvæðisins er ekki langt frá þeirri Íslensku.

Sterk "erlend" mynt gerir hins vegar fjármagnsflutninga frá landi sem þannig er statt fyrir auðveldari.  Því hafa Grikkir, Portúgalir, Ítalir og Spánverjar kynnst undanfarin misseri.

Það eina sem getur bjargað Íslendingum til lengri tíma, er að framleiða meira, flytja út meira, samhliða því að halda ríkisútgjöldum í skefjum.  Jafnframt þarf að reyna að tryggja vinnu fyrir alla, til að tryggja framfærslu og draga úr velferðarútgjöldum.

 Verðmæti fisks og áls breytist ekki hvort sem er vegið í kílóum eða pundum.  

En gjaldmiðlarnir sveiflast til og frá, það er oft á tíðum bagalegt.  En þeir endurspegla ástand hagkerfanna.

Það gerir krónan líka, hvort sem Íslendingum líkar það betur eða verr.  Ef gengið er fast verða aðrir "stuðpúðar" að taka við. 

Oftast er það atvinnuleysið. Við þurfum heldur ekki að leita langt til að sjá það.


mbl.is Króna í höftum ekki framtíðargjaldmiðill
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Full þörf á því að ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna víki. Alþingismenn standi upp og verði taldir

Líklegast þykir ýmsum sem svo að það sé óþarfi að ríkisstjórnin víki nú, svo stuttu fyrir kosningar.

Sem betur fer er nú ekki nema um 3. mánðuðir þangað til kosið verður.

Auðvitað hefði ríkisstjórnin átt að segja af sér fyrir löngu.  Ríkisstjórn sem þjóðin gerir afturreka í tvígang með mál sitt, hefði auðvitað átt að segja af sér þá þegar.  

Auðvitað er full þörf á því að ríkisstjórn sem leggur fram frumvarp um mikilvægasta atvinnuveg þjóðarinnar og ráðherra líkir við bílslys, fari frá.

Það er full þörf á því að ríkisstjórn sem telur það sitt mikilvægast verk nú á Alþingi, að umbylta stjórnarskránni, án sómasamlegs undirbúnings, fari frá.

Nú tala flestir á þann veg að fyrirsjáanlegt sé að Ísland geti ekki, eða í það minnsta komi til með að eiga í erfiðleikum með, að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar á komandi árum.

Getur verið eitthvað mikilvægara í Íslenskum stjórnmálum en að finna leiðir við þeim vanda?

Það þarf að ræða hvernig Íslendingar ætla að bregðast við þeim vanda.

Hverjar eru tillögurnar til að auka fjárfestingu?  Hverjar eru tillögurnar til að auka erlenda fjárfestingu?  Er hægt að auka gjaldeyristekjur Íslendinga?

Hvað hefur verið gert undanfarin 4. ár til að bregðast við þessum vanda?

Það er óvíst hvort að vantraust verður lagt fram eður ei.  Það er líka alls óvíst hvort að það verði samþykkt eður ei.

Þegar að slíkum atkvæðagreiðslum kemur á hver þingmaður það við sig, hvort hann telur rétt að ríkisstjórnin starfi áfram eður ei.

En ég held að það gæti verið gott að alþingismenn "standi upp og verði taldir".  Það er gott fyrir kjósendur að sjá og vita hvaða þingmenn það eru sem standa að baki ríkisstjórninni. 

Hverjir þeirra telja að hún sé að vinna það gott verk að hún verðskuldi að sitja áfram.

Eins og er ekki ljóst hvaða þingmenn standa að baki stjórninni.


mbl.is Vantraust í farvatninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðherrar og ríkisstjórn verða dæmd í vor - af kjósendum

Það var hálf aumkunarvert að sjá ráðherra Samfylkingar og Vinstri grænna engjast í fjölmiðlum í gær.

Forsætisráðherrann sem ekki gat látið svo lítið sem að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um IceSave, lýsti því yfir að hún hefði alltaf haft trú á málstað Íslands og bað landsmenn að vera ekki að leita að sökudölgum.

Sama ríkisstjórn beitti sér af mikilli hörku í Landsdómsmálinu og kom því svo fyrir með klækjum að Geir Haarde var einn sóttur til saka.   

En nú er engin ástæða til þess að leita að sökudólgum.

En það er full ástæða til þess að skipuð sé nefnd til að fara yfir feril IceSave málsins.  Ekki til þess að draga neinn fyrir dóm, heldur til þess að sannleikurinn eins og mögulegt er komi fram og verði til á einum stað.

Ég hygg að það væri verðugt verkefni fyrir Alþingi að taka það mál upp á arma sína.  En það þarf að passa upp á að núverandi ríkisstjórn raði ekki sínu fólki í nefndina og hreinsi þannig sjálfa sig.

Ég myndi leggja til að Alþingi myndir skipa í nefndina, jafnan fjölda frá stjórnarflokkum og stjórnarandstöðu og síðan yrði samtökum eins og InDefence og Advice boðið að tilefna sinn hvort fulltrúann.

En hver sem niðurstaðan verður þarf ekki að draga neinn fyrir dómstóla.  Það er ekki með þeim hætti sem pólítísk ábyrgð er borin.

Kjósendur munu dæma ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna í vor, ásamt öðrum Íslenskum stjórnmálamönnum.

Þar gefst Íslenskum kjósendum kostur á að dæma um frammistöðu þeirra sem nú sitja og veita þeim brautargengi sem þeir treysta til að gæta hagsmuna sinna.

Þeim dómi verður ekki afrýjað.

Íslenskir kjósendur stóðu fast fyrir í IceSave kosningunum, létu linnulítinn áróður og stórkarlalegar fullyrðingar lítil áhrif á sig hafa.

Ég vona að það sama verði upp á teningnum í vor.

 


mbl.is Icesave aðeins „fótnóta í sögunni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Franskur ráðherra segir Franska ríkið fallít

Michel Fallon atviinnumálaráðherra Frakka lét þau orð falla í útvarpsviðtali nýlega að..  "Það væri vissulega ríki stil staðar, en það ríki væri gjaldþrota.

Reyndar ekki í fyrsta skipti sem Franskur ráðherra lætur slík orð falla, því Francois Fillon, forsætisráðherra undir stjórn Sarkozy, lét svipuð orð falla fyrir all nokkrum mánuðum.

Það þarf líklega engan að undra að ríkisstjórn Frakklands hefur reynt að tóna ummælin niður og fullyrðir auðvitað að allt sé í stakasta lagi og ríkisstjórnin hafi fullt vald á málunum og allt stefni til betri vegar.

Og auðvitað er það orðum aukið hjá ráðherrunum að Frakkland sé gjaldþrota.  Frakkar hafa nefnilega ennþá lánstraust.

Skuldabréfasala þeirra gengur ágætlega og er með lágum vöxtum.  En það er auðvitað spurning hve lengi það verður.

En það er ekki nauðsynlega bjart framundan.

Ríki sem hefur skilað fjárlögum sínum í mínus í að verða 40 ár, er ekki í góðum málum.  Efnahagurinn staðnaður og  samkeppnishæfi landsins hefur látið verulega á sjá.

Franskir bílaframleiðendur fullyrða að kostnaður þeirra sé u.þ.b. 14% hærri en er í Þýskalandi.

Síðan euroið var tekið upp, hefur sú staða sigið niður á við jafnt og þétt.  Þannig var viðskiptahalli Frakklands 74 milljarðar euroa árið 2011.

Nú nýverið fór Bretland fram úr Frakklandi sem stærsti einstaki viðskiptaaðili Þýskalands.  Það hefur ekki gerst áður.

Atvinnuleysi eykst jafnt og þétt og þjóðfélagslegur órói sömuleiðis.  Fjármagnsflutningar hafa sömuleiðis aukist hratt frá landinu.

Frakkland er ekki gjaldþrota, en vandamálin eru ekki við það að fara í burt.  Þau verða ekki leyst með "meira af því sama".  Þau verða ekki leyst með gamaldgags sósíalískum aðferðum Hollander.  Þau verða ekki leyst með sívaxandi skattlagningu á einstaklinga og fyrirtæki.

Ráðherrann gerir þau mistök að segja Franska ríkið fallít.   Það er orðum aukið, en hættan er vissulega til staðar.

Og Frakkland er ekkert einsdæmi.

Hér má sjá frétt Figaro um málið.

Og hér stutta enska frásögn

 

 


Íslendingar snæða IceSave hákarlinn á Þorranum

Það hefur ríkt almenn gleði á meðal Íslendinga síðan að IceSave dómurinn var birtur í gær.  Það er að vonum. 

Kjósendur á Íslandi sýndu hugrekki með því að fella IceSave samninga í tvígang.  Ég segi hugrekki því að vissulega var pressan á þá að segja já gríðarleg.   Sérstaklega var umfangsmikil og hörð áróðursherferð keyrð fyir IceSave III samningunum.

 Það er full þörf á því að þessari sögu sé haldið til haga.  Það væri óskandi að sagan yrði öll skráð á bók.

Áróðursherferðin, sem að hluta til var skipulögð af stjórnvöldum,  spilaði á ótta og tilfinningar.  Kúba og Norður Kórea komu þar við sögu.  Útskúfun og efnahagslegt öngþveiti og svo þar fram eftir götunum.

Í fyrra þjóðaratkvæðinu gengu ráðherrar, þar á meðal forsætisráðherra svo langt að tala um marklausar kosningar og hundsuðu þær.

Er hægt að leggjast öllu lægra?

En IceSave hákarlinn dugði ekki til að hræða meirihluta Íslenskra kjósenda til hlýðni.  

Á Þorranum snæða Íslendingar hákarl, nú sem endranær.IceSave Shark

 


Að allir hafi reynt að gera sitt besta með hagsmuni Íslands að leiðarljósi

Það er eitt af meginstefum varnar ríkisstjórnar Samfylingar og Vinstri grænna hvað varðar afstöðu hennar í Iceasve málinu, að allir hafi verið að reyna gera sitt besta með hagsmuni Íslands að leiðarljósi.

Ég ætla ekki að halda því fram að svo sé ekki.  Þar verða allir að dæma fyrir sig.

En hitt er rétt að halda til haga, að slíkur vafi var nákvæmlega það sem margir þingmenn Samfylkingar, Vinstri grænna, Fylkingarinnar, sumir þingmenn Framsóknarflokksins  neituðu að viðurkenna í máli Geirs Haarde.

Þar treystu þeir sér til að benda á hinn seka.

Í dag, var staðfest enn og aftur, hve góð og hve sterk Neyðarlögin voru.  Hve gott starf ríkisstjórn Geirs Haarde vann, undir gríðarlega erfiðum aðstæðum.

En í dag tala ráðherrar um að ekki sé rétt að leita að sökudólgum.

Hér er færsla sem ég skrifaði um Landsdómsmálið árið 2011.

 


Að standa í fæturna og hafa sigur

Það eru gríðarlega góð tíðindi að Ísland skuli hafa haft fullan sigur í IceSave málinu. Það er gríðarlega stór sigur að Íslensk sjónarmið skuli hafa orðið ofaná.

Fyrst og fremst er það sigur þeirra Íslendinga sem fóru og kusu gegn IceSave samningunum og létu hótanir og dómsdagsspár sem vind um eyru þjóta og treystu sinni eigin ákvörðun.

Þessi niðurstaða er einnig stór sigur fyrir forseta Íslands.  Hann hafði hugrekki til að senda málið í þjóðaratkvæðagreiðslu í tvígang.

Þessi niðurstaða er stór sigur fyrir samtök á við Advice, InDefence og Samstöðu þjóðar.  Þau kynntu málavexti, bæði erlendis og fyrir Íslendingum.  Íslendingar geta verið þeim þakklátir.

Það er líka rétt hjá Össuri Skarphéðinssyni að þessi niðurstaða er sigur lýðræðisins.  Sigur þess lýðræðis sem hann og félagar hans í ríkisstjórninni vildu ekki að Íslenskir kjósendur fengju að njóta.

Mikil er skömm þeirra ráðherra, s.s. Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar, sem gengu svo hart fram gegn þjóðaratkvæðagreiðslu, að þau höfnuðu að taka þátt í þeirri lýðræðisframkvæmd.

Það er líklega einsdæmi að forsætisráðherra neiti að taka þátt í lýðræðislega ákveðinni þjóðaratkvæðagreiðslu.  Það er arfleifð sem Jóhanna Sigurðardóttir tekur með sér þegar hún fer á eftirlaun.

Þessi niðurstaða er líka sigur almennrar skynsemi en áfellisdómur yfir öllum "snillingunum" sem spáðu fyrir um Kúbur og Kóreur og efnahagslega dómsdaga.

Þessi niðurstaða er líka stór sigur fyrir almeninng um allt EEA/EES svæðið sem fá það staðfest að það sé ekki nauðsynlegt að almenningur sé látinn axla ábyrgð á innistæðum við fall einkabanka.

Það eru ríkar ástæður fyrir Íslendinga til að fagna í dag.  Íslenskir kjósendur stóðu í fæturnar, gáfu ekki eftir rétt sinn og höfðu fullan sigur.

En það er sömuleiðis ríkar ástæður til að halda til haga ferlinu í þessu máli og draga af því lærdóm.

Því miður virðast býsna margir stórnmálamenn vilja gleyma því í fagnaðarlátunum.

 

 


mbl.is Ísland vann Icesave-málið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að hlaupa í skarðið

Að hlaupa í skarðið er velþekkt Íslenskt máltæki og reyndar einnig barnaleikur.

Ég get tekið undir með þeim sem tala um að það sé vont þegar ríkisstjórn Íslands og forseti Íslands tali fyrir ólíkum stefnum í utanríkismálum. Það er vissulega betra ef málstaður Íslands er kynntur einni röddu.

En stundum er það líklega allt í lagi að Íslendingar eigi sér fleiri en einn talsmann og að umheimurinn viti að skiptar skoðanir séu á Íslandi í ýmsum málum.

Það þarf aðeins að koma skýrt fram hvernig raunveruleg valdskipting er.

Víða er hefð fyrir því að kóngafólk lesi upp af blaði það sem ríkisstjórnin hefur skrifað.  Hjá sumum þjóðum velur þjóðþingið forsetann og hefur að því leyti vald yfir honum.

Það er gott að hafa það í huga að slíkir þjóðhöfðingjar eru ekki þjóðkjörnir.

Í IceSave málinu kom t.d. skýrt og greinilega fram að ríkisstjórn Íslands talaði ekki fyriri hönd meirihluta kjósenda.  Hún var á öndverðri skoðun við þá.  Þar var forsetinn mun nær því að flytja málstað meirihluta kjósenda á erlendri grundu.

Var að slæmt?  Er það eitthvað sem Íslendingar myndu vilja hindra í framtíðinni?

Svo má velta því fyrir sér hversu vel hefur verið haldið á fyrirsvari fyrir Ísland, af hálfu ríkisstjórnarinnar, á því kjörtímabili sem er nú sem betur fer að ljúka?

Hefur forsætisráðherra verið sá trausti og góði talsmaður Íslands á alþjóðavettvangi sem landið þarf á að halda?

Er forsetinn fyrst og fremst að fylla það tómarúm sem hefur skapast á þeim vettvangi, er hann að "hlaupa í skarðið"?

Hvað skyldi valda því að erlendir fjölmiðlar hafa mun meiri áhuga á því að ræða við forseta Íslands heldur en forsætisráðherrann?

Gæti það verið vegna þess að forsetinn er aðgengilegur og liðlegur í umgengni við fjölmiðla?  Og vegna þess að forsætisráðherrann er....  ????

Mismunandi aðstæður kalla á mismunandi lausnir.

Vissulega er gott að setja skýrar reglur um ýmsa hluti, þar með vald- og verksvið forseta Íslands.  Ef til vill þarf að gera það fyrir forsætisráðherra einnig?

En lög og reglur ná aldrei yfir alla hluti í mannlegum samskiptum.  Og sveigjanleiki í samskiptum getur á stundum verið kostur.

Væri gott að forseti og ríkisstjórn gengju í takt?  Já.   Hefði það verið gott að aðeins afstaða ríkisstjórnarinnar í IceSave málinu hefði heyrst á erlendri grundu?  Nei. 

Það sama má segja um aðildarumsókn Íslendinga að "Sambandinu".  Það er nákvæmlega ekkert að því að það komi fram í erlendum fjölmiðlum að skoðanakannanir sýni meirihluta Íslendinga andsnúna aðild og að annar ríkisstjórnarflokkurinn sé það sömuleiðis.

Ef til vill eru slík undarlegheit ekki besta auglýsingin fyrir Íslensk stjórnmál, en þau eru sannleikurinn eigi að síður.

Eins og í mörgum öðrum málum, eru hlutirnar ekki bara svartir og hvítir.


mbl.is „Ríkisstjórnin vanrækti hlutverk sitt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband