Bloggfærslur mánaðarins, júní 2012

Að tala tungum tveim: Einni heima og annari erlendis

Það er ekkert nýtt að stjórnmálamenn tali misjafnlega eftir því hvar þeir eru staddir.  Það er heldur ekkert nýtt að ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna vilji halda staðreyndum hvað varðar aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu leyndum.

Fyrir því sem næst ári síðan fundaði Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra með Angelu Merkel kanslara Þýskalands.

Þann 11. júlí 2011 mátti lesa eftirfarandi í frétt á vef RUV, og er ekki hægt að skilja öðruvísi en fréttastofan hafi rætt við Jóhönnu:

Eitt helsta markmiða fundarins var að kynna samningsmarkmið Íslendinga í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Jóhanna segist hafa farið sérstaklega yfir sjávarútvegs- og landbúnaðarmálin á fundi með kanslaranum, til að sýna henni fram á sérstöðu Íslendinga. Þetta telur Jóhanna mikilvægt vegna sterkrar stöðu Þýskalands innan Evrópusambandsins.

Í janúar síðastliðnum sagði Steingrímur J. Sigfússon hinsvegar á Alþingi að engin samningsmarkmið lægju fyrir hvað varðaði sjávarútvegs og landbúnaðarmál.  Þá mátti m.a. lesa í frétt mbl.is:

Þá sagðist Steingrímur einstökum samningsköflum í viðræðunum yrði ekki lokað nema um væri að ræða ásættanlegan frágang á þeim. Hann lagði áherslu á að ekki væri búið að móta samningsafstöðu Íslands í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

Nú virðist Össur Skarphéðinsson hafa fullyrt að samningmarkmiðin séu tilbúin, þegar hann var staddur í Brussel, en öðru máli gegnir þegar hann er staddur í Reykjavík.

Jóhanna kynnir samningsmarkmiðin fyrir Merkel, á Alþingi segir Steingrímur að þau séu ekki tilbúin.  Í Brussel segir Össur Íslendinga tilbúna með markmið, í Reykjavík á ennþá eftir að leggja nokkra vinnu í þau.

Samningsmarkmiðin fyrir sjávarútvegsmál virðast bara vera til í útlöndum.  Nú eða þá að aðeins útlendingar mega sjá þau og lesa.

Það gæti líka verið að ráðherrar Samfylkingar og Vinstri grænna treysti sér einfaldlega ekki til að leggja samningsmarkmiðin í sjávarútvegsmálum fram fyrir Íslendinga.

Það myndi ef til vill skína í gegn, að í raun er samningsmarkmiðið aðeins eitt:  Að ganga í Evrópusambandið.

 

 


mbl.is Liggur samningsafstaðan fyrir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lausnir bjúrókratanna

Það er ekkert nýtt að bjúrókratar telji lausn vandamálanna fólgin í því að bjúrókratar hljóti aukin völd.  Það er ekkert nýtt að bjúrókratar vilji auka miðstýringu, stefna að því að sem flestir þræðir mann og efnahagslífsins liggi í gegnum þeirra eigin skrifborð.

Þess vegna eru lausnir þeirra við vandamálum Evrópusambandsins, "meira Evrópusamband", lausnir þeirra við skuldavanda er aukin skuldsetning, fleiri neyðarfundir, meira stjórnlyndi, meira bákn.

Rétt eins og lausnir á vanda Sovétríkjanna voru "meiri Sovétríki", meiri sósíalismi,  meira eftirlit, stífari landamæragæsla, meira helsi borgaranna, meiri "samhæfing" "lýðveldanna".

Það er alltaf haldið dýpra ofan í holuna.

Það má aldrei stíga afturábak, aldrei viðurkenna mistök, mantran er að það þurfi meira af því sama.  Gorbachov sneri við blaðinu, þá er hugsanlegt að stíflan bresti og atburðarásin getur orðið svo hröð að ekki ræðst við neitt.

Þannig er það sömuleiðis með euroið.  Þó að u.þ.b. 30% af þeim ríkjum sem standa að euroinu hafi þurft að sækja um fjárhagsaðstoð (og jafnvel von á fleirum) þá eru snúast lausnirnar sem bjúrókratarnir vilja heimila umræður um, auðvitað um "meira euro" en þó umfram allt fleiri euro.

Evrópusambandinu lýsti Íslenskur forsetaframbjóðandi sem brennandi húsi.  Bjúrkratarnir tala ekki um að slökkva eldinn, þeir tala hins vegar um að byggja nýjar álmur og laga girðinguna.  Össur Skarphéðinsson segir síðan að Íslendingar gefi batteríunu "heilbrigðisvottorð" með umsókn sinni.  Hann á líklega enga ósk heitari en að ganga í hóp bjúrókratanna í Brussel, og ef marka má talsmátann mun hann líklega smellpassa þar inn.

Það má ef til vill segja að það séu þrjár leiðir í stöðunni.

Uppbrot eurosvæðisins, Bandaríki Evrópu og svo neyðarfundaleiðin sem er í gangi núna.  Hún endar þó líklega með uppbroti.

 


mbl.is Aukin miðstýring í fjármálum ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besta skilgreiningin á Vinstri grænum?

Vinstri græn eru stjórnmálaflokkur sem telur að Evrópusambandið sé ómögulegur félagsskapur, en er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé fyrir Ísland að sækja um aðild að sama Evrópusambandi.

Málið í hnotskurn, eða hvað?


... tæplega helmingur landsmanna eru því menn ....

Var fullyrt í dægurlagatexta Stuðmanna "i den". 

En í gær mátti sjá haft eftir Stefáni Jóni Hafstein, að það þætti löstur að vera ekki kona og sömuleiðis að vera Samfylkingarmaður.

En tæplega helmingur landsmanna eru þó ekki konur.  Að vera ekki kona virðist ekki há Ólafi Ragnars umstalsvert.  Þóra er óneitanlega kona, en vissulega með Samfylkingarstimpilinn á sér.  Reyndar tel ég persónulega hana tilheyra Samfylkingar/Besta flokks/Bjartrar framtíðar flokkahópnum.  Þar er erfitt að greina á milli.

En af því má dæma að stærsti hluti kjósenda telji það í lagi að vera karlmaður.  Býsna stór, en þó verulega minni hluti kjósenda telji það í lagi að vera Samfylkingarmaður.

Persónulega verð ég að taka undir með Stefáni að hálfu leyti, ég myndi aldrei kjósa Samfylkingarmann sem forseta.  Ekki heldur Samfylkingarkonu.   Ég geri ekki upp á milli kynjanna að þessu leyti.  Algjört jafnrétti hvað þetta varðar.  Samfylkingin/Besti flokkurinn/Björt framtíð flokkahópurinn er einfaldlega úti.  Hann hlýtur ekki minn stuðning.

Þess vegna er Þóra Arnórsdóttir alegerlega úti, hvað mitt atkvæði varðar.  Rétt eins og Samfylkingin/Besti flokkurinn/Björt framtíð.

En það að vera kona er hvorki plús eða mínus í mínum huga, en það er þetta með Samfylkinguna sem Stefán minntist á.

P.S.  Það er hins vegar verðugt athugunarefni, hvernig Stefán Jón þreifaði fyrir sér í fjölmiðlum áður en hann ákvað að bjóða sig fram og hverjir aðstoðuðu hann við það.

 

 


Hvaðan kom auðurinn?

Umræðan á Íslandi er oft býsna merkileg.  Menn tala út og suður og það virðist færast í vöxt að þeir sem viðhafa mestu gýfuryrðin og tali ljótast þyki tala best.

Á mörgum má skilja að stóriðja, orkufrekur iðnaður og virkjanir hafi því sem næst engu skilað til samfélagsins og séu og hafi verið böl fyrir Íslenskt samfélag.

Nú tala líka margir fjálglega um að sama og ekkert af arðinum af sjávarauðlindinni skili sér eða hafi skilað sér til hins almenna Íslendings.

Það hlýtur að vekja upp spurninguna hvaðan auðurinn sem Íslendingar notuðu til að byggja upp þó hið glæsilega samfélag sem er á Íslandi undanfarin 100 ár kom?

Það hljóta að vera ríkisstarfsmennirnir, hagfræðingarnir, álitsgjafarnir og stjórnmálamennirnir sem hafa skapað hann.  Er einhverjum öðrum til að dreifa?

P.S.  Það er líka merkilegt að margir af þeim sem hæst tala um "þjóðareign á auðlindinni", virtust engan áhuga hafa á að ræða tillögur Péturs Blöndal í kvótamálum.  Þar var lagt til að ráðstöfunarrétturinn væri raunverulega færður til hins almenna Íslendings, og hluti arðsins sömuleiðis. 


Þróun húsnæðisverðs í Evrópu

Ég hef skrifað um að gjaldmiðill tryggi ekki kaupmátt eða velmegun.  Hann tryggir ekki heldur verðmæti húseigna.

Lágir vextir eru vissulega af hinu góða en þeir tryggja ekki að húsnæðiseigendur lendi ekki í hremmingum.  Reyndar má segja að verulega lágir vextir bendi til þess að hagkerfi eigi í verulegum vandræðum og við slíkar aðstæður er algengt að húsnæðisverð lækki, og skuldsettir húseigendur lendi í vandræðum og sitji jafnvel uppi með neikvæðan eignarhlut.

Slíkt hefur átt sér stað víða um Evrópu á undanförnum árum.  Þegar við bætist launalækkanir og mikið atvinnuleysi er ekki að undra þó að húseigendur séu margir hverjir í vandræðum.  Afborganir af lánum eru síhækkandi hlutfall af ráðstöfunartekjum, þó að vextirnir séu ef til vill ekki háir.

Eins og flestum ætti að vera ljóst, verður eitthvað undan að láta þegar áföll verða í efnahagslífi landa, eða mistök eiga sér stað.

Sé gjaldmiðillinn festur, verður höggið þeim mun meira hvað varðar launalækkanir, atvinnuleysi og lækkandi fasteignaverð.

Þeir sem eiga laust fé halda hins vegar sínu og geta auðveldlega flutt eignir sínar annað.  Þeir sem eru í störfum sem sleppa við launalækkanir og uppsagnir standa einnig vel.

Hér meðfylgjandi er stöplarit yfir þróun húsnæðisverðs í ýmsum Evrópulöndum (þar á meðal Íslandi) árin 2010 og 2011.

Sé smellt á myndina, og svo aftur á þá mynd, næst hún stór og góð.

Husnaedisverd 2010 2011


Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

Krónan hefur verið fyrirferðarmikil í umræðunni á Íslandi undanfarin misseri.  Mörgum hefur hefur tíðrætt um þann kostnað sem almenningur ber af misviturri efnahagsstjórn á Íslandi og því gengissigi sem hefur fylgt.  Þennan kostnað vilja margir kenna krónunni um.  Sumir spyrja þeirra spurningar hvort að hinn almenni Íslendingur hafi efni á krónunni.

Það er vissulega  hvimleitt þegar efnahagsstjórnunin er ekki betri en svo að gengissig verður með tilheyrandi hækkunum verðlags og vísitalna.

En það er óhjákvæmilegt að eitthvað verði undan að láta þegar mistök eða áföll eiga sér stað í efnahagslífinu.

Þær þjóðir sem haf fest gjaldmiðil sinn hafa kynnst því.  Þá verður kaupgjald að lækka og/eða atvinnuleysi eykst.   Því fylgir gjarna mikið verðfall fasteigna.

Nýlega birtust fréttir um að meðallaun í Grikklandi hefðu lækkað um 23%.  Sumir hafa þurft að þola lækkun allt að 40%, en aðrir næstum enga.  Atvinnuleysi hefur sömuleiðis rokið upp og er vel yfir 20%.  En gjaldmiðill Grikkja, euroið hefur aðeins sigið lítillega.

Á Spáni er atvinnuleysið í kringum 25%, húsnæðismarkaðurinn er í rúst og margir geta ekki selt húseignir sínar, hvað þá fengið skaplegt verð.  En gjaldmiðill sá er Spánverjar hafa kosið að nota, euroið hefur ekki sigið verulega.

Á Írlandi er atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, meðallaun hafa lækkað verulega og húsnæðisverð fallið um 50 til 60%. 

Og þannig er ástandið víðar um Evrópu, húsnæðisverð hefur fallið laun hafa lækkað og atvinnuleysi hefur aukist.  Atvinnuleysi á eurosvæðinu hefur nú náð 11%.

Það verður sömuleiðis algengara að eignarhlutir í húsnæði séu neikvæðir og afborganir, þó að þær standi í stað, verði æ hærra hlutfall af tekjum vegna launalækkana.  Gjaldmiðill tryggir ekki kaupmátt eða velmegun.

Verst eru þeir þó oft staddir sem hafa misst atvinnuna, enda hefur landflótti aukist hröðum skrefum, sérstaklega á meðal ungs fólks, sem gjarna verður verst úti hvað varðar atvinnuleysi.

Þegar spurt er:  Hefur þú efni á krónunni, væri því ekki úr vegi að þeir sem það gera legðu fram aðra spurningu einnig. 

Hefur þú efni á því að vera atvinnulaus?

P.S.  Ef til vill er það ekki tilviljun að mér sýnist að "Sambandsaðild" og euroupptaka njóti hvað mest fylgis á meðal þeirra sem gegna opinberum og hálfopinberum stöðum.  Þar eru líkur á launalækkunum og atvinnuleysi hvað minnstar.   Það er rétt að taka fram að þetta byggir eingöngu á minni tilfinningu, en ekki vísindalegum rannsóknum.


Seðlabankastjóri Eurolanda: Euroið er "ósjálfbær" mynt

Það er líklega fokið í flest skjól þegar bankastjóri Seðlabanka euroríkjanna segir að uppbygging myntarinnar sé ekki sjálfbær, að hún gangi ekki upp.  Það er líklega ekki hægt að fá öllu verri umsögn frá "verndara" myntarinnar.

En Mario Draghi er ekki að leggja fram nýja skoðun, þeir eru fjölmargir sem hafa haldið slíku fram undanfarna mánuðí og ár og reyndar voru margir sem vöruðu við euroinu, fyrir 20 árum eða svo, þegar sameiginlega myntin var enn á umræðustiginu.

Það að sameiginleg mynt eigi erfitt uppdráttar án efnahagslegs og pólítísks samruna eru ekki nýjar fréttir.  En þegar stjórnmálamenn taka ákvarðanir, án tillits til efnahagslegs eða pólítísks raunveruleika  er útkoman sú sem nú er staðan í Evrópusambandinu, óstöðugleiki og ringulreið.

Fjárflótti frá Suður Evrópu eykst, bankar eru í vandræðum og stjórnmálamennirnir virðast lítið vita hvað skuli til bragðs taka.  Þeir kalla eftir aðgerðum en gera sem minnst sjálfir.

Það ætti auðvitað að vera flestum ljóst að undir þessum kringumstæðum er aðlögunarviðræður Íslendinga við "Sambandið" eins og hver önnur firra.  Það sér líka merki í skoðanakönnunum að æ stærri hluta af hinum almennu Íslendingum eru að komast á þá skoðun.  Þeir vilja fá að segja álit sitt að aðlögunarumsókninni í kosningum.

En það er í stjórnarráðinu sem ekkert breytist.  Þar sitja forkólfar Samfylkingar og Vinstri grænna og stefna órtrauðir inn í "Sambandið", hvað sem tautar og raular.

En það koma líka kosningar þar sem hinn almenni Íslendingur fær að segja álit sitt á þeim og stjórnarháttum þeirra.

 

 


Allt á eðlilegum nótum þangað til "stóri bróðir" blandar sér í leikinn

Þó að vissulega megi halda því fram að óeðlilegt sé að nei og já hreyfingar, hvað varðar inngöngu í "Sambandið" séu styrktar af almannafé, er hér um eðlilegt framhald þeirrar þróunar sem hefur átt sér stað í pólítískri baráttu á Íslandi.  Það er að segja að opinberir aðilar leggi til fé til að kynna málstað pólítískra hreyfinga.

Þó að vissulega væri það æskilegra að hreyfingarnar störfuðu fyrir sjálfaflafé, má réttlæta að hið að ríkið leggi þeim fé til kynningarstarfsemi, enda æskilegt að almenningur fái upplýsingar um málið og það úr báðum áttum.

Hér eru Íslenskir aðilar sem ætla sér að kynna málið fyrir Íslendingum, enda ekki aðrir sem munu taka þátt í þeim kosningum sem fram munu fara um málið.´

Endanleg ákvörðun um hvort að Íslendingar vilji aðild að "Sambandinu" er Íslendinga einna.

Það er hins vegar þegar "Sambandið" sjálft kemur til sögunnar og hyggst eyða hundruðum milljóna króna til að efla stuðning Íslendinga við inngöngu sem veruleg og óeðlileg skekkja kemur til sögunnar.

Það er fyllilega óeðlilegt að erlendur aðili blandi sér í baráttuna með þessum hætti og í raun fyllilega óásættanleg afskipti af innanríkismálum Íslendinga.

Hinum Íslensku aðilum/samtökum sem berjast fyrir aðild (ekki eins og þar sé sérstakur skortur á) ætti að vera treystandi til þess að kynna málstað "Sambandssinna" og engin ástæða fyrir "Sambandið" sjálft að blanda sér í innanríkismál Íslendinga með jafn frekum hætti.

Væri einhver dugur í Íslenskum stjórnvöldum myndu þau að sjálfsögðu kvarta yfir slíkum afskiptum.  En ríkisstjórnarflokkunum, Samfylkingu og Vinstri grænum, eru slík erlend afskipti þóknanleg, enda hafa báðir flokkarnir barist dyggilega fyrir inngöngu í "Sambandið".

Þegar stjórnvöld bregðast með slíkum hætti, er enn ríkari ástæða fyrir Íslendinga að halda vöku sinni og berjast með þeim ráðum sem þeim eru tiltæk gegn hinum óeðlilegu afskiptum "Sambandsins".

 

 


mbl.is Já- og nei-hreyfingar fá styrki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband