Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011
30.8.2011 | 17:41
Sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna 20 árum síðar og stolnar fjaðrir
Sá það á Eyjunni að eitthvað hefur sumum fundist Jón Baldvin Hannibalsson ekki hafa fengið þá viðurkenningu sem hann á skilið, nú 20 árum eftir að Eystrasaltslöndin endurheimtu sjálfstæði sitt og Íslendingar viðkenndu hið sama sjálfstæði og tóku upp stjórnmálasamband við þau. Sjá má skoðanaskipti hér, hér og hér.
Í ferðum mínum um Eistland hef ég oft fundið fyrir gríðarlegu þakklæti í garð Íslendinga, sérstaklega hjá aðeins eldra fólki sem man vel þessa spennuþrungnu daga. Sumir muna eftir Jóni Baldvin og minnast á hann, en flestir tel ég að líti svo á að þetta hafi verið gjörð Íslenskra stjórnvalda, en ekki Jóns persónulega
Þetta segi ég ekki til að gera lítið úr þætti Jóns, hans framganga í þessu máli var til fyrirmyndar og af fullum skörungsskap.
En því var eðlilegt að Eistlendingar byðu þjóðhöfðingja Íslendinga til að setja Íslandsdaginn. En þeir gleymdu ekki Jóni, hann var í pallborði á fundi á vegum Eistneska utanríkisráðuneytisins, en þann fund hef ég séð minnst á bæði í Íslenskum og Eistneskum fjölmiðlum, þó að þar hafi ef til vill ekki komið fram nein stór tíðindi. Myndir af fundinum má sjá hér. Myndir frá Íslandsdeginum má einnig sjá hér.
En viðurkenning Íslendinga á sjálfstæði Eystrasaltsþjóðanna gerðist ekki í tómarúmi á örfáum dögum, heldur átti sér býsna drjúgan aðdraganda og komu þar ýmsir við sögu. það þarf ekki að fletta blöðum þessa tíma lengi til að finna fréttir um baráttu þessarra þjóða sem var með stigvaxandi þunga frá 1988, þó ef til vill megi segja að hún hafi staðið sleitulaust frá upphafi hernáms, árið 1940.
En margir minnast ferðar Jóns Baldvins til Litháens snemma árs 1991, eftir árás Sovéska hersins á sjónvarpsturninn í Vilnius. Það þurfti dirfsku og hugrekki í þá ferð og ekki að undra að Litháar minnist Jóns með mikilli hlýju og virðingu.
En Íslendingar fylgdust vel með baráttu Eystrasaltsþjóðanna og ég held að hugur flestra Íslendinga hafi verið með þeim í þessari baráttu. Málið var rætt í fjölmiðlum og á Alþingi og ekki var því sem næstu einhugur á þingi um að Íslendingar styddu þessar þjóðir til að endurheimta sjálfstæði sitt. Um það má til dæmis lesa í þessarri frétt, sem segir frá skýrslu utanríkisráðherra (Jóns) á Alþingi í Janúar 1991. Þarna kemur fram því sem næst einróma stuðningur Alþingis.
Og Íslenskir þingmenn höfðu ferðast til Eystrasaltsríkjanna, Árni Gunnarsson fór ásamt öðrum Íslenskum þingmönnum (eins og kemur fram í grein hans) og Þorsteinn Pálsson fór ásamt Kjartani Gunnarssyni til Eistlands og Litháen, í júlí áríð 1990, eins og lesa má um í þessarri frétt.
Í þessarri frétt má svo lesa um það þegar Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra tilkynnir Sovéska sendiherranum að Íslendingar hyggist viðurkenna sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og koma á stjórnmálasambandi við þau.
Ekkert af þessu sem kemur hér fram dregur úr þætti Jóns Baldvins, hans þáttur var stór og mikilvægur, en það er engin ástæða til að firtast við þó að Eistlendingar hafi fyrst og fremst ákveðið að heiðra Íslensku þjóðina, en ekki einstaklinga og fréttir hafi meira snúist um Íslandsdaginn en persónur.
Ótal aðilar á Íslandi börðust fyrir sjálsftæði Eystrasaltsþjóðanna og er á engan hallað þó að sagt sé að þar hafi Jón Baldvin farið fremstur meðal jafninga, en ekki voru alltaf allir sammála um hvaða skref ætti að stíga og hve hratt ætti að fara, þannig mátti til dæmis lesa þennan texta í leiðara Alþýðublaðsins í apríl árið 1990:
Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, hefur sýnt fullan stuðning þingsályktunartillögu
Þorsteins Pálssonar formanns flokksins og nokkurra annarra þingmanna um að ísland
viðurkenni formlega fullveldi Litháens. Alþýðublaðið birti leiðara fyrir viku þar sem
umrædd þingsályktunartillaga var gagnrýnd, þar eð full viðurkenning
á fullveldi Litháens getur að mati blaðsins orsakað erfiðari
tíma fyrir Litháa. Alþýðublaðið er ekki eitt um þessa
skoðun. Þetta er opinberleg stefna allra Vesturlanda með
Bandaríkin í broddi fylkingar. Það verður því að teljast einstæður
atburður að forysta Sjálfstæðisflokksins og málgagn
flokksins, Morgunblaðið, skuli fara beint gegn aðildarríkjum
okkar í NATO og þvert gegn stefnu Bush Bandaríkjaforseta.
Þessa afstaða Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins verður
að túlka sem sinnaskipti flokks og málgagns í utanríkismálum.
Þetta var í apríl, en síðan gerðust hlutirnir hratt og líklega var valdaránstilraunin í Moskvu svo dropinn sem fyllti mælinn og Eistland, Lettland og Litháen endurheimstu sjálfstæði sitt eftir ríflega 50 ára hersetu.
Það er fyllsta ástæða fyrir Íslendinga að vera stolta af framgöngu Íslenskra stjórnvalda þá daga.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.2.2021 kl. 00:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2011 | 03:47
Orðfæri umræðunnar - Sérfræðingar segja
Eitt er það sem færst hefur í vöxt í Íslenskum fjölmiðlum upp á síðkastið sem fer óstjórnlega í taugarnar á mér.
Það ser fyrirsagnir sem ég kalla "Sérfræðingar segja". Til dæmis: Stjórmálafræðingur segir að....., Hagfræðingur telur að ..., Sálfræðingur segir....
Þarna er gerð tilraun til að auka vægi fréttarinnar með því að nota menntun einhvers einstaklings til að ljá fréttinni meira vægi. Stundum hef ég það líka að tilfinningunni að menntunin sé notuð til að komast hjá því að nafnið á persónunni upplýsist strax. Margir "fræðimenn" hafa enda gjaldfallið svo í umræðunni undanfarin misseri, að líklega þykir betra að nafnið þeirra komi ekki fram í fyrirsögn, enda myndi það draga úr áhuga á fréttinni.
En það eru einstaklingar sem hafa skoðanir og tala við fjölmiðla en ekki menntun þeirra. Það færi því betur á að nefna nöfn þeirra einstaklinga sem vitnað er til, heldur en að tiltaka menntun þeirra.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2011 | 23:08
Bernaise borgarar - 30 ára gömul nýjung?
Sá á netinu að verið var að tala um Bernaise sósu á hamborgara sem merkilega nýjung.
Ætli það séu ekki u.þ.b. 30 ár síðan ég keypti fyrst hamborgara með bernaise á veitingastað á Íslandi. Það var auðvitað á Bautanum á Akureyri, en Smiðjuborgarinn sem þar var lengi á matseðlinum (er ef til vill enn), var með sveppum og bernaisesósu.
Akureyringar enda löngum staðið framarlega í nýjungum hvað hamborgarna varðar, sbr. franskar á milli o.s.frv.
En ég gæti alveg torgað einum Smiðjuborgara akkúrat núna, svona getur netið vakið hungur.
24.8.2011 | 20:27
Að koma á framfæri athugasemd - upplýst umræða?
All nokkrar umræður hafa orðið á netinu um grein sem Páll Stefánsson, ristjóri Iceland Review, birti í Fréttablaðinu í dag.
Ýmsir stuðningsmenn Evrópusambandsins gripu þessa grein á lofti og töldu þetta sýna hve vel þeim löndum vegnaði sem gengu í "Sambandið" og tækju upp Euro. Greinar sem vísa í greinina má t.d. sjá hér, hér og hér.
Ég ákvað að gera stutta athugasemd við þessar þrjár bloggfærslur, sparaði mér reyndar sporin og setti þá sömu við þær allar. Í stuttu máli, þá er staðan sú að einungis ein af þessum blogsíðum treystir sér til að birta athugasemdir án þess að viðkomandi bloggari samþykki skrifin. Því hefur athugasemdin ekki birst á nema 1. af þessum 3 síðum. Á annarri þeirra hafa þó margar aðrar athugasemdir birst sem hefur verið póstað síðar, þar á meðal frá síðuhöfundi. Það er því ekki hægt að draga aðra ályktun en að athugasemdinni hafi verið hafnað. Bregð ég því á það ráð að birta hana hér:
"Hef ekki séð grein Páls, en þekki býsna marga Eistlendinga, bæði sem búa þar og hér í Kanada. Því sem næst allir sem ég þekki greiddu atkvæði með inngöngu Eistlands í Sambandið (þeir sem búa hér í Kanada greiddu flestir atkvæði, enda með tvöfaldan ríkisborgararétt).
En þeirra ástæða er alltaf sú sama, Rússland. Þjóð á meðal þjóða rímar meira við það orðfæri sem ég hef heyrt hinar talandi stéttir nota.
En Eistlendingar eiga marga ágætis stjórnmálamenn og sumir þeirra tala hreinskilnislega við þjóð sína, sbr. orð fjármálaráðherrans Jurgens Ligi síðastliðin áramót við upptöku eurosins, Estonia is too small to allow itself the luxury of full independence.
En ég hygg að drjúgur meirihluti Eistlendinga styðji aðild landsins að Sambandinu og euroið njóti velvilja þeirra sömuleiðis, þó að vissulega hafi ýmsum þarlendum brugðið nokkuð við að eiga að fara að styðja Grikki fjárhagslega, sem og við atvinnuleysi yfir 15%, þrátt fyrir verulegar launalækkanir, hrun í fasteignaverði o.s.frv.
En þeir eru enn dauðhræddir við Rússana (og sagan bakkar þá hræðslu þeirra upp), ef til vill ekki að ástæðulausu og vilja leyta sér skjóls í stærri einingu.P.S. Það er ekki alls kostar rétt að tala um að Eistland hafi orðið sjálfstætt fyrir 20 árum, heldur endurheimtu þeir sjálfstæði sitt eftir u.þ.b. 50 ára hersetu Sovétríkjanna. Þjóðhátíðardagur þeirra er 24. febrúar, en þann dag 1918 lýstu þeir yfir sjálfstæði sínu, eftir stríð við hin sömu Sovétríki.
P.S.S. Tveir hlekkir sem vísa til þess sem um er talað að ofan http://www.globalenvision.org/2011/05/31/tallinn-meets-eurozone
http://www.bloomberg.com/news/2010-12-31/estonia-joins-euro-club-as-currency-expands-east-into-former-soviet-union.html "
Ekki veit ég hvers vegna athugasemd þessi þykir óhæf til birtingar, en sjálfsagt er það í þágu "upplýstrar umræðu" "Sambandsinnar" kalla svo oft eftir. Rétt er hins vegar að hrósa bloggsíðu Já samtakanna hér á Moggablogginu, með að leyfa athugsemdir án sérstaks eftirlits.
Því má svo bæta við hér að í grein Páls er fullyrt að 18% aukning hafi orðið á erlendri fjárfestingu í Eistlandi á þessu ári. Ekki veit ég hvort það er rétt eða rangt, en hef hvergi getað fundið stafkrók um það í Eistneskum fjölmiðlum. Slík staðreynd væri þó ekki neitt til að skammast sín fyrir, þvert á móti. Þannig að ef einhver hefur hlekk á slíka frétt, væri hann vel þeginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.8.2011 | 17:20
Íslendingar hætti að nota olíu til húshitunar
Sá á netinu að verið var að fjalla um niðurgreiðslur ríkisins til húshitunar með olíu og meinta þörf fyrir hækkun á þeim greiðslum.
Ef einhver framsýni væri í Íslenskum stjórnmálamönnum þá væri verið að athuga hvort möguleiki sé að að niðurgreiðslum yrði hætt og fjármunum frekar veitt til að aðstoða viðkomandi til að hætta notkun olíu og fara yfir í t.d. jarðhita.
En jarðhita (þá er ég ekki að tala um Íslenska háttinn, með miðlægri dreifingu á heitu vatni) er tiltölulega auðvelt að nýta og hefur gefist vel víða um heiminn.
Tæknin er þekkt og Íslendingar gætu líklega því sem næst útrýmt notkun á olíu til húshitunar með hagstæðum lánum, eða vægum styrkjum, samhliða því að niðurgreiðslu á olíu yrði hætt.
Þessi tækni hentar sérstaklega vel til sveita, þar sem leiðslur eru grafnar lárétt í jörð, en kostnaður eykst í þéttbýli þar sem bora þarf þær niður lóðrétt.
Það skal tekið fram að ég kasta þessu hér fram þó að þekking mín á fyrirbærinu sé takmörkuð, hugsanlega þarf að sníða hana að einhverju leyti að Íslenskum aðstæðum, en þessi tækni er notuð víða þar sem verður mun kaldara en á Íslandi. Til dæmis í Kanada, Finnlandi, Svíþjóð, Eistlandi svo nokkur lönd séu nefnd.
Fróðleik má finna víða um netið, hér eru hlekkir teknir af handahófi, set einnig inn tvö myndbönd þar sem tæknin er skýrð og sýnd.
http://en.wikipedia.org/wiki/Ground-coupled_heat_exchanger
http://www.hydro.mb.ca/earthpower/how_it_works.shtml
Stjórnmál og samfélag | Breytt 25.8.2011 kl. 15:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.8.2011 | 15:26
Orðfæri umræðunnar
Hvenær skyldi verða talað um skattsvik sem borgaralega óhlýðni og skattsvikara sem aðgerðasinna í skattamálum?