Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2011
Það hefur sýnt sig að yfirlýsing um að stefnt sé að Evrópusambandsaðild er töfralausn við fjármálalegum óstöðugleika og aðstæðum á borð við þær sem Íslendingar standa nú frammi fyrir," sagði Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, í samtali við Viðskiptablaðið í dag.
Af vef Viðskiptablaðsins þann 5. oktober 2008
Það er líklega vegna þessarar hagspeki og þekkingar sem Árni Páll var gerður að viðskiptaráðherra.
2.11.2011 | 03:51
Slæmur grikkur Grikkja - Þjóðaratkvæði stendur í Sambandinu
Tilkynning Papandreou forsætisráðherra þess efnis að hann hygðist efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um "björgunarpakka" þann sem Grikklandi hefur verið úthlutað, sem og þátttöku landsins í Eurosvæðinu hefur vakið upp hörð viðbrögð víðast um lönd. Jákvæðar raddir finnast þó sömuleiðis.
En hvers vegna þjóðaratkvæði?
Ef til vill finnst Papandreou að lengra verði ekki haldið án þess að hinn almenni Grikki fái að segja álit sitt. Að engar aðhaldsaðgerðir komi til með að standast nema hann fái almenning með sér. Ef Grískir stjórnmálamenn geta ekki sannfært hinn almenna Grikkja um að "björgunarpakkinn" sé besta lausnin sem bjóðist og að vera þeirra á Eurosvæðinu sé þeim til góða, þá á "björgunarplanið" ekki mikla von.
Hvaða möguleika á að bjóða upp á í staðinn liggur ekki ljóst fyrir.
En vikurnar sem líða þangað til atkvæðagreiðslan fer fram, ef hún fer þá fram, geta orðið örlagaríkar.
Því þessi tilkynning Papandreou afhjúpar sem aldrei fyrr veikleika Eurosvæðisins. Það eru of margir sem ráða, það eru of margir forætisráðherrar. Það eru svo mörg ólík sjónarmið sem þarf að sætta. Það eru of margir með neitunarvald.
Sem aldrei fyrr blasir við að Euroinu var komið á fót með pólítíska draumsýn að leiðarljósi. Efnahagslegum og stjórnmálalegum veruleika var ýtt til hliðar. Evrópskir stjórnmálamenn riðu um héruð og seldu kostina en neituðu að horfast í augu við gallana. Víða um lönd er afneitunin enn til staðar.
Á næstu dögum verður ákaft reynt að koma í veg fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin, ekki er ólíklegt að það þýði fall Grísku stjórnarinnar, sem yrði þá önnur ríkisstjórnin í Eurolöndunum sem yrði krísunni að bráð.
Hvernig þetta allt endar er engin leið að spá um. En hin fleygu orð, "You Aint Seen Nothing Yet", sem Bachman Turner Overdrive, Össur Skarphéðinsson og Ólafur Ragnar Grímsson hafa í sameiningu og þessari röð gert ódauðleg, gætu vel átt við nú.
En hjá Íslensku ríkisstjórninni, Samfylkingunni og Vinstri grænum er stefnan skýr. Þarna vill stjórnin inn. Ásókn Íslenskra vinstrimanna eftir óróa, illindum og úlfúð lætur ekki að sér hæða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 03:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2.11.2011 | 01:45
Tryggir Euroið þá ekki kaupmátt og velmegun?
Eins og ég hef oft áður minnst á hér á blogginu, virðast margir Íslendingar standa í þeirri meiningu að Euroið tryggi kaupmátt og velmegun. Sé með öðrum orðum (kaupmáttar)kletturinn í hafinu.
En það er auðvitað ekki svo.
Gjaldmiðill tryggir ekki kaupmátt eða lífskjör, það gerir verðmætasköpun í viðkomandi landi, alla vegna þegar litið er til lengri tíma.
Euroið tryggir ekki lífskjör Grikkja, né viðheldur kaupmætti þeirra. Eins og kemur fram í fréttinni er atvinnuleysi gríðarhátt og landflótti eykst með degi hverjum.
Fyrir stuttu mátti lesa fréttir um að "Sambandið" legði hart að Grikkjum að lækka lágmarkslaun. Fréttir berast sömuleiðis af miklum fólksflótta frá Írlandi. Fólksflótti og launalækkanir hafa sömuleiðis átt sér stað í Eystrasaltslöndunum, þó að gjaldmiðlar þeirra séu beintengdir Euroinu, og Eistland hafi tekið upp Euroið um síðustu áramót.
Það er eiginlega með eindæmum að Íslensk stjórnvöld skuli ekki hugleiða að staldra við og sjá hvernig þróunin verður í málefnum "Sambandsins" og Eurosins, áður lengra er haldið á aðildarbrautinni.
Það er sömuleiðis með eindæmum að því skuli enn vera haldið fram að ástand á Íslandi yrði sem líkast ástandinu í Þýskalandi, bara gengið er í "Sambandið" og tekið upp Euro.
Því hefur reyndar verrið haldið fram í stærsta dagblaði Íslands að stjórnmálamenn innan "Sambandsins" hafi hreinlega gleymt að segja almenningi frá göllum Eurosins, svo áfram hafi þeir verið um að "selja" kosti þess.
Það verður ekki betur séð en slík valkvæð gleymska sé býsna algeng meðal Íslenskra "Sambandssinna".
Ungir Grikkir leita annað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2011 | 01:29
Ef meira fé er tekið af almenningi eykst endurnýjanleg orka?
Það ber alltaf að gjalda varhug við því þegar fullyrt er að það eina sem þurfi sé að hið opinbera auki stuðning sinn við eitthvað, verði tilveran svo mikið betri.
Vissulega eru endurnýjanlegir orkugjafar mikilvægir og gott að notkun þeirra aukist, en þeir þurfa að vera samkeppnishæfir í verði við aðra orkugjafa. Það má meira að segja halda því fram að ef opinber stuðningur við þá sé mikill, dragi úr líkum að svo sé eða verði.
Stuðningur og afskipti hins opinberi á ekki og má ekki vera nauðsynlegur þáttur í framþróun á þessu sviði frekar en öðrum.
Aukið vægi endurnýjanlegra orkugjafa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
1.11.2011 | 19:55
Hugleiðingar á Hrekkjavöku - Sameiningar og samstarf ríkja
Hér var haldinn Hrekkjavökufagnaður í gærkveldi. Búinn til þessi magnaða graskerssúpa, snætt lambalæri og ostakökur og rjómaís í eftirrétt.
Krakkarnir hlupu svo grímubúin um nágrennið og söfnuðu sælgæti, enda á þeim aldri að slíkt tækifæri þykir gulls ígildi.
En fullorðna fólkið ræddi lífsins "gagn og nauðsynjar". Ég held að allir sem hér voru staddir séu annaðhvort fæddir í Evrópu eða eigi foreldra sem fæddust þar. Talið barst því eðlilega fljótt að Evrópu og vandræðum Eurosins.
Eins og eðlilegt má teljast voru skoðanir skiptar og heyrðust ýmsar skoðanir.
En loks var þeirri spurningu varpað fram hvort að einhver viðstaddra teldi það mögulegt að fylkin hér í Kanada gætu notað sameiginlega mynt, eða sameinast í dag, ef þau hefðu verið sjálfstæð fram að þessu. Bætt síðan við að spyrja mætti sömu spurningar hvað varðaði Bandaríkin, hvort að líklegt væri að þau yrðu til, hefðu ríkin verið að fullu sjálfstæð fram á þennan dag.
Það var samróma álit viðstaddra að á því væru hverfandi líkur.
Það eru auðvitað mörg EF í spurningum sem þessum, en eigi að síður geta svona vangaveltur veitt innsýn í vandamál annars staðar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 19:35
Hljómskálinn
Ég var að enda við að horfa á fyrsta þáttinn af Hljómskálanum á netinu.
Í stuttu máli sagt er þetta frábær þáttur, skemmtilegur og fræðandi. Fæti drepið niður hér og þar í Íslenskri danstónlist og endað með feyki góðu lagi eftir Jóhann Helgason, flutt af honum og FM Belfast.
Það skemmtilegasta sem ég hef séð í Íslensku sjónvarpi lengi.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.11.2011 | 16:22
Múgbrjálæði Íslendinga
Núna er mikið fjallað um meint "múgbrjálæði" Íslendinga sem eigi sér fáar hliðstæður á meðal siðaðra þjóða og sé líklega stærsti einstaka orsök þess hruns sem varð á Íslandi.
Þetta var meðal annars rætt á ráðstefnunni í Hörpu í nýliðinni viku og vakti eðlilega mikla athygli. Það kom sömuleiðis fram á sömu ráðstefnu að Íslensku bankarnir hefðu gefið stjórnmálaflokkum og stjórnmálamönnum 8 dollara per íbúa aríð 2006. Eðlilega vekur þetta ýmsar spurningar um tengsl á milli stjórnmálamanna og bankageirans og hvort það það hafi átt mikinn þátt í margumræddu "múgbrjálæði".
Reyndar held ég að "múgbrjálæði" Íslendinga, ef við leyfum okkur að ganga út frá því að hún hafi verið til staðar, hafi ekki dugað ein og sér til þess að búa til þá fjármálabólu sem flestir gera sér grein fyrir nú, eftir á vel að merkja, að hafi blásið út á Íslandi.
Þeir voru nefnilega til út um hina víðu veröld sem höfðu fulla trú á hinu Íslenska bankakerfi og lögðu í raun til loftið í bóluna, þ.e.a.s. peningana. Flestum er örugglega kunnugt um hve stórum fjárhæðum hinir sömu töpuðu við hrun þeirra (handhafar þeirra skuldabréfa eru sem kunnugt er önnum kafnir við að reyna að ná þeim peningum til baka í gegnum eignarhald á Íslenskum bönkum, en það er önnur saga). Þessir erlendu aðilar voru ekki einhver "nobodys" heldur má finna á meðal þeirra margar þekktustu og virtustu bankastofnanir heims.
Það hlýtur því að vera rannsókn sem er þess virði að leggja í, hvers vegna virtar alþjóðlegar fjármálastofnanir, hafi tekið með þessum hætti virkan þátt í dæmafáu "múgbrjálæði" Íslendinga.
Annað sem ég held að sé þess virði að rannsaka, ef við göngum út frá því að "múgbrjálæðið" sé staðreynd, er hvernig það varð til.
Stjórnmálamenn og bankar eru vissulega sterkar einingar, en ég hef ekki trú því að það hafi dugað til að "múgbrjálæði" næði neinum hæðum, jafnvel þó sterk tengsl hafi verið á milli þessara eininga.
En hvað gerist ef við bætum við fjölmiðlum og svo þeim sem "vit hafa á hlutunum", hvað gerist þá?
Hver yrði upphæðin ef við reyndum að komast að því hvaða upphæðir bankar og "útrásarvíkingar" (sem flestir voru hluthafar, eða með aðkomu að bönkum með einum eða öðrum hætti) lögðu í kaup á fjölmiðlum, eða til fjölmiðla á "múgbrjálæði" árunum?
Hvað yrðu það margir dollarar á íbúa?
Það yrði einnig fróðlegt að vita upphæð sem bankar og "útrásarvíkingar" lögðu til "fræðasamfélagsins", því vissulega hlustuðu margir Íslendingar á landsins bestu fræðimenn útskýra skjótan framgang landa sinna á erlendri grund, að sjávarútvegur skipti á minna máli, í hvaða gjaldmiðli væri best að taka erlend lán o.s.frv.
Fræðimenn unnu lærðar skýrslur og álitsgerðir og unnu eftir því sem mér skilst mörg önnur þarfaverk fyrir banka og "útrásarvíkinga" fyrir hæfilegar þóknanir.
Hvað yrðu það margir dollarar á íbúa?
Bankar og "útrásarvíkingar" voru sömuleiðis margir hverjir atkvæðamiklir í stuðningi við lista og íþróttalíf Íslendinga. Þar komu þeir fram sem sannir mannvinir og stuðluðu að framförum og juku þrótt og þrek í menningu jafnt sem íþróttum svo eftir var tekið. Margir úr þessum geirum kunnu þeim auðvitað hinar bestu þakkir og báru þeim vel söguna og má segja að þeir hafi styrkt þá ímyndarlega.
Hvað skyldu það hafa verið margir dollarar á íbúa?
En það má líka velta því fyrir sér að hve miklu leyti var um "múgbrjálæði" að ræða, en ef svo var hver eru mikilvægustu "hráefnin" í slíkt brjálæði.
Ég held að hér sem víða annars staðar finnist enginn stóri sannleikur, en það breytir því ekki að leitin að honum getur verið bæð gagnleg og fróðleg.