Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Hvað skapar árangur?

Auðvitað er þetta ekki það sem Íslendingar vilja heyra, að menntakerfið í landinu sé að síga afturúr og sé undir meðaltali OECD ríkja.  Vissulega eitthvað sem þarf að huga að hvernig verði bætt.

En það væri verulega fróðlegt að sjá samanburð á mældum námsárangri með tilliti til þess hve mikill kostnaðurinn er, bæði sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og kostnaður á nemanda.

Ég sá fyrir nokkru skýrslu þeirrar gerðar sem fjallaði um heilbrigðiskerfi í Evrópu.  Þar kom skýrt fram að ekki var saman sem merki á milli eyðslu og árangurs.

En Íslendingar þurfa vissulega að ræða hvernig þeir geta bætt námsárangur, en það er ekki endilega að lausnin liggi í því að auka fjárframlög.  Slík lausn enda líklega ekki möguleg um þessar mundir.


mbl.is Ísland undir meðaltali OECD
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margnýtt staðarnöfn

Það er líklega flestum kunnugt hve hlýtt þeir Evrópubúar sem fluttust til Ameríku, hugsuðu til heimahaganna, alla vegna er það sú niðurstaða sem hlýtur að vera dregin, þegar litið er til þess hve mörg af staðarheitum og örnefnum þeir "fluttu" með sér.

Þannig rennur Don lygn hér í austurhluta Toronto.  Hér nokkru vestar í Ontario er að finna London, ennþá má líka finna staðarskilti með heitinu Paris hér í fylkinu og Waterloo er ágætis borg. Hull og Grimsby eru mörgum Íslendingum að góðu kunnar, en færri hafa líklega komið til Grimsby hér í Ontario eða Hull í Quebec.

Þannig mætti lengja telja, og vissulega getur það valdið misskilningi þegar talað er um þessa staði. 

Cambridge, Ontario er t.d. skemmtilegur bær, en sé litið til menntunar, er sá Breski líklega frekar hærra skrifaður.


mbl.is Rugluðust á Ástralíu og Kanada
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Um hvað var rifist?

Það er hálf undarlegt að lesa fréttir um sátt í IceSave málinu svokallaða.

Það virðist vera svo gríðarlega mismunandi skilningur á samkomulaginu og/eða samningnum.  Jóhanna segir í frétt á Eyjunni (þar sem vitnað er í Sjónvarpsfréttir sem ég hef ekki séð), að hinir svokölluðu fyrirvarar rúmist innan samningsins.

Þá eru þetta varla fyrirvarar við samningin eða hvað?  Þá hljóta þeir að vera hluti af honum.

En um hvað var þá rifist?  Gat ríkisstjórnin trauðla sætt sig við fyrirvara sem rúmast innan samningsins?  Var stjórnarandstaðan að berjast við að koma inn fyrirvörum sem voru allan tímann innan ramma samningsins?

Eða hafa Framsóknarmenn rétt fyrir sér þegar þeir segja að þetta sé meira og minna markleysa?

Líklega verða Íslendingar rétt eina ferðina að bíða eftir því að úrskurðurinn komi að utan, að Bretar og Hollendingar upplýsi þá um hvernig er í pottinn búið.

Íslenskir stjórnmálamenn virðast ráða við fátt annað en að flækja málin.


Smá Flickr

Er alltaf að taka myndir, held og vona að mér sé að fara örlítið fram á því sviðinu.

Set alltaf myndir nokkuð reglulega inn á Flickr síðuna mína, www.flickr.com/tommigunnars

Læt hér nokkrar nýlegar myndir fljóta með, hægt er að klikka á myndirnar til að sjá stærri og flytjast yfir á Flickr síðuna.

 

Johanna Framed Seller and Buyer Bridge at Elora Hornets

Humar sveppir

Var að þvælast á bændamarkaði á fimmtudaginn þegar ég sá í einum básnum til sölu humar sveppi (lobster mushrooms).  Þetta var nýlunda fyrir mér, ég hafði aldrei heyrt talað um þessa sveppi áður. 

Let slag standa þó að þeir væru dýrir, fékk rétt rúmlega 100 gr fyrir 9 dollara, og keypti.

Steikti sveppina á pönnu í gærkveldi, kryddaði þá með salti og pipar og ýrði smá sherryi yfir.

Herramannsmatur.  Afar ljúffengir og ákveðið bragð, þó að það sé frekar milt.

Fór svo í dag að leita mér frekari heimilda um sveppi þessa.  Komst þá að því að ekki er um sveppi að ræða, heldur sýkil (eða hvaða orð á hér vel við) sem leggst á sveppi og breytir litarhafti þeirra, gerir þá líka humri í útlit (rauða að utan og hvíta innvið).

En meindýr, sýklar eða eitthvað annað, ég kvarta ekki þar sem bragðið var gott og sveppirnir fóru vel í maga.


Tekið að kólna í Helvíti?

Það eru tragíkómískar fréttir sem berast af Borgarahreyfingunni.  Það er engu líkara en hreyfingin hafi tekið upp þráðinn þar sem Frjálslyndi flokkurinn skildi hann eftir, og ákveðið að ganga enn lengra og ákafar fram í sundurlyndi og innanflokksdeilum.

En líklega er farið að kólna í Helvíti og mikil eftirspurn þar eftir flíspeysum og öðrum hlýum fatnaði.


mbl.is Þráinn segir sig úr þingflokki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rússagull

Það er vissulega meiriháttar frétt að sendiherra Rússlands á Íslandi lýsi því yfir að Rússar hafi verið reiðubúnir til að lána Íslendingum 4. milljarða euroa, en Íslensk stjórnvöld hafi ekki þegið lánið.

Fréttnæmið er þeim mun meira þegar haft er í huga umræðan og yfirlýsingin sem gefin var um lán frá Rússum í október síðastliðnum.

Það er lítið að marka yfirlýsingar frá stjórnmálamönnum eins og Björgvini G. Sigurðssyni, fyrrverandi viðskiptaráðherra, enda hefur marg sinnis komið í ljós að hann virtist lítið vita um hvað var að gerast á þessum tímum. 

En það er með þetta mál, líkt og mörg önnur að það er erfitt að mynda sér skoðanir á því, enda heimildir af skornum skammti.

Vissulega getur lánið hafa staðið til boða, vissulega geta kringumstæður hafa verið með þeim hætti að rök hafi verið fyrir því að hafna láninu.  Vissulega getur verið að staðfest lánsloforð hafi ekki verið fyrir hendi.

Það sorglegasta við þetta mál er ef til vill að líklega nýtur rússneski sendiherrann jafn mikils eða meira trausts á meðal almennings á Íslandi en Íslenskir stjórnmálamenn.  Þess vegna hafa þessi ummæli hans mikla vigt.

Líklega munu öll kurl aldrei koma til grafar í þessu máli, frekar en mörgum öðrum, en það vær vissulega fróðlegt að heyra Ingibjörgu Sólrúnu og Geir Haarde tjá sig um þetta mál.  Nú til dags þýðir það að ekki náist í menn, það að þeir vilja ekki að náist í sig.


mbl.is Enginn hafnaði láni Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru allir jafnir fyrir stjórnvöldum?

Viðbrögð meðlima ríkisstjórnarinnar víð birtingu upplýsinga úr lánabók Kaupþings hafa verið nokkuð fyrirsjáanleg.

Reiði almennings er augljós og því eru viðbrögð ráðherra á einn veg, þeir telja að vissulega vegi hagsmunir almennings þyngra en hagsmunir bankans eða lántakenda.

Ekki ætla ég að setja mig upp á móti þeim skoðunum ráðherrana, það má færa rök fyrir því að þessar upplýsingar eigi að koma upp á yfirborðið, nú þegar almenningur á Íslandi er að súpa seyðið af þeim ákvörðunum sem teknar voru í bönkunum.

En má þá ekki treysta því að stjórnvöld beiti sér fyrir því af alefli að sambærilegar upplýsingar úr lánabókum Glitnis og Landsbankans verði gerðar aðgengilegar fyrir almenning?

Þar er um að ræða ekki minni hagsmuni fyrir almenning, og þar sem um er að ræða um fyrirtæki í eigu ríkisins (almennings) ætti að vera hæg heimatökin fyrir ríkisstjórnina að beita sér í málinu.

Megum við ekki eiga von á frumvarpi á Alþingi sem gerir bönkunum það skylt að birta þessar upplýsingar frá Glitni og Landsbankanum?

Líklega ekki, eða hvað?

 


Eva skrifar

Það er ekki annað hægt en að vera þakklátur fyrir skrif Evu Joly sem birst hafa víðsvegar um veröldina, til varnar Íslandi og Íslendingum.

Það er full þörf á því að útskýra málstað Íslendinga sem víðast. 

Eflaust eru þeir margir sem eru ekki sammála öllu því sem fram kemur í grein Evu, en flestir ef ekki allir hljóta að taka undir að í greininni eru margir athygliverðir punktar.  Ég held líka að þeir séu margir sem séu þeirrar skoðunar að það sé ágætt að Eva láti sig efnahagsmálin varða, en sé Íslendingum ekki einvörðungu til aðstoðar í saksókn.  Alla vegna hef ég ekki haft eftir neinum nema aðstoðarmanni Jóhönnu Siguarðardóttur að svo sé.

Grein Evu gerir enga tilraun til að firra Íslendinga ábyrgð á því klúðri sem Íslensk bankastarfsemi hefur skilið eftir sig, en bendir réttilega á að ábyrgðin liggi víðar og ósanngjarnt sé ábyrgðin sé öll talin Íslands.

Það sem er ekki síst athyglivert í grein Evu eru klausurnar um regluverkið sem bankastarfsemi í "Sambandinu" (og þar með IceSave) byggðist á.

" Það er raunar athyglisvert að evrópskar reglugerðir sem fjalla um fjármálasamsteypur virðast greinilega gera ráð fyrir að aðildarríki ESB sem heimila starfsemi slíkra fyrirtækja frá þriðja landi verða að fullvissa sig um að þau séu undir jafn miklu eftirliti frá upprunaríkinu og kveðið er á um í evrópskum lögum. Þannig kann að vera að bresk yfirvöld hafi brugðist að þessu leyti – nokkuð sem raunar kemur ekki mikið á óvart þegar „frammistaða“ annarra enskra banka í bankakreppunni er skoðuð, banka sem voru alls ótengdir Íslandi... Það hversu mjög Brown hefur beitt sér gegn þessu smáríki er því ekki hægt að skýra á annan hátt en þann að hann hefur viljað ganga í augu eigin kjósenda og skattgreiðenda, fólks sem að sönnu varð fyrir miklu fjárhagstjóni og rétt er að halda til haga. Rétt er að undirstrika að íslenskar stofnanir bera mikla ábyrgð á þessu máli. En þýðir það að menn eigi að líta fram hjá því að bresk stjórnvöld bera jafn mikla ábyrgð, en láta íslensku þjóðina axla allar byrðarnar?"

Það er gott að eiga góða að, er oft sagt.  Það á vissulega við í þessu tilviki, þar sem Eva Joly hefur tekið að sér að vekja athygli á því ofríki og á köflum obeldi sem Bretar hafa beitt Íslendinga.

Því ber vissulega að fagna, sérstaklega þegar ríkisstjórn Íslendinga virðist helst ekkert vilja gera sem gæti hugsanlega styggt "Sambandið" og þau ríki sem þar eru og ráða ferðinni.

 

 


mbl.is Ísland – það sem læra má af efnahagshruninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara einn

Það er bara einn Michael Schumacher (líklega myndu margir bæta við, sem betur fer), og sú ákvörðun hans að snúa um stundarsakir aftur í Formúluna er auðvitað söguleg.

Auðvitað munu aðdáendur flykkjast að brautunum og að sjónvarpstækjunum og þetta þýðir aukna athygli fyrir íþróttina og um leið auknar tekjur.

Persónulega verð ég að segja að mér finnst það fremur óíþróttamannsleg framkoma hjá þeim liðum sem hafa sett sig á móti því að hliðra aðeins æfingareglum fyrir "gamla manninn" í ljósi aðstæðna.  Öll liðin munu hagnast á þeirri athygli sem hann beinir að keppninni.

En það verður fróðlegt að fylgjast með honum í næstu keppni.


mbl.is Miðasala tekur kipp vegna endurkomu Schuhmacher
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband