Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2009
18.7.2009 | 05:24
Er fléttan að gera Brussel að bjargvætti?
Ég var nú sem oftar að þvælast um á netinu, þegar ég sá vangaveltur um það að Evrópusambandið skerist í leikinn hvað varðar IceSave deiluna.
Þessar vangveltur (sem ég sá á bloggsíðu Guðmundar Magnússonar) eru tilkomnar vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar þess efnis að hún vildi meina að aðkoma "Sambandsins" hefði verið tryggð, og undraði sig á því hvers vegna hún hefði ekki orðið.
Þetta mun hún hafa látið hafa eftir sér í Ríkisútvarpinu (sem ég heyrði ekki, en Guðmundur vísaði í endursögn Eyjunnar, sem finna má hér).
Þetta er vissulega athyglivert. Vissulega snertir málefnið "Sambandið" með beinum hætti, enda um að ræða deilumál hvað varðar löggjöf þess um bankarekstur og innistæðutryggingar.
En hvers vegna skyldi "Sambandið" halda sig til hlés, ef búið hefur verið að ákveða að það kæmi að lausn málsins?
Um það er að sjálfsögðu erfitt að fullyrða, en það sem flaug strax um huga mér, var að nú væri verið að "hanna atburðarásina", og breytt hefði verið um taktík.
Annað tveggja, að það hefði verið talið vænlegra fyrir "Sambandið" að halda sig til hlés, og skaða ekki orðspor sitt hjá Íslendingum frekar en orðið væri, eða þá hitt að meiningin væri að reyna að gera bjargvætt úr Brussel.
"Sambandið" myndi koma að málum á seinni stigum, eftir að Íslendingar hafa sótt um aðild að "Sambandinu" og finna lausn sem væri Íslendingum hagstæðari en sú "glæsilega niðurstaða" sem Svavar Gestsson og félagar náðu.
Eins og flestir vita hefur meirihluti Íslendinga verið andsnúnir aðild að "Sambandinu", en ef það væri eitthvað sem gæti gert þá vinveitta og áfjáða um aðild, væri ef IceSave samningurinn yrði gerður þeim léttbærari.
Líklega hljómar þetta hálf ótrúlega, en það gerir líka sú staðreynd að utanríkisráðherra Íslands talar um að sækja um styrk til Evrópusambandsins til að greiða hluta að af kostnaði Íslands við aðildarviðræður við það sama "Samband".
17.7.2009 | 05:57
Að eiga von á glæsilegri niðurstöðu
Margir tala nú eins og Ísland sé nú þegar á leið í Evrópusambandið. Aðrir segja að það sé engin spurning um að Ísland nái aldrei þeim samningi sem að þjóðin muni sætta sig við og því verði aðild felld í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Reyndar gefa niðurstöður skoðanakannana það til kynna, að Íslendingar vilji sækja um aðild að Evrópusambandinu, en kæri sig ekkert um aðild að sama "Sambandi". Þeir vilja sem sé fá samning, en reikna með því að fella hann.
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að Ísland eigi ekki erindi í Evrópusambandið og hef ekki verið í neinum vandræðum að komast að þeirri niðurstöðu án þess að hafa niðurstöður aðildarviðræðna til aðstoðar.
Því þó að það sé rétt að engin leið sé að fullyrða 100% um niðurstöður aðildarviðræðna, þá er auðveldlega hægt að gera sér nokkra grein fyrir því hvort að áhugi sé fyrir því að Ísland gangi í "Sambandið", með því að skoða "Sambandið" sjálft, og þá samninga sem aðrar þjóðir hafa gert.
Eða eiga Íslendingar að halda dauðahaldi í vonina um að samningmenn þeirra komi "eina ferðina enn" heim með "glæsilega niðurstöðu"? Eiga Íslendingar von á að aftur verði fullyrt við þá að þeir hafi fengið "allt fyrir ekkert"?
Ég trúi ekki á jólasveininn.
17.7.2009 | 04:47
Hverjir komu aðildarumsókninni í gegn?
Mikil og réttlát gagnrýni hefur beinst gegn Vinstri grænum, fyrir hvernig stór hluti þingflokks þeirra greiddi atkvæði varðandi aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
En það er vert að hafa í huga hverjir það voru sem í raun tryggðu málinu framgöngu.
Þó að vissulega sé það svo að öll atkvæði séu jafn gild, þá voru það í raun atkvæði stjórnarandstöðuþingmanna sem jafnt og þingmanna VG sem komu málinu í gegn.
Atkvæði Birkis Jóns Jónssonar, Guðmundar Steingrímssonar, Sivjar Friðleifsdóttur, Þráins Bertelssonar og Ragnheiðar Ríkharðsdóttur voru atkvæði sem í raun réðu úrslitum. 5 atkvæði sem var einmitt munurinn sem var á já og nei fylkingum í þinginu.
Hjáseta Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Guðfríðar Lilju Grétarsdóttur átti einnig sinn þátt í því að tryggja málinu framgang.
Þrátt fyrir að 8 þingmenn VG segðu já, skilaði það ríkisstjórninni aðeins 28 atkvæðum, afgangurinn kom frá stjórnarandstöðunni.
Ekki það að það skipti meginmáli hvort atkvæði komu frá stjórn eða stjórnarandstöðu, en það er þó rétt að halda því til haga.
Samþykkt að senda inn umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.7.2009 | 15:56
Þorgerður Katrín og Guðfríður Lilja, segið ykkur frá frá þingmennsku
Nýlokið er umræðum og atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu þess efnis að Ísland sæki um aðild að Evrópusambandinu.
Ég held að flestir, hvort sem þeir eru áfram um aðild eða á móti henni, séu sammála um að þetta sé eitt það stærsta má sem komið hefur til kasta Alþingis frá lýðveldisstofnun, ef ekki það allra stærsta.
En samt eru þingmenn sem treysta sér ekki til að greiða atkvæði um málið.
Hvort það er vegna þess að þeir hafa ekki afstöðu til málsins eða þora ekki að láta hana í ljós, ætla ég ekki að dæma um.
En ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki boðlegt að koma sér hjá því að greiða atkvæði um mál af þessarri stærðargráðu og ef þingmenn ráða ekki við að taka afstöðu til slíkra mála, eigi þeir ekkert erindi á Alþingi.
Því skora ég á Þorgerði Katrínu og Guðfríði Lilju að draga sig í hlé, segja sig frá þingmennsku og láta sæti sín eftir einstaklinum sem hafa hugrekki til að taka ákvarðanir og láta þær í ljós.
Þorgerður Katrín greiddi ekki atkvæði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
16.7.2009 | 15:45
Smá Flickr
Ég hef tekið nokkuð mikið af ljósmyndum upp á síðkastið og þær sem ég flokka í betri hlutann enda yfirleitt á Flickr síðunni minni, www.flickr.com/tommigunnars
Þar má m.a. finna eftirtaldar myndir og svo auðvitað fjölmargar til viðbótar. Hægt er að "klikka" á myndirnar til að sjá þær stærri og flytjast þannig yfir á Flickr síðuna.
16.7.2009 | 15:38
Áhugaverðir tímar?
Það er all nokkuð um liðið síðan bloggað hefur verið hér að Bjórá. Einhvernveginn hef ég ekki fundið mig í bloggheimum.
Ég fylgdist sömuleiðis lítið með fréttum um nokkurt skeið, sérstaklega fréttum frá Íslandi. Þær voru svo margar á þann veginn sem lítt kættu geð mitt.
En það er tímabært að taka upp þráðinn að nýju og reyna að koma hugsunum og hugrenningum frá sér. Það er hollt huganum að hugsa og skrifa á Íslensku, helst flesta daga.
Nú eru mikil umbrot í Íslensku samfélagi, ágreiningur uppi, en mikilvægar ákvarðanir teknar.
Það sem sagt er vera Kínversk bölbæn kemur nú oft upp í hugann, megi þú lifa á áhugaverðum tímum.