Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
14.5.2007 | 12:57
Af hverju hefur Geir Haarde öll tromp á hendinni
Það hafa ýmsir verið hissa á því hve ýmsir meðlimir stjórnarandstöðunnar hafa fullyrt að Geir Haarde hafi öll tromp á hendi.
Sumir, s.s. Ómar Ragnarsson reyna að halda því fram að vinstristjórnin sé sterk í spilunum, það sé líklegur möguleiki og svipan sem sé hægt að nota á Sjálfstæðisflokkinn.
Þetta hljómar ekki ólíklega, en það er tvennt sem mælir sterklega á móti þessum möguleika. Í fyrsta lagi þá finnst mér frekar ólíklegt að framsóknarmenn og vinstri grænir hafi gríðarlegan áhuga á því að leiða Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur til hásætis í nýrri ríkisstjórn, minnugir reynslunnar úr R-listanum.
Svo fór það ekki fram hjá neinum sem horfði á leiðtogaumræðurnar a RUV í gærkveldi að það liggja engir leyndir ástarþræðir á milli Steingríms J. og Jóns Sigurðssonar. Ég held að krafa Steignríms um afsökunarbeiðni frá Jóni og Framsóknarflokknum hafi sýnt og sannað það að mikið þurfi að ganga á til að þeir starfi saman í ríkisstjórn.
Persónulega þætti mér ekki ólíklegt að það sé þegar búið að þreifa fyrir sér með þennan möguleika af hendi Samfylkingar. Útkoman hafi verið neikvæð.
Þess vegna tala Samfylkingarmenn eins og Össur Skarphéðinsson í Silfrinu í gær um að Geir Haarde hafi öll tromp á hendi.
Þetta vita menn eins og Ómar Ragnarsson hins vegar ekki, að því virðist vera, staðan hans er auðvitað sú að hann er ekki í "lúppunni".
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 15:28
Blog úr fortíðinni
Það getur verið misskemmtilegt að lesa það sem maður hefur skrifað í fortíðinni. Þegar litið er til baka eru sjónarhornin oft önnur og vitneskjan meiri og því virkar skoðanir fortíðar stundum hálf hjákátlegar.
En stundum gerist það gagnstæða og eitthvað sem sagt hefur verið hefur hitt í mark og er það vissulega ánægjuefni.
Þegar ég í nótt fylgdist með "jöfnunardansinum", varð mér stundum hugsað til orða sem ég þrykkti hér á bloggið í nóvember síðastliðnum, en þar sagði:
"Hinu er ekki hægt að neita, að ef mitt utankjörfundaratkvæði ætti þátt í því að koma Ragnheiði Ríkarðsdóttur á Alþingi sem 6. þingmanni Sjálfstæðiflokksins í "Kraganum", þá mun svo sannarlega ekki verið til einskis farið á kjörstað."
Bloggið frá 17. nóvember 2006.
Í athugasemdum frá fyrrverandi varaþingmanni VG, mátti lesa m.a. þetta:
"Fallegir draumórar þínir um að 6. sætið á D-listanum í suðrinu verði þingsæti. Og vissulega má deila um það hvort bæjarstjórinn í Mosó sem stefndi á 3ja sætið en lenti í því sjötta eigi brýnt erindi á þing."
En nú er dómur fallinn og Ragnheiður er komin á þing. Ég veit ekki hvað munaði mörgum atkvæðum, en hitt er ljóst að atvæðið mitt kom vissulega að notum og féll á réttan stað.
13.5.2007 | 15:15
Engin Formúla
Ég sá ekki Formúluna í dag. Þetta er ein af örfáum keppnum sem ég hef misst af síðan 1996. En þetta er stundum svona, það er ekki eintóm sæla að búa í hokkíbrjáluðu landi. Sportrásin sem venjulega sýnir Formúluna, var með hokkílieik í staðinn, þannig að þetta var ekki eins góður morgun og á hefði verið kosið.
Eina "dedíkeraða" mótorsportrásin var síðan færð af kaplinum í haust, þannig að Formúla var hvergi að finna.
Engu að síður er ég ánægður með sigur Massa, en Ferrari þarf að fá báða bílana í mark, annað dugar ekki í keppni bílsmiða. Ég veit ekki nákvæmlega hvað kom fyrir hjá Kimi, en ef til vill hefur hann komið með þá óheppni sem fylgdi honum hjá McLaren yfir, eða þá að hann er dulítill "bílaböðull".
En velgengni Hamilton heldur áfram, það er ótrúlegt að þessi ungi nýliði skuli leiða keppni ökuþóra. Það er ef til vill táknrænt fyrir það umrót sem hefur átt sér stað í Formúlunni, að þeir sem voru álitnir ökumenn númer 2 hjá Ferrari og McLaren, eru að standa sig betur.
En tímabilið virðist ætla að vera skemmtilegt, allt er opnara en nokkru sinni fyrr, þó að Ferrari og Mclaren standi verulega upp úr.
Massa sigrar en Hamilton er einn efstur í heimsmeistarakeppni ökuþóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
13.5.2007 | 15:01
Kostaboð Visa og bankans míns
Á nýjasta Visareikningi okkar hjóna má lesa eftirfarandi tilboð:
"We are waiving your minimum payment this month. You can of course, make a payment if you wish. Interest charges will be calculated as usual."
Þetta er auðvitað "kostaboð", en sé tekið tillit til þess að vextirnir eru 18.5% og það í landi sem verðbólgan mælist um 2%.
Þetta er sú leið sem venjulegir Kanadabúar nota til að verða sér út um "yfirdrátt". En það er enginn stjórnmálamaður hér sem fer mikinn vegna "okurvaxta", ekki veit ég hvers vegna, en líklega er það vegna þess að þeir vita að kjósendur þeirra eru fjárráða, menn verða að velja og hafna, líka í neyslunni og "samningar" á milli banka og viðskiptamanna, eiga í raun ekki að vera á borði stjórnmálamanna.
Hitt er svo annað mál að stjórnmálmenn hér hafa fjallað um ýmislegt sem þeir telja geta dregið úr samkeppni, þar á meðal þjónustugjöld, og hugsanlegt samráð þar um.
13.5.2007 | 14:49
Sleepless in Toronto
Ég lét það eftir mér að halda kosningavöku hér að Bjórá til rétt ríflega 4 í nótt að staðartíma. Það dugði þó ekki til að ná lokatölum.
En börnin veita enga miskun, enda ekki miklir áhugamenn um Íslenskar kosningar. Ég var því vakinn hálf sjö og engin frekari grið gefin.
Það er því kaffi með vænum skammti af hlynsýrópi sem er notað til orkugjafar og er ég að komast hægt og rólega í gang, en dagurinn verður þó án efa erfiður.
13.5.2007 | 04:46
Kosningavaka að Bjórá
Það er ef til vill orðum aukið að það sé rífandi stemming á kosningavökunni hér að Bjórá. Það háir henni mikið hve fámenn hún er. Ég er eini heimilismaðurinn sem hefur verulegan áhuga á Íslenskri pólitík.
Ég sit því einn hér fyrir framan tölvuna og horfi sitt á hvað á kosningasjónvarp RUV og Stöðvar 2. Það eru flögur í skálinni, salsa á boðstólum og Tékkneskur mjöður á borðinu.
Ég verð að segja að þó að "lookið" hjá Stöð 2 sé miklu svalara þá leita ég alltaf meira og meira yfir á RUV. Einhvern veginn finnst mér betri stemmning þar og svo er Ólafur Þ. Harðarson ákaflega heimilislegur áheyrnar.
En spennan er gríðarleg, þó að heldur hafi dregið úr henni, það virðist vera nokkuð ljóst að stjórnin "lafi", þó að það sé ekki alveg útséð með það, en stærsta spurningin virðist vera hvort staðan hjá Sjálfstæðisflokki verði 24 eða 25 þingmenn, og 7 eða 8 hjá Framsóknarflokknum.
En þessu er vissulega ekki lokið fyrr en "feita konan" syngur.
P.S. Var að heyra sigurlagið úr Eurovision, get ekki sagt að það hrífi mig.
11.5.2007 | 06:56
Stjórnmálaforingjarnir
Núna þegar ég hef fylgst með stjórnmálaforingjunum nokkuð vel í dálítinn tíma fara þeir að taka á sig myndir hinna ýmsu "týpa", svona eftir hvernig þeir virka á mig. Auðvitað er þetta enginn stóri sannleikur, heldur eingöngu mín persónulega upplifun, en hér koma þessar lýsingar sem ber auðvitað að lesa með hæfilegri léttúð..
X-B Jón Sigurðsson. Einhvern veginn minnir Jón mig alltaf á vissa týpu af menntaskólakennara. Þá kennara sem allir voru sammála um að væru með fremstu mönnum á sínu sviði, en voru jafnframt sammála um að þeir hefðu varla snefil af kennsluhæfileikum. Því voru kennslustundirnar oft leiðinlegar og skiluðu littlu.
X-D Geir Haarde. Geir er einfaldlega "nágrannatýpan". Týpan sem þú spjallar við yfir girðinguna og þú horfir á grilla. Geir er týpan sem allir treysta og allir vilja kjósa sem gjaldkera húsfélagsins ef hann býr í blokk. Ég held að þetta sé sterkasti eiginleiki Geirs. Hann er nágranninn sem hefur allt "á hreinu". Það er ekki að undra að um 65% Íslendinga segi að þeir vilji hann áfram sem forsætisráðherra.
X-F Guðjón Arnar Kristjánsson. Ég held að Guðjón sé hinn vænsti maður. En hann minnir mig á týpuna sem ég sé stundum á veitingastöðum. Dálítið þreyttir og búnir að missa tökin á krökkunum, þau hlaupa um veitingastaðinn og hrella hina gestina.
X-Í Ómar Ragnarsson. Ómar er svo ákafur, liggur svo mikið á og talar svo hratt að hann er farinn að minna mig á týpuna sem ég verð ákaflega önnum kafinn við að lesa eitthvað blað þegar hann labbar inn á kaffihúsið sem ég sit á, vel falinn á bak við blaðið óttast ég að hann muni sjá mig og halda enn einn frasafyrirlesturinn yfir mér.
X-S Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Megnið af síðasta kjörtímabili og framan af kosningabaráttunni minnti hún mig alltaf á "Soffíu frænku", hún var alltaf með einhvern "Fussum svei, og fussum svei" tón og ræður. Nú síðustu vikurnar hefur hún hins vegar skipt um stíl, er orðinn öll léttari og lítur út fyrir að hún gæti jafnvel spurt "mikið er gaman að sjá þig, hefurðu lagt af", frekar en "hvenær var síðast tekið til hérna?". Ég held að þessi breyting eigi ábyggilega stóran þátt í aukinni velgengni Samfylkingarinnar.
X-V Steingrímur J. Sigfússon. Steingrímur vefst svolítið fyrir mér. Í aðra röndina minnir hann mig á "kassapredikara" sem lofar himnaríki, en hrópar á eftir manni hótanir um helvíti, þegar maður gengur fram hjá án þess að gefa honum gaum. En hann minnir mig líka dálítið á sölumann, sem heldur áfram að selja, löngu eftir að salan er töpuð og hann nær einhvern veginn ekki að "loka" á réttum tíma.
11.5.2007 | 03:57
Ferðaþjónusta vs stóriðjan
Það hefur mikið verið rætt um ferðaþjónustu og stóriðju á undanförnum misserum. Gjarna svo að þetta séu andstæðir pólar sem engan vegin geti farið saman.
Persónulega tel ég það fjarri lagi. Bláa lónið er auðvitað besta dæmið um það, en á meðan ég bjó á Íslandi höfðu þeir útlendingar sem ég keyrði um landið ekki síður gaman af því að sjá t.d. Nesjavelli.
En nóg um það. Það hefur líka verið sagt að það vilji fáir vinna í stjóriðjuverum, að það muni enda með því að útlendingar muni koma og vinna þau störf og þar fram eftir götunum. Nú veit ég ekki nákvæmlega hvernig gengur að manna álver á Íslandi í dag, en hef þó heyrt að í það hafi gengið nokkuð vel. En á visir.is mátti lesa frétt í dag um hve mikil vandræði það eru að manna ferðaþjónustuna. Þar segir m.a.:
"Erlendum starfsmönnum hefur fjölgað gríðarlega í ferðaþjónustu hér á landi undanfarin ár og eru þeir sums staðar um fjörutíu prósent starfsmanna. Hildur Jónsdóttir, eigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Farvegur, segir að svo erfiðlega hafi gengið að manna sumarstörfin í sumar að heyrst hafi að forsvarsmenn stærstu hótelkeðja hafi áhyggjur."
" Hildur segir að í sumum tilfellum tali enginn íslensku. Þetta er náttúrulega af því að við eigum ekki fólk til að manna þessi störf," segir hún. Nú er algengt að nemendur vinni bara í sex vikur á sumrin og það nýtist hótelunum ekki nógu vel því að þau þurfa fólk til lengri tíma. Þarna finnum við fyrir breytingu og þetta þurfum við að skoða."
Sævar Skaptason, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda, segir að mönnunin sé auðvitað hálfgert vandamál" í bændagistingunni, margir bændur leysi starfsmannamálin með fjölskyldu og sveitungum en aðrir leysi það með erlendu starfsfólki. Það er allur gangur á þessu. Það er viðvarandi vandamál að fá kokka til starfa yfir hásumarið. Mikið af skólafólki kemur til vinnu á þessum stöðum en svo hefur færst í vöxt að erlendir starfsmenn komi til vinnu úti á landi," segir hann."
Fréttina í heild má finna hér.
Ekki ætla ég að segja að ég kunni skýringu á þessum vandræðum ferðaþjónustunnar, til þess þekki ég ekki nógu vel til, en fyrstu atriðin sem koma upp í hugann eru að á meðan atvinnuástand er gott verður alltaf erfitt að fá starfsfólk í tímabundin störf (ferðaþjónustustörf á Íslandi eru nokkurs konar vertíð) og svo hitt að ferðaþjónustan er almennt ekki þekkt fyrir að bjóða upp á hálauna störf.
Nú vantar bara að einhver fjölmiðillinn beri saman hlutfall af erlendu starfsfólki í ferðaþjónustunni og stóriðju, en það virðist ljóst að Íslendingar flykkjast ekki til starfa í ferðaþjónustunni.
10.5.2007 | 05:56
Góður kosningaþáttur á Stöð 2
Ég var að enda við að horfa á þátt með stjórnmálaleiðtogunum á Stöð 2, og ég verð að segja að þetta er einhver sá albesti, ef ekki sá besti pólitíski þáttur sem ég hef séð í Íslensku sjónvarpi. Engin spurning um að þetta er besti þátturinn sem ég hef séð fyrir þessar kosningar.
Þarna var bryddað upp á nýjungum og þáttastjórnunin var að mestu leyti til fyrirmyndar. Hnitmiðuð og nokkuð snörp umræða og 5 mínútna "maður á mann" hlutinn góð viðbót.
Ef það er eitthvað sem mér finnst orka tvímælis, þá var það að vera með "dómara" á stjórnmálaforingjana. Enda fannst mér þeir standa sig mun verr heldur en leiðtogarnir, og í raun óþarfi að vera að "barna" þetta góða sjónvarpsefni, kjósendur/áhorfendur eru full færir um að mynda sér skoðun á því hver stóð sig best, án hjálpar "álitsgjafa".
En enginn stóð sig illa í þættinum að mínu mati, en leiðtogarnir stóðu sig vissulega mismunandi vel. Auðvitað fara allir varlega, enda eins og oft er sagt, erfitt að vinna nokkuð í þætti sem þessum, en auðvelt að tapa verulega.
Persónulega fannst mér Geir Haarde standa sig best, en Ingibjörg Sólrún gaf honum þó eiginlega ekkert eftir. Munar þar mestu að hún virðist hafa náð að pakka saman "Soffíu frænku" tóninum og er núna jákvæðari og léttari. Að mínu mati allt annað að horfa á hana.
Botnin í mínu mati skröpuðu Ómar Ragnarsson og Jón Sigurðsson. Ef til kemur það fram hve stuttur þeirra pólitíski ferill er, en þeir náðu einhvern veginn ekki takti í þættinum. Steingrímur var vel mælskur eins og endranær, en einhver pirringur skein í gegn hjá honum í byrjun. Guðjón sigldi lygnan sjó.
En mér leist feykivel á uppsetninguna hvað varðar kosningasjónvarpið hjá Stöð 2. Nú er bara að vona að netþjónarnir standi sig vel á kosninganóttina svo að ég geti notið þess hér í Kanada. Stemingin verður ef til vill ekki rífandi hjá mér einum, en næg samt til að kaupa bjór og snakk. Svo er hægt að pirra vini og kunningja á Íslandi með því að hringja ótt og títt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 06:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.5.2007 | 05:52
Að eyða peningum í skattalækkanir
Ég er að hlusta á kjördæmaþátt úr Reykjavík norður á RUV. Skattaumræðan í þættinum er stórmerkileg. Engin vill lengur hækka skatta, ekki á einstaklinga, ekki á fyrirtæki. Það er frekar talað um að það þurfi að lækka skattana, bæði á fyrirtæki og einstaklinga.
Það lítur því vel út með skattaálögur á Íslandi á næstu árum, öðruvísi mér áður brá.
Meira að segja Jóhanna Sigurðardóttir sagði að hún vildi ekki setja á hátekjuskatt aftur.
En ég hjó hins vegar eftir því þegar Jóhanna sagði að ríkisstjórnin hefði eytt 50 milljörðum í skattalækkanir. Ef til vill mismæli, ef til vill segir þetta eitthvað hvernig hún lítur á tekjur fyrirtækja og einstaklinga.
Annars var þátturinn rólegur og "kurteis" ef svo má að orði komast. Guðlaugur Þór stóð sig vel, Jón Sigurðsson virðist vaxa í baráttunni, Katrín komst vel frá sínu, allir áttu nokkuð góðan dag, það var einna helst Jóhanna sem mér fannst langt frá sínu besta.