Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007
23.5.2007 | 01:20
Ráðherrann og byggingarstjórinn
Mér lýst ágætlega á nýja ríkisstjórn og óska henni og ráðherrunum öllum velfarnaðar í störfum sínum sem vonandi verða öll landi og þjóð til heilla. Ég reikna með að ég eigi eftir að blogga meira síðar um stjórnina.
En um leið og ég óska Guðlaugi Þór til hamingju með ráðherraembættið, get ég ekki varist þeirri hugsun að gaman væri að vera fluga á vegg þegar þeir hittast heilbrigðisráðherrann og byggingarstjóri nýja "hátæknisjúkrahússins".
Þeir hafa ábyggilega margt að ræða, ekki síst hvað varðar byggingarkostnað.
23.5.2007 | 01:16
Nýtt Prince Polo
Smakkaði nýtt Prince Polo í dag. Mér hefur nú hingað til ekki þótt mikið til þeirra nýjunga sem Prince Polo verksmiðjurnar hafa boðið upp á hingað til, en lét mig nú samt hafa það að kaupa eitt stykki af Prince Polo Zebra, um leið og 5 stykki af "Classic". Eins og ég hef að ég held áður minnst á hlýtur það að teljast ellimerki þegar sælgæti og gosdrykkir sem mér þykja góðir eru margir orðnir með viðbótinni "classic".
En "Zebra" kom þægilega á óvart, góð viðbót, og lítur skemmtilega út svona með einni hvítri rönd í miðjunni. Svo eru þetta tvö stykki í pakkanum, ekki ósvipað Twix.
Þeir klikka ekki Pólverjarnir.
22.5.2007 | 02:06
Dagur Viktoríu
Í dag var dagur Viktoríu (Victoria Day) haldinn hátíðlegur, en hann er almennur frídagur. Menn hérlendir gera sér ýmislegt til dundurs, skjóta upp aðeins af flugeldum og hjá mörgum er þetta fyrsta sumarbústaðahelgin. Hún var þó ekki mjög hlýleg í ár, en þó var framúrskarandi veður í dag. Það má ef til vill segja að þetta sé helgin sem hefji sumarið, ef til vill sambærileg við Hvítasunnuna á Íslandi.
En hins vegar er það ótvírætt til mikilla þæginda að drottningin eigi sér "opinberan afmælisdag" sem í þokkabót ber alltaf upp á mánudag. Það er ekki að efa að það væri til mikils þægindaauka ef almenningi væri almennt boðið upp á þennan kost.
Persónulega myndi ég líklega kjósa að hafa minn "opinbera afmælisdag" á föstudegi, hef alltaf verið heldur hrifnari af þeim en mánudögum.
En ég hef reyndar oft hvatt til þess að Kanadabúar "losi sig við" drottninguna og upphefji hér lýðveldi, en það er önnur og lengri saga. En vitanlega er frídagurinn af hinu góða.
En að Bjóra var deginum að mestu eytt í garðvinnu, eins og áður hefur komið fram hef ég lítið vit á þeim málum, líklega er fyrst og fremst litið á mig sem ódýrt og handhægt vinnuafl í þeirri deildinni, en ég er þó farinn að þekkja allt að 10 plöntutegundir með nöfnum og stefni ótrauður áfram.
21.5.2007 | 03:58
Fagnaðarefni
Þetta eru góð skilaboð frá íbúum á NorðAusturlandi, þó að vissulega sé aðeins um skoðanakönnun að ræða, eru meirihlutinn nokkuð afgerandi og því óhætt að fullyrða að stuðningurinn sé góður. Þeir sem ég ræði við á Norður og Austurlandi eru að ég held allir fylgjandi byggingu álvers, en auðvitað eru þeir ekki endilega þverskurður af samfélaginu.
Það kemur mér heldur ekkert á óvart að meirihluti sé jákvæður í garð uppbyggingarinnar á Austurlandi. Þeir sem búa þar nálægt sá hvaða áhrif hún hefur haft á samfélagið.
Nú er halda þrýstingnum á komandi ríkisstjórn að halda áfram með undirbúning fyrir álveri að Bakka.
Aukinn stuðningur við álver á Bakka á Norðausturlandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
19.5.2007 | 02:46
Fram og aftur um þjóðveginn
Fór til Montreal í gær. Tók þar á móti fyrsta flugi Heimsferða frá Íslandi til Montreal. Ekki það að ég væri "opinber" mótttakandi, en mamma var með fluginu.
Þetta eru nokkuð merk tímamót og góð viðbót fyrir Íslendinga búsetta í Kanada. Enda var stemming í Flugstöðinni, flestir Íslendingar sem búsettir eru í Montreal mættir á völlinn að ég tel, og allir áttu von á fjölskyldu eða vinum.
Og þó að vélin væri u.þ.b. 2. tímum of sein, þá þýddi ekkert að láta það fara í taugarnar á sér. Dagurinn varð að vísu óþægilega langur, enda keyrt fram og til baka á þjóðvegi 401 samdægurs, eða ríflega 1100 km. En allt hafðist þetta en ég var nokkuð þreyttur og stirður er heim var komið að verða 3. í nótt. Annars er vegurinn nokkuð góður, einna helst að maður þurfi að passa sig á löngu beinu köflunum, þeir verða skelfilega einhæfir þegar ekið er í myrkrinu.
Mamma kom auðvitað færandi hendi, Íslenskt góðgæti, gjafir handa börnunum, pappírsútgáfa af Mogganum og meira að segja eintak af Íslendingi.
Foringinn og Jóhanna eru himinsæl með þessa óvenjulega upplifun að hafa ömmu sína hjá sér og brosa sínu breiðasta í þeirri von um að þeim verði spillt með eftirlæti.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2007 | 02:16
Mögnuð hugmynd
Það er mögnuð hugmynd að hafa "þemadaga" í Formúlunni. Ég er ekki í vafa að "logadagarnir", þar sem bílarnir stæðu því sem næst í björtu báli myndu njóta töluverðra vinsælda. Áhorfendur hafa jú alltaf gaman af óhöppum, mótorsprengingum, árekstrum og öðru slíku, svo lengi reyndar sem það hendir ekki þeirra menn.
En svo getur vel verið að ég sé að misskilja þetta eitthvað og það verði haldnir sérstakir "nafnadagar", að þetta hafi verið dagur "Loganna".
Ég fylgist með.
Räikkönen rétt á undan Fisichella á lokadeginum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 05:39
Sigurvegarar og þeir sem töpuðu
Þegar kosningar eru afstaðnar upphefst gjarna umræðan um hverjir eru sigurvegarar og hverjir hafa tapað og sýnist gjarna sitt hverjum.
Hér á eftir fer mín eigin útgáfa á því hverjir eru í hvorum flokki.
Sigurvegarar:
Vinstri græn. Það getur engin tekið frá þeim að þeir eru sigurvegarar. Vissulega unnu þau ekki eins mikið á og skoðanakannanir gáfu til kynna nokkrum vikum fyrir kjördag, en ríflega 5% og 4 þingmenn er ekki eitthvað sem stjórnmálaflokkar grípa upp af götunni.
Hingað til má ef til vill þó segja að þau hafi tapað stjórnarmyndunarumræðunni, þeirra yfirlýsingar og ummæli hafa verið í skrýtnari kantinum og ekki til þess fallin að efla traust á flokknum eða afla honum fylgis.
Sjálfstæðisflokkurinn. Tvimælalaust sigurvegari kosninganna. Bæta við sig um 3% og 3 þingmönnum. Vissulega minna en VG, og sömuleiðis rétt að þetta er ekki "sögulegur" sigur hjá Sjálfstæðisflokki, en ef 16 ára stjórnarsetu er bætt í jöfnuna, kemur út að þetta er feikilega góður árangur og góður persónulegur sigur fyrir Geir Haarde. Þorgerður Katrín vinnur sömuleiðis gríðarlegan og mikilvægan sigur í sínu kjördæmi. Flokkurinn náði sömuleiðis þeim áfanga að vera stærstur í öllum kjördæmum.
Þegar það bætist svo við að flokkurinn hefur stjórnað stjórnarmyndunarviðræðunum er sigur hans augljós.
Af öðrum sigurvegurum má nefna:
Valgerði Sverrisdóttur. Eins og ljósgeisli í myrkrinu fyrir Framsóknarflokkinn. NorðAustur skilar 3 þingmönnum, næstum helmingnum af þingflokki Framsóknar. Eina kjördæmið þar sem Framsóknarflokkurinn er yfir 20%, eina kjördæmið þar sem Framsóknarflokkurinn nær því að vera annar stærsti flokkurinn. Valgerður hlýtur að hafa gríðarlega sterka stöðu innan Framsóknarflokksins.
Ellert Schram. Óvæntasti þingmaðurinn í þessum kosningum. Skutlast inn á þing eftir langa fjarveru. Hans sigur er þó algerlega á kostnað Marðar Árnasonar, Láru Stefánsdóttur og Róberts Marshall.
Kristinn H. Gunnarsson. Kemur enn á óvart og kemur inn á þing fyrir þriðja stjórnmálaflokkinn.
Þeir sem halda í horfinu.
Frjálslyndi flokkurinn. Hélt sjó, hélt þingmannafjölda, formaðurinn sterkur.
Siv Friðleifsdóttir. Slapp inn á 11. Hélt í horfinu, þó að hún sé verulega "löskuð", á sér þó von um "upprisu" og hefur "lifað af" marga andstæðinga sína.
Guðni Ágústsson. Stendur nokkuð keikur, en styrkurinn er horfinn. Líklega hans síðasta kjörtímabil.
Þeir sem töpuðu.
Framsóknarflokkurinn. Það getur enginn á móti því mælt að Framsóknarflokkurinn fékk háðulega útreið í þessum kosningum. Flokkur sem ekki fær þingmenn í öllum kjördæmum getur varla talist til "Fjórflokksins" og fasts pólitísks skipulags landsins. Eins og hálftóm blaðra sem marrar í hnéhæð en er ekki sprungin enn.
Samfylkingin. Það er engin leið að segja annað en að stjórnarandstöðuflokkur sem tapar ríflega 4% fylgi (eftir að hafa verið í stjórnarandstöðu frá stofnun) hafi gert annað en að tapa.
Enn verra fyrir flokkinn er að tapið er hvað mest í þéttbýlinu þar sem því sem næst allir forystumenn flokksins voru í framboði, formaður, varaformaður og formaður þingflokksins. Samfylkingin er ekki 30% flokkur og ef þetta er breiðfylking jafnaðarmanna sem á að vera burðaafl í Íslenskum stjórnmálum, þá er það ekki beysið.
Það er hálf grátbroslegt og stráir salti í sár Samfylkingarinnar, þegar maður sér forystumenn hennar vera að telja sér trú um að þetta sé frábær árangur og "næst besti árangur vinstri flokks", því það er eins og þeir gleymi því að Samfylkingin er samruni fjögurra flokka, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka.
Þegar menn tala um eins og það sé eðlilegt að VG sé arftaki Alþýðubandalagsins og fylgis þess, gera menn lítið úr fólki eins og Margréti Frímannsdóttur, Jóhanni Ársælssyni og fleirum sem komu langt í frá fylgislaus til liðs við Samfylkinguna. Ennfremur má líklega minna á menn eins og Björgvin G. Sigurðsson, Róbert Marshall og Össur Skarphéðinsson sem eiga rætur í Alþýðubandalaginu og svo er líklega um marga fleiri. Ekki er heldur ástæða til að gera lítið úr fylgi Kvennalista og Þjóðvaka.
Ef menn vilja telja sér trú um að Samfylkingin hafi "sigrað kosningabaráttuna" og skoðanakannanir, hlýtur það sama að gilda um Framsóknarflokkinn. Hann var kominn niður í um 4% þegar verst lét, en endað í tæpum 12.
En það sjá allir að það er fáranlegur málflutningur.
Íslandshreyfingin. Lítill sem enginn árangur af framboðinu og þegar við bætist leiðinda væl eftir að úrslit voru ljós, er "lúserstimpillinn" ennþá meira áberandi.
Björn Bjarnason og Árni Johnsen. Þegar um eða yfir 20% af kjósendum sjá ástæðu til að strika frambjóðenda út af kjörseðlinum, hafa menn beðið hnekki og ósigur. Að mínu mati þarf ekki að rökstyðja það neitt frekar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 04:45
Ófyrirgefanlegt
Það er alveg sama hvað menn telja að málstaður sinn sé góður, ofbeldi og skemmdarverk eru aldrei réttlætanleg.
Ég veit ekki hverjir hafa verið þarna að verki, en sá málstaður að hindra framkvæmdir í kvosinni bíður mikinn hnekki við slíkan verknað. Það er reyndar nokkuð sama hvort er um að ræða skemmdir á vinnuvélum eða grindverkum þar um kring.
Ég ætla ekki að tjá mig sérstaklega um framkvæmdirnar, þar sem ég þekki ekki nógu og vel til, hef þó ekki getað séð skaðann sem umræddar framkvæmdir eiga að valda, en auðvitað eru skiptar skoðanir þar á.
En skemmdarverk eru engum til framdráttar og eiga ekkert skilið nema tilhlýðilega refsingu ef viðkomandi nást.
Skemmdarverk unnin á vinnuvélum í Álafosskvos | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.5.2007 | 04:33
Að munnhöggvast við kjósendur
Ég er þeirrar skoðunar að það sé aldrei til góðs að munnhöggvast við kjósendur, eða að gera lítið úr þeirra skoðunum.
Ég hef áður bloggað um að kjósendur hafi alltaf rétt fyrir sér, og er enn þeirrar skoðunar.
Það er hægt að rökræða fram og til baka um hvort að það sé verðskuldað hvernig kjósendur greiða atkvæði, eða beita útstrikunum, en það hefur ekki mikin tilgang.
Valdið er kjósenda.
Ef það margir kjósendur strika út frambjóðendur að þeir falli niður um sæti, ber að taka slíkt alvarlega og viðkomandi frambjóðendur ættu að taka því með auðmýkt, þeir fá alvarlega áminningu.
Þó að ég sé þeirrar skoðunar að auglýsingar einstaklinga séu ekki til fyrirmyndar hvað þetta varðar, er þeirra réttur óvéfengjanlegur til að tjá skoðanir sínar.
Það má heldur ekki gera lítið úr kjósendum, með því að segja að útstrikanir séu eingöngu um að kenna auglýsingum, kjósendur eru sjálfstæðari en það að ég tel.
Auglýsingar geta selja ekki vöru sem kjósendum lýst ekki á, spyrjið bara Ástþór Magnússon og Jakob Frímannsson um það.
Allar auglýsingar Íslandshreyfingarinnar skiluðu rétt ríflega 4300 atkvæðum.
Það er mín bjargföst trú mín, að auglýsingar kaupi ekki atkvæði.
15.5.2007 | 07:21
Er afsökun skilyrði?
Hafa áhuga á myndun minnihlutastjórnar í skjóli Framsóknar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)